1.11.2010

Jóhönnu ber að víkja, sjálfstæðismenn kynna nýja stefnu

Á ruv.is, fréttavef ríkisútvarpsins, birtist síðdegis 1. nóvember eftirfarandi frétt:

„Fylgi ríkisstjórnarinnar hefur hrunið, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Capacent Gallup. Hún nýtur nú stuðnings 30% aðspurðra, en naut stuðnings 40% í síðasta mánuði.

Báðir ríkisstjórnarflokkarnir hafa tapað miklu fylgi, samkvæmt könnuninni, og njóta nú stuðnings 18% aðspurðra, hvor um sig. Fylgi Samfylkingarinnar hefur ekki mælst minna frá því í nóvember 2001.

8% segjast ætla kjósa Hreyfinguna, sem eru tvöfalt fleiri en í síðasta mánuði, en fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks breytist lítið. 36% segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 12% Framsóknarflokkinn.“

Þessi niðurstaða kemur engum á óvart sem fylgist með framgöngu ríkisstjórnarinnar undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Hér á síðunni hafa verið færð rök fyrir því, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, leggi sig helst fram um að skjóta sér undan ábyrgð og ákvörðunum. Þegar hún sat í ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar í upphafi tíunda áratugarins, átti hún í stöðugum illdeilum við samflokksráðherra sína, Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson.

Ástæðan fyrir þessu var sú að Jóhanna sá ofsjónum yfir því sem aðrir fengu áorkað, einkum að því er varðaði fjárveitingar. Taldi hún alla reyna að fara á bakvið sig. Hún fengi ekki til síns ráðuneytis sem henni bæri í samanburði við það sem aðrir fengju til sinna ráðuneyta.  Þetta leiddi að lokum til þess að hún hvarf úr ríkisstjórninni eftir lýðveldishátíðina á Þingvöllum sumarið 1994 og stofnaði síðan eigin flokk, Þjóðvaka, sem bauð fram í þingkosningunum 1995.

Ég kynntist þessu hugarfari Jóhönnu þá mánuði sem ég sat með henni í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Hún sat yfir hlut annarra ráðherra í ríkisstjórninni og sá ofsjónum yfir því, ef eitthvað var samþykkt og hún gat ekki nýtt þá ákvörðun á einn eða annan hátt til að skara eld að sinni köku.

Að mínu mati réð þrennt vali Samfylkingarinnar á Jóhönnu sem forsætisráðherra: Hún naut almennra vinsælda, hún var aldurforseti í þingmannahópnum og með því að setja hana á toppinn gat hún ekki sífellt skipað sér í andstöðu við ákvarðanir annarra.

Fyrir réttum fjórum vikum, mánudaginn 4. október, stóð Jóhanna í ræðustól alþingis og flutti stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar á meðan menn börðu tunnur á Austurvelli og alþingishúsið lá undir grjót- og eggjakasti.

Eftir að umræðunni lauk sást Jóhanna í fréttatíma sjónvarps. Henni var greinilega brugðið og valdi þann kost að skjóta sér undan ábyrgð með því að segjast ætla að kalla stjórnarandstöðuna til fundar í stjórnarráðshúsinu daginn eftir. Taka þyrfti höndum saman um að finna leið út úr vandanum.

Hér verður ekki rakinn fjögurra vikna vandræðagangur Jóhönnu og Steingríms J. í leitinni að leiðinni úr vandanum. Ríkisstjórnin náði sjálf nýjum áfanga á fundi sínum 29. október, þegar hún samþykkti tillögu Jóhönnu „um samstarfsáætlun í atvinnu- og vinnumarkaðsmálum með aðkomu allra stjórnmálaflokka“ sem ber fyrirsögnina: Allir kallaðir að borðinu.

Í fréttatilkynningu um ákallið sagði:

„Tilgangur með áætluninni er að auka samráð og samvinnu allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi og hagsmunaðila og tryggja með því að náð verði sameiginlegum markmiðum um öflugt atvinnulíf og samfélag um allt land og að skapa 3 – 5% hagvöxt hér á landi árið 2011 og a.m.k. 3– 5.000 ný störf.

Gert er ráð fyrir því að settur verði á laggirnar samtarfsvettvangur stjórnmálaflokka, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands.  Samráð verði jafnframt haft við nefndir Alþingis sem fjalla um atvinnumál eftir því sem tilefni er til.

