1.1.2010

Nýársávörp Jóhönnu og Ólafs Ragnars.

 

 

 

Um þessi áramót urðu þau tímamót, að í fyrsta sinn flutti forsætisráðherra ríkisstjórnar, sem stuðningsmenn og ráðherrar kalla „hreinræktaða vinstri stjórn“,  ávarp. Er ástæða til að staldra við og velta fyrir sér, hvort þar sé að finna eitthvað, sem markar ávarpinu sérstöðu.

Jóhanna Sigurðardóttir flutti ávarpið í mærðarlegum tón, eins og hún hefði farið í smiðju til Ólafs Ragnar Grímssonar. Hún sagði árið ekki eins slæmt og við hafði verið búist. Atvinnuleysi minna og hið sama mætti segja um samdrátt í efnahagslífinu. Árið 2009 hefði verið „ár breyttra viðhorfa og lífsgilda“ og að hún tryði því, að ársins yrði ekki síður minnst „sem tímamótaárs í þróun þjóðfélagsmála á Íslandi en árs kreppu og efnahagserfiðleika.“  Þarna vísaði Jóhanna vafalaust til þess, að vinstrisinnuð viðhorf hefðu sett svip á landstjórnina, þótt hún segði það ekki beinum orðum, heldur færi  inn á tilfinningabrautir og segði:

 „Kenndir á borð við sorg, kvíða, reiði og vonleysi hafa við þessar aðstæður brotist út í hörðum orðum og hvatvísum dómum. En mótlætið hefur einnig fært okkur nær hvert öðru. “

Síðan nefnir hún til sögunnar þrjú málefni, sem hún veit, að eru óumdeild: tunguna, landið og samfélagið.

„Íslensk tunga er og verður undirstaða menningar á Íslandi og skapar okkur sérstakan tilverurétt í samfélagi. Því megum við aldrei gleyma.“

Þá segir Jóhanna:

„Landið kallar á okkur öll, þótt á ólíkan hátt sé. Sumum er hugstæðust fegurð og hreinleiki náttúrunnar, aðrir beina sjónum sínum fremur að nýtingu auðlinda til lands og sjávar. En víst er að umgengni okkar um landið, ásamt hóflegri nýtingu gæða þess, verður sífellt mikilvægara viðfangsefni íslenskra stjórnmála.“

Í framhaldi af þessum orðum ræðir hún um skort  á hreinu drykkjarvatni á stórum heimssvæðum  og að við Íslendingar getum verið „þakklátir fyrir þá dýrmætu auðlind sem fólgin er í vatninu okkar.“ Vegna baráttu í heiminum um aðgang að vatni ætti það

 „að vera eitt af okkar brýnustu verkefnum að þessi ómetanlega auðlind, íslenska vatnið, verði skilgreind í stjórnarskránni sem almannaeign – engu síður en fiskurinn í sjónum.“

Jóhanna lætur þess ógetið, að stjórnarskráin geymir engin ákvæði um, að fiskurinn í sjónum sé almannaeign. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að orða þá hugsun í stjórnarskránni, hefur það ekki tekist, enda með öllu óljóst hvað í hugtakinu „almannaeign“ felst. Af frásögnum fjölmiðla má ráða, að þessi orð í ræðu Jóhönnu þyki fréttnæmust. Eitt helsta baráttumál Jóhönnu á þingi, eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009, var að knýja fram breytingu á stjórnarskránni, þar sem meðal annars átti að koma inn ákvæði um „almannaeign“, „sameign þjóðarinnar“ eða „þjóðareign“ á fiskinum í sjónum. Jóhanna náði því ekki fram. Nú telur hún skynsamlegt, að bæta vatninu við fiskinn í deilunum um, hvað felst í hugtakinu „almannaeign“.

