19.10.2008

Litið um öxl eftir bankahrun.

 

 

Þegar litið er um öxl, eftir að þrír höfuðbankar landsins eru að nýju komnir í ríkiseign, er eðlilega leitast við að spyrða stjórnmálmenn við þessa atburðarás og gera þá samseka á einn eða annan veg.

Um árabil hefur verið sagt, að nú sé þungamiðja þjóðfélagsþróunarinnar ekki á stjórnmálavettvangi heldur í hinu kraftmikla og öfluga fjármála- og viðskiptalífi – fréttir úr heimi stjórnmálanna skipti ekki lengur sama máli og áður, viðskipti og fjármálaumsvif skuli vera í forgrunni – stjórnmálmenn eigi að halda sig til hlés, annars séu þeir aðeins til trafala. Til að árétta þá skoðun, að hin miklu umsvif hafi í raun verið yfir allar venjulegar umræður hafin, var sjálfur forseti Íslands í forystu þeirra, sem mærðu viðskiptajöfrana mest.

Einar Már Guðmundsson ritöfundur orðaði þetta svo í grein í Morgunblaðinu fimmtudaginn 16. október:

„Meira að segja forsetinn hefur ferðast með þeim yfir hálfan hnöttinn, kannski til að horfa á einn knattspyrnuleik og líkt þeim við mikilmenni í skálarræðum, vegsamað dirfsku þeirra og þeir hafa haft leiðtoga jafnaðarmanna í vasanum og þeir nánast verið einsog búktalarar auðmannanna, því eðli málsins samkvæmt hafa auðmennirnir þurft að finna sér andstæðing og hann hefur hluti þeirra fundið í Davíð Oddssyni sem gegnt hefur nær öllum störfum sem hægt er að gegna, verið borgarstjóri, forsætisráðherra og er nú seðlabankastjóri.“

Viðskiptajöfrar töldu sig svo sannarlega hafa í fullu tré við stjórnmálamenn. Fyrir síðustu þingkosningar ætlaði Jóhannes Jónsson, kaupmaður í Bónus, að bola mér af þingi í krafti auðs síns og áhrifa eins og heilsíðuauglýsingar hans í blöðum sýndu. Af því tilefni sendi ég frá mér yfirlýsingu að loknum kosningum, þar sem sagði meðal annnars:

„Í auglýsingunni gaf Jóhannes Jónsson meðal annars til kynna, að aðstoðarlögreglustjórinn í Reykjavík hefði eitthvað „á mig“ og þess vegna myndi ég skipa hann ríkissaksóknara.  Þessi kenning varpar ljósi á einkennilegan hugarheim auglýsandans og síðan meginboðskapinn: Vegna auðs míns og verslunarumsvifa skal ég hafa mitt fram!

Í ljósi síendurtekinna yfirlýsinga Jóhannesar um pólitískt samsæri sjálfstæðismanna gegn sér og fjölskyldu sinni kemur í sjálfu sér ekki á óvart, að hann beiti auði sínum og viðskiptaáhrifum gegn stjórnmálamönnum, sem hann telur standa í vegi fyrir því, að hann geti farið öllu sínu fram. Ekkert réttarríki býr auðmönnum hins vegar eftirlitslausar aðstæður.

Það þjónar almannahagsmunum, að óháðir, opinberir aðilar fylgist með hvernig stjórnendur og ráðandi hluthafar almenningshlutafélaga fara með þau verðmæti, sem þeim er fyrir treyst. Með árásum á mig og ákæruvaldið er Jóhannes að gera veika stöðu almennra fjárfesta á Íslandi enn verri gagnvart stóreigendum. Hér ráða einkahagsmunir ferð en ekki virðing fyrir rétti annarra. Takist með opinberum, persónulegum árásum að hræða lögreglu og aðra eftirlitsaðila frá því að sinna skyldum sínum er vegið að hagsmunum fleiri en þeirra, sem árásunum sæta.“

Ég birti þessa tilvitnun í eigin skrif til að minna á, hvernig gengið var fram á þessum tíma í krafti auðs gegn þeim, sem viðskiptajöfrar töldu andvíga sér. Engu var til sparað og ef ég veit rétt, vinnur hópur lögmanna enn að því að reyna að fá dóm hjá mannréttindadómstólnum í Strassborg vegna ummæla, sem ég lét falla um Baugsveldið eða Baugsmiðlanna og áttu að gera mig vanhæfan í störfum mínum sem dóms- og kirkjumálaráðherra.

