Hrun Berlínarmúrsins.
Á morgun, 9. nóvember, verður þess minnst, að 20 ár verða liðin frá hruni Berlínarmúrsins. Í fyrstu utanlandsferð minni fór ég til Berlínar með föður mínum og Eyjólfi K. Jónssyni, sem þá var framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins. Þeir sóttu fund í Vestur-Berlín og var hann haldinn í Kongresshalle í Tiergarten, ekki langt frá þinghúsinu. Ég var þarna, áður en Berlínamúrinn var reistur 13. ágúst 1961 en Kongresshalle var reist 1957. Um húsið sagði ég í fyrirlestri hjá Sagnfræðingafélagi Íslands 16. september 2008:
„Í Berlín má enn þann dag í dag sjá margt til minja um kalda stríðið, meðal annars Kongresshalle, ráðstefnuhöll, í Tiergarten, skammt frá þýska þinghúsinu, Reichstag. Bandaríkjastjórn gaf Berlínabúum þetta einstaka hús árið 1957.
Eleanor Dulles, Berlínarfulltrúi bandaríska utanríkisráðuneytisins, systir Johns Fosters, utanríkisráðherra, og Alans, yfirmanns CIA, er kölluð „móðir“ hússins og jafnvel Vestur-Berlínar. Án frumkvæðis Eleanor og dugnaðar er talið, að borgin hefði aldrei fengið nafngiftina höfuðborg kalda stríðsins. Hún barðist fyrir því, að Vestur-Berlín yrði alls ekki Sovétmönnum að bráð og með Kongresshalle reisti hún sýnilegt og glæsilegt tákn um staðfastan vilja Bandaríkjamanna til stuðnings Berlínarbúum.
Byggingarlistin var notuð sem vopn í kalda stríðinu eins og aðrar listgreinar. Í Austur-Berlín beittu kommúnistar henni sér til dýrðar með uppbyggingu við Stalinallee. Fyrstu mannvirki þar komu til sögunnar í janúar 1952 og þar hreyktu menn sér af glæsibyggingum í þágu alþýðunnar og bentu á rústirnar í Vestur-Berlín til marks um, að kommúnismi væri skilvirkari en kapítalismi.
Þegar vestur-þýska þingið kom saman í Berlín funduðu þingmennirnir í Kongresshalle til að árétta órjúfanleg stjórnmálatengsl Vestur-Berlínar og Vestur-Þýskalands. Þótti stjórnendum Austur-Þýskalands sér storkað með þessum þingfundum og sendu fylkingar af MiG 19 og MiG 21 orrustuþotum yfir höllina í minna en 100 metra hæð og rufu þær hljóðmúrinn beint yfir höfðum þingmannanna.“
Þakið á Kongresshalle hrundi en húsið hefur verið endurreist og stendur enn sem virðulegur og sérstæður fulltrúi síns tíma. Þegar við vorum í Berlín á þessum tíma, var unnt að komast á milli austur – og vesturhluta borgarinnar stórvandræða. Var lærdómsríkt að kynnast hinum mikla mun á lífi og háttum, sem var öllum sýnilegur, þótt sama þjóð byggi í báðum hlutum borgarinnar. Annað þjóðfélagskerfið keflaði framtak borgaranna, hitt ýtti undir frumkvæði og framkvæmdir.
Ég kom nokkrum sinnum til Berlínar, eftir að múrinn var reistur. Ók til dæmis einu sinni með Rut og börnunum frá Vestur-Þýskalandi til Vestur-Berlínar. Hvarvetna við hraðbrautina voru lögregluverðir og aðeins útlendingum var heimilt að versla í Intourist verslununum við veginn.
Skömmu eftir að múrinn féll, eða í janúar 1990, fór ég með góðum vinum akandi frá Braunschweig í Vestur-Þýskalandi um austurhlutann til Prag og þaðan aftur vestur yfir landamærin til Bæjaralands. Ég skrifaði nokkrar greinar um þessa ferð í Morgunblaðið og voru þær endurbirtar í bókinni Í hita kalda stríðsins.