Um samfélagið sagði Jóhanna meðal annars:

 „Allir vilja búa í góðu samfélagi. … Þess vegna þurfum við að efla umræðu um hvað einkennir uppbyggjandi þjóðfélag og hvernig fjölskyldur okkar, félög og fyrirtæki geti orðið góð samfélög.“

Hugsunin að baki þessari sköðun Jóhönnu er ekki alveg skýr, þar sem orðið „samfélag“ er notað í undarlegri merkingu. Jóhanna telur síðan, að hrun bankakerfisins hafi valdið trúnaðarrofi gagnvart náunganum og stofnunum samfélagsins. Þetta megi rekja til þess, að eftir einkavæðingu bankanna hafi stjórnvöld ekki megnað

 „ að hafa með þeim eftirlit eða gæta heildarhagsmuna landsmanna með stefnu sinni í efnahags- og peningamálum. Hinn mikilsverði þáttur – traustið – gufaði þar með upp á augabragði. En glatað trúnaðartraust öðlast menn ekki að nýju nema með því að sanna að þeir séu traustsins verðir, skref fyrir skref.“

Þetta er í besta falli mikil einföldun. Eða var það vegna einkavæðingar íslensku bankanna, að Lehman-bankinn varð gjaldþrota í Bandaríkjunum 15. september 2008, þar með hvarf allt traust í bankaheiminum?

Íslensku bankarnir voru eiknavæddir fyrir opnum tjöldum og með skýrri heimild í lögum. Þess varð síður en svo vart, að traust til íslensku bankanna minnkaði við einkavæðinguna. Þvert á móti jókst traustið of mikið miðað hvílík ósköp bankamennirnir gátu tekið að láni á alþjóðamörkuðum. 

Hér skal fullyrt, að aðferð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við að endur-einkavæða bankana er síður en svo fallin til þess að endurvekja traust á bankakerfinu eða innan þess. Enginn veit, hverjir hinir nýju eigendur eru. Valið er í bankastjórnir innan lokaðs hóps manna, sem tilnefna hvor aðra, án þess að nokkur stjórnmálamaður telji sig bera þar ábyrgð. Þetta gerist undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur, sem þingmanna mest hefur rætt um ráðherraábyrgð og gildi hennar á undanförnum árum.

Þá segir Jóhanna:

„Hugmyndir eru máttugar, bæði til góðs og ills…. Þannig hefur sú hugmynd leikið okkur grátt að gróði og arður til hluthafa sé helsta stýriafl og drifkraftur fyrirtækja. Kjarni hennar er að hámörkun gróða og arðs tryggi farsæld og velsæld betur en allt annað. Og við létum það viðgangast að stjórnvöld beygðu sig undir þessa hugmyndafræði og stæðu álengdar á meðan hún sprengdi öll eðlileg efnahagsviðmið og –ramma.“

Af þessum orðum mætti ætla, að það hafi verið einstakt hér á landi, að þeirri hugmyndafræði, sem Jóhanna lýsir á þennan neikvæða hátt, væri fylgt . Að sjálfsögðu er það rangt. Með hruni kommúnismans fyrir tveimur áratugum varð þessi hugmyndafræði alls ráðandi í heiminum, meira að segja í Kína, þar sem menn halda fast í einsflokkskerfi kommúnismans og stunda kapítalisma í skjóli þess.

Jóhanna þrengir skilgreiningu sína á þennan veg:

 „Það er hörmuleg niðurstaða hins lánadrifna og skammsýna ofurkapítalisma, sem Íslendingar reyndu sig við, að stóru burðarfyrirtækin í atvinnulífinu urðu hvað verst úti í bankahruninu. Af þeirri dýrkeyptu reynslu má læra margt og einkum þetta: Ríkið verður að setja skorður við sérhyggju og markaðshyggju. Við endurreisnina á árinu 2010 skulum við krefjast ábyrgra fyrirtækja sem leggja rækt við það samfélag sem þau eru sprottin úr.“

