30.7.2009

AGS og hin máttvana ríkisstjórn Íslands.

 

 

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur frestað því að ræða málefni Íslands mánudaginn 3. ágúst eins og ráðgert hafði verið samkvæmt því, sem ríkisstjórn Íslands taldi. Caroline Atkinson, talsmaður sjóðsins, sagði 30. júlí, að málefni Íslands yrðu ekki á dagskrá stjórnar sjóðsins, því að endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands lægi ekki fyrir.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í kvöldfréttum RÚV 30. júlí, að hún hefði ekki fengið formlega tilkynningu um, að málefni Íslands yrðu ekki á dagskrá AGS.  Hún bætti við: „Ég óttast að það stefni í að það verði einhver töf eða frestun á að þeir afgreiði áætlunina.Það veldur mér auðvitað miklum vonbrigðum ef sú verður niðurstaðan."

Talsmaður sjóðsins sagði í sama fréttatíma, að hún undraðist, að mönnum hefði dottið í hug, að unnt yrði að ræða um Ísland nk. mánudag, þar sem endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands væri ekki lokið. Jóhanna telur ekki hundrað í hættunni, þótt AGS fresti ákvörðunum um Ísland. Það kynni þó að hægja á endurreisnarstarfi.

Í fréttum hefur verið sagt frá því, að í fjármálaráðuneytinu hafi embættismenn lagt nótt við dag undanfarið til að stuðla að því, að lánveiting til Íslands yrði tekin fyrir á næsta fundi AGS-stjórnarinnar Á spýtunni hangir heimild til að greiða  annan hluta láns sjóðsins til Íslands, 155 milljónir Bandaríkjadala. Fyrsti hluti lánsins, 827 milljónir dalir, var greiddur í nóvember 2008. Eftirstöðvar skal greiða í átta 155 milljón dala greiðslum.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fullyrti á Alþingi 13. júlí síðastliðinn að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði ekki tengt Icesave-samningana við endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands  og þar með áfangaútgreiðslu á láni sjóðsins. Hún sagði einnig að sjóðurinn hefði ekki haft uppi hótanir eða gert kröfur um, að gengið yrði frá Icesave-samningunum. Fulltrúar hans hefðu þó sagt „að það væri betra ef þetta mál væri leyst en ef það væri óleyst.“

Þetta kom fram í svari Jóhönnu við fyrirspurn frá Illuga Gunnarssyni, formanni þingflokks sjálfstæðismanna. Þegar hann óskaði eftir skýrara svari sagði forsætisráðherra, að málum væri alls ekki þannig háttað, að AGS eða fulltrúar sjóðsins hefðu sett ICESAVE-lausn sem eitthvert skilyrði. Ráðherrann sagði: „Það var meira að segja undirstrikað að þeir væru ekki að setja fram neitt skilyrði í því efni þó að þeir segðu að það væri betra að búið væri að ganga frá Icesave-samningunum áður en endurskoðunin færi fram. Það er alveg ljóst.“

Í aðdraganda þess, að þingsályktunartillaga um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu (ESB) var samþykkt, létu forystumenn ríkisstjórnarinnar í veðri vaka, að samþykkt hennar og framgangur á ráðherrafundi ESB-ríkjanna í Brussel mánudaginn 27. júlí mundi auðvelda öll alþjóðasamskipti Íslands og greiða fyrir lánveitingum til landsins. Ákvörðun AGS um að taka málefni Íslands af dagskrá stangast á við þessar fullyrðingar.

Miðað við framvindu þessa máls og ummæli talsmanns AGS er ástæða til að draga í efa, að ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar hafi nægilega skýra sýn eða stefnu varðandi lausn á ICESAVE-málinu. Þá er engu líkara en þeir skirrist við að horfast í augu við þá staðreynd, að þeim mun betri grein, sem gerð er fyrir efni ICESAVE-samninganna því meiri andstaða verður við þá á alþingi og meðal almennings.

Fréttirnar af ákvörðunum hjá AGS 30. júlí eru of óljósar til að unnt sé að draga þá ályktun, að ICESAVE-deilan hafi ráðið frestun málefna Íslands. Ríkisstjórn Íslands vill að sjálfsögðu ekki viðurkenna, að frestunin stafi af aðgerðarleysi hennar við efnhahagsumbætur, en talsmaður AGS gaf það til kynna. Til að knýja á þingmenn í ICESAVE-málinu hefur ríkisstjórnin hamrað á því, að án afgreiðslu þingsins lendi Íslands í lánavandræðum.

Undanfarið hefur það gerst oftar en einu sinni, að ráðherrar hafa legið á upplýsingum, sem síðan hefur komið í ljós, að er að finna í ráðuneytum þeirra. Hvort svo sé í þessu máli, skal ósagt látið, en hitt er einkennilegt, hve ólík viðhorf eru annars vegar hjá talsmanni sjóðsins, sem segir, að aldrei hafi verið við því að búast, að málefni Íslands yrðu rædd í stjórn AGS 3. ágúst og hins vegar hjá fjármálaráðuneytinu, þar sem menn hafa unnið myrkranna á milli við að búa mál undir stjórnarfund AGS 3. ágúst.

Úr því að fjármálaráðherra og embættismönnum hans tókst ekki með vinnu sinni að festa málefni Íslands á dagskrá stjórnarfundar AGS verða aðrir ráðherrar, forsætisráðherra eða utanríkisráðherra, að láta málið til sín taka. Forsætisráðherra er sagður í sumarfríi. Össur Skarphéðinsson er á leið til Manitoba í Kanada á útihátíð Íslendinga í Gimli, þar sem hann á að flytja ávarp. Kannski leggur hann lykkju á leið sína og ræðir við menn í höfuðstöðvum AGS í Washington?

Ríkisstjórnin hefur ekki afl til að ná ICESAVE-málinu í gegnum alþingi. Sé Jóhanna Sigurðardóttir ófær um að fara á fund þeirra stjórnvalda erlendis, sem leggja steina í götu endurreisnar Íslands, hefur hún ekki burði til að gegna embætti forsætisráðherra Íslands við núverandi aðstæður.