Evrópustefna og peningamálastefna.
Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins kynnti verkáætlun sína og vefsíðu (www.evropunefnd.is) á fundi í Valhöll síðdegis föstudaginn 12. desember 2008 og var fundurinn sendur út á netinu. Nefndin starfar undir formennsku Kristjáns Þórs Júlíussonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og Árna Sigfússonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ. Henni er ætlaður skammur tími, því að tillögur hennar eiga að liggja fyrir á landsfundi flokksins, sem hefst 29. janúar.
Fjölmenni var á fundinum í Valhöll og voru margar spurningar lagðar fyrir Kristján Þór. Greinilegt var, að fyrirspyrjendur nálguðust almennt viðfangsefnið frá þeim sjónarhóli, að gjalda ætti varhug við aðild að Evrópusambandinu (ESB).
Þetta kom mér ekki á óvart, því að innan Sjálfstæðisflokksins er djúp sannfæring manna fyrir því, að ekki eigi að skerða fullveldið meira en orðið er. Auk þess sem ótti er við, að áhugi ESB á, að Ísland gerist aðili, byggist á ásælni í auðlindir og áhrif á Norður-Atlantshafi. Hinn almenni félagi í Sjálfstæðisflokknum bregst illa við telji hann, að vegið sé að þessari sannfæringu.
Sannfæringin um gildi þess fyrir okkur Íslendinga að hafa hæfilega samningsbundna fjarlægð milli okkar og Evrópusambandsins birtist í ýmsum myndum Hallur Hallsson, sem einkum er kunnur fyrir störf sín sem fréttamaður og fyrir skeleggar greinar um menn og málefni í Morgunblaðinu, hefur ritað skáldsögu, Váfugl, til að færa skoðanir sínar gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu í nýjan og óvenjulegan búning. Sagan er tímabær áminning til lesandans um, hvernig mál kunna að þróast í Evrópu og hver staða Íslands getur orðið, ef ekki er vandlega gætt að hverju skrefi, sem stigið er.
Umræður um Evrópusambandið snúast að verulegu leyti um, að miðla þurfi til fólks upplýsingum og að ekki sé við því að búast, að menn geti gert upp hug sinn, af því að umræður um málið séu af svo skornum skammti. Ég gef í sjálfu sér ekki mikið fyrir þetta tal, því að allir, sem áhuga hafa geta aflað sér þeirra upplýsinga, sem þeir vilja um málið á auðveldan hátt bæði með lestri innlendra og erlendra gagna.
Forréttindi mín felast í því að hafa verið í formennsku nefndar, sem fjallaði í nokkur ár um tengsl Íslands og Evrópusambandsins og gaf síðan út ítarlega skýrslu um málið í mars 2007. Í lok skýrslunnar tók ég afstöðu til þess, hvort Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu eða ekki, og komst að þeirri niðurstöðu, að Ísland ætti ekki að sækja um aðild. Vorum við fjórir nefndarmenn sammála um það, Katrín Jakobsdóttir og Ragnar Arnalds frá vinstri/grænum og Einar K. Guðfinnsson auk mín frá Sjálfstæðisflokknum.
Það, sem ég hef séð til Evrópusambandsins síðan og samskipta þess við Ísland hefur ekki breytt afstöðu minni til aðildar að sambandinu. Á hinn bóginn hefur afstaða mín til peningamála breyst frá því að skýrsla Evrópunefndarinnar birtist og í því efni hef ég lýst skoðunum mínum og rökum fyrir þeim í greinum og hér á síðunni.
Í sögunni Váfugli notar Hallur Hallsson skáldaleyfi til að segja skoðun sína á hættunni af aðild að Evrópusambandinu á „mannamáli“, svo að notað sé tískuorð úr fjölmiðlaheiminum, það er á þann hátt að flétta skoðun sína í frásögn, sem styðst í senn við minni úr Íslandssögunni og stíl reyfarahöfunda.
Þessi aðferð á ekki síður rétt á sér til að koma skoðun sinni á þessu mikla álitaefni á framfæri en skrifa um það skýrslur eða stofna til nefnda og boða til funda.
Þegar um málið er rætt er hins vegar nauðsynlegt að hafa öll hugtök vel á valdi sínu. Ég er til dæmis þeirrar skoðunar, að orðið „aðildarviðræður“ gefi alls ekki rétta mynd af því, hvernig samskiptum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við umsóknarríki er háttað.
Þessu er lýst á bls. 76 í skýrslu Evrópunefndarinnar, sem ég stýrði. Umsókn um aðild er send ráðherraráði ESB sem felur framkvæmdastjórninni að meta getu umsóknarríkis til að uppfylla skilyrði fyrir aðild. Telji framkvæmdastjórnin, að umsóknarríkið uppfylli skilyrði fyrir aðild ákveður ráðherraráðið, hvort hefja eigi samningaviðræður við viðkomandi ríki og veitir framkvæmdastjórninni umboð til viðræðnanna. Þar leggur umsóknarríkið fram afstöðu sína til einstakra málaflokka á verkefnaskrá ESB og rökstuddar óskir um tímabundnar og varanlegar undanþágur eða aðlaganir varðandi innleiðingu á löggjöf ESB, ef á því er talin þörf í einstökum málaflokkum. Viðræðurnar snúast um þessar séróskir umsóknarríkisins og leggur framkvæmdastjórnin niðurstöðuna undir ráðherraráðið til samþykktar auk þess sem Evrópuþingið, þjóðþing allra aðildarríkja og umsóknarríkis þurfa að samþykkja hana. Í flestum tilvikum fer einnig fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið í umsóknarríkinu.
