Andlit og rödd Evrópusambandsins.
Í aðdraganda þess, að valið var í embætti forseta Evrópusambandsins (ESB) og utanríkisráðherra, var rætt um, að til þessara starfa skyldu veljast einstaklingar, sem nytu trausts vegna alþjóðaathygli, reynslu og þekkingar. Lengst af var rætt um Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, sem forseta ESB og mann á borð við Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, sem utanríkisráðherra ESB. Báðir hafa þeir verið óþreytandi við að láta að sér kveða, þótt hvorugur væri í framboði, enda ekki til þess ætlast í launhelgum ESB. Þar setjast leiðtogar ríkjanna til málsverðar með dýrum vínum og komast að niðurstöðu um mál af þessum toga. Yfirlýst framboð þykja veisluspjöll í orðsins fyllstu merkingu.
Þegar leiðtogarnir hittust yfir kvöldverði í Brussel 19. nóvember, var búist við, að hann gæti dregist á langinn, því að ágreiningur kynni að skapast um val á mönnum og helst ætti að haga aðferðinni við að finna fólk í embættin á sama hátt og kardínálar gera í leit að páfa: Ekki fara út á meðal annarra, fyrr en hinn rétti væri samhljóða fundinn. Fréttir hermdu að þrjú teymi túlka hefðu verið kölluð til starfa vegna málsverðar leiðtoganna og hefðu þeir því getað haldið samræðum áfram alla nóttina, án þess að skorta þýðingaþjónustu.
Þegar til kastanna kom, var málsverðurinn stuttur og menn höfðu varla haft tíma til að snerta koníakið, áður en valinu var lokið. Herman Van Rompuy, 62ja ára forsætisráðherra Belgíu, varð forseti ESB og hin 53ja ára barónessa Catherine Ashton, viðskipta- og peningamálastjóri ESB, varð utanríkisráðherra.
Carl Bildt heldur úti vefsíðu og af dagbókarfærslu hans 20. nóvember verður ráðið, að hann hafi bæði orðið undrandi og reiður vegna niðurstöðunnar í Brussel. Hann er ekki einn um þessi viðbrögð. Þau einkennast alls staðar af undrun og víða hneykslan. Bildt gagnrýnir að sjálfsögðu ekki aðferðina, enda stjórnaði forsætisráðherra Svíþjóðar henni. Það gera hins vegar margir aðrir og segja með ólíkindum, að afdrifaríkar ákvarðanir sem þessar séu teknar á þennan hátt.
Hinn heimskunni breski álitsgjafi William Rees-Mogg segir í The Times í London sl. laugardag, að aðferðin við val á hinum háttsettu embættismönnum ESB hafi verið „móðgun við lýðræðið“. Hann segir, að Lissabon-sáttmálinn hafi skapað fleiri vandamál en hann leysti. Nauðsynlegt sé að endurskoða enn og aftur stjórnkerfi ESB. Evrópu-efasemdamennirnir, sem hafi óskað eftir slíkri endurskoðun, séu ekki óvinir Evrópu heldur hinir raunverulegu vinir hennar.
Leiðtogar ESB-ríkjanna eiga síðasta orðið um, hver sest þar á forsetastól. Augljóst er, að Þjóðverjar, Frakkar og Bretar ákváðu að halda ákvörðun um þetta í sínum höndum. Hvorki Angela Merkel né Nicolas Sarkozy vildu mann á forsetastólinn, sem gæti varpað skugga á þau. Gordon Brown var ekki eins upptekinn af þessum þætti, enda ólíklegt að hann sitji lengi enn sem forsætisráðherra. Hann vildi hins vegar fá eitthvað í skiptum fyrir, að Tony Blair var ýtt til hliðar og þess vegna varð flokkssystir hans, lafði Ashton, fyrir valinu sem utanríkisráðherra. Lafðin verður varaforseti framkvæmdastjórnar ESB og á það undir þingi Evrópusambandsins (ESB-þinginu) að hljóta samþykki til þess starfs. Innan þingsins ræða einhverjir þingmenn um að lýsa á hana vantrausti.
Um helgina var skýrt frá því, að Frakkar hefðu tryggt sér framkvæmdastjórastöðuna, sem lafði Ashton gegndi og Bretinn Peter Mandelson á undan henni. Stuðningur Frakka við lafðina sem utanríkisráðherra var sagður hafa byggst á loforði Gordons Browns um, að Bretar féllu frá kröfu um að halda í stöðu viðskipta- og peningamálastjóra ESB. Sumir túlka sókn Frakka eftir þessu embætti sem staðfestingu á því, að þeir ætli að gera atlögu að hinu engil-saxneska viðskipta- og fjármálakerfi í heild með það að sérgreindu markmiði, að lækka risið á City í London, það er flytja alþjóðlega og evrópska fjármálastarfsemi frá London til Parísar.
William Hague, talsmaður breska Íhaldsflokksins, hefur ritað bréf til Davids Milibands, utanríkisráðherra, og krafist upplýsinga um samninginn við Frakka. Miklir breskir hagsmunir séu í húfi á sviði efnahags- og fjármála. Frakkar hafi ólík viðhorf til markaðsmála en Bretar og kynni það að skaða mikilvæga breska hagsmuni í efnahags- og fjármálum. Talsmenn bresku ríkisstjórnarinnar vísa vangaveltum af þessum toga á bug.