Jón Ásgeir Jóhannesson, þáverandi forstjóri Baugs, var í viðtali við Svein Helgason á Morgunvakt RÚV hinn 3. febrúar 2006. Þá hafði hæstiréttur hafnað þeirri kröfu lögmanna Jóns Ásgeirs, að ég væri vanhæfur til að skipa sérstakan saksóknara í Baugsmálinu. Þessi orðaskipti féllu í útvapsviðtalinu:

Sveinn Helgason: Þú hélst því fram að og hefur haldið því fram, að Björn Bjarnason hafi verið vanhæfur til að skipa sérstakan saksóknara í [Baugs]málið. Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu. Hafðirðu þá ekki bara einfaldlega rangt fyrir þér?

Jón Ásgeir Jóhannesson: Nei, nei, ég tel ennþá að hann hafi verið vanhæfur og ég tel mjög sérstakt ef maður bara skoðar skrif hans í gegnum tíðina hvernig hann hefur beitt sínum penna gagnvart okkur persónulega og fyrirtækjum okkar að þá sér það hver maður að hann er ekki hæfur til þess að vera að skipa saksóknara í þessu máli.

Ég ætla ekki að elta ólar við rangfærslur um að ég hafi gert árásir á Jón Ásgeir, fjölskyldu hans og fyrirtæki, heldur birti ég þessi orðaskipti til að sýna, að Jón Ásgeir taldi sig á þessum tíma vita betur en hæstiréttur um hæfi mitt til að sinna embættisverkum mínum.

Haustið 2006 var prófkjör í Sjálfstæðisflokknum til að skipa á lista flokksins við framboð til þingkosninga vorið 2007. Ég bauð mig fram í því prófkjöri. Skömmu eftir það, eða 8. desember 2006, var Jóhannes Jónsson í Bónus í afar löngu viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur á útvarpi Sögu. Þar ræddu þau meðal annars Baugsmálið og meint ummæli mín tengd því. Þessi orð féllu þeira á milli af því tilefni:

Arnþrúður Karlsdóttir: En nú segir hann [Björn] hins vegar í þingsal að, hann segir ég hef aldrei verið að ræða þetta Baugsmál?

Jóhannes Jónsson: Nei, ég held að hann bara vildi helst aldrei hafa rætt það en alþjóð veit nú betur og hérna, og það hefur verið furðulegar ályktanir sem að hann hefur látið frá sér fara um okkar fyrirtæki og okkur. Og hérna maður svona upplifir hérna andrúmsloftið frá honum og það er ansi kalt og eins og hann hefur nú sagt sjálfur að hann sé svo kaldur kall að hérna og hann skipti nú ekki um skoðun það er sama hvað á dynur en ég held að í prófkjörinu þá hafi komið ljóslega fram hver hugur almennings er til hans. Hann rúllaði jú niður töppurnar niður í 9. sæti hvað atkvæðamagn snertir.

Arnþrúður Karlsdóttir: Já, einmitt þegar þú nefnir þetta að svona ert að tala um eins og Björn Bjarnason, þetta er jú dómsmálaráðherra, Arnar Jensson, hjá ríkislögreglustjóraembættinu hann talaði opinskátt um það og opinberlega að ríkir hafi jafnvel forréttindi í réttarkerfinu og fátækir aftur á móti þurfi að líða fyrir að vera fátækir. Hvernig sástu þessa yfirlýsingu, hvernig kemur þetta við þig?

Jóhannes Jónsson: Þetta er náttúrlega alveg furðuleg yfirlýsing hjá manni í þessari stöðu og ég held að þarna afhjúpist nú sko mannauðurinn sem að er að reka þessa stofnun sem heitir lögreglustjórinn með einum tveimur til þremur n-um í endann og hérna ég held að sko þessi afhjúpun sem að hann framkvæmdi með þessari grein sinni hún er náttúrlega algjörlega út í hött að þeir hafi jú náð góðum árangri í hinum ýmsu sakamálum í gegnum tíðina segir Jón Snorrason að þeir nái nú.

Ég held, að það sé hollt að minnast orðaskipta af þessu tagi á líðandi stundu. Forvarsmenn Baugs töldu sig ekki aðeins í stöðu til að blanda sér í stjórnmálin með beinum hætti heldur að hafa dóm hæstaréttar að engu og ráðast að þeim, sem sinntu embættisskyldum sínum við rannsókn mála hjá embætti ríkislögreglustjóra. Í þessum anda beittu þeir sér gagnvart lögmönnum sínum og fjölmiðlum. Árangurinn birtist í málflutningi á opinberum vettvangi, hvort heldur í réttarsalnum eða annars staðar.