Af þessu sést, að það fara ekki fram neinar viðræður um aðild, heldur er rætt við stjórnendur ESB á grundvelli umsóknar, sem fyrir þá er lögð. Með þetta í huga er bæði sjálfsagt og eðlilegt, að leitað sé víðtækrar samstöðu um umsóknina í viðkomandi ríki, áður en hún er lögð fyrir ráðherraráð ESB.
Þetta ferli minnir nokkuð á þá aðferð, sem sagt var, að Sovétmenn hefðu beitt á tímum kalda stríðsins: Við skulum semja við ykkur um það, sem ykkur tilheyrir, en þið hróflið ekki við hagsmunum okkar, þeir eru ákveðnir.
ESB segir: Við höfum lögfest okkar stofnskrá og aðra bindandi sáttmála, þeir eru ekki til umræðu, heldur hvernig þig lagið ykkur að þeim og á hve löngum tíma.
Við getum raunar tekið nærtækara dæmi, þegar sagt er hér heima fyrir: Við skulum starfa með ykkur í ríkisstjórn, ef þið breytið um stefnu gagnvart ESB, en við sláum ekki af okkar stefnu.
Einmitt vegna þess, að í hverju ríki snýst upphafsspurningin um það, hvort leggja eigi fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu, skiptir miklu, að það sé gert með ótvíræðu umboði þjóðarinnar. Að sjálfsögðu má færa fyrir því rök, að kjörnir fulltrúar hafi þetta umboð og þeir eigi að taka ákvörðun um umsókn. Ég hallast hins vegar að því, að þetta mál snerti svo víðtæka þjóðarhagsmuni, að leita eigi umboðs hjá þjóðinni í atkvæðagreiðslu, áður en umsóknin er lögð fram. Síðan verði málið borið að nýju undir þjóðina, eftir að skilmálar ESB hafa verið skýrðir. Samþykki þjóðin skilmála ESB er óhjákvæmilegt að breyta stjórnarskránni til að unnt sé að staðfesta aðildarsamning á alþingi.
Eins og málum er nú háttað er það breyting á peningamálastefnu þjóðarinnar, sem margir telja, að knýi mest á um aðild að ESB, einungis á þann veg sé unnt að taka upp evru, sé það gert einhliða, móðgist valdastéttin í Brussel og ólund hlaupi í seðlabankastjóra Evrópu í Frankfurt.
Tveir flokksbræður mínir og samþingmenn, Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson rita grein í Fréttablaðið í dag og leggja þar fram tillögur um endurreisn þjóðarbúsins á nýjum grunni. Af því, sem þeir segja, hefur mest athygli beinst að orðum þeirra um „aðildarviðræður“ að ESB og þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna – ég les greinina ekki á sama veg og mér sýnist aðildarsinnar á borð við Björn Inga Hrafnsson gera, að þeir félagar séu að mæla með aðild. Þeir gera það ekki heldur segja, að gengið skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðu „aðildarviðræðna“, hvort sem Sjálfstæðisflokkurinn aðhyllist aðild eða ekki.
Í greininni segir: „Peningamálastefnan er ein af grunnstoðum hvers ríkis og traustur gjaldmiðill gegnir lykilhlutverki við mótun og framkvæmd slíkrar stefnu.“
Þeir taka ekki afdráttarlausa afstöðu til þess, hvernig þeir sjá fyrir sér, að skipt verði um gjaldmiðil, þótt þeir telji það nauðsynlegt, þegar til lengri tíma er litið. Ekki er unnt að skilja grein þeirra á annan veg en þeir telji krónuna á útleið. Spurningin snúist um tíma – á hann að vera 6 til 8 ár eins og fylgja myndi ákvörðun um aðild að ESB eða á að miða við skemmri tíma og einhliða ákvörðun í þágu íslenska þjóðarbúsins og Íslendinga? Mér sýnist þeir félagar ekki vilja bíða í mörg ár.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í þættinum Í vikulokin að morgni 13. desember, að flokkar með mismunandi stefnu í peningamálum gætu ekki setið saman í ríkisstjórn til lengdar og voru orð hennar í þættinum skilin á þann veg, að hún væri að setja sjálfstæðismönnum úrslitakosti – þeir yrðu að ákveða nýja Evrópustefnu á landsfundi sínum, annars væru dagar ríkisstjórnarinnar taldir.
Evrópustefna og peningamálastefna er ekki hið sama, nema menn hafi tekið ákvörðun um að hafna einhliða gjaldmiðilsskiptum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hafnað þeirri stefnu – ber að skilja orð Ingibjargar Sólrúnar á þann veg, að Samfylkingin hafi gert það? Vill hún bíða í 6 til 8 ár til að hrinda þessu brýna baráttumáli sínu í framkvæmd?
Ég hef áður sagt, að Evrópuumræða sé hér að nokkru leyti stunduð á dulmáli og menn verði að kunna að lesa það til að átta sig á því, sem sagt er og hver segir hvað. Edda Rós Karlsdóttir greiningastjóri er til dæmis aðildarsinni, en telur að skipta þurfi um gjaldmiðil, þess vegna segir hún, að menn verði að gefa sér góðan tíma til þess. Hún tekur þeim illa, sem boða einfalda og markvissa leið og vill frekar flókna og langvinna aðildarleið.
Það er ekki aðeins nauðsynlegt að átta sig á því, hvað sagt er, heldur hver talar, þegar spurt er í fjölmiðlum, og hvort viðmælandinn eða spyrjandinn hafa gert upp hug sinn til ESB-aðildar eða ekki.