10.9.2009

Spurningalisti ESB – er íslenska ekki lengur tunga íslenskrar stjórnsýslu?

 

 

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, var hér á landi 8. og 9. september og afhenti Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, 2500 spurningar, sem íslenskir embættismenn eiga að svara á mettíma, eigi framkvæmdastjórn ESB að ljúka mati sínu á aðildarumsókn Íslands um áramótin, eins og ríkisstjórnin vill, eða að minnsta kosti Össur Skarphéðinsson.

Spurningarnar 2500 hafa verið birtar á vefsíðu utanríkisráðuneytisins að ósk Össurar. Þar geta áhugasamir kynnt sér, hvað ESB vill vita um Ísland, áður en okkur er hleypt að sem umsóknarland, en það er sérstök staða gagnvart ESB og hafa Tyrkir til dæmis verið í henni árum saman.

Þótt vissulega sé spennandi að sjá spurningar ESB, er ekki minna virði að fá að lesa svörin. Össur hlýtur að beita sér fyrir því, að þau verði birt á vefsíðu utanríkisráðuneytisins. Hann þarf ekki leyfi frá Brussel til að ákveða það.

Lykilspurningin er að lokum þessi: Hvaða tilgangi þjónar öll þessi skriffinnska? Stutta svarið er, að hún á að sýna framkvæmdastjórninni, hvaða munur er á löggjöf og aðstöðu umsóknarríkis og krafna ESB.

Mál íslenska stjórnkerfisins er íslenska og óeðlilegt, að embættismönnum sé gert skylt að vinna málefni, sem snerta þjóðarhag á annarri tungu.  Leggja á íslensku til grundvallar í þessum aðildar-samskiptum við ESB, svo að Íslendingar njóti vafa vegna tungumálsins og þeirra tunga ráði. Hafi þessi krafa ekki verið sett fram við ESB, lýsir það aðgæsluleysi.

Önundur Páll Ragnarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, ræddi við Olli Rehn og birtist viðtal þeirra í blaðinu fimmtudaginn 10. september. Önundur Páll spurði í anda þeirra, sem líta á aðildarumsókn Íslands eins og tilraun til að „sjá á spil ESB“ eða kynna sér hvort kjóllinn í ESB-búðinni passar. Spurning Önundar Páls var þessi:

„Eiginlegar viðræður eru ekki hafnar og því hafa embættismenn ESB, eins og þú sjálfur, ekki sýnt á spilin. Hvenær komum við á þann tímapunkt að samningsaðilar sýni á spilin og gefi upp hvað er í boði?“

Þessi spurning gerir ráð fyrir einhverju, sem Önundur Páll kallar „eiginlegar viðræður“ og verða orðin ekki túlkuð á annan veg en þann, að hann eigi von á samningaviðræðum, þar sem rætt verði um orðalag og eitthvað sem er sérsniðið að þörfum Íslendinga.

Svar Olli Rehn lýsir ófrávíkjanlegri afstöðu ESB:

„Ef ég nota myndlíkingu þína þá eru spil Evrópusambandsins þegar á borðinu, fyrir allra augum. Það er að segja regluverk Evrópusambandsins og meginreglur þess.“

Þetta fellur að þeirri skoðun, að kjarni umsóknarferilsins snýst um, að Íslendingar lagi sig að reglum ESB. Til þess er krossaprófið lagt fyrir með 2500 spurningum. Þar kemur í ljós að hve miklu leyti íslenskt regluverk fellur að ESB-regluverkinu.

Þá segir Olli Rehn:

„En þar til það kemur upp er það ekki hlutverk framkvæmdastjórnarinnar að hafa frumkvæði að varanlegum undanþágum eða sérsniðnum lausnum. Þegar slík mál vakna erum við samt yfirleitt viljug til að leysa úr þeim og finna einhvers konar aðlögun eða sérstakar lausnir. Þá þurfa þær að vera vel rökstuddar og þurfa að vera mjög mikilvægar fyrir viðkomandi ríki.“

Hvað felst í þessum orðum? Jú, að framkvæmdastjórn ESB hefur ekki frumkvæði að því að bjóða neinar sérlausnir. Óskir um þær ber að leggja fyrir hana. Hún tekur þær til góðfúslegrar afgreiðslu og er „samt yfirleitt viljug“ til að svara þessum óskum, leysa úr þeim og „finna einhvers konar aðlögun eða sérstakar lausnir“, enda séu óskir um undanþágu „vel rökstuddar“ og „mjög mikilvægar“ fyrir umsóknarríkið.

Þetta orðalag gefur ekki neinar venjulegar samningaviðræður til kynna heldur hitt, að ríki leggja óskir fyrir framkvæmdastjórnina. Hún leggur mat á þær og gerir tillögu til ráðherraráðsins um, hvernig eigi að svara þeim. Af hálfu ESB er ekki neinn venjulegur viðsemjandi, þar er framkvæmdastjórn og 27 aðildarríki og hvert þeirra kann að hafa séróskir, sem að lokum setja aðildarferli í strand. Slóvenía stöðvar aðildarferli Króatíu vegna ágreinings um landamæri við Adríahaf. Grikkland stöðvar aðildarferli Makedóníu vegna deilu um landaheitið Makedóníu – Gríkkir líta á Makedóníu sem hérað innan eigin landamæra en ekki sérstakt ríki.

