Vefsíða í 15 ár.
Um þessar mundir eru liðin 15 ár frá því að ég hóf að halda úti vefsíðu minni. Til hennar var stofnað í því skyni, að þar gæti ég haldið saman efni mér tengdu og fjallað um það, sem mér þætti hæst bera hverju sinni. Ég hef ekki hugmynd um, hve mikið magn af efni er á þessum síðum, en þær eru nú varðveittar hjá Hugsmiðjunni og nota ég vefkerfi hennar.
Hér er að finna allar ræður frá ráðherraárum mínum, sem til eru skrifaðar. Þingræður er unnt að nálgast á vefsíðu alþingis. Ég hef fært hér inn útskriftir margra sjónvarps- eða útvarpsþátta og einnig ýmsar greinar úr blöðum og tímaritum, en þó er ekki um tæmandi birtingu á slíku efni að ræða. Mest af því, sem ég hef skrifað í tímaritið Þjóðmál síðustu ár er aðeins að finna þar en ekki hér á síðunni.
Eftir að ég hvarf af þingi 25. apríl 2009, er ég oft spurður tveggja spurninga: Ertu ekki feginn að vera laus úr þessu? Hvað ertu eiginlega að gera?
Fyrri spurningunni er auðvelt að svara. Ég er mjög sáttur við að vera hættur þingstörfum, þótt alþingi sé betri vinnustaður en oft má ætla af beinum útsendingum þaðan. Ég hef enga þörf fyrir að skipta mér af því, sem samflokksmenn míni eru að gera á þingi. Finnst raunar fráleitt að ég geti sett mig í þeirra spor. Á sínum tíma þótti mér einnig fráleitt, þegar nýhættir þingmenn töldu sig vita betur, hvað gera skyldi en við, sem þar sátum. Á hinn bóginn hef ég ánægju af að segja skoðanir mínar á mönnum og málefnum, eins og sjá má hér á síðunni.
Seinni spurningunni er ekki eins auðvelt að svara. Ég geri það, sem mér dettur í hug hverju sinni. Mestum tíma mínum ver ég við lestur og skriftir. Þetta sameina ég meðal annars í ritun umsagna um bækur, sé ég beðinn um það. Mér fellur vel að lesa bækur með það fyrir augum að segja síðan álit mitt á þeim. Ánægjulegt er, hve margar góðar bækur eru á markaðnum. Aðeins eina lagði ég frá mér nú fyrir jólin, án þess að ljúka henni í einni lotu, ævisögu Snorra Sturlusonar. Hún var of þung undir tönn.
Sumir spyrja, hvort ég ætli ekki að skrifa bók sjálfur. Ég hef ekki gert það upp við mig. Mér fellur betur að skrifa daglega eitthvað um málefni líðandi stundar en setjast við langvinn bókarskrif. Vissulega hef ég velt bók eða bókum fyrir mér.
Þá má ég ekki gleyma því, að í ágúst 2009 tók ég boði Ingva Hrafns Jónssonar, eiganda sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN, um að vera þar með sjónvarpsþátt annan hvorn miðvikudag og hefur það gengið eftir í vetur.
Heilsurækt hefur lengi verið áhugamál mitt. Ég fer ekki í „ræktina“ heldur stunda morgunsund með þeim, sem fyrstir koma, þegar sundstaðir opna. Um langt árabil stundaði ég Sundhöll Reykjavíkur en hin síðari ár hef ég verið fastagestur fimm daga vikunnar og stundum sjö í Laugardalslauginni. 400 til 500 metra daglegur sundsprettur er gott veganesti inn í daginn.
Ekki er síðra að stunda qi gong. Yfir vetrarmánuði hittist nokkur hópur fólks til qi gong morgunæfinga í 40 mínútur. Agaður burður, öguð öndun og einbeiting eru grunnþættir í qi gong.
Loks mæli ég með gönguferðum. Gott er að miða við 30 til 50 mínútna daglega göngu. Öskjuhlíðin er kjörlendi mitt. Veðrið í vetur hefur ekki aftrað neinum frá því að ganga utan dyra.
Þegar mér blöskrar draslið, hef ég tekið með mér ruslatínu og set það, sem ég get, í plastpoka. Ég undrast, að ekki skuli lögð meiri rækt við þennan þátt í hreinsunarstarfi á vegum borgarinnar. Hitt er ekki síður ámælisvert, hve hirðuleysi þeirra er mikið, sem kasta frá sér drasli, til dæmis við gatnamót. Skilagjald á dósum og flöskum gefur góða raun. Ætti kannski að setja það á fleiri hluti? Til dæmis sígarettupakka?
Heilsurækt af þessum toga hefur reynst mér vel, því að ég hef ekki verið kvellisjúkur. Ég var einnig fljótur að ná mér að fullu, eftir að lunga mitt féll saman snemma árs 2007 og ég varð að gangast undir brjóstholsskurðaðgerð.