Athyglisvert er, að í þessum orðum lætur Jóhanna eins og það, sem hún kallar „ofurkapítalisma“ sé meinsemdin. Hún minnist hvergi á þá staðreynd, að það voru einstaklingar, sem misnotuðu markaðsfrelsið. FL Group tapaði 350 þúsund milljónum króna 2008, gjaldþrot Baugs nemur 320 þúsund milljónum króna. Samtals eru þetta 670 þúsund milljónir. Ótalin eru Baugsfyrirtækin Teymi, Nyhedsavisen, 365 miðlar, Landic Property, Dagsbrún, BYR og Glitnir. Eru þetta stóru burðarfyrirtækin, sem Jóhanna hefur í huga?  Er það til marks um viðleitni ríkisins að setja skorður við „sérhyggju og markaðshyggju“, að banki í eigu ríkisins lætur undan í sex daga stríði Jóhannesar í Bónus við að komast í stjórn 1998/Haga, eftir að bankinn ræður þar ferð?  Kannski er Jóhanna þó að vitna til starfshátta þessara manna og annarra, þegar hún segir:

 „En þeir eigendur og stjórnendur sem skilgreina hlutverk fyrirtækja sinna þröngt og svífast einskis til að hámarka gróða sinn eru lítils virði þegar til lengdar lætur.“

Undir lok máls síns segir Jóhanna, að komið sé að „gráum hversdagsleika skuldadaganna“ eftir allsherjar eignagleði, en á árinu skuli hafin ný „sókn til sjálfbærra og stöðugra lífskjara.“ Hún segir, að á árinu 2010 bíði „ viðamikil verkefni sem meðal annars snúast um að ákvarða stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og tryggja okkur efnahagslegt sjálfstæði í traustu öryggissamfélagi með þeim þjóðum sem standa okkur næst.“

Jóhanna nefnir hvergi aðild að Evrópusambandinu eða viðræður við það í ávarpi sínu, en líklegt er, að hún eigi við það mál, þegar hún nefnir „viðamikil verkefni“ vegna stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.  Hið efnahagslega sjálfstæði í „traustu öryggissamfélagi“ er líklega lýsing Jóhönnu á framtíðarsamskiptum þjóðarinnar við Breta og Hollendinga innan Evrópusambandsins, eftir að hún hefur beitt sér fyrir því, að alþingi samþykkti Icesave-afarkostina, en þá nefnir Jóhanna ekki einu orði í ávarpi sínu, sem er með miklum ólíkindum.

Þeir sendimenn erlendra ríkja eða sérfræðingar Evrópusambandsins, sem lesa ávarp Jóhönnu eða fjölmiðlaboðskap hennar um áramótin, geta ekki dregið þá ályktun, að henni sé aðild að sambandinu ofarlega í huga. Skýringin er auðvitað hin sama og ávallt hefur einkennt stjórnmálaferil Jóhönnu, að hún vill skipa sér með meirihlutanum í von um að fá klapp á bakið. Það er rétt hjá Jóhönnu, að Evrópusambandið á ekki upp á pallborðið meðal Íslendinga um þessi áramót.

 Ávarp Ólafs Ragnars.

Ólafur Ragnar Grímsson sagði í ávarpi sínu 1. janúar 2010:

 „Lýðræði er einmitt sú skipan sem Íslendingar kusu sér. Í fyrstu skilgreint nokkuð þröngt en síðan sífellt víðtækara. Nú er vaxandi stuðningur við að auka veg hins beina lýðræðis, að fólkið fái sjálft að ráða í ríkara mæli.

Þá er rétt að hafa í huga að vilji þjóðarinnar er einmitt hornsteinninn sem stjórnskipan lýðveldisins hvílir á. Breytingarnar sem gerðar voru á stjórnarskránni 1944 og rúmlega 90% landsmanna samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu kveða á um að valdið sem áður var hjá Alþingi og konungi er fært þjóðinni. Forseta hins unga lýðveldis svo falið að tryggja þann rétt þótt ætíð verði að meta aðstæður og afleiðingar ákvarðana.“

Þessi túlkun Ólafs Ragnars á hlutverki forseta Íslands er ekki einhlít. Hann hlýtur þó að fara eftir henni sjálfur og taldi sig vera að gera það 2. júní 2004, þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Afleiðingar þess urðu meðal annars þær að ýta undir áhrif og ítök Baugsmanna og hvetja alla útrásarvíkinga til frekari dáða, enda skipaði Ólafur Ragnar sér í sérstakt verndarahlutverk gagnvart þeim.

