17.1.2010

Líf ríkisstjórnarinnar hangir á Icesave-þræðinum – ESB-festingin slitin.

 

 

Ríkisstjórnin er á undanhaldi í Icesave-málinu. Stjórnarandstaðan hefur auðveldað henni flóttann með því að setjast til fundar við ráðherra í stjórnarráðshúsinu. Ólíklegt er, að efnislegt samkomulagi náist á þessum fundum. Hins vegar er ekki útilokað, að samið verði um aðra aðkomu stjórnmálaflokkanna að málinu. Ríkisstjórnin sjái, hve mikil mistök voru hjá Steingrími J. Sigfússyni að taka málið inn í raðir vinstri-grænna með því að skipa Svavar Gestsson, formann samninganefndar. Flokksráð vinstri-grænna treysti sér ekki til að lýsa yfir stuðningi við Steingrím J. í Icesave-málinu.

Augljóst er, að hagur Íslendinga felst í því, að kosið verði um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að nýir samningamenn Íslands fái skýrt umboð. Verði Icesave-ólögin felld hefst nýr kafli í málinu en það verða engin slit í því.

Við öllum blasir nú, hve heimskulegt var hjá ríkisstjórnarflokkunum að hafna tillögu sjálfstæðismanna um tvöfalda atkvæðagreiðslu vegna aðlögunarferlisins að Evrópusambandinu. Þá hefðu fulltrúar Íslands hafs þar fast land undir fótum. Nú starfa þeir ekki í umboði allrar ríkisstjórnarinnar. Annar stjórnarflokkurinn er andvígur því, að aðlögunarferlið sé farið á enda. Rökrétt er að spyrja: Hvers vegna þá að hefja það? Til að eyða tíma og peningum?

Tvennt einkennir gjarnan sjónarmið þeirra, sem forðast að taka afstöðu í ágreiningsmálum á þjóðmálavettvangi: Að það skorti upplýsingar; umræðurnar snúist um persónur og flokka en ekki málefnið. Þessar fullyrðingar eru oftast rangar og eiga ekki við önnur rök að styðjast en að viðkomandi hafi ekki nennt að setja sig inn í málið.

Í Morgunblaðinu 15. janúar birtust tvær aðsendar greinar, sem lýsa kjarna Icesave málsins, í fyrsta lagi himinháum og ósanngjörnum greiðslum samkvæmt Icesave-samningunum og í öðru lagi lagarökum gegn skyldu Íslendinga til að axla þessar skuldbindingar. Ástæða er til að skora á alla, sem vilja kynna sér málið, að lesa þessar greinar. Ég birti hér, það sem er kjarni þeirra að mínu mati.

Himinháar greiðslur.

Samantekið úr grein Jóns Daníelssonar, dósents við London School of Economics, í Morgunblaðinu 15. janúar 2010:

„Lánsfjárhæð: Samkvæmt Icesave-samningunum frá 5. júní 2009 ábyrgist íslenska ríkið endurgreiðslur til Bretlands og Hollands á 2,4 milljörðum punda annars vegar og 1,3 milljörðum evra hins vegar. Miðað við gengi íslensku krónunnar nú nemur fjárhæðin samtals um 713 milljörðum króna.

Vextir: Vextir eru fastir í 5,55% og eru reiknaðir frá 1. janúar 2009, en frá þeim degi hafa vextir lagst við höfuðstólinn.

Afborganir: Engar afborganir á höfuðstóli lánanna eiga sér stað frá 2009-2016, en þá hefjast endurgreiðslur með jöfnum ársfjórðungslegum greiðslum til ársins 2024.

Skilanefnd Landsbankans áætlar að 88% forgangskrafna í hennar umsjá verði greidd, en telur að greiðslurnar muni seytla inn á löngum tíma, þar af 29% eftir 2015.

Miðað við það mun heildarkostnaðurinn vegna Icesave nema 507 milljörðum króna miðað við gengi ísl. kr. 14. janúar 2010. Sé þeim kostnaði deilt niður á þjóðirnar nemur hann 1,5 milljónum króna á hvert mannsbarn á Íslandi – 6-9 milljónum fyrir meðalfjölskyldu – en aðeins 5.800 krónum á hvern Hollending og Breta. Til að setja þessar tölur í eitthvert samhengi myndu fjármunir þessir duga til þess að reka Landspítalann í sjö ár eða Háskólann í 42 ár.

Af þessum miklu fjármunum eru aðeins 120 milljarðar greiðsla á höfuðstóli en 387 milljarðar fara í vexti.“

Lagarök.

