4.2.2010

Egill, Víkverji, sérstaki saksóknarinn og Joly.

 

 

 

Egill Helgason skrifar á bloggsíðu sína 4. febrúar 2010:

„Það er mjög viðkvæmt mál fyrir Björn Bjarnason hvernig hann ætlaði að haga málum varðandi rannsókn bankahrunsins.

Eins og kemur fram í frétt Morgunblaðsins 24. október 2008 fól Björn ríkissaksóknara, Valtý Sigurðssyni, að kanna hvort eitthvað væri í starfsemi bankanna sem gæfi tilefni til lögreglurannsóknar.

Valtýr fól forvera sínum í starfi, Boga Nilssyni, að stjórna þessari vinnu. Menn geta svo velt því fyrir sér hvort Björn hafi komið nálægt þeirri tilhögun, ætli það megi ekki teljast líklegt.

Það kom fljótt í ljós að bæði Valtýr og Bogi voru bullandi vanhæfir til þessa. Eftir mikla umræðu í samfélaginu sagði Bogi sig frá þessu verkefni líkt og kemur fram í frétt Morgunblaðsins 4. nóvember 2008. Valtýr þráaðist aðeins lengur við, en hætti stuttu síðar. Hann situr þó enn sem ríkissaksóknari, með afskaplega skert verkssvið.

Þá var auglýst embætti sérstaks saksóknara. Það er lögfræðingastéttinni á Íslandi til háðungar að enginn sótti um.

Björn greip til þess ráðs að fá Ólaf Þór Hauksson til verksins. Honum var úthlutuð fjárveiting upp á 50 milljónir króna. Það kom fljótlega fram að þetta var engan veginn nóg. Sjálfur kom Ólafur í fjölmiðla og bar sig aumlega. Hann var líka áfram settur undir hinn vanhæfa Valtý – en því var breytt nokkru eftir stjórnarskipti.

Björn hefur sagt að Samfylkingin hafi dregið lappirnar í málinu. Það er ábyggilega rétt. En framganga hans sjálfs er heldur ekki sérlega glæsileg. Alvöru hreyfing komst ekki á málin fyrr en Eva Joly kom til skjalanna. Það vita allir Íslendingar. Manni óar við tilhugsuninni um hvernig staða þessara mála væri ef hennar hefði ekki notið við. Fyrst var reynt að hæðast að henni og draga úr trúverðugleika hennar. En nú er hún líkt og eina manneskjan sem stjórnmálastéttin og langstaðið embættismannakerfi óttast.“

Rétt er hjá Agli Helgasyni, að mér er mikið í mun, að rétt sé sagt frá hlut mínum varðandi upphaf rannsóknar á vegum ríkissaksóknara og annarra á bankahruninu. Ég hef gagnrýnt, hvernig Egill Helgason hefur fjallað um þetta mál og þó sérstaklega, hvernig frá því er sagt í óvandaðri bók Jóns F. Thoroddsens um bankahrunið, sem Egill segir, að sé „skyldulesning“. Fyrrgreinda færslu á bloggsíðu Egils má rekja til þess, að sunnudaginn 31. janúar 2010 birti ég eftirfarandi athugasemd á vefsíðu minni:

„Í Víkverja Morgunblaðsins 30. janúar er endurtekin rangfærslan um, að ég hafi skipað „tvo annálaða heiðursmenn til að hefja rannsókn á aðdraganda hrunsins en þeir væru báðir bullandi vanhæfir.“ Segir Víkverji, að Morgunblaðið hafi fyrst fjölmiðla kveikt á vanhæfinu. Segir Víkverji, að sonur annars heiðursmannanna sé grunaður um lögbrot og lýkur síðan efnisgrein sinni um þetta á þessum orðum: „Hefði ekki verið bent á vanhæfið væri hann (sonurinn) ef til vill ekki heldur ekki grunaður um neitt í dag.“