Tilefni þess, að Arnþrúður fékk Jóhannes í Bónus í þetta viðtal var, að hann hafði þá nokkrum dögum áður gefið 21 milljón króna til Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstofnunar kirkjunnar. Jóhannes gaf þessa skýringu á fjárhæðinni: Mér fannst vel til fundið að hafa upphæðina þessa, það er að segja 21 milljón. Það var það sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fór fram á í aukafjárveitingu til þess að greiða sínum manni laun, það er að segja Sigurði Tómasi.

Arnþrúður var að sjálfsögðu undrandi, að heyra að þessi fjárhæð væri ætluð sem laun handa einum manni. Sigurði Tómasi Magnússyni, settum saksóknara, enda var svo alls ekki heldur um sérstakan kostnað vegna starfa á vegum ákæruvaldsins gegn Baugi á árinu 2006. Það var eins og rauður þráður í tali Baugsmanna og miðla þeirra um málið, að kostnaður ríkisins af því væri óheyrilegur. Það átti ekki við nein rök að styðjast frekar en svo margt annað.

Þegar litið er um öxl, má spyrja, hve margir kusu að þegja frekar en segja frá öllum samskiptum sínum við þá menn, sem beittu auði sínum og fjölmiðlum til að upphefja sjálfa sig á kostnað annarra.

Í Staksteinum Morgunblaðsins 13. október 2008 sagði:

„Seint á árinu 2005 og snemma á árinu 2006 sagði Morgunblaðið frá mörgum skýrslum og álitum erlendra banka, greiningardeilda og matsfyrirtækja, sem bentu á hætturnar í íslenzka bankakerfinu. Blaðið var hundskammað fyrir að sinna þessum fréttum. Bankastjórar, sem ekki eru lengur í vinnu, í bönkum sem eru ekki lengur til, öskruðu í símann á ritstjóra og blaðamenn Morgunblaðsins. Nú getum við sagt að gott hefði verið að hlusta á varnaðarorðin og læra af reynslunni. Það er bara orðið svolítið seint.“

Ég tek undir með Guðmundi Magnússyni, sem hvatti ritstjórn Morgunblaðsins til að segja þessa sögu alla. Hvers eðlis var reiðilesturinn og af hvaða tilefni? Þegar rætt er um nauðsyn þess að gera upp við þennan tíma, á að segja söguna alla. Engum ætti að vera það skyldara en blaðamönnum.

Í yfirlýsingu minni vegna auglýsinga Jóhannesar í Bónus frá því í maí 2007 sagði einnig:

„Í framhaldi af auglýsingunni [frá Jóhannesi í Bónus] kemur á óvart, að almennt hafa stjórnmálamenn og álitsgjafar látið eins og hún sé næsta eðlilegt ef ekki sjálfsagt nýmæli.

Um svipað leyti og Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, kveinkaði sér undan því, að ungir framsóknarmenn hefðu birt af sér skopmyndir, lýsti hann skilningi á framtaki Jóhannesar. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hlakkar yfir því, að ég lækka á þingmannalista. Egill Helgason álitsgjafi segir: „Í alvörunni. Þetta er ein aðferð kjósenda til að segja skoðun sína - það næsta sem við komumst persónukjöri í þingkosningum. Það á að taka mark á slíkum skilaboðum. Annars eru stjórnmálamenn að gefa kjósendum langt nef.“

Ég lýsi áhyggjum yfir þróun stjórnmálastarfs og raunar réttarríkisins sjálfs, sé talið sjálfsagt og eðlilegt að beita ofríki í krafti auðs í því skyni, að tryggja sér viðhlæjendur á þingi, í réttarsalnum og hjá ákæruvaldinu. Er ekki tímabært að staldra við og líta á alvöru málsins?“

Ég er enn sömu skoðunar um þessi mál og ég var í maí 2007. Allan þann tíma, sem ég hef tekið beinan þátt í stjórnmálum og setið sem ráðherra, hef ég talið, að frumskylda okkar kjörinna fulltrúa, sé að láta ekki undan hinum gífurlega þrýstingi, sem á okkur getur dunið frá fjármála- og viðskiptalífinu heldur skapa því heilbrigðar leikreglur í trausti þess, að innan þeirra sé starfað og án þess að stofna öllu í voða með óbærilegri áhættu.