Undanfarna daga hafa Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, og Lárus L. Blöndal, hæstaréttarlögmaður, birt greinaflokk í Morgunblaðinu um lagarök gegn því, að á Íslendingum hvíli lögbundin skuldbinding til að endurgreiða Bretum og Hollendingum innistæður á Icesave-reikningunum. Lokagreinin birtist í Morgunblaðinu 15. janúar og þá hafði Sigurður Líndal, lagaprófessor, slegist í hópinn með Stefáni Má og Lárusi. Hér er kjarni í rökstuðningi þeirra eins og ég sé hann:

„Aðeins viðkomandi tryggingarkerfi, sem hér á Íslandi er Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta, kemur til sögunnar við gjaldþrot banka. Kerfið byggist ekki á ríkisábyrgð eða kröfu á hendur skattgreiðendum. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun lögum samkvæmt. Þetta tryggingakerfi er í fullu samræmi við ákvæði tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi.

Tilskipun nr. 94/19EB hefur ekki að geyma nein ákvæði um ábyrgð aðildarríkja í tilefni af slíku gjaldþroti. Þvert á móti er þar tekið fram að aðildarríkin beri ekki ábyrgð. Ábyrgð ríkisins í tengslum við fyrrgreinda tilskipun nr. 94/19 getur einungis komið til ef vanhöld hafa orðið á því að innleiða reglur um hana og að sjá að öðru leyti um að staðið sé við skuldbindingar samkvæmt tilskipuninni. Hafi slík vanræksla átt sér stað gæti bótaábyrgð ríkisins komið til álita og það orðið skaðabótaskylt ef reglunum um bótaábyrgð er að öðru leyti fullnægt. Ekkert liggur þó fyrir um að svo sé. Þessum niðurstöðum til frekari stuðnings hafa bæði seðlabanki Frakklands og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gefið sterklega í skyn að innistæðutryggingarkerfin samkvæmt tilskipuninni séu ekki til þess fallin að mæta stóráföllum eins og bankahruni. Sum aðildarríkin hafa auk þess gert fyrirvara varðandi lögmæti þess að veita ríkisábyrgð til viðbótar þeirri tryggingu sem innlánstryggingakerfin veita enda raski það samkeppni á fjármálamarkaði.“

Máttvana ríkisstjórn.

Gegn þessum rökum á ríkisstjórnin engin svör önnur en þau, að erlendir viðsemjendur okkar sætti sig ekki við þau og þess vegna þýði ekkert að halda þeim fram. Þessi ömurlega afstaða ríkisstjórnarinnar er svo ótrúleg, að erfitt hefur verið að koma henni til skila. Hún er hins vegar staðreynd og hið makalausa er, að Samfylkingin stendur einhuga á þingi gegn rökum eins og þeim, sem að ofan eru birt, og telur þau engu skipta. Brestir hafa hins vegar myndast í þingflokki vinstri-grænna í Icesave-málinu, en við atkvæðagreiðslu á alþingi er þess hins vegar ávallt gætt, að þessir brestir ógni ekki lífi ríkisstjórnarinnar, sem hangir nú á Icesave-þræðinum.

Til marks um, hve viðkvæmt Icesave-málið er innan vébanda vinstri-grænna, er, að ekki er minnst einu orði á það í ályktun flokksráðsfundar þeirra, sem haldinn var á Akureyri 14. til 15. janúar. Ástæðan fyrir þögninni er sú, að meirihluti fundarmanna hefur líklega verið andvígur sjónarmiðum Steingríms J. Það hefði jafngilt vantrausti á Steimgrím J., að flokksráðið fengi að segja álit sitt á málinu, þess vegna var því einfaldlega sópað undir teppið með orðum eins og þessum:

Einkennilegt er, að fjölmiðlamenn, sem fylgdust með fundinum, skuli ekki hafa sagt frá þessari staðreynd eða spurt Steingrím J. um hina hrópandi þögn. Helsta fréttin af flokksráðsfundinum var sú, að hann styddi ríkisstjórnarsamstarfið!

Flokksráðsfundurinn ályktaði gegn ESB-aðild og hvatti ráðherra, þingmenn og félagsmenn vinstri grænna um allt land til að halda stefnu flokksins um andstöðu við aðild Íslands að ESB á lofti og berjast einarðlega fyrir henni. 

Steingrímur J. gefur sig út fyrir að vera sterki maðurinn í hinni máttvana ríkisstjórn. Hann fékk hins vegar ekki stuðning eigin flokksráðs í því máli, sem hann hefur eindregið gert að sínu, að Icesave-samningarnir nái fram að ganga. Flokkur hans fól honum hins vegar að berjast gegn höfuðmáli hins stjórnarflokksins, aðildinni að Evrópusambandinu.

Ráðherrar ræða mikið um þau „skilaboð“, sem send séu til umheimsins og hve mikils virði sé að vanda þau. Þeim hefur hins vegar alveg brugðist sú bogalist í Icesave-málinu og tvö andlit ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu ætti tafarlaust að binda enda á aðlögunarferlið. Málið er fallið á jöfnum atkvæðum í ríkisstjórn, fari Steingrímur J. og co.að samþykkt eigin flokksráðs.