Sá, sem skrifar Víkverja þennan dag, hefði átt að kynna sér staðreyndir, áður en hann setti ofangreind orð á blað. Þau eru til marks um óvandaða blaðamennsku um mannorð þeirra, sem í hlut eiga. Ég skipaði ekki neina til að rannsaka aðdraganda hrunsins. Ég samþykkti hins vegar tillögu ríkissaksóknara um, að á vegum embættis hans yrði hugað að heildarmati á því, sem rannsaka bæri. Mér datt aldrei í hug, að ríkissaksóknari ætti að rannsaka bankahrunið, enda flutti ég nokkrum dögum eftir hrunið tillögu um að koma á fót embætti sérstaks saksóknara. Lögfesting tillögu minnar tafðist, vegna þess að samfylkingaráðherrar þvældust fyrir henni á fyrstu stigum en lögðu henni lið, eftir að ákveðið var að koma á fót rannsóknarnefnd á vegum alþingis.

Egill Helgason og Jón F. Thoroddsen hafa haldið fram ósannindum í sama dúr og gert er í Víkverja. Jón hefur ekki haft þrek til að leiðrétta það, sem hann segir um málið í óvandaðri bók sinni um hrunið. Hann hefur ekki einu sinni svarað bréfum mínum um málið, þar sem ég óska eftir opinberri leiðréttingu. Ég velti fyrir mér, hvort hið sama gildi um Víkverja og Jón, að hann leiðrétti ekki rangfærslu sína. Hérmeð skora ég á Víkverja og ritstjórn Morgunblaðsins að birta það, sem satt er í þessu máli og biðjast afsökunar á því að bera menn röngum sökum.“

Í Staksteinum Morgunblaðsins 4. febrúar 2010 segir:

„Björn Bjarnason er einn athafnasamasti ráðherra síðustu áratuga. Og enginn ráðherra annar hefur fremur unnið fyrir opnum tjöldum en hann. Heimasíða hans gefur glögga mynd af störfum hans sem ráðherra og hvernig þessi eljumaður hefur nýtt tíma sinn í opinberum störfum sem öðrum.

Það eru því að vonum margir sem meta hann mjög sem stjórnmálamann. Og andstæðinga á hann að sama skapi marga. Ekki síst er þá að finna í hópi þeirra sem gengu erinda Baugsmanna, sem töldu það þjóna málstað sínum að gera dómsmálaráðherrann tortryggilegan.

Því hefur verið haldið fram víða, einnig á síðum Morgunblaðsins, að Björn hafi sem dómsmálaráðherra ætlað sér meðvitað að skipa tvo saksóknara til að hafa yfirumsjón með rannsókn bankahrunsins. Og þessir tveir hafi verið til þess vanhæfir, vegna spurninga sem kunna að tengjast mönnum þeim mjög nákomnum. Björn hefur marglýst hvaða hlutverki hann ætlaðist til að þessir tveir menn skiluðu. Ekki er nein ástæða né rök til að draga þá lýsingu í efa. Þáttur Björns í að koma á þeirri rannsóknarskipan vegna bankahruns sem nú er, liggur einnig ótvírætt fyrir.

Vanhæfni vegna ættartengsla er vandmeðfarin, sérstaklega í litlu landi. Það er fyrst og fremst þeirra sem rætt er við um að takast á við tiltekin verkefni að hafa frumkvæði að því að upplýsa um ef hæfnisskilyrði kunna að koma í veg fyrir það. Þetta er ætíð rétt að hafa í huga, þótt það snerti ekki meginefni þess sem hér hefur verið nefnt.“

Ég tel, að í þessum orðum felist afsökun af hálfu ritstjórnar Morgunblaðsins á frumhlaupi Víkverja og rangfærslum hans um hlut minn í þessu máli. Hins vegar er ekki óeðlilegt, að sá, sem ritaði Víkverja 30. janúar, dragi sjálfur orð sín til baka.