Einar Már Guðmundsson rithöfundur sagði í fyrrnefndri grein:

„Formaður Samfylkingarinnar hefur mært auðjöfrana, tekið undir sjálfsvorkunn þeirra og gremju, og nánast gert það að stefnu sinni að þeir fái að ráða öllu, ekki bara verslun og viðskiptum heldur líka fjölmiðlum. Í þessu andrúmslofti hefur ekki verið teljandi andstaða við Íraksstríðið eða nokkurn skapaðan hlut. Stjórnmálamenn hafa fengið að vaða uppi í spjallþáttum, nánast einsog leikarar sem þylja sína rullu, og stór hluti æskulýðsins verið týndur í tækjadýrkun og peningasnobbi. Fávitavæðingin hefur grasserað, reyfarinn bókmenntir dagsins, mærður af yfirborðsmönnum.“

Með því að setja ekki reglur um dreifða eignaraðild að fjármálafyrirtækjum var of mikið vald sett í hendur of fárra manna. Tilraun til að dreifa eignaraðild að fjölmiðlum varð að engu, af því að Ólafur Ragnar Grímsson dró taum stóreigenda. Saga deilnanna um fjölmiðlafrunvarpið er í hnotskurn saga ofríkis gagnvart stjórnmálavaldinu í þágu viðskiptahagsmuna – málið snerist aldrei um varðstöðu andstæðinga frumvarpsins um málfrelsi. Nú er einokun á frjálsum fjölmiðlamarkaði orðin nær algjör – hvar eru þessir postular málfrelsis við þær aðstæður?

Hinn gífurlegi og hraði vöxtur í fjármálastarfsemi skilaði þjóðarbúinu miklu. Þúsundir nýrra starfa komu til sögunnar fyrir hámenntað fólk. Fjármagnið, sem streymdi inn í landið, hefur sett svip sinn á menntun og menningu ekki síður en hvers kyns framkvæmdir og fjárfestingar. Ríkissjóður hafði af þessu öllu miklar tekjur og sem betur fer var haldið þannig á stjórn ríkisfjármála, að menn þurrkuðu upp erlendar skuldir. Fyrir okkur, sem komum að því að ákvarða útgjöld ríkisins, hefur það létt störfin, að ekki hefur þurft hin síðari ár að taka frá marga milljarði króna af óskiptu til að greiða vexti og afborganir.

Ástæðulaust er að gleyma þessu, þegar litið er til baka í bankarústunum. Hitt er öllum næsta óskiljanlegt, að íslenska þjóðin eigi að ábyrgjast risavaxna innlánsreikninga í öðrum löndum. Hvergi og aldrei hafa verið settar reglur um, hvernig við eigi að bregðast, ef bankakerfi þjóðar hrynur.

Thomas L. Friedman, dálkahöfundur við The New York Times skrifar dálk í blaðið hinn 19. október undir fyrirsögninni: The Great Iceland Meltdown hún hefst á þessum orðum: Who knew? Who knew that Iceland was just a hedge fund with glaciers? Who knew?

Friedman varð heimsfrægur fyrir bók sína um alþjóðavæðinguna, TheWorld is Flat Í grein sinni um íslensku bankana segir hann þá hafa farið á lánafyllerí og höfðað til sparifjáreigenda í Evrópu með 5.45% vöxtum. Síðan segir hann:

„In a flat world, money can easily seek out the highest returns, and when word got around about Iceland, deposits poured from Britain – some $1.8 billion. Unfortunately, though, when global credit markets closed up, and the krona fell “the Icelandic banks were unable to finance their debts, many of which were denominated in foreign currencies,“ The Times reported. When depositors rushed to get their money out, the Icelandic banking system had little reserves to cover withdrawals, so all three banks melted down and were nationalized.“

Friedman segir síðan frá því, hverjir hafa lent í vandræðum vegna viðskipta við íslensku bankana í Bretlandi og segir lærdóminn þennan: And therein lies the central truth of globalization today: We are all connected and nobody is in charge.

Friedman spáir þvi, að eftir þessa hörmulegu reynslu af hruni fjármálakerfisins, verði lögð áhersla á að reyna að ná alþjóðlegri stjórn á því. Hann lýkur grein sinni á þessum orðum: And it will be a world in which multilateral diplomacy and regulation will no longer be a choice. It will be a reality and necessity. We are all partners now.

Glíma íslenskra stjórnvalda síðustu daga hefur einmitt snúist um að tengja okkur að nýju inn í hið alþjóðlega fjármálakerfi. Þar hefur verið komið að lokuðum dyrum og þær virðast ekki opnast nema að tilstuðlan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Nú hefur verið ákveðið að efna til margra leiðtogafunda til að ræða úrræði til framtíðar í von um, að unnt verði að draga úr hættu á að svipaðir atburðir endurtaki sig. Dæmið frá Íslandi verður þar örugglega oft nefnt til sögunnar.