Nú liggur fyrir, að Ólafur Ragnar hefur tekið sér einstæðan frest til umhugsunar vegna laga, sem fyrir hann voru lögð til staðfestingar 31. desember vegna Icesave-ríkisábyrgðarinnar. Rúmlega 50.000 manns hafa skorað á Ólaf Ragnar að synja lögunum staðfestingar. Hann er nú að „meta aðstæður og afleiðingar ákvarðana.“ Með þessu einu skapar hann óvissu. Ýtir þetta enn undir nauðsyn þess, að ákvæði 26. greinar stjórnarskrárinnar sé endurskoðað og annars konar ákvæði sett í stjórnarskrá um, hvernig hagað skuli ákvörðunum um þjóðaratkvæðagreiðslur. Aferð Ólafs Ragnars kallar á, að forseti verði sviptur synjunarvaldinu.

Ólafur Ragnar veit, að endurskoðun stjórnarskrárinnar verður tekið á þessu máli, enda telur hann stjórnarsrkárendurskoðun ekki brýnasta verkefnið heldur „siðvæðingu“ í stjórnkerfi landsins, enda sé stjórnmálaleg siðmenning iðulega áhrifaríkari um gæði stjórnarfarsins en ákvæði í stjórnarskrá. Á sjöunda áratugnum varð til hreyfing, sem kenndi sig við „moral rearmament“ og kann Ólafur Ragnar að vera að vísa til hennar í orðum sínum.

Ólafur Ragnar sagði nauðsynlegt að grípa til umbóta til að „ koma í veg fyrir að geðþótti valdhafa nái í framtíðinni að veikja stofnanir sem ætlað er að hafa eftirlit og tryggja réttlæti.“

Þá sagði Ólafur Ragnar og var þetta meginboðskapur hans:

„Það er líklega einn veikasti hlekkur íslenskrar stjórnskipunar að sjálfstæði dómstólanna, Hæstaréttar og héraðsdóma, er ekki tryggt í stjórnarskrá. Ráðherrar hafa í áratugi ákveðið einir hverjir verða dómarar og stjórnendur á sviði löggæslu og réttarfars án þess að óháð, faglegt og opinbert hæfnismat færi fram. Það vita allir sem söguna þekkja að oft hefur hollustan við flokk ráðherrans verið mælikvarðinn sem mestu skipti; iðulega við hann stuðst nær alla tuttugustu öldina við val á sýslumönnum.

Stjórnkerfið, ráðuneyti og eftirlitsstofnanir, hafa líka liðið fyrir hið flokkslega mat við ráðningar og slík meinsemd veikti getu stofnana til að veita aðhald. Flokksskírteinið var í mörgum tilvikum mikilvægara en fagleg hæfni; vinátta eða vensl við ráðherra riðu baggamuninn. Þeirri skyldu að bera sannleikanum ávallt vitni í áheyrn valdhafanna var iðulega vikið til hliðar.

Þessi brotalöm í stjórnkerfi landsins er ekki ný af nálinni. Hún hefur fylgt okkur frá fyrstu árum Heimastjórnar; verið samofin stjórnmálabaráttu alls lýðveldistímans.

Meðan veröldin var fábrotnari og samskipti Íslands við umheiminn einföld í sniðum má kannski segja að þetta flokksvædda stjórnkerfi hafi dugað til heimabrúks en á tímum alþjóðavæðingar, opinna og margþættra tengsla við flestar þjóðir er það hættuspil; átti tvímælalaust þátt í því hve illa fór. Þær stofnanir sem áttu að veita faglega og óháða ráðgjöf reyndust of veikar þegar mest á reið.

Styrking stjórnkerfis og ótvírætt sjálfstæði dómstóla og stofnana á vettvangi réttarfars og eftirlits eru forgangsmál við endurreisn Íslands. Breytingarnar þurfa að taka mið af því sem best gerist meðal vestrænna lýðræðisríkja. Menntun, reynsla og fagleg hæfni eiga að vera leiðarljós við val í trúnaðarstöður; sérhver á að geta sagt sína skoðun, tekið afstöðu í erfiðum málum án þess að óttast geðþóttavald ráðamanna. Fámenn þjóð hefur ekki efni á að vísa sínum hæfustu mönnum á bug, sólunda mannauði með slíkum hætti.

