1.12.2009

Á fullveldisdegi 2009.

Sögufélag Ísfirðinga gefur í ár út æviminningar séra Sigurðar Stefánssonar, alþingismanns og prests í Vigur, Vigurklerkurinn, en hann andaðist árið 1924.  Séra Sigurður sat á þingi í 37 ár frá 1886 til 1923, alls á 26 þingum. Hann var því virkur þátttakandi í stjórnmálabaráttunni, sem leiddi til þess, að samið var við Dani um fullveldi Íslands 1. desember árið 1918.

Sigurður prestur segir frá því, að á fundum í Reykjavík 1. júlí til 18. júlí 1918 hafi samningar tekist milli viðræðunefnda Íslendinga og Dana. Þingflokkar hafi fylgst með og nær allt þingið tjáð sig fylgjandi niðurstöðunni. Við svo búið hafi þingi verið slitið og boðað saman að nýju 2. september til að leggja fullnaðarsamþykkt á málið. Frumvarpið til sambandslaga hafi verið auglýst og sent út um landið kjósendum til athugunar. Þingið hafi síðan samþykkt það með öllum greiddum atkvæðum gegn tveimur. Hafi það verið þeir Benedikt Sveinsson, þm. Norður-Þingeyjarsýslu, (afi minn) og Magnús Torfason, þm. Ísafjarðarkaupstaðar.  Þeim hafi þótt ákvæði frumvarpsins um jafnrétti Dana við Íslendinga hættulegt. Kjósendum Magnúsar hafi ekki þótt hann komast vel frá greinargerð þess atkvæðis síns á þingmálafundi þá um haustið, enda hafi hann ekki verið kosinn þar aftur við næstu kosningar.

Að lokinni samþykkt alþingis var málið borið undir þjóðaratkvæði 19. október 1918 og samþykkt með 12.411 atkvæðum gegn 999. Ríkisþing Dana hafi samþykkt sambandslögin 22. nóvember og konungur staðfest þau 30. nóvember. Hinn 1. desember 1918 fögnuðu Íslendingar síðan fullveldi og með lögunum var „loks bundinn endi á hina nær 100 ára gömlu stjórnardeilu Íslendinga og Dana með glæsilegum sigri Íslendinga,“ segir séra Sigurður.

Þá segir hann: „En bestu og virtustu stjórnmálamenn Dana höfðu nú varpað frá sér öllum alríkis- og innlimunarkreddum og létu sér loks skiljast, að Íslendingar sem sérstök þjóð hefðu bæði sögulegan og eðlilegan rétt til fullkomins sjálfsforræðis…. Með viðurkenningu fullveldisins var fullkominn siglingafáni sjálffenginn. Máttu þetta teljast hin mestu og bestu tíðindi, sem nokkurn tíma höfðu gjörst í stjórnmálasögu Íslands.“

Sigurður prestur gladdist mjög yfir að honum auðnaðist að taka þátt í endanlegum úrslitum þessa máls.  Honum duldist hins vegar ekki hin mikla ábyrgð, sem fullveldið hafði fyrir þjóðina og heill hennar og væri sæmd hennar undir því komin, að hún kynni að „fara með þennan góða grip,“ eins og hann orðar það.

Leit séra Sigurður svo á, að með fengnu fullveldi 1918 ykist ábyrgð þjóðarinnar, því að nú væri það undir henni sjálfri komið, hvernig henni farnaðist, þar væri engum öðrum til að dreifa. „Henni reið því lífið á að fara gætilega á frumbýlingsárunum og sníða sér stakk eftir vexti, án þess þó að með réttu yrði talað um nokkurn afturkipp eða hnignun í þjóðarbúskapnum fyrir óviturlega ráðabreytni hennar.“

Sigurður prestur segist hafa skipað sér í flokk þeirra, sem vildu huga vel að hverju fótmáli. Aðrir hafi hins vegar litið meira á „vegsaukann en vandann“ og hafi viljað, að íslenska ríkið „semdi sig sem mest að háttum og siðum annarra fullvalda ríkja, sem voru mörg þúsund sinnum fjölmennari og auðugri en þetta litla kotríki. Þeir þóttust þegar sjá gull og græna skóga í stórum hillingum í framtíð hins unga ríkis, sem þeir töldu flesta vegi færa. En slíkir fullveldisdraumar gátu óðara en varði endað með andfælum.“ Fjárhagslegt sjálfstæði væri frumskilyrði fyrir vexti og viðgangi hins unga ríkis. „Án þess var allt fullveldis- og sjálfstæðisskraf hljómandi málmur og hvellandi bjalla, er þegar minnst varði gat snúist í ömurlega líkhringing yfir andlegu og efnalegu sjálfstæði þjóðarinnar.“

