25.10.2008

Að gæta þjóðarhags.

Flokksráðs- og formannafundur sjálfstæðismanna var haldinn fyrir tveimur vikum. Sjálfstæðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn, sem hefur borið núverandi stöðu efnahags- og atvinnumála þjóðarinnar undir stofnun í flokki sínum, sem hefur afgerandi vald gagnvart forystu flokksins. Á fundinum var lýst eindregnum stuðning við Geir H. Haarde, formann flokksins. Hann nýtur einnig óskoraðs trausts þingflokks sjálfstæðismanna.

Á þeim tveimur vikum, sem liðnar eru síðan við sjálfstæðismenn hittumst á þessum fundi í Valhöll, hefur reynt mikið á stefnufestu forsætisráðherra vegna viðræðna við fulltrúa erlendra ríkja og alþjóðastofnana. Í engu tilviki hefur nokkuð verið gefið eftir í hagsmunagæslu þjóðarinnar.

Sendimenn fóru til Rússlands til viðræðna þar um rússneskt lánstilboð. Þeir sneru aftur, án þess að frá nokkru yrði gengið. Hér hafa verið fulltrúar breskra stjórnvalda til viðræðna. Erindi þeirra var að knýja fram niðurstöðu sér í hag vegna inneigna í íslenskum bönkum í Bretlandi. Bresku erindrekarnir sneru heim, án þess að nokkur niðurstaða fengist. Þær raddir verða æ skýrari, sem krefjast þess, að deilan við Breta verði leyst fyrir dómstólum.

Allt frá því að Glitnir lenti í vandræðum fyrstu helgina í október, hafa fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) verið hér á landi. Koma þeirra hingað til lands var ótengd því, sem gerst hefur í fjármálaheiminum undanfarnar þrjár vikur, tilgangurinn var að halda hér uppi reglulegri gangasöfnun um stöðu efnahagsmála. Tilgangurinn breyttist eftir því atburðarás fjármála- og efnahagslífs tók á sig nýja mynd og síðustu daga hefur þess verið beðið, hvort IMF og Ísland kæmust að sameiginlegri niðurstöðu, sem leitt gæti til þess, að IMF veitti Íslandi fjárhagslega fyrirgreiðslu í því skyni að greiða úr gjaldeyrisvandanum, sem af bankakreppunni hefur leitt.

Niðurstaðan var kynnt föstudaginn 24. október og næstu 10 daga reynir á það innan IMF, hvort hún nær fram að ganga. Dominique Strauss-Kahn, forstjóri IMF, gaf um það yfirlýsingu síðdegis föstudaginn 24. október, að íslensk stjórnvöld væru að taka á efnahagsvandanum á ábyrgan hátt og lofar það mat góðu um um framgang mála á vettvangi IMF.

Allar sögusagnir um afkarkosti af hálfu IMF eru úr lausu lofti gripnar. Hin sameiginlega niðurstaða Íslands og IMF felst í því, að gripið verður til ráðstafana, sem eru óhjákvæmilegar við núverandi aðstæður í þjóðarbúskapnum og enginn getur vikist undan, eigi að finna rétta leið úr vandanum. Víst er, að við höfum aðeins séð toppinn af vandanum, og óvissuþættir eru margir, ekki síst vegna þess að ekki hefur á neinn hátt tekist að binda á alþjóðlegan efnahagsvanda. Ástandið er vont en það á eftir að versna enn, áður en landið rís á ný.

Á meðan beðið var niðurstöðu í viðræðum við IMF, var ýtt undir spennu og óþreyju vegna biðarinnar. Hefði forsætisráðherra ekki staðið fastur fyrir, hefði sá þrýstingur hæglega getað leitt til þess, að í óðagoti hröpuðu menn að einhverri niðurstöðu, aðeins til að elta háværa álitsgjafa eða sjónvarpsmenn, sem heimta svör, þótt öllum skynsömum mönnum sé ljóst, að ekki sé unnt að veita þau.

Þessi óþreyja eftir niðurstöðu í viðræðunum við IMF birtist meðal annars í því, að boðað var til útifundar laugardaginn 25. október undir kjörorðinu: Rjúfum þögn ráðamanna. Kolfinna Baldvinsdóttir var málsvari þessa fundar og var þannig sagt frá honum á mbl.is síðdegis þennan sama laugardag:

„Nokkur fjöldi tók þátt í blysför frá Austurvelli að Ráðherrabústaðnum í Reykjavík á fimmta tímanum. Yfirskrift mótmælanna var „Rjúfum þögn ráðamanna og göngum til lýðræðis.“ Á sama tíma voru mótmælagöngur bæði á Akureyri og á Seyðisfirði. Meðal ræðumanna á Austurvelli voru Þorvaldur Gylfason, Jón Baldvin Hannibalsson, Þráinn Bertelsson og Páll Óskar Hjálmtýsson.“

Á mbl.is  birtist hins vegar engin frétt um annan mótmælafund, sem Hörður Torfason boðaði á Austurvelli klukkan 15.00 þennan sama laugardag undir kjörorðinu: Breiðfylking gegn ástandinu.

Takmarkið var að safna saman sem flestu fólki til að láta ráðamenn verða vara við óánægju landsmanna með ástandið. Fundurinn átti að vera stuttur og snarpur undir stjórn Harðar og ræðumenn þessir: Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur, og Guðmundur Gunnarsson, formaður rafiðnaðarsambandsins. Rætt var við Hörð í kvöldfréttum Stöðvar 2  eftir fund hans og sagði hann þögn ráðamanna „kurteist ofbeldi“.

