Fréttablað í sömu sporum
Krafan um uppgjör er hávær um þessar mundir, hún snýst í vaxandi mæli um menn og stofnanir, eftir að spurningin um afstöðu Íslands til Evrópusambandsins (ESB) hefur verið sett í nefnd hjá Sjálfstæðisflokknum og forysta Framsóknarflokksins hefur kúvent í afstöðu sinni.
Stjórnarskrárbreyting, kosningar og þjóðaratkvæðagreiðsla eru vörður á veginum i ESB fyrir utan hið „kalda hagsmunamat“ á því, hvort okkur verði betur borgið innan ESB en utan. Financial Times segir Ísland geta orðið aðila 2011.
Við núverandi aðstæður eru helstu álitsgjafar samt þeirrar skoðunar, að ákvörðun um tengslin við ESB sé brýnasta viðfangsefni stjórnmálamanna og þess verður krafist af auknum þunga á næstunni, að nýir vendir verði fengnir í forystu til að sópa okkur þangað inn. Meira að segja er talið, að meðal ungliða vinstri/grænna gæti vaxandi óþols í garð forystumanna flokksins vegna tregðu þeirra til að skipta um skoðun í Evrópumálum.
Að ræða ESB-aðild er ágæt leið til að fjalla um eitthvað annað en hin brýnu viðfangsefni líðandi stundar. Undan því verður þó ekki vikist að finna úrræði til að styrkja stöðu lands og þjóðar eftir reynsluna af því að setja allt traust á banka og fjármálakerfi, þar sem menn kepptust við að lána hver öðrum, án þess að sjást fyrir vegna græðginnar.
Jón Ásgeir Jóhannesson, athafnamaður, kenndur við Baug, ritaði grein í Morgunblaðið 14. nóvember 2008, þar sem sagði (feitletrun mín):
„Í MORGUNBLAÐINU á þriðjudaginn segir Gunnar Smári Egilsson skuldir fyrirtækja sem tengjast mér nema yfir 1.000 milljörðum króna. Gunnar Smári gleymir að nefna að á móti skuldum félaganna þriggja sem hann tilgreinir koma eignir. Mér þykir því rétt að upplýsa Gunnar Smára og aðra áhugamenn um stöðu umræddra fyrirtækja um að samanlagðar eignir Baugs, Stoða og Landic Property um mitt þetta ár námu tæplega 1.200 milljörðum króna. Skuldirnar, við innlenda sem erlenda lánardrottna, námu hins vegar rúmlega 900 milljörðum króna. Rétt er að geta þess að þessi félög eru ekki að öllu leyti í minni eigu þótt félög tengd mér séu stærstu eigendur þeirra. Gunnar Smári bætir svo á mig 1-2 þúsund milljarða tapi vegna hruns Glitnis en það get ég ekki tekið á mig; eignir Glitnis umfram skuldir námu yfir 200 milljörðum króna þegar Seðlabankinn rústaði bankanum og íslensku efnahagslífi í leiðinni. Vegna greinar Páls Ásgrímssonar á mánudaginn um setu mína í stjórnum 13 félaga vil ég taka fram að ég hef í engu breytt fyrirætlunum mínum um að segja mig úr stjórnum íslenskra félaga. Ég hef þegar sagt mig úr stjórnum 17 félaga og unnið er að afsögn í öðrum tilfellum. Gert er ráð fyrir að þessu verkefni ljúki innan fárra vikna. Ætlunin var að klára þessi formsatriði fyrr, en atburðir síðustu vikna settu strik í reikninginn. Um er að ræða stjórnarsetu í félögum sem eru að stórum hluta í minni eigu, beint eða óbeint, og það hefur verið í algerum forgangi hjá mér og öðrum stjórnarmönnum að sinna rekstri þeirra við erfiðar aðstæður. Þótt skiptar skoðanir séu um það hve langan tíma menn hafa til að bregðast við eru lagaákvæði um hæfnisskilyrði til stjórnarsetu skýr og þau mun ég virða.“
Gunnar Smári Egilsson hefur skriftað í Morgunblaðinu undanfarna daga og hann sagði 15. nóvember (feitletrun mín):