Ef til vill lítur Egill Helgason svo á færslan á vefsíðu hans 4. febrúar sé leiðrétting á rangfærslum hans um þetta mál og áhuga minn á því að strax yrði hafist handa við opinbera rannsókn á vegum ákæruvaldsins á hruni bankanna. Egill fer hins vegar enn með rangt mál auk þess að sýna ónákvæmni, sem sæmir ekki álitsgjafa, vilji hann vera marktækur.

Rétt er að minna á, að neyðarlögin voru sett 6. október 2008. Menn höfðu snör handtök innan dómsmálaráðuneytisins við að undirbúa viðbrögð af hálfu réttarkerfisins. Hinn 15. október 2008 lýsti ég þessum viðbrögðum í ræðu á alþingi og sagði:

„Eins og fram hefur komið hér í umræðunum, hafa ýmsir ræðumenn vakið máls á nauðsyn þess, að rannsakað verði, hvort refisvert athæfi af einhverju tagi tengist fjármálakreppunni og falli þriggja stærstu banka landsins.

Um þennan þátt málsins fer að sjálfsögðu að lögum og í því tilliti ber meðal annars að líta til hlutverks ríkissaksóknara. Við áttum fund í gær og í framhaldi af honum ritaði ég ríkissaksóknara svofellt bréf, sem ég les í heild með leyfi forseta:

„Vísað er til viðræðna okkar, herra ríkissaksóknari, fyrr í dag, þar sem þér tjáðuð mér, að þér munduð hafa forystu um gerð skýrslu um stöðu og starfsemi íslenskra peninga- og fjármálastofnana á þessum tímamótum í rekstri þeirra og eignarhaldi auk aðdraganda hinna miklu umskipta, sem orðið hafa í rekstri þeirra.

Til að draga upp heildarmynd af stöðunni, eftir því sem unnt er við núverandi aðstæður, er ég sammála því, að þér fáið til liðs við yður fulltrúa frá embætti skattrannsóknarstjóra, fjármálaeftirliti og ríkisendurskoðun.

Með gerð skýrslunnar yrði aflað staðreynda um starfsemi bankanna Glitnis hf., Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings hf., útibúa þeirra, og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar. Markmiðið yrði að kanna, hvort sú háttsemi hefði átt sér stað, sem gæfi tilefni til lögreglurannsóknar á grundvelli laga um meðferð opinberra mála.

Þess er vænst, að gerð skýrslunnar verði hraðað og að því stefnt, að hún liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2008.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið vinnur að löggjöf um stofnun sérstaks embættis, sem ætlað er að sjá um rannsóknir og eftir atvikum saksókn vegna þeirra réttarbrota, sem kunna að koma í ljós í tengslum við þá atburði, sem orðið hafa í starfsemi fjármálastofnana að undanförnu.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið mun óska eftir fjárveitingu til embættis yðar, að höfðu nánara samráði við yður, til að standa undir kostnaði sem leiðir af ofangreindum störfum s.s. við að ráða tímabundið faglega menntaða starfsmenn, útvegun starfsstöðvar og annað sem af þessu leiðir.“

Í þessu bréfi felst í fyrsta lagi, að ég styð þá ákvörðun ríkissaksóknara að leita liðsinnis frá embætti skattrannsóknarstjóra, fjármálaeftirliti og ríkisendurskoðun og hef ég samhliða þessu bréfi óskað eftir því við þessar stofnanir, að þær tilnefni án tafar fulltrúa sína til þessa samstarfs.

Í öðru lagi, segir í bréfinu, að ég muni beita mér fyrir því, að tryggðar séu fjárveitingar til að vinna skýrslu af þessu tagi en til þess þarf að ráða sérstaka starfsmenn. Heiti ég á stuðning alþingis í því efni.

Engum ætti að vera ljósara en okkur, sem hér sitjum, hve miklu skiptir fyrir allt jafnvægi og jafnræði í þjóðfélaginu, að leitast sé við að gæta laga og réttar með hverjum þeim úrræðum, sem nauðsynleg eru hverju sinni.