Samstarfsvettvangurinn (svo!) mun vinna að framgangi afmarkaðra verkefna á sviði atvinnuþróunar, atvinnuuppbyggingar og vinnumarkaðsmála.“

Engan þarf að undra þótt fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hafa hitt ráðherra öðru hverju undanfarnar fjórar vikur, án þess að það leiði til annarrar niðurstöðu af hálfu ríkisstjórnarinnar en þessarar tilkynningar, segist þreyttir á því að taka þátt í slíkri tilgangslausri leiksýningu með ríkisstjórninni. Augljóst er að ekki ætla allir að sinna þessu kalli Jóhönnu.

Hvers vegna skyldi ríkisstjórnin hafa samþykkt þessa tillögu Jóhönnu 29. október? Svarið er einfalt: Boðuð hafa verið mótmæli fyrir framan alþingishúsið fimmtudaginn 4. nóvember, þegar alþingi kemur saman að nýju eftir kjördæmadaga og þing Norðurlandaráðs. Jóhanna hefur ekki nú frekar en fyrri daginn nein ráð. Hún axlar ekki ábyrgð heldur ætlar nú að geta bent á „samstarfsvettvanginn“, það verði að gefa honum tíma.

Hafi Jóhanna ætlað að bjarga sér, ríkisstjórn sinni og Samfylkingunni fyrir horn mánudagskvöldið 4. október með því að láta í veðri vaka, að öðrum bæri að leysa vandann, sýnir niðurstaða könnunar Gallups í lok október, að sú tilraun hennar hefur mistekist hrapallega. Ríkisstjórnin og Samfylkingin hafa aldrei staðið verr undir forystu Jóhönnu. Samfylkingin er auk þess komin á byrjunarreit í fylgi. Hún var stofnuð í maí árið 2000.

Hinar nýju tölur um hrun í fylgi ríkisstjórnar og stjórnarflokkanna kalla á umræður innan þeirra um störf og stefnu. Þeir eru í öngstræti. Slagorðið: Allir kallaðir að borðinu mun ekki bjarga þeim úr ógöngunum.

Þingflokkur sjálfstæðismanna tók af skarið um að nýja stefnumörkun í efnahagsmálum hinn 1. nóvember 2010. Þingflokkurinn kynnti þá tillögu til þingsályktunar  undir fyrirsögninni: Gefum heimilum von. Flokkurinn boðar, að skattahækkanir verði dregnar til baka á næstu tveimur árum. Í stefnunni segir:

Skattar lækkaðir á heimili – úrræði rýmkuð og einfölduð
 Nýtum auðlindir – sköpum tuttugu og tvö þúsund störf innan þriggja ára
Betri ríkisrekstur – fátæktargildrum í bótakerfum útrýmt

Með tillögum sínum vilja sjálfstæðismenn stuðla að sátt við heimilin, verja velferð með ábyrgum ríkisfjármálum, efla atvinnulífið og fjölga störfum. Þeir benda á að efnahagsbatinn sem spáð var á þessu ári láti standa á sem sé afleiðing vanhugsaðra aðgerða í skattamálum og aðgerðaleysis í málefnum heimila og atvinnulífs.

Tillögurnar skiptast í þrennt og snúast í fyrsta lagi um að gefa heimilum von, í öðru lagi um endurheimtu starfa og eflingu atvinnulífs og í þriðja lagi um hagræðingu og aðhald í rekstri ríkisins, sem er mikilvæg forsenda áframhaldandi velferðar í landinu.

Línur hafa skýrst í íslenskum stjórnmálum 1. nóvember 2010. Óhjákvæmilegt er að efna til þingkosninga og kalla nýja til ábyrgðar á landstjórninni. Of seint er að nýta laugardaginn 27. nóvember, hann verður nýttur til að kjósa til stjórnlagaþings. Stefna ber að kosningum í lok apríl 2011 eða byrjun maí. Finna verður aðra sveit manna til að stjórna málum þjóðarinnar fram til þess tíma. Jóhanna ætti að boða afsögn sína fyrir 4. nóvember, það er vænlegri leið til að skapa frið í samfélaginu en boða til nýs þáttar í leikritinu: Allir kallaðir að borðinu.