Séra Sigurður segir ófriðarárin, sem lauk 1918, hafi að mörgu leyti verið veltiár á Íslandi til lands og sjóar. Árferði í betra lagi og afurðir seldar á geipiverði á heimsmarkaðnum. Þrátt fyrir dýrtíð hefðu framleiðendur grætt stórfé. Í ófriðarlok hafi verið tekið að tala um suma íslenska fésýslumenn sem milljónaeigendur. Á sama tíma hafi óhóf og alls konar bruðl og reiðileysi aukist hjá þorra fólks, einkum þó í Reykjavík. Fólk hafi orðið því nautnasjúkara og frábitnara stöðugri líkamlegri vinnu því meiri peninga, sem það hafði handa á milli. Sá hafi þótt mestur, sem gat fengið sem mest kaup fyrir sem minnsta vinnu. Þá segir:

„Hinir svonefndu alþýðuleiðtogar í Reykjavík blésu og óspart að þessum kolum og vildu láta telja sig verndara og velgjörðarmenn verkalýðsins. Féglæfrar og fjársvik færðust í vöxt. Mest var hugsað um að ná í peninga, en miklu minna á hvern hátt það var gjört eða um skilvísa greiðslu á skuldum sínum. Nýjar verslanir spruttu upp sem arfi í vætutíð. Hvarf fjöldi manna að því ráði frá nytsamlegri framleiðslu og af lítilli forsjá og litlu verslunarviti eða þekkingu. Þessir nýgræðingar höfðu eintóman óþarfa á boðstólum, sem þeir prönguðu út við okurverði í kaupfíkinn almenning. Þegar leið frá ófriðarlokum og peningakreppan tók fyrir alvöru að gjöra vart við sig, hrundi fjöldi þessara náunga niður í gjaldþrotafenið og drógu stundum fleiri og færri lánardrottna sína og ábyrgðarmenn niður í niðurlæginguna. Viðskiptalífið sýktist af þessum framferðum og þeim mönnum fækkaði sem treystandi var sem vönduðum og heiðarlegum mönnum í fjármálum.“

Hér læt ég staðar numið við tilvitnanir í hina fróðlegu og læsilegu ævisögu Vigurklerksins. Frásögn hans á fullt erindi til okkar nú á tímum, þegar íslenska þjóðin stendur í þeim sporum, að þurfa enn og aftur að meta stöðu sína í samfélagi þjóðanna eftir þáttaskil í stjórnmálum og efnahagsmálum. Sigurður prestur var íhaldsmaður í hinni klassísku merkingu þess orðs, hann vildi, að saman færi frelsi og ábyrgð. Verði skil á milli þessa, er voðinn vís, eins og við blasir um þessar mundir hér og í heiminum öllum.

Icesave-samningarnir við Breta og Hollendinga  og meðferð þeirra í höndum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar er alvarlegasta glappaskot íslenskra stjórnvalda í samskiptum við aðrar þjóðir frá 1918. Ástæðulaust er að deila um ástæður eða aðdraganda samninganna.  Málsmeðferð fram að 1. febrúar 2009, þegar þau Jóhanna og Steingrímur J. settust að völdum, er ekki hulin neinum leyndarhjúpi. Hvað svo menn segja um hana, verða þeir að hafa burði til að greina á milli þess og síðan hins, sem birtist í samningum Svavars Gestssonar og félaga, sem voru kynntir fyrir alþingi 5. júní 2009 og þau Jóhanna og Steingrímur J. vildu og virtust sannfærð um, að rynnu þegjandi og hljóðalaust í gegnum þingið. Að minnsta kosti þótti þingflokki Samfylkingarinnar varla taka því að ræða málið.

Hafi verið illa staðið að samningsgerðinni, eins og meirihluti þings taldi að loknum miklum umræðum í sumar og með breytingum á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna samninganna, er framganga ríkisstjórnarinnar gagnvart þingi og þjóð síðustu vikur einfaldlega til háborinnar skammar og stórskaða fyrir þjóðina í bráð og lengd.

Í bók sinni Umsátrinu telur Styrmir Gunnarsson, að hubris eða ofurhroki manna í viðskiptalífinu hafi sýkt meginstoðir íslensks samfélags á þann veg, að peningahluti þess féll. Engu er líkara en ofurhroki ráði ferð hjá Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, þegar hann annars vegar neitar þingmönnum um upplýsingar að baki heimsslitaspám sínum um afleiðingar þess, að Icesave-frumvarp hans verði ekki samþykkt óbreytt, og segir í hinu orðinu, að hann telji þingmenn ekki starfi sínu vaxna.

