Loftslagsráðstefna út um þúfur.
Loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn bar ekki þann árangur, sem að var stefnt. Í frá 7. til 18. desember sátu fulltrúar 193 landa og fjölmargra samtaka að auki (14 frá Íslandi undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra , og Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra) í Bella Center, skammt frá Kastrup-flugvelli, og réðu ráðum sínum um, hvað við skyldi taka, þegar Kýótó-samningurinn rynni sitt skeið í árslok 2012.
Kaupmannahafnarrráðstefnan var einkennd með skammstöfuninni COP15, það er hún var15. ráðstefna aðila, Conference of the Parties (COP), frá fyrstu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun (UNCED), sem haldin var á vegum Sameinuðu þjóðanna í Ríó de Janeiro 3. til 14. júní 1992. Þar varð til rammasáttmáli Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, The United Nations Framework Convention on Climate Change (UNFCCC eða FCCC) . Markmið sáttmálans er hafa hemil á gróðurhúsaáhrifum í andrúmslofti jarðar, svo að maðurinn raski ekki loftslagskerfinu.
Í sáttmálanum sjálfum er hvorki að finna nein skuldbindandi mörk fyrir útblástur, sem veldur gróðurhúsaáhrifum, í einstökum ríkjum né hvernig sáttmálanum skuli hrundið í framkvæmd. Í þeim skilningi er sáttmálinn ekki lagalega bindandi. Til að tryggja framkvæmd sáttmálans er gert ráð fyrir því, að á grundvelli hans séu gerðir sérstakir samningar og er Kýótó-samningurinn hinn mikilvægasti þeirra og er hann nú almennt betur þekktur en loftslagsáttmálinn (UNFCCC) sjálfur.
Kýótó-samningurinn var samþykktur í borginni Kýótó í Japan 11. desember 1997 og tók hann gildi árið 2005. 184 ríki hafa fullgilt samninginn. Markmið Kaupmannahafnarráðstefnunnar var að móta umgjörð þess, sem við tæki að loknum gildistíma Kýótó-samningsins.
Í lok föstudagsins 18. desember, eftir að stjórnarleiðtogar ráðstefnuríkjanna höfðu setið á stöðugum samningafundum, stórum og smáum, og Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hafði flutt ræðu, þar sem hann sagðist kominn til Kaupmannahafnar „to act“ til að framkvæma en ekki tala, var tilkynnt að „mikilvægt samkomulag“ hefði tekist milli Bandaríkjanna, Kína, Indlands, Suður-Afríku og Brazilíu. Samkomulagið er nefnt The Copenhagen Accord
Breska blaðið The Guardian sagði orðið „mikilvægt“ til marks um pólitískan spuna. Ónefndur bandarískur embættismaður var borinn fyrir því, að samkomulagið væri „sögulegt skref fram á leið“ en það dygði ekki til að sporna við hættulegum loftslagsbreytingum, þegar fram liðu stundir.
Umhverfis-fréttamaður BBC sagði: „Á sama tíma og starfsmenn Hvíta hússins kynntu samkomulagið, höfðu margar – líklega flestar - sendinefndir ekki einu sinni séð textann. Breskur embættismaður gaf til kynna, að ekki væri um lokatexta að ræða og sendinefnd Bólivíu hefur þegar kvartað undan því, hvernig komist var að þessari niðurstöðu, sagt hana „ólýðræðislega, ógagnsæja og óviðunandi“. Samkomulag án nokkurra tímasetninga varðandi takmörkun á hitastigi jarðar, án skuldbindingar um lagalega bindandi samning og án ákveðins ártals varðandi hátind útblásturs, sýnir, að þau lönd, sem verst verða úti vegna loftslagsáhrifa hafa ekki fengið þá niðurstöðu, sem þau væntu.“
Snemma að morgni laugardagsins 19. desember samþykktu sendinefndir á ráðstefnunni, að „take note of the Copenhagen Accord of December 18, 2009,“ það er staðfesta vitneskju sína um, að samkomulagið hefði verið gert. Á hinn bóginn kom jafnframt fram, að óvíst væri, hve margar sendinefndir hefðu samþykkt þessa óljósu skuldbindingu eða hvað í henni fælist. Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði samkomulagið „essential beginning“ eða nauðsynlegt upphaf.
Í hinu óljósa Kaupmannahafnar-samkomulagi er viðurkennt hið vísindalega viðhorf, sem mælir með því, að nauðsynlegt sé að halda hækkun hitastigs á jörðunni innan 2°C en ekki er að finna neinar skuldbindingar um þá takmörkun á útblæstri, sem sagt er, að grípa verði til í því skyni að ná þessu takmarki. Í samkomulaginu er að finna fyrirheit um 30 milljaða dollara greiðslu til þróunarríkja á næstu þremur árum og hækki hin árlega greiðsla í 100 milljarða dollara árið 2020. Markmiðið er að auðvelda fátækum ríkjum að laga sig að loftslagsbreytingum.