Eftir stjórnmálavafstur og mörg ráðherraár þótti mér mikils virði að ráða mínum tíma sjálfur. Einvera er mér ekki erfið. Félagsleg þátttaka mín tekur mið af því. Nokkrum sinnum hef ég flutt ræður á opinberum vettvangi. Oft er leitað ráða hjá mér í tölvupósti, símtölum eða á fundum. Reyni ég að bregðast vel við slíkum beiðnum.
Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á upplýsingatækninni og tölvan tekur mikinn tíma hjá mér. Í þessu efni eins og öðrum er ég þó íhaldssamur, því að ég nota hvorki fésbókina né twitter.
Upplýsingatæknin hefur þróast mikið á þeim 15 árum, sem ég hef haldið úti síðunni minni. Spennandi tímar voru í þessu efni, þegar ég settist í menntamálaráðherrastólinn 1995. Kom ég að því að tölvuvæða skólakerfið, ekki síst framhaldsskólana og leggja grunn að háhraðaneti í þágu skóla, rannsókna og vísinda. Landsaðgangur að erlendum gagnagrunnum og tímaritum var opnaður eins og sjá má á síðunni http://www.hvar.is/. Landskerfi bókasafna kom til sögunnar. Ráðist var í tungutækniverkefni og þannig má áfram telja.
Meiri áhugi var á nýtingu upplýsingatækni á sviði mennta og menningar en í heimi lögfræðinnar í dómsmálaráðuneytinu. Dómstólar hafa tekið tæknina í sína þjónustu við birtingu dóma. Innan dómskerfisins eru menn þó enn að skrifa, prenta og ljósrita eins og áður í stað þess að miðla upplýsingum rafrænt. Ég beitti mér fyrir upplýsingaátaki á starfsvettvangi dómsmálaráðuneytisins. Vissulega miðaði í rétta átt, en betur má, ef duga skal. Stórt skref var stigið á dögunum, þegar ákveðið var að sameina fasteignaskrá og þjóðskrá. Kennitölukerfi þjóðskrár gefur íslenska stjórnkerfinu einstæð tækifæri til að nýta upplýsingatækni betur en gert hefur til þjónustu við borgarana.
Í Morgunblaðinu var hinn 16. febrúar sl. birt frétt um, að Ísland hefði undanfarin 20 ár dregist verulega aftur úr nágrannalöndum, þegar litið væri til rafrænnar stjórnsýslu samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Erum við í 48. sæti, þegar kemur að netþjónustu ríkisins við borgarana. Að mati Hauks Arnþórssonar, stjórnsýslufræðings, jafnast þetta á við stöðu Austur-Evrópuríkja.
Staða okkar versnar enn, þegar gagnvirk netnotkun ríkis við borgarana er mæld. Þar er Ísland í 153. sæti ásamt ríkjum á borð við Eþíópíu og Írak.
Að mínu mati er þetta til háborinnar skammar, þegar litið er til þess, hve tölvuvæðing er þróuð hér á landi og boðleiðir almennt greiðar. Þetta skrifa ég til dæmis í þráðlausu netumhverfi í Fljótshlíðinni, þar sem tenging mín er hraðvirkari en í Reykjavík, vegna þess að koparvír til sveita er sverari en í borginni og leiðir því betur!
Haukur Arnþórsson telur, að deilur um gagnagrunn í heilbrigðiskerfinu hafi leitt okkur af braut í þessu efni. Hann var einmitt kynntur með þeim orðum, að hann mundi valda upplýsingatæknibyltingu innan heilbrigðiskerfisins. Hið gagnstæða virðist hafa gerst. Haukur segir: „Íslenska ríkið byggir lítið upp sína gagnagrunna og þjónustu og það er það sem dregur okkur niður á alþjóðlegum kvörðum. Tölvuvæðinguna má nota til að almenningur geti fylgst með framgangi mála. Á þetta skortir hins vegar hér á landi þar sem stjórnarathafnir eru minna sýnilegar en í nágrannalöndunum okkar.“
Ég tel brýna nauðsyn bera til þess, að farið sé ofan í saumana á því, hvernig haldið er á upplýsingatæknimálum á vegum ríkisstjórnarinnar. Hvatning til einstakra ráðuneyta í þessu efni hefur ekki verið nægileg frá yfirstjórn upplýsingatæknimála í forsætisráðuneytinu. Miðstýring þar átti rétt á sér á sínum tíma en virkar greinilega nú orðið sem hemill, ef marka má könnun Sameinuðu þjóðanna.
Ég er undrandi á því, ef enginn þingmaður tekur þetta mál fyrir á þingi og spyr forsætisráðherra. Þá mætti krefja forsætisráðuneytið um skýrslu til þingsins um störf þess og stefnu á þessu sviði.
Með öllu er óviðunandi og auk þess óþarft að Ísland sé svona afarlega á sviði upplýsingatækni, nóg er nú samt.