Ríkisstjórnin neitar öllum breytingartillögum og hefur viðvaranir fræðimanna á sviði lögfræði og hagfræði að engu. Því er meira að segja hafnað, að hlutlaust mat verði lagt á, hvort Icesave-samningarnir standist stjórnarskrá. Minnt hefur verið á, að leitað var eftir slíku mati við gerð EES-samningsins, sem lagði engar sambærilegar fjárhagsbyrðar á þjóðina. Við gerð Schengen-samkomulagsins var tvisvar sinnum leitað eftir áliti hóps lögfræðinga á því, hvort ákvæði þess stæðust stjórnarskrána. Þetta var einnig gert, þegar samkeppnislög voru endurskoðuð fyrir fáeinum árum. Nú eru viðvaranir um að virða stjórnarskrána hafðar að engu.

Við stjórn landsins situr nú fólk, sem vill ekki taka neinum ráðum um samskipti við aðrar þjóðir eða leita samstöðu um þau eins og gert var 1918, heldur telur sig betur til þess fallið að ráðstafa fé almennings en einstaklingarnir, sem skapa fjármunina með vinnu sinni og framleiðslu. Í greinargerð með skattalagafrumvarpi Steingríms J. er dásemdum skattahækkana lýst á þennan hátt:

„Ríkisútgjöld sem fjármögnuð eru með sköttum hafa, þvert ofan í það sem oft er haldið fram, örvandi áhrif á hagkerfið, einkum þegar það einkennist af skorti á eftirspurn þótt þau áhrif séu minni en þegar um lántökur er að ræða. Sá misskilningur virðist algengur að skattheimta samfara útgjaldaaukningu dragi úr eftirspurn í hagkerfinu og leiði til samdráttar. Í reynd er því öfugt farið. Í stað þeirrar einkaneyslu sem dregst saman við skattlagninguna kemur eftirspurn frá ríkinu þegar fénu er ráðstafað.“

Þarna er því blákalt haldið fram, að með þyngri sköttum örvi ríkisvaldið hagkerfið. Hvað sem líður allri hagfræði er í þessum texta ráðist gegn heilbrigðri skynsemi og boðað þjóðfélag, sem lifir á því að éta útsæðið. Hugmyndasmiður þessa texta er líklega sá sami og telur skynsamlegast að leita til samningsaðila sinna í Hollandi og Bretlandi til að fá úr því skorið, hvort gagnrýni þingmanna og sérfróðra manna á Íslandi eða annars staðar á Icesave-samningana eigi við rök að styðjast.

Ríkisstjórnin stefnir að þrennu: 1) að blóðmjólka þjóðina og fyrirtæki með háum sköttum í því skyni að örva hagkerfið; 2) treysta stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu með því að leggja ofurþungar Icesave-byrðar á þjóðina; og 3) styrkja fullveldið með því að afsala sér því innan Evrópusambandsins undir Lissabon-stjórnarskránni, sem tekur gildi 1. desember 2009.

Sigurður Stefánsson,Vigurklerkur, taldi tæplega100 ára stjórnadeilu  þjóðarinnar  um sjálfstæði sitt við aðra lokið 1. desember 1918. Eins og Icesave-samningarnir bera með sér fer því víðsfjarri. Nú er því hins vegar harðneitað, að þjóðin skuli spurð, hvort hún vilji axla þessar byrðar.  Þótt um 20 þúsund manns hafi skorað á Ólaf Ragnar Grímsson að synja Icesave-frumvarpi Steingríms J., er borin von, að hann grípi til þess ráðs. Vinir Ólafs Ragnars áttu í hlut, þegar hann hafnaði fjölmiðlafrumvarpinu, þótt hann láti nú eins og hann hafi verið blekktur af útrásarvíkingum. Vinir Ólafs Ragnars sitja nú í ríkisstjórn og þurfa ekki einu sinni að beita hann blekkingum, til að hann létti undir með þeim við að setja skulda- og skattafjötra á þjóðina.

91 ári síðar, 1. desember 2009,  stendur íslenska þjóðin í þeim sporum, að ríkisstjórn Íslands er helsti óvinur þess, að þjóðin haldi reisn og efnalegum styrk inn á við og út á við, svo að ekki sé minnst á fullveldið sjálft. Að þannig skuli hafa verið vikið af leið vegna hruns fjármálakerfis er í raun sorglegri afleiðing þess en allt annað, sem á þjóðinni hefur dunið.  

Sigurður prestur sagði um sambandslögin frá 1. desember 1918:  „Máttu þetta teljast hin mestu og bestu tíðindi, sem nokkurn tíma höfðu gjörst í stjórnmálasögu Íslands.“

Nú 1. desember 2009 stöndum við frammi fyrir verstu ótíðindum stjórnmálasögunnar og verður skömm þeirra, sem knýja þau fram, jafnmikil og þakklætið til þeirra, sem stóðu að sambandslögunum 1918.