„Fyrirtæki risu upp úr engu, urðu stórveldi en enginn sá hvaða verðmæti þau bjuggu til. Mér er ljúft að viðurkenna að ég var sami asninn og hinir. Ég lét færa mig úr bisness sem ég skildi yfir í bisness sem ég skildi ekki. Ég reyndi að gera eins og hinir og vonaði að einhver þeirra vissi hvað þeir voru að gera. Það vantaði svo sem ekki greiningar, bækur og kenningar sem áttu að sanna að eitthvert vit væri í þessu. Gallinn var að þótt sannanirnar væru gáfulegar þá voru þær flóknar, langsóttar og meira og minna óskiljanlegar.“
Gunnar Smári hefur knúið fram yfirlýsingu Jóns Ásgeirs um, að hann skuldi ekki 1000 milljarða heldur 900 og hann hafi setið í 30 stjórnum, sagt sig úr 17 en dregið úrsögn úr 13. Ari Edwald, sem tók við fjölmiðlaveldi Jóns Ásgeirs af Gunnari Smára, lætur sig síðan hafa það að rita grein í Morgunblaðið til að færa að því rök, að Jón Ásgeir megi sitja áfram í 13 stjórnum, hann segir í Morgunblaðinu 15. nóvember:
„Einnig hefur komið fram að Jón Ásgeir sagði sig þegar úr stjórnum skráðra félaga (nema 365 hf. sem var í afskráningarferli) og hefur síðan sagt sig úr stjórnum annarra hlutafélaga jafnt og þétt, í samræmi við opinbera túlkun Hlutafélagaskrár á 66. gr. hlutafélagalaga. Það er því ljóst að þeir sem eru ósammála túlkun Hlutafélagaskrár ættu ekki að eiga neitt sökótt við Jón Ásgeir eða aðra einstaklinga sem hlíta opinberum fyrirmælum. Samræða gagnrýnenda við stjórnvöld um almenna túlkun hlutafélagalaga hlýtur að vera Jóni Ásgeiri óviðkomandi.“
Páll Vilhjálmsson, blaðamaður, ritar grein í Morgunblaðið 15. nóvember og rifjar upp tilurð Fréttablaðsins á sínum tíma og segir:
„Á miðju sumri 2002 stofnuðu Gunnar Smári Egilsson og Ragnar Tómasson lögfræðingur einkahlutafélagið Frétt ehf. og keyptu rekstur Fréttablaðsins sem hafði komist í þrot undir stjórn Gunnars Smára. Þeir voru leppar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem þá var forstjóri Baugs. Viðskiptahugmynd Jóns Ásgeirs var að láta verslanir í eigu Baugs kaupa auglýsingar í Fréttablaðinu til að festa blaðið í sessi. Baugur var almenningshlutafélag á þessum tíma og óeðlilegt, ef ekki ólöglegt, að forstjóri Baugs myldi undir einkafyrirtæki sitt.“
Páll rekur síðan, hvernig Fréttablaðið var notað gegn Davíð Oddssyni og sérstaklega í kosningabaráttunni 2003 meðal annars með því að birta frásagnir úr fundargerð stjórnar Baugs. Það var síðan ekki fyrr en eftir þann darraðardans allan eða 2. maí 2003, sem birtar voru opinberlega upplýsingar um eignarhald Fréttablaðsins. Segir Páll, að það hafi ekki verið nein tilviljun að eignarhaldið var upplýst á sama tíma og Baugur var afskráður sem almenningshlutafélag.
Fréttablaðið er enn eign Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og þess vegna tekur Ari Edwald upp hanskann fyrir stjórnarsetu Jóns Ásgeirs, sem hefur eins og kunnugt er verið að stofna til meiri skulda í því skyni að halda Fréttablaðinu á floti helst með því að verða jafnframt stóreigandi í Árvakri, útgefanda Morgunblaðsins.
Í umræðum líðandi stundar er ekki síður nauðsynlegt að hafa þessar staðreyndir í huga en svo margt annað, þegar lagt er mat á það, sem sagt er. Í áranna rás hef ég vakið máls á eigendavaldi fjölmiðla og hafnað þeirri skoðun, að engin tengsl séu á milli þess, sem eigendur fjölmiðils vilja og þess, sem þar birtist. Á örlagatímum eigenda skiptir þetta vald meiru en þegar allt leikur í lyndi. Þetta sást, þegar alþingi ræddi fjölmiðlalög vor og sumar 2004.
Með réttu er þess krafist, að stjórnmálamenn, stjórnmálaflokkar, embættismenn og stofnanir geri hreint fyrir sínum dyrum og sýni svart á hvítu, að þeim sé unnt að treysta til að takast á við verkefni liðandi stundar, án þess að grunur vakni um, að reynt sé að hygla einhverjum vegna leynilegra eða augljósra tengsla.
