5.1.2010

Ólafur Ragnar segir nei, ríkisstjórn í vanda, sigur InDefence.

 

 

 

Þegar þetta er skrifað, hafa þingflokkar ríkisstjórnarinnar ekki enn rætt þá ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar frá því klukkan 11.00 í morgun, þriðjudaginn 5. janúar, að skrifa ekki undir Icesave-lögin. Augljóst var, að Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. var miðsboðið vegna ákvörðunarinnar, þegar þau ræddu hana á blaðamannafundi í stjórnarráðinu 80 mínútum, eftir að forsetinn efndi til síns blaðamannafundar.

Jóhanna sagði tvisvar, að ríkisstjórnin hefði  frétt um ákvörðun Ólafs Ragnars á sama tíma og aðrir, það er á blaðamannafundi hans. Fréttamenn höfðu skýrt frá því, að hlé hefði verið gert á ríkisstjórnarfundi klukkan 11.00 og ráðherrar farið í annað herbergi í stjórnarráðshúsinu til að fylgjast með Ólafi Ragnari í sjónvarpi. Allir ráðherrar voru sagðir hafa setið fundinn fyrir utan Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra.

Laugardaginn 2. janúar tók Ólafur Ragnar við um 60.000 undirskriftum á Bessastöðum og ræddi stundarlangt við fulltrúa InDefence-hópsins, sem afhentu honum nafnalistana. Sunnudaginn 3. janúar hitti Ólafur Ragnar ráðherrana Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrím J., Össur Skarphéðinsson og Gylfa Magnússon. Þá var einnig skýrt frá því, að hann hefði rætt við Má Guðmundsson, seðlabankastjóra.

Mánudaginn 4. janúar voru sagðar fréttir af því, að Eiríkur Tómasson, prófessor, teldi það „jaðra við“ stjórnarskrárbrot, ef Ólafur Ragnar tæki ekki af skarið þann dag. Undir kvöld  þennan mánudag var boðað til blaðamannafundar klukkan 11. 00 þriðjudaginn 5. janúar á Bessastöðum.

Á blaðamannafundinum las Ólafur Ragnar yfirlýsingu og svaraði nokkrum spurningum blaðamanna, sagðist hann gera það, vegna þess að þeir hefðu lagt það á sig við að koma til Bessastaða!

Yfirlýsing Ólafs Ragnars er 544 orð. Kjarni hennar er þessi:

„Hornsteinn stjórnskipunar íslenska lýðveldisins er að þjóðin er æðsti dómari um gildi laga. Stjórnarskráin sem samþykkt var við lýðveldisstofnun 1944 og yfir 90% atkvæðisbærra landsmanna studdu í þjóðaratkvæðagreiðslu felur í sér að það vald sem áður var hjá Alþingi og konungi er fært þjóðinni. Forseta lýðveldisins er svo ætlað að tryggja þjóðinni þann rétt.“

Ólafur Ragnar túlkar 26. grein stjórnarskrárinnar á þann veg, að hún sé tæki forseta Íslands til að tryggja, að þjóðin sé sannfærð um að hún sjálf ráði för sinni. Þátttaka hennar allrar í endanlegri ákvörðun Icesave-málsins sé því forsenda farsællar lausnar, sátta og endurreisnar. Með ákvörðun sinni segist Ólafur Ragnar fá þjóðinni valdið og ábyrgðina í sínar hendur.

Að þessi túlkun Ólafs Ragnars á 26. greininni sé rétt er alls ekki ótvírætt. Hér vantar stjórnlagadómstól til að leysa úr ágreiningi sem þessum. Greinina er einnig unnt að túlka á þann veg, að neiti forseti að staðfesta lög, eigi ríkisstjórn þann kost að vísa máli til þjóðaratkvæðagreiðslu til að hnekkja afstöðu forsetans. Kenningin um „málskotsrétt“ í 26. gr. styðst ekki við orð greinarinnar.

Óhjákvæmilegt er fyrir alþingi að afnema 26. grein stjórnarskrárinnar og setja ný ákvæði um leið þings eða þjóðar til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Atburðir síðustu daga sýna svart á hvítu, að greinin skapar meiri óvissu en ætlað var við samþykkt hennar. Með réttu má halda því fram, að Ólafur Ragnar hafi synjað lögunum um Icesave staðfestingar, þegar hinn 31. desember, þegar Steingrímur J. lagði þau fyrir hann á ríkisráðsfundi. Ákvæðið tryggir þar að auki alls ekki, að mál sé borið undir þjóðina eins og sannaðist 2004, þegar fjölmiðlalögin voru afnumin. Hið sama kann að gerast nú, að nýju Icesave-lögin verði einfaldlega afnumin.