Á fyrstu árum mínum sem þingmaður sat ég á þingi Evrópuráðsins í Strassborg og tók þátt í nefndarstörfum á þess vegum. Þá var lögð nokkur áhersla á að halda nefndarfundi í nýjum aðildarríkjum ráðsins, það er í Eystrasaltslöndunum, Póllandi og austurhluta Þýskalands.
Ferð til Weimar, Jena og Erfurt í Þýsklandi er eftirminnileg. Þar mátti kynnast því, hve íbúarnir voru stoltir yfir því, að hin sósíalíska byggingarlist austur-þýskra kommúnista hafði ekki náð að teygja sig til þessara borga og unnt var að gera við niðurnídd hús í sinni upprunalegu gerð. Endurreisn húsanna sýndi, hvernig því miðaði að færa líf fólks í það, sem kalla mætti nútímalegt horf, þótt ekki væri annað gert en mála húsin og gera við skemmdir á þeim, sem margar voru frá því í stríðinu hálfri öld áður.
Vinsælt viðfangsefni skipulags- og byggingarfræðinga kommúnista var að sprengja kirkjur í loft upp og reisa ný mannvirki á rústum þeirra eða afhelga kirkjur og nýta þær sem söfn eða til annarra veraldlegra hluta. Í Leipzig stóð til dæmis Háskólakirkjan í hjarta borgarinnar við torg, sem kommúnistar nefndu Karl Marx Platz, en heitir nú Augustusplatz. Þessi kirkja var eyðilögð árið 1968 og á rústum hennar reis síðan Karl Marx háskólinn, nú Leipzig háskóli.
Á áttunda áratugnum reistu stjórnvöld í Austur-Þýskalandi stórhýsi við ána Spree í hjarta síns hluta Berlínar, Palast der Republik, Lýðveldishöllina. Þar kom þing landsins, Volkskammer, saman, þar var leikhús, listasafn og veitingastaðir . Skömmu fyrir sameiningu Þýskalands árið 1990 ákvað Volkskammer að loka Lýðveldishöllinni vegna hættu af asbestmengun. Var hreinsun á asbesti lokið árið 2003. Þá samþykkti þýska þingið, að húsið skyldi rifið og átti það að verða horfið árið 2006. Þegar ég var síðast í Berlín í ágúst 2008 var enn verið að rífa Lýðveldishöllina en framkvæmdir á lokastigi. 35.000 tonn af stáli, sem myndaði burðarvirki byggingarinnar, var flutt til Sameinuðu arabísku furstadæmanna, þar sem það er notað í nýbyggingar.
Nikulásar-kirkjan í Leipzig varð heimsfræg í aðdraganda þess að múrinn hrundi, því að þar kom fólk til bæna og samfunda hvert mánudagskvöld, án þess að yfirvöld fengju rönd við reist. Þegar ég kom í kirkjuna í janúar 1990, var hún einskonar pílagrímastaður og nú er hún minningarkirkja hinna heimssögulegu breytinga.
Breytingarnar hafa valdið friðsamlegum þáttaskilum í sögu Evrópu. 10 fyrrverandi kommúnistaríki hafa gengið í Evrópusambandið: Slóvenía, Tékkland, Slóvakía, Eistland, Ungverjaland, Litháen, Lettland, Pólland, Rúmenía og Búlgaría. Hér eru þau nefnd í þeirri röð, sem lýsir landsframleiðslu þeirra á mann, en þar er Slóvenía örugglega í fyrsta sæti.
Auk ofangreindra kommúnistaríkja hafa Albanía og Króatía gengið í Atlantshafsbandalagið (NATO) síðan Berlínamúrinn hrundi. Króatía er á fyrsta stigi ESB-aðildar en Albanía bíður þess að framkvæmdastjórn ESB leggi mat á umsóknar- og aðildarhæfni landsins.
