30.9.2009

Upphaf að pólitískum endalokum Jóhönnu.

 

Óvenjulegt er, að ráðherra segi af sér embætti vegna ágreinings um pólitísk álitaefni. Ögmundur Jónasson sagði af sér embætti heilbrigðisráðherra 30. september 2009.  Hann tilkynnti Jóhönnu Sigurðardóttur þetta rétt fyrir hádegi.

Síðast gerðist sambærilegur atburður 21. júní 1994 klukkan 09.30, þegar Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnti Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, að hún segði af sér embætti félagsmálaráðherra. Jóhanna gaf þá skýringu á málinu, að hún gæti ekki sinnt ráðherrastörfum með hendur sínar reyrðar fyrir aftan bak. Vísaði hún þar til ágreinings við Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra og formann Alþýðuflokksins. Í samtali við Agnesi Bragadóttur, blaðamann á Morgunblaðinu, sem birtist 26. júní 1994 gaf Jóhanna einnig þessa skýringu á afsögn sinni:

„Ágreiningur minn í ríkisstjórn, er að hluta til út af vinnubrögðum. Það gerist til dæmis einatt þannig, að það er komið að því að afgreiða þýðingarmikil mál á ríkisstjórnarfundi, að fyrst þá er málið kynnt fyrir öðrum ráðherrum en viðkomandi fagráðherra. Ég tel að menn eigi að byrja á því að ræða saman um hvernig taka eigi á málum og móta til þeirra afstöðu, hvaða áherslur eigi að leggja og hvað eigi að hafa forgang… Ég er viss um að menn munu staðfesta að ég er ekkert ósveigjanleg, þegar leitað er að málamiðlun. Ég hef oft staðið í því, eins og auðvitað verður að gerast í samsteypustjórnum."

Jóhönnu var veitt lausn föstudaginn 24. júní 1994 á ríkisstjórnarfundi og án þess að ríkisráðið yrði kallað til fundar. Kvaddi Jóhanna Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands, á einkafundi þeirra að loknum ríkisstjórnarfundinum. Lýsti Jóhanna undrun yfir þessari aðferð. Ráðherrum í ríkisstjórninni fækkaði úr 10 í níu við þessa breytingu, því að Guðmundur Árni Stefánsson lét af störfum heilbrigðisráðherra og tók við embætti félagsmálaráðherra en Sighvatur Björgvinsson, viðskipta- og iðnaðarráðherra, varð jafnframt heilbrigðis- og tryggingarráðherra. Jóhanna stofnaði eftir þetta Þjóðvaka til höfuðs Alþýðuflokknum, enda taldi hún hann ekki rúma hana og Jón Baldvin.

Ögmundur Jónasson skýrir ákvörðun sína með vísan til frétta fjölmiðla 30. september. Á forsíðu Fréttablaðsins segir:

„Náist ekki samstaða um lyktir Icesave-málsins innan ríkisstjórnarflokkanna í vikunni er ríkisstjórnarsamstarfinu sjálfhætt. Þetta er mat Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hefur misst alla þolinmæði vegna málsins, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins…..

Jóhanna sagði eftir ríkisstjórnarfund í gær að áður en ákveðið yrði hvort Icesave-samningarnir færu aftur fyrir Alþingi þyrfti að vera ljóst hvort ríkisstjórnin hefði meirihluta fyrir málinu í þinginu. Það yrði að fást á hreint í vikunni. Spurð hvort stjórnin mundi falla næðist ekki samstaða sagði hún að þá yrði að skoða stöðuna upp á nýtt. Ekki fór á milli mála að þar beindi hún spjótum sínum að Ögmundi og öðrum efasemdarmönnum um Icesave-málið innan VG.

Ljóst er af orðum Ögmundar Jónassonar, að hann hefur litið á þessi orð Jóhönnu sem hótun, sem hann vildi ekki una. Í viðtölum við fjölmiðla eftir fund sinn með Jóhönnu hefur hann gagnrýnt vinnubrögð innan ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu og skort á vilja af hálfu Jóhönnu til að ræða málið við alþingi með það í huga að ná víðtækri sátt. Ögmundur getur sagt eins og Jóhanna 1994, að hann uni því ekki að starfa sem ráðherra með hendur sínar reyrðar fyrir aftan bak.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sat út kjörtímabilið og fram að kosningum 1995 en að þeim loknum rofnaði samstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og við tók 12 ára stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Hér skal því haldið fram, að Jóhanna Sigurðardóttir sé ekki jafnlipur leiðtogi ríkisstjórnar og Davíð Oddsson var 1994, þegar hann stýrði ríkisstjórninni áfram, þrátt fyrir upplausn og ágreining innan Alþýðuflokksins. Líklegt er, að afsögn Ögmundar sé ekki aðeins upphafið að endalokum ríkisstjórnar Jóhönnu heldur einnig formennsku hennar í Samfylkingunni.

