17.10.2009

ESB setur reglur gegn Icesave.

 

Þegar Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sat fund með ráðherrum EES-ríkjanna í Brussel í október 2008 eftir bankahrunið komust ráðherrarnir að niðurstöðu um, að gerðardómur skyldi fjalla um deilur Íslendinga og Breta vegna Icesave-reikninganna. Eftir að ákvörðun ráðherranna fór til meðferðar hjá embættismönnum, hóf lagaþjónusta Evrópusambandsins (ESB) afskipti af málinu. Fyrir tilstilli hennar voru kynntar reglur um gerðardóminn og niðurstöður hans, sem voru þess eðlis, að Árni lagði til við ríkisstjórnina, að Ísland segði sig undan gerðardóminum.

Við þetta skýrðist betur en áður, hve regluverk ESB um banka með starfsstöðvar í fleiri en einum löndum var gallað. Framkvæmdastjórn ESB óttaðist, að yrði látið reyna á þessar reglur fyrir dómi, myndi bresturinn í þeim draga  mun stærri dilk á eftir sér en tengdist falli íslensku bankanna, þess vegna bæri að knýja fram lausn gagnvart Íslendingum á pólitískum grundvelli. Um þetta snúast Icesave-samningarnir, sem ríkisstjórn og alþingi hafa enn til meðferðar, þótt þeir hafi verið lagðir fram 5. júní sl. á þann veg, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur taldi þá mundu fljúga í gegnum þingið.

Síðustu sólarhringa hefur verið látið eins og ný niðurstaða sé að fæðast í Icesave-málinu eftir orðsendingaskipti milli ríkisstjórna Íslands, Hollands og Bretlands. 

Innan Evrópusambandsins hefur verið unnið að því að móta nýjar reglur til að koma í veg fyrir, að hið sama geti gerst og varð, þegar Fortis-banki og íslensku bankarnir hrundu í október 2008. Belgíska blaðið La Libre Belgique birti eftirfarandi frétt 16. október:

„Að mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) hefur fjármálakrísan meðal annars sýnt, að ESB ræður ekki yfir neinum tækjum til að bregðast við vanda, sem stafar af rekstri fjármálafyrirtækja með starfsstöðvar í fleiri en einu landi innan vébanda ESB. Vill framkvæmdastjórnin, að settar verði sérstakar evrópskar reglur um starfsemi af þessu tagi. Brussel.

Framkvæmdstjórn ESB segir í nýrri skýrslu, að gjaldþrot fjármálastofnana eigi ekki lengur að vera  „bannorð“ innan ESB,  enda verði búið svo um hnúta, að mönnum sé gert kleift að glíma á réttan hátt við afleiðingar gjaldþrotsins og þeir geti takmarkað efnahagslegar afleiðingar þess. Lærdóminn í skýrslunni, sem verður kynnt í næstu viku, dregur framkvæmdastjórnin  af bankakrísunni á síðasta ári, þegar sumum bönkum, sem voru „of stórir til að falla“ hafi verið haldið á floti með miklu almannafé.

Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar segir „að það verði að tryggja, að alltaf sé unnt bæði á grundvelli stjórnmála og efnahagsmála að gera bankastofnun gjaldþrota, án tillits til stærðar hennar.“ Þetta sé þó ekki framkvæmanlegt nema tryggt sé, að „tapið lendi fyrst á hluthöfum og síðan kröfuhöfum í stað stjórnvalda og skattgreiðenda“, „ að innistæður séu varðar og unnt sé að veita banka- og greiðsluþjónustu“, „að afleiðingar gjaldþrotsins séu takmarkaðar með skýrum lagareglum.“

Framkvæmdarstjórnin beinir athygli sinni sérstaklega að hinum viðkvæma vanda tengdum vandræðum fjármálastofnana, sem starfa í fleiri en einu landi. Dæmi um slíkt eru örlög hollensk/belgíska banka- og tryggingafélagsins Fortis í fyrra. Fortis var að lokum sundrað og hvort ríki um sig tók að sér að greiða úr vanda félagsins stig af stigi. 

Framkvæmdastjórnin segir, að fjármálakrísan hafi einkum „leitt í ljós, að ESB skortir tæki til að bregðast á raunhæfan hátt við vanda, sem steðjar að fjármálastofnunum með starfsstöðvar í fleiru en einu landi.“ Ætlar framkvæmdastjórnin að setja evrópskar reglur, sem gilda sérstaklega um slíkar fjármálastofnanir. Þar verði mælt fyrir um samstarf stjórnvalda einstakra ríkja, skyldur þeirra til íhlutunar, hvaða tæki þau hafi til þess og hvernig ríkin, sem í hlut eiga ákveða í fjárlögum skiptingu á kostnaði sín á milli vegna  aðstoðar við fjármálastofnanir, reynist hún nauðsynleg. Framkvæmdastjórnin setur líka fram hugmynd um að stórar fjármálastofnanirnar með starfsstöðvar í mörgum löndum  undirbúi „gjaldþrotaáætlun“ , einskonar „erfðaskrá“ um það hvernig binda megi á skömmum tíma enda á starfsemi þeirra og koma eignum þeirra í verð

Framkvæmdastjórnin er einnig þeirrar skoðunar, að stjórnvöld eigi að ráða yfir fleiri tækjum en þeim að þurfa að velja á milli gjaldþrots og opinberra styrkja. Aðrar lausnir fælust í því að krefjast niðurskurðar hjá viðkomandi fjármálastofnun, breytinga á stjórn hennar, að annað einkarekið fyrirtæki tæki að sér hluta starfsemi hennar eða hana alla, eða um tímabundin tengsl við aðra fjármálastofnun yrði að ræða eða greint yrði á milli góðra og lélegra eigna (goodbank/badbank).  Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar segir: „Atburðarásin sem leiddi til falls Fortis, Lehmans og íslensku bankanna í nýlegri krísu sýnir, að skortur var og er á úrræðum til að viðhalda fjármálastöðugleika innan bankakerfis ESB.“  Nýju reglurnar um banka með starfsstöðvar í mörgum löndum eru til fyllingar þeim áformum, sem hafa þegar verið kynnt  að því er varðar yfirumsjón, meðal annars með því að stofna sérstaka evrópska áhættunefnd til greina hættu á greiðsluþroti.

Þeim  aðgerðum, sem hér hafa verið kynntar, er einkum ætlað að ná til starfsemi viðskiptabanka, en þær gætu síðar náð til fjárfestingafélaga og jafnvel tryggingafélaga. Framkvæmdastjórnin mun fyrst ræða við aðila. sem hafa beinna hagsmuna að gæta, í því skyni, að tillögur í skýrslunni verði að lögum á næsta ári.“

Á sama tíma og embættismenn Hollands og Bretlands togast á við íslenska embættismenn um Icesave-niðurstöðuna, liggur fyrir skýr niðurstaða innan ESB um, að ESB-regluverkið á þessu sviði er meingallað. Af þessu sést enn, hve fráleitt er fyrir Íslendinga að gangast undir Icesave-afarkostina.