Grundvallarbreyting á stjórnsýslu og réttarfari frá flokksræði til faglegs sjálfstæðis er lykillinn að farsælli framtíð, forsenda þess að nýjum áföllum verði afstýrt.“

Ólafur Ragnar telur sig hafa fundið skýringuna á því, hvers vegna íslenska fjármálakerfið hrundi. Stjórnmálamenn hafi of mikil áhrif á það, hverjir sitja í sætum dómara og embættum eftirlitsaðila. Hann lætur í veðri vaka, að hvorki dómarar né aðrir embættismenn þori að gegna lögbundnum skyldum af ótta við þá, sem veittu þeim embættin.

Ég hef oft furðað mig á því, að íslenskir embættismenn og þá ekki síst dómarar sitji þegjandi undir áburði af þessu tagi. Skoðunum sem þessum er oft hreyft á hinum pólitíska vettvangi. Nýmælið felst að þessu sinni í því, að þær eru fluttar frá Bessastöðum af manni, sem kjörinn er til embættis af  þjóðinni en hefur glutrað niður traustinu, sem hún bar til hans. Birtist það best í áramótaskaupi sjónvarpsins að kvöldi 31. desember 2009.  Eigi einhver að ganga fram með góðu fordæmi við siðvæðingu á opinberum vettvangi er það Ólafur Ragnar sjálfur, ef marka má þá sýn á Bessastaði, sem birtist í skaupinu. Þess í stað ræðst hann á stjórnmálamenn, dómara og eftirlitsaðila.

Að sjálfsögðu á að huga að því, hvaða leiðir eru bestar til að efla traust á íslenskri stjórnsýslu og stjórnmálakerfinu í heild. Eftir að ég varð menntamálaráðherra hafði verið tekin upp „fagleg“ aðferð við að skipa prófessora við Háskóla Íslands, en á árum áður urðu oft harkalegar deilur um skipan manna í þær stöður. Stundum voru þær leystar með því, að alþingi samþykkti einfaldlega að fjölga prófessorsembættum til að tryggja þeim stöðu við háskólann, sem stjórnmálamenn töldu hæfa. Þessi tími er liðinn.

Á hinn bóginn er að sjálfsögðu áfram deilt um, hvort ávallt sé hinn rétti valinn, þótt „faglega“ sé að málum staðið. Gleymi ég því ekki, þegar til mín kom eitt sinn umsækjandi um kennslu- og rannsóknarstöðu í háskólanum, sem hafði stundað vísindastörf erlendis. Taldi hann freklega fram hjá sér gengið og lýsti vanþóknun á því, sem hann kallaði „hlöðukálfa“ aðferðina innan skólans, það er að kennarar þar byggju þannig í haginn fyrir þá, sem þeir teldu verðuga, að sjálfgefið væri, að þeir teldust hæfastir eftir hið faglega mat.

Ólafur Ragnar minntist ekki á aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Mun það enn styrkja sendimenn erlendra ríkja og sérfræðinga Evrópusambandsins í þeirri trú, að hugur fylgi ekki máli hjá ríkisstjórninni í þessu máli og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sé næsta einn á báti með embættismönnunum, sem hann hefur falið að annast samningaviðræður fyrir Íslands hönd.

Bæði Jóhanna og Ólafur Ragnar véku að rannsóknarnefndinni, sem skilar skýrslu sinni á næstu vikum. Þau eins og aðrir binda vonir við, að starf hennar auðveldi skilning á því, sem gerðist hér og leiddi til bankahrunsins. Markaðhagskerfið mun standast niðurstöður nefndarinnar. Stjórnkerfið gerir það líka. Stjórnmálakerfið mun einnig standast áraunina. Fjármálakerfið hrundi vegna framgöngu einstaklinga en ekki vegna skorts á lögum og reglum.