28.12.2008

Efnahagsbrot,

Frá því að íslenska fjármálakerfið fór í rúst með hruni bankanna þriggja í byrjun október, hefur nokkuð verið rætt um nauðsyn þess að rannsaka aðdraganda málsins og bregða ljósi á ábyrgð og skyldur. Þá eru grunsemdir um, að lögbrot hafi verið framin og óhjákvæmilegt sé að upplýsa þann þátt mála.

Skömmu eftir bankahrunið lagði ég til, að skipaður yrði sérstakur saksóknari til að rannsaka og hugsanlega ákæra, ef lögbrot hefðu verið framin í tengslum við hrunið. Lög um hinn sérstaka saksóknara voru samþykkt 10. desember og rennur umsóknarfrestur um embættið út mánudaginn 29. desember og eru 50 m. kr. ætlaðar til embættisins á árinu 2009. Þá hefur alþingi samþykkt að skipuð skuli sérstök rannsóknarnefnd vegna bankahrunsins og er Páll Hreinsson, hæstaréttardómari, formaður hennar, Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, situr í nefndinni en skipan þriðja nefndarmanns var ekki lokið fyrir jólahátíðina. Er gert ráð fyrir 150 m. kr. fjárveitingu vegna þeirrar rannsóknar á árinu 2009.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu og saksóknari efnhagsbrota hafa ekki farið varhluta af því undanfarin ár, að þeir, sem sæta ákærum í efnahagsbrotum reka mál sitt ekki aðeins innan veggja dómsalanna heldur einnig á opinberum vettvangi. Þá hefur verið sótt að mér á stjórnmálavettvangi og fyrir dómstólum, síðast fyrir mannréttindadómstóli Evrópu, sem hafnaði kröfu verjenda Baugsmanna um að fjalla um hæfi mitt til að setja ríkissaksóknara, en um þann málarekstur má meðal annars lesa hér.

Umræður um rannsóknir efnahagsbrota verða miklar næstu misseri og þess vegna er gott, að ríkislögreglustjóri gaf 23. desember upplýsingar um stöðu málaflokksins á þessari stundu en sérstakt tilefni þess, var forsíðufrétt Fréttablaðsins 18. desember undir fyrirsögninni: Fækkað um þriðjung í efnahagsbrotadeild

Þar sagði, að ríkislögreglustjóri hefði fækkað lögfræðingum hjá efnahagsbrotadeild um einn. Starfsmenn deildarinnar væru þriðjungi færri en 2004. Haft var eftir Boga Nilssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara, að þetta væri afar óheppileg þróun og Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, sagði þetta ranga forgangsröðun. Þá sagði blaðið, að starfsmenn efnahagsbrotadeildar yrðu þrettán talsins eftir uppsögnina, auk eins starfsmanns í fæðingarorlofi. Þeir hefðu verið mest nítján árið 2004. Þá segir í blaðinu:

„Deildin hefur sætt gagnrýni fyrir að rannsókn og saksókn taki langan tíma. Bogi segir ljóst að fækkun starfsfólks verði síst til að bæta þar úr. Réttara hefði verið að ráða fleira fólk þar til starfa.“

Atli Gíslason amast við eflingu sérsveitar og greiningadeildar í viðtali við Fréttablaðið auk þess séu ýmis lögreglustjóraembætti í fjársvelti.

Hinn 23. desember, Þorláksmessu, birti ríkislögreglustjóri greinargerð á vefsíðu sinni www.logreglan.is undir fyrirsögninni:

Sterk staða efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

Þar segir í upphafi:

„Vegna umfjöllunar um efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra að undanförnu vill ríkislögreglustjóri koma eftirfarandi á framfæri við almenning:

1. Breytt skipulag efnahagsbrotadeildar og skilvirkari stjórnun frá 1. janúar 2007 hefur gert deildinni kleift að ljúka eldri málum og stytta málsmeðferðartíma.

2. Fjöldi ákæra á árinu 2008 er meiri en nokkru sinni í sögu deildarinnar, að undanskildu árinu 2004.

3. Málastaða efnahagsbrotadeildar er betri en nokkru sinni fyrr.“

Í greinargerðinni er birt yfirlit yfir fjölda starfsmanna og þróun hans og þar kemur fram, að séu starfsmenn efnahagsbrotadeildar án sérverkefna taldir eru þeir jafnmargir árið 2004 og árið 2008. Þá hafi lögfræðingum deildarinnar fjölgað á undanförnum árum og séu nú fimm, en þeir voru 2,9 árið 2004, einn láti af störfum í árslok, en hann hafi ekki verið fastráðinn.

„Staða mála í efnahagsbrotadeild er betri en hún hefur nokkru sinni verið. Afköst deildarinnar hafa aukist og það markmið sem deildin hefur sett sér til að stytta þann tíma sem líður frá því að kæra berst þar til rannsókn hefst hefur gengið eftir. Nú bíða 18 mál til rannsóknar hjá deildinni og er elsta málið frá því í lok október sl. en önnur eru frá því í nóvember og desember,“ segir í greinargerðinni, en henni lýkur með þessum orðum:

„Með nýju embætti sérstaks saksóknara sem sett hefur verið á stofn til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við þá atburði er leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði er gert ráð fyrir því að rannsóknar- og ákæruheimildir hins sérstaka saksóknara taki meðal annars til efnahags-, auðgunar- og skattabrota. Samhliða hinu nýja embætti mun efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra annast þau mál sem deildinni eru ætluð.