Danska blaðið Berlingske Tidende segir, að leiðtogafundur Kaupmannahafnarráðstefnunnar hafi endað í „kaos“ það er upplausn, en honum hafi verið bjargað frá því að verða „fiasko“ eða til einskis með þeim óljósa texta, sem nefndur er hér að ofan The Copenhagen Accord, þótt óljóst sé, hvaða ríki sætti sig við samkomulagið.
Loftslagsritstjóri Berlingske Tidende, Claus Kragh, segir Dani geta lært af ráðstefnunni og nefnir átta atriði til sögunnar:
1. Veröldin lítur ekki á Danmörku sem óbrotgjarnt fyrirmyndarþjóðfélag. Í heimspressunni hefur verið rætt um skipulagsmistök, harðhenta lögreglu og diplómatískan fótaskort af hálfu Dana í tengslum við COP15.
2. Danskir ráðherrar, forsætisráðherrann og fagráðherrar, ættu að tileinka sér skilning á ólíkum menningarheimum og hugsun, sem byggist á raunsæju mati á meginstraumum utanríkismála.
3. SÞ-kerfið með hugsjónum sínum og flóknum pólitískum formreglum og fundarsköpum er ítrekað misnotað af einræðisherrum og þýi þeirra frá alræðis- eða hálfalræðisríkisstjórnum eins og í Súdan, Íran og Venesúela til óhæfilegra árása á lýðræðisríki heims.
4. Kína og Indland eru nýir risar í alþjóðasamfélaginu, þar sem forystumenn þeirra berjast af miklum styrk og sjálfsvitund fyrir þjóðarhagsmunum sínum.
5. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, er sannfærður um, að það sé í þágu bandarískra þjóðarhagsmuna að berjast gegn hlýnun jarðar. Hann vill hins vegar, að Bandaríkjamenn eigi síðasta orðið um loftslagsstefnu sína.
6. Það var skynsamlegt af ESB-löndunum að leggja ekki fram það spil, sem þau höfðu á hendi um að lofa að auka minnkun gróðurhúsaáhrifa árið 2020 úr 20% í 30%. Orðið „fífl“ hefði verið letrað á bak Evrópumönnum, hefðu þeir kastað fram þessu spili í ljósi lokaniðurstöðunnar.
7. Brasilía og Lula, forseti landsins, hefur skapað sér sess á alþjóðavettvangi. Með félagslegri markaðsstefnu sinni tekur Brasilía ábyrgð á eigin íbúum og þróun í átt til velferðarríkis. Lula er tilbúinn til að axla alþjóðlega ábyrgð.
8. Mexíkó og Suður-Afríka verða gestgjafar á væntanlegum loftslagsráðstefnum, COP16 og COP17, sem í krafti hinnar gífurlegu athygli í kringum COP15 í Kaupmannahöfn verða langtum þyngri í pólitískum skilningi.
Thomas L. Friedman, dálkahöfundur The New York Times, segist lengi hafa talið, að tvær meginleiðir væru til í glímunni við loftslagsbreytingar: „Earth Day“ stefna og „Earth Race“ stefna.
Kaupmannahafnarráðstefnan hefði byggst á „Earth Day“ stefnu og hún hefði ekki verið árangursrík. Stefnan byggist á því, að loftslagsbreytingar séu mesta ógn við mannkyn og okkur beri öllum að taka höndum saman og ráðast á vandann með sameiginlegu hnattrænu kerfi til að skrá og sannreyna koltvísýrings-útblástur og takmörkun hans og færa milljarði dollara til þróunarríkja, svo að þau geti lagt sitt af mörkum með hreinni tækni.Friedman segir, að við núverandi aðstæður í efnahagsmálum heimsins sé alls ekki við því að búast, að þessi stefna nái fram að ganga.
Friedman segist fylgjandi „Earth Race“ stefnu, sem byggist á markaðslausnum. Markaðurinn einn, mótaður af reglum og hvata til að finna upp og framleiða hreina orku, geti slegið á hlýnun jarðar. Hvergi sé markaðurinn betur til þess fallinn en í Bandaríkjunum. Þess vegna beri að leggja höfuðáherslu á, að öldungadeild Bandaríkjaþings samþykki orkulög, sem hvetji Bandaríkjamenn til að taka forystu í hreinorku-tækni. Sýni Bandaríkjamenn gott fordæmi muni fleiri þjóðir sigla í kjölfarið og árangurinn yrði meiri en með nokkrum SÞ-samningi.
Af þessum tveimur leiðum er ég sammála Friedman um, að sú er leið er skynsamlegri, sem treystir á markaðinn frekar en samþykktir í nafni Sameinuðu þjóðanna. Ég hef áður látið þess getið hér á síðunni, að hvað sem líður ís eða ísleysi í Norður-Íshafi verði það að lokum markaðurinn, það er einkarekin skipafélög, sem ákveða, hvort skip þeirra sigli um Norður-Íshafið eða á suðlægar slóðir. Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hefur verið virkur þátttakandi í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Fyrir nokkrum dögum kom hann fram í MSNBCsjónvarpsstöðinni og hélt því fram, að ísþekja á Norður-Íshafi hefði minnkað um 40% síðustu ár. Sérfræðingar hafa bent á, að þarna fari Gore með rangt mál. Tölur Gores séu úreltar, því að ísþekjan hafi stækkað undanfarin tvö ár og sé nú um það bil 24% minni en að meðaltali á árunum 1979 til 2000.