(Eftir að ég hafði sett texta pistilsins inn á síðuna las ég þetta á vefsíðu Helgu Völu Helgadóttur:

„Þetta voru tvenn mótmæli.. sem bæðevei er algerlega ótrúlegt.. en

... mér fannst leitt að það þyrfti að koma til illinda milli hópa mótmælenda, og að sá hópur sem fannst á sér traðkað skyldi eyða hálfum fundi í að tala um að “hinir illu traðkarar” væru að fara illa með sig. Þetta hefði vel getað runnið saman, enda var það raunin fyrir fjölmarga sem mættu á báða staðina. En fyrir þá sem kannski voru að mæta í fyrsta sinn, virkaði þetta ekkert sérlega vel.“)

Guðmundur Gunnarsson skrifar um fund Harðar á vefsíðu sinni og segir meðal annars:

„Töluverður fólksfjöldi var á fundinum og mikill samhugur í fólki. En í kjölfar hans var boðuð önnur uppákoma þar sem átti að fara í blysför. Virtist vera að þetta ylli miskilning. Það er vatn á myllu ríkisstjórnar og ekki síður Moggamanna sem hafa dregið upp háðskar myndir af þessum fundum í aðferðum sínum við að hreinsa eigendur sína og ekki síður ríkisstjórnarflokkinn sem hefur mótað efnahagsstefnuna á undaförnum árum . Í Mogganum var því haldið fram að einungis hefðu verið um 500 manns á fundinum fyrir viku, en þar voru á þriðja þúsund manns.“

Laugardaginn 18. október var boðað til fundar á Austurvelli gegn Davíð Oddssyni og hefur síðan verið deilt um, hve margir sóttu hann, en talan 500 var nefnd. Einkennilegt er, að Guðmundur Gunnarsson skuli kenna þessa tölu við Morgunblaðið, þar sem hún kom fram í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins 18. október  með þessum gildishlöðnu orðum fréttamanns:

„500 manns hrópuðu Davíð burt, Davíð burt á mótmælafundi á Austurvelli í dag. Fólkið vill að Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra, verði vikið frá störfum.

Fjölmenni safnaðist saman á Austurvelli og fallegt haustveðrið hefur líklega haft áhrif á fundarsóknina. Síðustu viku hefur hópur safnast saman á Austurvelli eða við Seðlabankann hvern dag og krafist afsagnar seðlabankastjórnar. “

Eins og sést hér að ofan nefnir mbl.is enga þátttakendatölu að þessu sinni, líklega af ótta við að lenda í þrasi um fámenni eða fjölmenni. Í kvöldfréttum hljóðvarps og sjónvarps ríkisins var sagt með vísan til lögreglu, að fimm til sex hundruð manns hefðu tekið þátt í blysförinni að ráðherrabústaðnum. Stöð2 talaði hins vegar um „stóran hóp“.

Raunar blasir við, að 25. október var of seint að mótmæla þögn ráðamanna, því að hún var rofin 24. október, ekki vegna þess að blysförin hafði verið boðuð, heldur vegna þess að niðurstaða hafði fengist í erfiðum og flóknum viðræðum um þjóðarhag á líðandi stundu og framtíðarstefnu út úr miklum vanda.

Óneitanlega er nokkuð skondið að sjá Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formann Alþýðuflokksins, hrópa sig hásann á tröppum ráðherrabústaðarins og vera í fremstu röð þeirra, sem efna til mótmæla, þar sem undirtónninn er að veitast að stjórnvöldum fyrir að innleiða of mikið frjálsræði í þjóðfélagið og standa síðan ekki nægilega fast á bremsunum gegn því, að menn nýttu sér þetta frelsi.

Hvers vegna nota ég orðið „skondið“ í þessu sambandi? Jú, af því að ég vil ekki kveða fastara að orði um tvískinnunginn í málflutningi Jóns Baldvins. Man enginn lengur eftir því, hve Jón Baldvin hefur árum saman verið iðinn við að eigna sér allt frjálsræðið, sem fylgdi aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu (EES)? Hann hefur í ræðu og riti sagst hafa dregið sjálfstæðismenn nauðuga viljuga inn í EES. Án framtaks hans og frumkvæðis hefðu íslenskir fjármála- og athafnamenn verið í fjötrum og ekki fengið að njóta sín á evrópskum vettvangi.

Nú passar mynd frjálsræðishetjunnar ekki lengur ímynd Jóns Baldvins og þá er bara skipt um gervi. Vilji Jón Baldvin halda þræði í málflutningi sínum hin síðari ár, ætti hann að halda sig við að hallmæla Davíð Oddssyni, þar með héldi hann líka best utan um „breiðfylkinguna“, sem birtist með tvö höfuð á Austurvelli 25. október en hafði þó aðeins eitt hinn 18., þegar Davíð var samnefnari mómælanna.

Sjálfsagt er, að rétturinn til mótmæla sé nýttur. Við núverandi aðstæður sýnist öflugasta leiðin til þess vera í gegnum veraldarvefinn – á þann veg er á skemmstum tíma unnt að ná til flestra, eins og sannaðist, þegar leitað var undirskrifta þar gegn þeirri ósvífni breskra stjórnvalda að setja íslensk fyrirtæki á bás með hryðjuverkamönnum. Sá hængur er hins vegar á þessari leið, að einstaklingar geta ekki látið ljós sitt skína á sama hátt og unnt er með því að hrópa á tröppum og torgum.

Mestu skiptir að sjálfsögðu að hugað sé að þjóðarhag og hann sé hafður að leiðarljósi bæði af stjórnvöldum og mótmælendum. Sé það ekki gert, verður voðinn aðeins meiri.