Sömu kröfur á að gera til allra, sem láta ljós sitt skína og taka afstöðu til manna og málefna. Gunnar Smári segist hafa verið sami asninn og hinir, sem reistu sér og þjóðinni hurðarás um öxl með söfnun ótrúlegra skulda.
Viðhlæjendur Baugsveldisins á Fréttablaðinu keppast við að veita stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum ráð fyrir utan að gagnrýna embættismenn og stofnanir á borð við Seðlabanka Íslands. Eigandi Fréttablaðsins Jón Ásgeir Jóhannesson réðst gegn ríkisstjórninni og seðlabankanum með þeim orðum, að stærsta bankarán Íslandssögunnar hefði verið framið, þegar ekki var talið skynsamlegt að dæla opinberu fé í skuldahít Glitnis. Þetta stef hefur síðan verið flutt með mismundandi tilbrigðum í Fréttablaðinu. Er það tilviljun? Hverra hagsmuna er blaðið að gæta?
Jón Kaldal, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifar leiðara í blaðið 16. nóvember og segir:
„Stjórnmálaflokkarnir eru þegar farnir að setja sig í kosningastellingar. Á föstudag ákvað Sjálfstæðisflokkur að boða til landsfundar í janúar og í gær ákvað Framsóknarflokkurinn að halda flokksþing í sama mánuði. Báðir eiga þessir flokkar það sameiginlegt að innan þeirra raða ríkir glundroði um það sem lítur út fyrir að verða eitt helsta stefnumál næstu kosninga: Hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu eða ekki.
Flokkarnir eiga það líka sameiginlegt að formenn þeirra eru yfirlýstir andstæðingar Evrópusambandsins. Það sem er á hinn bóginn ólíkt með flokkunum er að innan Framsóknar er mun minna hik við að taka slaginn en hjá Sjálfstæðisflokknum. Þetta sést best á þeirri yfirlýsingu miðstjórnarfundar framsóknarmanna að á komandi flokksþingi verður kosið um hvort ganga eigi til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Hefur sú yfirlýsing yfir sér mun fumlausara og ákveðnara yfirbragð en máttleysisleg tilkynning sjálfstæðismanna um skipun nefndar til að fjalla um Evrópumálin fyrir landsfundinn.
Annað sem er ólíkt með þessum flokkum er að átök framsóknarmanna um Evrópumálin snerta í raun fáa aðra en þá sjálfa. Nema þegar þau lenda inni í stofum landsmanna sem farsi eða harmleikur, eftir smekk hvers og eins, í leikstjórn Bjarna Harðarsonar fyrrverandi þingmanns.
Átökin í Sjálfstæðisflokknum koma hins vegar öllum við sama hvaða tilfinningar fólk ber til flokksins. Þar er sjálfum Seðlabankanum beitt í hatrömmum innanflokksátökum, landi og þjóð til stórkostlegs skaða. Á því ástandi bera ábyrgð núverandi og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Eru þeir þar samir við sig og munu aldrei breytast. Í þeirra hug er flokkur alltaf framar þjóð.“
Í upphafi þessa pistils var ýjað að því, að nú yrði spjótum beint að einstaklingum og stofnunum, þegar álitsgjafar teldu, að Evrópumál væru kominn í þann farveg, sem þeir kysu. Jón Kaldal sannar þessa kenningu. Hann gerir í raun lítið úr ákvörðun sjálfstæðismanna um Evrópumál en ræðst á þá Geir H. Haarde og Davíð Oddsson – Fréttablaðið hefur enn Davíð Oddsson sem óvin númer eitt eins og í kosningabaráttunni 2003. Jón Ásgeir hefur aldrei fyrirgefið, að Davíð gagnrýndi matvöruverslanir fyrir að lækka ekki vöruverð þegar gengi krónunnar hækkaði. Á Alþingi í janúar 2002 sagði Davíð í utandagskrárumræðum að til greina kæmi að skipta upp Baugi ef fyrirtækið misnotaði markaðsráðandi stöðu sína.
Enn sannast hið fornkveðna, að lítið breytist, þótt allt sýnist gjörbreytt. Hvað sem breytingum á vettvangi stjórnmála líður er Fréttablaðið samt við sig, enda hefur tilgangur útgáfu þess ekkert breyst síðan það varð málgagn viðskiptaveldis, sem telur sér nú helst til tekna að skulda 900 milljarða en ekki 1000 og sitja í 13 stjórnum en ekki 30, þótt öll stjórnarseta kunni að vera lögbrot.