Þannig hafa rannsóknir og saksókn í þessum málaflokki verið stórefld.“

Þegar þessi greinargerð ríkislögreglustjóra er lesin, er augljóst, að Fréttablaðið dró um ranga mynd af starfsemi og stöðu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hinn 18. desember á sömu stundu og það sneri alveg við blaðinu í skrifum sínum um deildina. Fram til þessa hafði verið gagnrýnt í blaðinu, að of miklu fé væri varið til rannsókna á vegum efnahagsbrotadeildar. Gekk Baugsblaðið í því efni erinda eigenda sinna.

Þessi gamalkunna eigendaskoðun birtist raunar einnig í Fréttablaðinu hinn 18. desember, þegar rætt var við Jón Ólafsson athafnamann í tilefni af því, að Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, ákvað að kæra til hæstaréttar, að ákæru gegn Jóni í skattamáli hefði verið vísað frá héraðsdómi. Þá sagði Jón:

„Ég er sannfærður um að þar [í hæstarétti] mun þetta [mál Jóns] fá sömu meðferð. Dómurinn nú er í samræmi við ákvæði í lögum mannréttindasáttmála Evrópu. Áfrýjunin sýnir það enn á ný hvers konar „batterí“ þetta eru og hvern mann þessir menn hafa að geyma. Nú verður haldið áfram að eyða peningum skattborgara í ekki neitt eins og gert hefur verið í þessu máli öllu.“

Jón finnur ekki aðeins að því, að fé skuli varið til rannsókna og ákæru í máli hans, heldur veitist einnig að skaphöfn þeirra embættismanna, sem sinna rannsóknum og saksókn í efnahagsbrotamálum. Eins og áður sagði er sú saga bæði gömul og ný, að tekist er á um mál af þessum toga bæði utan og innan réttarsalarins og er Baugsmálið skýrasta dæmi seinna tíma um það hér á landi. Frá útlöndum má nefna ótal dæmi um, að málaferli vegna efnahagsbrota skekja viðskipta- og stjórnmálalíf og jafnvel þjóðlífið allt.

Sama dag og Fréttablaðið birti frétt sína, að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra stæði höllum fæti, gaf settur ríkislögreglustjóri, Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, út ákæru í Baugsmáli númer 2, það er vegna meintra skattalagabrota og er Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, með það mál á sinni könnu eins og mál Jóns Ólafssonar.

Við það, sem segir í Fréttablaðinu og greinargerð ríkislögreglustjóra um starfsemi og mannahald í þágu efnahagsbrota má bæta, að hinn 21. október 2005 setti ég Sigurð Tómas Magnússon ríkissaksóknara, eftir að Bogi Nilsson ríkissaksóknari hafi lýst sig vanhæfan í Baugsmálinu og leiddi Sigurður Tómas málið til lykta í hæstarétti, en rétturinn kvað upp dóm sinn í júní 2008. Með Sigurði Tómasi störfuðu bæði lögfræðingar og lögreglumenn og sinntu stærsta efnahagsbrotamáli síðari tíma.

Að kvöldi 27. desember birti Stöð 2 frétt, sem er sögð á þennan hátt á visir.is:

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra skoðar nú millifærslur upp á samtals hundrað milljarða króna frá Kaupþingi á Íslandi inn á erlenda bankareikninga. Grunur leikur á að stjórnendur bankans hafi fært vildarviðskiptavinum stórar fjárhæðir á silfurfati.

Samkvæmt heimildum fréttastofu barst Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra ábending þess efnis fyrir um hálfum mánuði. Ábendingin var það vel ígrunduð að ástæða þótti til að skoða málið nánar. Um er að ræða margar millifærslur upp á samtal hundrað milljarða frá Kaupþingi hér á landi til annarra landa, aðallega Lúxemborgar.

Í ábendingunni kemur fram að tildrög þessara millifærslna séu samningar sem gerðir voru við stærstu viðskiptavini bankans. Í samningunum, sem voru að mestu gjaldeyrisskiptasamningar, hafi falist ákvæði sem voru til þess fallin að skila viðskiptavinunum töluverðum ávinningi.

Viðskiptavinirnir hafi því ekki getað annað en hagnast á samningunum. Efnahagsbrotadeild hefur beðið Fjármálaeftirlitið um nánari upplýsingar varðandi þessa samninga.“

Á ruv.is hinn 28. desember segir:

„Millifærslur upp á um 100 milljarða íslenskra króna, frá Kaupþingi á Íslandi, inn á erlenda reikninga viðskiptavina bankans, eru til skoðunar hjá Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, segir nafnlausa ábendingu hafa borist, sem ástæða hafi þótt til að kanna niður í kjölinn; þó sé ekki um eiginlega rannsókn að ræða.

Meðal verkefna endurskoðunarfyrirtækja og skilanefnda bankanna er að gera athuganir á færslum fyrir bankahrunið. Hjá Skilanefnd Kaupþings er þetta sama mál til skoðunar.“

Bloggarar velta fyrir sér, hvað býr að baki þessum fréttum eins og sjá má hér.