ESB- og NATO-aðild hefur verið liður í lýðræðisvæðingu þessara ríkja og með frjálsum viðskiptum, afnámi gjaldeyrishafta, frjálsu verðlagi og frelsi á vinnumarkaði hefur frumkvæðiskraftur vaknað meðal þjóðanna. Aðeins þeir, sem voru yfir sextugt, höfðu kynnst opnum og frjálsum þjóðfélögum á yngri árum. Stjórnvöld höfðu innrætt hinum, að kapítalistar líktust mannætum.
Hrun kommúnismans hefur leyst þjóðerniságreining úr læðingi í mörgum ríkjum. Þannig skiptist Tékkóslóvakía fljótlega í tvö ríki, Tékkland og Slóvakíu, Rúmenar og Ungverjar hafa deilt um landamæri sín, Slóvakar og Ungverjar eru ekki á eitt sáttir, Króatar og Slóvenar deila um strandsvæði við Adríahaf og miðlínu milli landanna og þannig má áfram telja. Hvergi hefur verið gripið til vopna nema í Júgóslavíu fyrrverandi. Talið er að um 140 þúsund manns hafi fallið vegna átaka þar. Evrópusambandið hafði ekki burði til að stilla þar til friðar og tókst það ekki fyrr en eftir íhlutun Bandaríkjamanna undir merkjum NATO.
Fráleitt er að bera þörf þjóðanna í A-Evrópu fyrir aðild að ESB saman við það, sem er að gerast hér á landi, eða líkja bankahruninu hér við vanda þessara þjóða eftir hrun Berlínarmúrsins og upplausn Sovétríkjanna 1991. Hefði ESB ekki rétt þjóðunum hjálparhönd, hefði sambandið brugðist meginhlutverki sínu, og eru líkur á, að hið sama kynni að hafa gerst í þeim og eru merki um í Úkraínu og Georgíu, að rússnesk drottnunarstefna færist smátt og smátt í aukana.
Fáir hafa ritað af meira innsæi um atburðina 1989 en Timothy Garton Ash. Hinn 5. nóvember birtist fyrri hluta úttektar á bókum um þessa sögu í The New York Review of Books. Þar segir hann, að ekki sé unnt að skilja atburðina 1989 nema með því að rekja af nákvæmni og í tímaröð fjölmörg atvik og raða þeim saman dag frá degi eða jafnvel mínútu eftir mínútu, þar með því, sem gerðist að kvöldi 9. nóvember í Berlín. Þar skipti til dæmis miklu að kynna sér fréttir sjónvarps, hvort sem þær séu réttar eða rangar. Í 22.30 fréttum vestur-þýskrar sjónvarpsstöðvar að kvöldi 9. nóvember hafi þaulreyndur og trúverðugur fréttaþulur sagt : „hliðin á múrnum eru galopin“, þótt þau væru það ekki enn. Frásögn hans knúði á um að þau yrðu opnuð, því að við hana fjölgaði Austur-Þjóðverjum, sem vildu komast til vesturs, og Vestur-Þjóðverjunum, sem streymdu að múrnum til að fagna fólkinu að austan. Röng frétt í Radio Free Europe um að námsmaður, Martin Śmid, hafi verið drepinn 17. nóvember 1989, þegar lögregla braut stúdentamóltmæli á bak aftur í Prag, hafi eflt mótmælin, sem leiddu að lokum til Flauelsbyltingarinnar í Tékkóslóvakíu. Þar stóðu 300 þúsund manns á götum úti í desember 1989 og hristu lyklakippur, minnti það Timothy Garton Ash helst á litlar jólabjöllur. Hann spyr: Hver var fyrstur til að taka lyklakippu úr vasa sínum og hrista hana?
Hér skal ekki lengra haldið með þessa merkilegu sögu. Líklega er það til marks um, hve við Íslendingar eigum í raun litla sögulega samleið með þessum þjóðum í Mið- og Austur-Evrópu, hvað við höfum látið hana okkur litlu skipta.