Ólafur Ragnar sagði í yfirlýsingu sinni:

 „Skoðanakannanir benda til að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé sama sinnis [þ.e að vísa lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu]. Þá sýna yfirlýsingar á Alþingi og áskoranir sem forseta hafa borist frá einstökum þingmönnum að vilji meirihluta alþingismanna er að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.“

Að nefna áskoranir einstakra þingmanna til forseta um annan vilja alþingis en birtist í atkvæðagreiðslu í þinginu, þegar tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu var felld, er fráleitt af hálfu Ólafs Ragnars. Þarna vísar hann til þingmanna úr röðum vinstri-grænna, enda brást Steingrímur J. illa við á blaðamannafundinum í stjórnarráðshúsinu, þegar þessi orð Ólafs Ragnars voru borin undir hann og sagði, að vilji alþingis kæmi fram í atkvæðagreiðslu þar.

Á blaðamannafundi sínum héldu þau Jóhanna og Steingrímur J. sig að mestu við yfirlýsingu, sem var 20 orðum lengri en yfirlýsing Ólafs Ragnars eða 564 orð. Hún var að verulegu leyti endurtekning á lofræðunni, sem ráðherrarnir fóru með við áramótin um árangurinn á þeim 11 mánuðum, sem þau hafa setið í ríkisstjórn. Þeim hefði tekist vel við að endureisa efnahagslífið. Árangri endurreisnaráætlunar þeirra væri teflt í mikla tvísýnu með ákvörðun Ólafs Ragnars.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir:

 „Áhöld eru um það hvort það sé pólitískt og stjórnskipulega eðlilegt að forseti beiti málskotsrétti sínum þegar um er að ræða milliríkjamál, líkt og Icesave-málið er, þar sem verið er að fylgja eftir skuldbindingum íslenskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi.“

Sigurður Líndal prófessor vitnaði til dönsku stjórnarskrárinnar og taldi Ólaf Ragnar þess vegna ef til vill ekki geta stuðlað að þjóðaratkvæðagreiðslu um milliríkjamál. Lögskýringin er of langsótt til að eiga erindi í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í lok yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar segir:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að ekki má dragast upp sú mynd gagnvart umheiminum að Ísland ætli að hlaupast frá skuldbindingum sínum og verður það gert með sérstakri tilkynningu.

Ríkisstjórn Íslands lýsir vonbrigðum með ákvörðun forseta og í ljósi þeirra alvarlegu áhrifa sem synjun forseta Íslands kann að hafa mun ríkisstjórnin nú meta stöðu mála og horfur varðandi þá endurreisnaráætlun sem hún hefur fylgt með góðum árangri.“

Er furðulegt, að sjálf ríkisstjórnin skuli láta í veðri vaka, að Íslendingar ætli að hlaupast frá skuldbindingum sínum.  Málið snýst alls ekki um það, heldur hitt í hverju þessar skuldbindingar felast og hvort sæta eigi afarkostum vegna þeirra. Gagnrýnendur Icesave-laganna telja ríkisstjórnina  og samningamenn hennar hafa haldið einstaklega illa á málum þjóðarinnar í þessu stóralvarlega milliríkjamáli. Ríkisstjórnin kýs enn og aftur hopa undan þessari gagnrýni með því að hampa málstað þeirra, sem sýna Íslendingum ofríki, og gera hann í raun að sínum í stað þess að berjast fyrir þjóðarhagsmunum.

Af  lokaorðunum verður ráðið, að ríkisstjórnin ætli ekki að meta eigin stöðu heldur hvernig mál standi „varðandi þá endurreisnaráætlun“, sem ríkisstjórnin hefur fylgt. Hvað felst í þessum orðum? Hér skal því ekki svarað, en síðustu daga Icesave-málsins á þingi, tóku ráðherrar og stjórnarþingmenn að tala á þann veg, að ríkisstjórnin stæði ekki og félli með Icesave-málinu.

Málsvörum InDefence-hópsins ber að þakka þrautseigju þeirra og eindreginn vilja til að halda góðum málstað sínum fram, þrátt fyrir gagnrýni úr ólíklegustu áttum. Þeir geta vel við niðurstöðu Ólafs Ragnars unað.

Hvort sem ríkisstjórnin ákveður að flytja tillögu um að fella lögin frá 30. desember úr gildi eða þau verða felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, næst það markmið hópsins, að lögin, sem samþykkt voru 28. ágúst, gilda og á grundvelli þeirra þarf að nýju að ræða málið við Breta og Hollendinga. Augljóst er, að það er ekki unnt að gera í umboði ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J.. Ríkisstjórn þeirra er einfaldlega of höll undir sjónarmið viðsemjendanna. Nýir samningamenn, með nýtt samningsumboð og nýtt pólitískt bakland þurfa að koma til sögunnar. Stóri galdurinn verður að ná samstöðu um framhaldið, eftir að óheillalögin frá 30. desember eru úr sögunni.