Thomas L. Friedman lætur þess ekki getið í grein sinni um hinar tvær leiðir, að þriðja leiðin er einnig til umræðu, að jörðin sé hætt að hlýna og upphaf þess megi rekja til ársins 2002. Það sé ekki af mannavöldum, sem hiti sveiflast, heldur ráði þar náttúruöflin.
Í aðdraganda Kaupmannahafnarráðstefnunnar var mikið rætt um svonefnt Climategate í fjölmiðlum, það er tölvupóst, sem var stolið frá háskólanum í Austur-Anglíu í Norwich í Bretlandi [Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, er doktor í lífeðlisfræði þaðan] og sýndi, að vísindamenn hefðu lagt á ráðin um, hvernig þeir gætu rökstutt hlýnun jarðar, þegar hitamælar segðu annað.
Hinn 18. desember birti rússneska fréttastofan Ria Novosti frétt um, að þriðjudaginn 15. desember hefði Institute of Economic Analysis (IEA), Haggreiningastofnunin, í Moskvu birt skýrslu, þar sem segði, að Hadley Center for Climate Change, Hadley-miðstöðin um loftslagsbreytingar, í bresku veðurstofunni í Exeter, Devon, Englandi, hefði misfarið með rússneskar loftslagsupplýsingar.
IEA telur, að niðurstöður rússneskra veðurmælingarstöðva hafi ekki staðfest þá kenningu, að hlýnun jarðar sé af mannavöldum. Veður sé mælt í stöðvum á stærstum hluta Rússland en í Hadley-miðstöðinni hafi menn aðeins notað upplýsingar frá 25% veðurmælingastöðvanna. Meira en 40% af Rússlandi hafi af einhverjum ástæðum verið skilið út undan við mat á hnattrænum hitatölum, þrátt fyrir að tölur af borist frá þessum stöðvum. Tölurnar, sem sleppt var, sýni oft ekki hlýnun eða sáralitla á síðari hluta 20. aldar og á fyrstu árum hinnar 21. IEA segir, að loftslagsfræðingar noti upplýsingar frá stöðvum, sem eru á stórum þéttbýlum svæðum og verði fyrir áhrif frá þéttbýlinu oftar en réttar upplýsingar frá afskekktum stöðvum. Vegna brenglunar á upplýsingum frá Rússlandi, sem sé 12.5% af landrými jarðar, telur IEA nauðsynlegt að endurreikna allar tölur um hita á jörðinni.
Hér skal þetta ekki rakið frekar. Upplýsingarnar úr tölvupóstinum frá Austur-Anglíu og nú þessar fréttir frá Rússum sýna, hve brýnt er að sannreyna allar tölur, sem lagðar eru til grundvallar og notaðar voru í Kaupmannahöfn, þegar rætt var um, hve mikla fjármuni ætti að flytja til þróunarríkjanna. Fréttirnar frá Kaupmannahöfn báru þess merki, að í raun snúist þetta mál ekki síður um peninga en andrúmsloftið, enda ræður maðurinn meira yfir því, hvernig hann ráðstafar fé sínu en hvernig náttúruöflin haga sér.
Vilhjálmur Eyþórsson ritar grein í nýjasta hefti Þjóðmála, sem hann nefnir: Að flýta ísöldinni. Hann færir rök fyrir því, að nær væri að ræða um „endurhlýnun“ en ekki „hlýnun“ jarðar og segir undir lokin:
„Gróðurhúsamenn, Sameinuðu þjóðirnar, þeir „vísindamenn“ sem lögðu nafn sitt við IPCC [Intergovernmental Panel on Climate Change] og ekki síst stjórnmálamenn, hyggjast nú safnast saman í Kaupmannahöfn til að „bjarga jörðinni“. Raunverulegur tilgangur þeirra er að þenja út eigin völd, leggja á nýja skatta og allra helst leggja drög að einhvers konar alheimsstjórn þar sem þeir sjálfir hafi völdin. Um þessa samkundu er best að hafa orð Ólafs pá í Laxdælu: „Það vil eg að þeir ráði sem hyggnari eru. Því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna brögð er þeir koma fleiri saman.““
Hafi verið nauðsynlegt að hittast í Kaupmannahöfn til að „bjarga jörðinni“ er óhugsandi, að ráðstefnan COP15 hefði farið út um þúfur, eins og samt gerðist. Ráðstefnan staðfesti, að málið snýst um annað en bjarga jörðinni. Þetta snýst allt um völd og peninga. Hið versta er, að margvísleg umhverfisvá af mannavöldum eykst á sama tíma og einblínt er á hið óviðráðanlega, náttúruöflin, sem ráða hitastigi jarðar.