Í breska blaðinu The Mail on Sunday er sagt frá því, að Peter Mandelson telji lafði Ashton í „léttavigt“ og hann sé „bálreiður“ yfir því, að Brown hafi haft ráð sín að engu um að óska frekar eftir lykilembætti á sviði efnahagsmála fyrir fulltrúa Bretlands en utanríkisráðherraembættinu. The Sunday Times í London segir hins vegar, að Mandelson hafi persónulega látið að sér kveða til að hvetja fulltrúa ESB-ríkja til að styðja hann sjálfan til að verða ESB-utanríkisráðherra.
Í The Sunday Times er sagt frá því, að lafði Ashton fái 270 þúsund evrur (49,5 m. kr.) í árslaun sem ESB-utanríkisráðherra og þar með hærri laun en Gordon Brown. Hún hafi bíl með bílstjóra, staðaruppbót og 20 manna starfslið á einkaskrifstofu sinni og heimili. The Mail on Sunday segir, að alls verði tekjur hennar um 4 milljónir punda (813 m. kr.) á þeim tíma, sem hún starfi í Brussel.
Lafði Ashton stjórnar utanríkisþjónustu Evrópusambandsins en í upphafi eru starfsmenn hennar um 5.000 og talið er, að á skömmum tíma verði þeir allt að 7.000 í 130 ríkjum. Ákveðið hefur verið að 10 til 12 manna sendiráð ESB verði stofnað hér á landi í byrjun næsta árs.
The Sunday Times hefur eftir Javier Solana, fráfarandi yfirmanni utanríkismála innan ESB, að utanríkisþjónusta ESB verði „stærsta utanríkisþjónusta í heimi“ og muni kosta skattgreiðendur 45 milljarða punda ( rúma 9000 milljarða ísl. kr.) frá árinu í ár til 2013. Bent er á, að árleg fjárveiting til bresku utanríkisþjónustunnar nemur 2 milljörðum punda (406 milljörðum kr.) á ári og stefnir breska fjármálaráðuneytið að því að skera hana niður um 20% á næstu tveimur árum.
Í sumum bresku blaðanna var um síðustu helgi vakið máls á því, að á áttunda áratugnum hefði Catherine Ashton verið virkur þátttakandi í bresku baráttusamtökunum gegn kjarnorkuvopnum, CND, en þau nutu stuðnings kommúnista og vildu úrsögn Breta úr NATO.
Í Süddeutsche Zeitung í München er sagt frá því, að ESB-þingið kunni að tefja fyrir því, að lafði Ashton geti hafið störf í framkvæmdastjórn ESB. Blaðið vitnar til Alexanders Graf Lambsdorffs, ESB-þingmanns frjálslyndra í Þýskalandi, sem segi: „Ef ákveðum, að hún sé ekki hæf til að gegna embætti varaforseta framkvæmdastjórnarinnar, getur hún ekki orðið utanríkisráðherra.“ Á vefsíðunni EUobserver segir: „Ef ESB-þingmenn snúast gegn henni að lokinni yfirheyrslu í þinginu, er óljóst hverjar lögfræðilegar afleiðingar verða.“
Þótt frjálslyndir ESB-þingmenn séu andvígir lafði Ashton dugar það ekki til að ýta henni til hliðar. Samstaða um það þarf að verða breið á ESB-þinginu og þingflokkur sósíalista stendur örugglega að baki henni. Gordon Brown fékk sem sósíalisti umboð þeirra Merkel og Sarkozys til að velja einn úr sínum hópi sem utanríkisráðherra. Hann lagði þrjú nöfn fyrir evrópska sósíalista að sögn þýska vikuritsins Der Spiegel: Peters Mandelsons, sem nú er viðskiptaráðherra í stjórn Browns, Geoffs Hoons, sem var varnarmálaráðherra við upphaf Írakstríðsins, og lafði Ashton, hinnar líttþekktu framkvæmdastýru ESB. Sósíalistarnir völdu Ashton og hægri-miðhópurinn lagði blessun sína yfir hana að hvatningu Angelu Merkel. Sá hópur valdi Van Rompuy. Allt var afgreitt samhljóða.
Der Spiegel segir, að nú sé kona án nokkurrar reynslu á sviði utanríkismála orðin fyrsti utanríkisráðherra Evrópu. Hún hafi á síðasta stigi stjórnmálaferils síns í Bretlandi verið pólitískur leiðtogi Verkamannaflokksins í lávarðadeildinni og gegnt lykilhlutverki við að fá Lissabon-sáttmálann samþykktan þar. Hún ætli að takast á við hið nýja starf sitt á sama hátt og fyrri störf – af hljóðlegri lagni. „Er ég egóisti á tveimur fótum? Nei, ég er það ekki,“ sagði hún kvöldið, sem hún var valin.
Að sögn Der Spiegel gengur nýr forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Van Rompuy, fram af hógværð, en sagt er, að hann búi yfir einstökum hæfileikum til að ná niðurstöðu í erfiðum samningum. Hann ætli sér að geðjast öllum í framtíðinni. „Sérhvert ríki að á koma sem sigurvegari frá samningagerð,“ sagði Van Rompuy og er ekki að efa, að formaður ESB-viðræðunefndar Íslands hefur glaðst við að heyra eða lesa þau orð.
Van Rompuy er stundum kallaður „Haiku Herman“ vegna tómstundaiðju sinnar, að skrifa ljóð að japanskri fyrirmynd. Van Rompuy lýsir lífsreynslu sinni á þennan hátt í einni af haikum sínum: Hár blaktir í vindi/ árin líða og enn er vindur/því miður ekkert hár.
Ef til vill yrði það til að styrkja samningsstöðu Íslands að senda Van Rompuy ferskeytlu?