Í þriðja lagi boða ég í bréfinu til ríkissaksóknara, að á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sé verið að semja frumvarp að sérstakri löggjöf um að stofnað verði tímabundið rannsóknarembætti, sem taki við rannsókn á kærum um meinta refsiverða verknaði, sem sprottnir eru af eða tengjast falli bankanna.

Ráðinn verði sérstakur forstöðumaður þessa embættis, sem starfi í nánu samstarfi við hverja þá opinbera stofnun, innan lands og utan, sem getur lagt liðsinni við að upplýsa mál og greiða fyrir rannsókn þeirra. Embættið starfaði undir forræði ríkissaksóknara, sem gæti ásamt forstöðumanni, ákvarðað, hvaða rannsóknarefni féllu til þess.

Það mun að sjálfsögðu verða undir alþingi komið, hvernig lög um þetta efni verða í endanlegri mynd, en hitt er ljóst af minni hálfu, að réttarvörslukerfið getur ekki brugðist við auknu álagi vegna þessara atburða, án þess að gripið sé til sértækra aðgerða.

Við setningu laga um þetta efni er eðlilegt að því sé velt fyrir sér, hvort samhliða því, sem þessi nýskipan er lögfest verði einnig ákveðið, að koma á laggirnar samráðs- og eftirlitsnefnd með fulltrúum allra þingflokka, sem hitti forstöðumann hins nýja embættis reglulega og geti í þeim trúnaði, sem ber að virða, fylgst með framvindu mála.

Herra forseti!

Við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að gera allt, sem skynsamlegt er, til að efla traust á þeim innviðum, sem eru meginstoðir réttarríkisins. Þá er afar mikilvægt að ekki sé hrapað að neinu eða gefa sér í anda nornaveiða, að lög hafi verið brotin.

Ég heiti á samstöðu þingmanna um úrlausn hinna brýnu verkefna, sem við íslensku þjóðinni blasa á þessari örlagastundu.“

 

Í bloggi sínu 4. febrúar vitnar Egill í Morgunblaðið frá 24. október og skýlir sér á bakvið rangt orðalag í henni um, að ég hafi falið Valtý Sigurðssyni að gera skýrslu. Ég staðfesti ákvörðun hans sem ríkissaksóknara um að hafa forystu um skýrslugerð tengda bankahruninu. Dómsmálaráðherra gefur ríkissaksóknara ekki fyrirmæli. Vegna þess hve hér var um sérstakt mál að ræða með vísan til samstarfs við embætti utan ákæruvaldsins, taldi ríkissaksóknari eðlilegt að leita staðfestingar ráðuneytisins á ákvörðun sinni um gerð skýrslunnar. Ráðuneytið hafði milligöngu gagnvart öðrum ráðuneytum.

Tilefni fréttar Morgunblaðsins var að segja frá því, að daginn áður, 23. október hefði ríkissaksóknari skýrt allsherjarnefnd alþingis frá því, að hann hefði þann sama dag falið Boga Nilssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara,  að stýra skýrslugerðinni og hófst hann þegar handa við gagnaöflun og undirbúningsvinnu. Hinn 4. nóvember tilkynnti Bogi hins vegar Valtý, að hann segði sig frá starfinu þar sem hann taldi sig ekki lengur njóta nægilegs almenns trausts til að sinna því. Með bréfi til mín dags. 6. nóvember 2008 tilkynnti Valtýr mér, að hann ætlaði ekki að hafast frekar að en bíða framvindu frumvarps um sérstakan saksóknara, en það varð að lögum 10. desember 2008.

Egill lætur hjá líða að minna á, að Valtýr Sigurðsson skýrði allsherjarnefnd alþingis frá ákvörðun sinni um Boga sama dag og hann fékk hann til starfans. Að sjálfsögðu skýrði Valtýr mér einnig frá þessari ákvörðun sinni.  Af orðalagi Egils má ráða, að eitthvað óeðlilegt hafi verið við það, sem að sjálfsögðu var ekki.