Yfirlýsingar Spánverja um aðgang að Íslandsmiðum benda til þess, að þeir ætli að tryggja rétt sinn á miðunum á þann veg, að „sérlausn“ fyrir Ísland verði óviðunandi fyrir Íslendinga. Engin „sérlausn“ bjargar íslenskum landbúnaði innan ESB. Hitt er líklega einsdæmi, að þjóð sæki um aðild að ESB með það að markmiði að fá „sérlausnir“ um það, sem um er að semja, það er sjávarútveg og landbúnað. Miklu nær væri að nálgast ESB á grundvelli EES-samningsins og óska eftir „sérlausn“ í gjaldmiðilsmálum. ESB-aðildarsinnar mega ekki heyra á slíka lausn minnsta.

Vafalaust hafa margir verið þeirrar skoðunar, að aðildraviðræður við ESB hæfust á því, að framkvæmdastjórnin svaraði spurningum Íslendinga um þau mál, þar sem augljós skörun er á hagsmunum, s.s. sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum. Nú hljóta þeir hinir sömu að sjá, að svo er alls ekki. Öll samskipti aðildarríkja við Brussel-valdið er á einn veg. Ríki nálgast það með bænaskrá, því að þaðan er ekki að vænta frumkvæðis í þágu einstakra ríkja. Einmitt þess vegna setti þýski stjórnlagadómstóllinn það skilyrði fyrir aðild Þýskalands að Lissabon-sáttmálanum, að þýska þingið hefði áfram eitthvert vald yfir þýskum málum, þrátt fyrir gildistöku sáttmálans.

Eftirtektarvert er, að málsvarar ESB-aðildar hér eru hættir að leggja áherslu á nauðsyn aðildar til að Íslendingar öðlist meira vald í sameiginlegum málum en sem EES-aðili. Þögnin um þetta er eðlileg í ljósi ákvæða Lissabon-sáttmálans.

Dr. Jochen Bittner, Evrópufréttaritari þýska vikublaðsins Die Zeit, sagði á nýlegum fundi í Dublin, þar sem Írar kjósa í annað sinn um Lissabon-sáttmálann 2. október, að sáttmálinn byði eitthvað einstakt í mannkynssögunni, þar sem hann gerði ríkjum kleift að ákveða lög fyrir önnur ríki á sviðum, sem fram til þessa hefðu fallið undir fullveldisrétt ríkja. Til þessa hefði slíkt lagasetningarvald fyrir önnur ríki verið bundið við mótun hins sameiginlega markaðar en með Lissabon-sáttmálanum væri seilst inn á svið réttarfars og refsinga og líklega utanríkismál. Fullveldisrétturinn yrði fluttur frá fólki til ríkisstjórna. Með sáttmálanum yrði til nýtt ríkisvald innan ESB, það er stjórnvald sem hagaði sér eins og ríkisvald án þess sæta lögmálum lýðræðis.

Enginn veit á þessari stundu, hver niðurstaðan verður á Írlandi. Segi Írar nei setur það strik í stækkunaráform ESB.  Segi þeir já, þurfa umsóknarríki að átta sig nákvæmlega á áhrifum breytinga fyrir sig. Í því efni þurfa Íslendingar til dæmis að huga að ferli ákvarðana í sjávarútvegsmálum. Spurningalisti ESB snýst meðal annars um þau mál.

Fiskveiði-orðalagið í ESB-textanum er býsna loðið og flókið, s.s þessi fyrsta málsgrein í kaflanum um sjávarútvegsstefnuna:

 

„Chapter 13: Fisheries

The acquis on fisheries consists of regulations, which do not require transposition into national legislation. However, it requires the introduction of measures to prepare the administration and the operators for participation in the Common Fisheries Policy (CFP).“

 

Þetta þýðir væntanlega í lauslegri íslenskun, að lagabálkur ESB um fiskveiðar byggist á reglum, sem ekki þurfi að innleiða í löggjöf einstakra ríkja. Hins vegar þurfi að innleiða stjórnsýsluhætti til að undirbúa embættismenn og aðra til þátttöku í sameiginlegu fiskveiðistefnunni (CFP).  

Þegar menn setjast yfir texta af þessu tagi, getur hann kallað á flókna túlkun eftir þekkingu hvers og eins og þess vegna er orðalag mikilvægt. Sú staðreynd styður sjónarmiðið um, að grunntexti á íslensku sé hinn eiginlegi aðildartexti Íslendinga. Í því ljósi ætti framkvæmdastjórn ESB að skila spurningum sínum á íslensku,svo að ekki verði deilt um það hér, hvað í textanum felst. Fyrir utan þá staðreynd, að íslenska er mál íslensku stjórnsýslunnar. Hafi utanríkisráðuneytið ekki látið á þetta grundvallaratriði reyna gagnvart framkvæmdastjórninni, höfum við orðið vitni að fyrsta sjálfsmarkinu.