Þegar Ingibjörg Sólrún krafðist þess af Geir H. Haarde 26. janúar 2009, að Jóhanna yrði forsætiráðherra sprengdi hún samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Færa má fyrir því rök, að Jóhanna hafi verið valin til forystu í Samfylkingunni, af því að vitað væri, að ekki yrði neinn friður um stjórnarsamstarf, sæti hún utan stjórnar eða innan stjórnar í útgjaldaráðuneyti.

Í viðtali Agnesar við Jóhönnu í júní 1994 kvartar Jóhanna undan því reynt sé að koma á sig þeim stimpli í fjölmiðlum, að hún sé „bara frekja og fýlupoki“ þetta sé alrangt. Agnes spyr Jóhönnu, hvort hún hafi verið tilbúin til að axla sinn hluta af erfiðum ákvörðunum, svo sem niðurskurði, þegar kallað hafi verið eftir auknum sparnaði í ríkiskerfinu. Jóhanna segist svara þessu „hikstalaust neitandi“. Hún kvartar undan því, að vera ranglega talin „einn af þessum útgjaldafreku ráðherrum“.

Sú afstaða, sem reifuð eru í þessu viðtali Agnesar og Jóhönnu fyrir 15 árum, loðar enn við Jóhönnu meðal samflokksmanna hennar. Þeir töldu sig losna undan kveinstöfum hennar og kröfurgerð með því að gera hana að forsætisráðherra og síðan formanni. Í þeirri stöðu nýtur Jóhanna sín hins vegar ekki á neinn hátt og hefur traust til hennar hrapað meðal þjóðarinnar. Aðstoðarmaður hennar og upplýsingafulltrúi hafa sagt, að hún „haldi sér til hlés“, vegna þess hve hún hafi mikið að gera!

Hér skal ekki dregið í efa, að Jóhanna geri sitt besta og vinni nótt sem nýtan dag. Henni eru hins vegar mislagðar hendur. Davíð hrakti ekki Jóhönnu úr ríkisstjórn sinni 1994 heldur samflokksmenn hennar. Nú hefur hún hrakið Ögmund Jónasson úr ríkisstjórn sinni.

Undir lok stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um síðustu áramót gerði Samfylkingin hvað eftir annað kröfur á hendur Sjálfstæðisflokknum, sem voru mjög óvenjulegar í ríkisstjórnarsamstarfi. Lokakrafan var, að Geir H. Haarde viki fyrir Jóhönnu.

Í núverandi stjórnarsamstarfi hafa vinstri-grænir sýnt Samfylkingunni svipaða takta og Samfylking sýndi Sjálfstæðisflokki í síðustu stjórn. Vinstri-grænir samþykkja aðildarviðræður við Evrópusambandið en segjast jafnframt vera á móti aðild. Vinstri-grænir spilla fyrir öllum áformum, sem krefjast stórra virkjana eða framkvæmda í þágu orkunýtingar. Hluti vinstri-grænna vill ekki samþykkja Icesave-afarkostina.

Nú er spurning, hvort vinstri-grænir fari í fótspor Samfylkingarinnar og krefjist þess að fá forsætisráðherrann, eftir að Jóhanna hefur hrakið Ögmund úr ríkisstjórninni. Brottför Ögmundar er ótvírætt vantraust á hæfileika Jóhönnu til að leiða ríkisstjórnina.  Steingrímur J. Sigfússon telur sig örugglega betur til þess fallinn að leiða ríkisstjórnina en Jóhönnu.

Þótt óróleiki og efasemdir vegna Jóhönnu vaxi jafnt og þétt innan Samfylkingarinnar, anda þeir með nefinu, sem helst vilja, að hún hverfi úr forystu. Hvers vegna? Af því að þeir vita, að valdabarátta innan flokksins yrði svo hatrömm, að hann kynni að klofna eins og varð, eftir að Jóhanna hraktist úr ríkisstjórninni sumarið 1994.

Icesave-málið er ekki leyst hjá stjórnarflokkunum, þótt Ögmundur fari úr ríkisstjórn.  Þvert á móti skapar það Ögmundi meira svigrúm en áður til að berjast gegn Icesave-afarkostunum á alþingi. Vilji Jóhanna ná fram niðurstöðu í Icesave, sem nýtur stuðnings meirihluta á þingi, verður hún að koma til móts við meirihluta þingsins – hann styður ekki ríkisstjórnarstefnuna. Hvenær skyldi Jóhanna átta sig á því? Líklega ekki fyrr en henni hefur verið ýtt til hliðar.

Deilur Jóns Baldvins og Jóhönnu sumarið 1994 reyndust upphafið að pólitískum endalokum Jóns Baldvins.