Egill fullyrðir, að þeir Bogi og Valtýr hafi verið „bullandi vanhæfir“.  Ráða má af orðum Egils, að hann telji óeðlilegt, að Valtýr Sigurðsson sitji sem ríkissaksóknari. Ragna Árnadóttir, eftirmaður minn í ráðherraembætti, og Valtýr hafa leyst úr öllum spurningum um hæfi Valtýs lögum samkvæmt.

Af orðum Egils má ráða, að eftir 6. nóvember, þegar Valtýr Sigurðsson hafði sagt sig frá skýrslugerðinni, hefði verið ákveðið að auglýsa embætti sérstaks saksóknara. Þetta er alrangt eins og sést af ræðu minni 15, október, þar sem kynnt er, að unnið sé að því á vegum ráðuneytis míns að semja lög um sérstakan saksóknara.

Frumvarp til laga um sérstakan saksóknara lagði ég fram á alþingi 11. nóvember 2008 og þingið samþykkti það sem lög 10. desember. Hinn 12. desember var embætti sérstaks saksóknara auglýst laust til umsóknar með umsóknarfresti til 29. desember. Enginn sótti um embættið fyrir þann dag. Framlengdi ég þá umsóknarfrest til 12. janúar. Hinn 13. janúar fól ég, að höfðu samráði við fulltrúa allra þingflokka í allsherjarnefnd Alþingis, Ólafi Þór Haukssyni, sýslumanni á Akranesi, að gegna embættinu frá 1. febrúar 2009. Auk umsóknar Ólafs Þórs barst ein önnur umsókn. Sá umsækjandi fullnægði ekki þeim skilyrðum, sem gerð voru til starfsins og fram komu í auglýsingu um það.

Eins og sést af þingræðu minni 15. október var upphafleg hugmynd mín, að samhliða því, sem sérstakur saksóknari kæmi til sögunnar yrði einnig ákveðið, að koma á laggirnar samráðs- og eftirlitsnefnd með fulltrúum allra þingflokka, sem hitti forstöðumann hins nýja embættis reglulega og gæti í þeim trúnaði, sem ber að virða, fylgst með framvindu mála.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði strax eftir hrunið, að semja bæri hvítbók eða opinbera skýrslu um aðdraganda þess.

Niðurstaðan varð sú, að alþingi kaus sérstaka rannsóknarnefnd. Átti hún að skila skýrslu sinni á síðasta ári en hefur ekki gert enn. Skýrslan er væntanleg eftir nokkrar vikur, er boðað, að hún verði mikil að vöxtum og engum gleðiefni. Rannsóknarnefndin á að senda mál, þar sem grunur er um saknæman verknað, til hins sérstaka saksóknara.

Egill Helgason segir, að ég hafi „gripið til þess ráðs“ að skipa Ólaf Þór. Ég greip til þess ráðs, þegar enginn sótti um starfið fyrir 29. desember 2008, að framlengja umsóknarfrestinn og skipaði síðan Ólaf Þór, af því að hann var eini hæfi umsækjandinn. Frásögn Egils endurspeglar þann hofmóð, sem hann hefur sýnt í garð Ólafs Þórs. Virtist Agli ekki sæma, að sýslumaður á Akranesi tæki að sér þetta starf. „Honum var úthlutuð fjárveiting upp á 50 milljónir króna. Það kom fljótlega fram að þetta var engan veginn nóg. Sjálfur kom Ólafur í fjölmiðla og bar sig aumlega,“ segir Egill.

Ef ég man rétt, var það helst Jóhanna Sigurðardóttir, sem sá ofsjónum yfir kostnaði við hina sérstöku saksókn í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Hún hafði fyrir sið, ef aðrir ráðherra lögðu fram tillögur um nýmæli, að rýna í kostnaðartölur og býsnast yfir þeim og minna á, að hún hefði ekki fengið nægilegt fjármagn í hitt eða þetta. Öllum var ljóst, að 50 m. kr. dygðu skammt hjá hinu nýja embætti en þó nægðu þeir fjármunir til að koma því á laggirnar. Embættið hefur síðan fengið auknar fjárveitingar, eins og við var búist að þyrfti, þegar ýtt var úr vör og kemur fram í greinargerð minni með frumvarpinu.

Í lok bloggfærslu sinnar segir Egill:

„En framganga hans sjálfs [Björns Bjarnasonar] er heldur ekki sérlega glæsileg. Alvöru hreyfing komst ekki á málin fyrr en Eva Joly kom til skjalanna. Það vita allir Íslendingar. Manni óar við tilhugsuninni um hvernig staða þessara mála væri ef hennar hefði ekki notið við. Fyrst var reynt að hæðast að henni og draga úr trúverðugleika hennar. En nú er hún líkt og eina manneskjan sem stjórnmálastéttin og langstaðið embættismannakerfi óttast.“

Ég veit ekki til hvers Egill er að vitna varðandi framgöngu mína. Ég hafði á skömmum tíma mótað og haft forgöngu um starfsramma og skipað mann til að gegna embætti sérstaks saksóknara. Hann tók til starfa 1. febrúar 2009, hinn sama dag og ég lét af ráðherraembætti. Án þess skipulags, sem þannig hafði verið mótað af minni hálfu, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir samvinnu við erlenda aðila, hefði verið erfiðara en ella að skapa Evu Joly aðstöðu til starfa hér á landi.

Einhverjir kynnu að ráða af orðum Egils, að ég hafi haft horn í síðu þess, að Eva Joly léti að sér kveða hér á landi. Að sjálfsögðu getur hann ekki bent á neitt því til staðfestingar. Þvert á móti brást ég vel við ósk hennar um fund. Hann fór fram á heimili mínu. Að ég óttist framgöngu hennar er hrein ímyndun Egils.

Setning Egils: „Fyrst var reynt að hæðast að henni og draga úr trúverðugleika hennar.“ Þessi orð lýsa afstöðu Egils sjálfs til Ólafs Þórs Haukssonar og hef ég mótmælt þessari afstöðu Egils opinberlega. Hún er ómakleg.

Í byrjun ágúst 2009 fagnaði ég því sérstaklega, þegar Eva Joly birti samdægurs greinar í fjórum blöðum til stuðnings málstað Íslands í Icesave-deilunni. Þá stökk aðstoðarmaður forsætisráðherra upp á nef sér og hnýtti í Joly.

Um nokkurt skeið hef ég að gefnu tilefni gert athugasemd við, að álitsgjafi, sem setur fram jafnlitaðar skoðanir og Egill Helgason gerir á bloggsíðu sinni, skuli talinn óhlutdrægur stjórnandi þáttar um málefni líðandi stundar hjá Ríkisútvarpinu. Hér hef ég enn bent á, hve óvandaður málflutningur er á bloggsíðunni Silfur Egils, sem ber sama heiti og annar sjónvarpsþáttur Egils Helgasonar.

Að slík tenging sé milli hlutdrægrar bloggsíðu og umræðuþáttar um málefni líðandi stundar í sjónvarpi samræmist ekki lögum og reglum Ríkisútvarpsins. Öllum athugasemdum um það efni hefur verið svarað af þeirri sjálfumgleði, sem einkennir viðhorf útvarpsstjóra til gagnrýni á Ríkisútvarpið. Egill hefur sjálfur leitast við að verja stöðu sína með því að vísa til manna erlendis, sem beinlínis eru ráðnir að fjölmiðlum til að segja skoðanir sínar. Er Egill ráðinn á þann veg til Ríkisútvarpsins?

Sá pistill Egils, sem ég hef hér gert að umræðuefni, sýnir mér, að ég get ekki vænst þess að njóta sannmælis á bloggsíðu hans. Er einhver annar Egill, sem sest í stól þáttastjórnandans? Að lokum: Hefur Egill Helgason efni á því að ráðast á aðra með þeim orðum, að þeir séu „bullandi vanhæfir“?