16.8.2008

Fjórði meirihlutinn - misvitru álitsgjafarnir.

 

Nýr meirihluti hefur í fjórða sinn verið myndaður í borgarstjórn Reykjavíkur á kjörtímabilinu, sem hófst vorið 2006. Enn einu sinni sitja Samfylking og vinstri/græn eftir með sárt enni. Það er hin ótvíræða pólitíska niðurstaða þess, sem gerst hefur í borgarstjórn frá síðustu kosningum, að þrisvar sinnum hefur Degi B. Eggertssyni og Svandísi Svavarsdóttur mistekist að mynda meirihluta í borgarstjórninni. Þetta er í raun ótrúleg niðurstaða eftir dýrðarsöng forystumanna vinstri flokkanna um R-listann og ágæti hans allt frá árinu 1994.

Nú segir Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, að í upphafi þessa árs (2008) hafi borist í tal, að Samfylking, vinstri/græn og Framsóknarflokkur mynduðu nýjan R-listann, en Samfylkingin hafi hafnað því. Hún hafi hins vegar viljað, að flokkarnir gengju bundnir til næstu kosninga, hver undir sínu merki. Óskar segir orðrétt á forsíðu Morgunblaðsins 16. ágúst:

„Fyrir Framsóknarflokkinn var það algjörlega óaðgengileg hugmynd og síðan hafa þessar hugmyndir ekki verið í minnihlutanum. Þannig að Samfylkingin hafnaði því að endurvekja Reykjavíkurlistann.“

Hinn 3. febrúar ræddi Egill Helgason við mig í þætti sínum Silfur Egils. Þá þegar blasti við, að það væri mjög lítið traust á bæði borgarstjóra og meirihlutanum í borgarstjórn sem varð til 21. janúar. Egill spurði, hvort ég væri sammála sumum sjálfstæðismönnum, sem teldu þetta áhyggjuefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Svar mitt var meðal annars þetta:

„Ég held nú í þessu dæmi komi í ljós þetta sem við kynntumst líka í ríkisstjórninni þegar Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra. Það er mjög erfitt fyrir menn úr litlum samstarfsflokki að fara í oddastöðu og getur orðið mjög þungt undir fæti að sannfæra allan almenning um það að sé rétt. Það er náttúrulega hluti af þessu dæmi að Ólafur F. Magnússon kemur ekki með neinn stóran flokk á bak við sig og fólkið í stóra flokknum sættir sig kannski ekki almennilega við það að einhver úr litlum flokki fari þarna í þessa stöðu.“

Egill spurði: Hefði Sjálfstæðisflokkurinn í rauninni ekki þurft að hafa borgarstjóra?:

Að sjálfsögðu tel ég að svo sé. Ég held að það sé [almennt] best og hið besta fyrir Reykvíkinga. Og þetta hefur verið hroðalegt ástand allt þetta kjörtímabil. Þetta er þriðji meirihlutinn í borgarstjórninni. Það er visst áhyggjuefni að  menn nái sér ekki niður á einhvern breiðan og öruggan meirihluta í borgarstjórn, annað hvort með einum flokki, og Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem getur gert sér vonir um það svona við allar eðlilegar aðstæður, eða þá breiðari samstöðu heldur en við sjáum núna. [Gerist þetta ekki] þá er borginni ekki vel stjórnað.“

Björn Ingi Hrafnsson var í meirihlutasamstarfi við sjálfstæðismenn í borgarstjórn, þar til upp úr slitnaði vegna OR/REI málsins haustið 2007, hann sagði sig síðan úr borgarstjórn í byrjun þessa árs og er nú viðskiptaritstjóri Fréttblaðsins. Hann ritar leiðara um nýjan meirihluta í borgarstjórn í blaðið 16. ágúst og segir:

„Félagar hans [Óskars Bergssonar] í minnihluta Tjarnarkvartettsins [það er í Samfylkingunni og vinstri/græn] höfðu lítið gert með sjónarmið hans í stórum og umdeildum málum eins og skipulagsmálum miðborgar og Bitru­virkjun, sem margir telja þjóðhagslega nauðsynlegt að ráðast í án frekari tafa. Eflaust hefur það vegið þungt þegar tækifæri bauðst til að endurnýja meirihlutann og hrinda brýnum stefnumálum í framkvæmd, en ekki síður opinber og ákafur stuðningur formanns Framsóknarflokksins við slíkt samstarf og sömuleiðis sú staðreynd að stjórnarkreppa blasti við að öðrum kosti, þar sem enginn treysti sér til að mynda meirihluta með Ólaf F. Magnússon innanborðs. Oddvitar Samfylkingar og Vinstri grænna höfðu einnig lýst því yfir að þeir hygðust ekki leysa sjálfstæðismenn úr þeirri snöru sem þeir hefðu sjálfir komið sér í. Það var skiljanleg afstaða út frá pólitísku stöðumati og því sem á undan hefur gengið, en ekki endilega ábyrg afstaða út frá hagsmunum borgarbúa. ?

Óskar Bergsson og Framsóknarflokkurinn hafa að sönnu ekki riðið feitum hesti frá skoðanakönnunum. Hann verður sakaður um að vera „hækja Íhaldsins" og þarf því að sýna kjósendum fyrir hvað hann stendur. Hanna Birna Kristjánsdóttir þarf að sameina hóp að baki sér, sem hefur virst ósamstilltur, en þráir vafalaust að hríðinni sloti svo unnt sé að snúa sér að daglegum verkefnum. Hún getur orðið glæsilegur borgarstjóri.“ [Feitletrun Bj. Bj.]

Í hinum feitletruðu orðum lýsir Björn Ingi því, hvers vegna Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir eru áfram og enn á ný áhrifalaus í borgarstjórn Reykjavíkur, þrátt fyrir meirihlutaskipti. Þau telja einfaldlega pólitíska hagsmuni sína meira virði en hagsmuni borgarbúa. Þau vilja ekki una því, að sjálfstæðismenn sitji í meirihluta í borgarstjórn. Þeim er andúðin á Sjálfstæðisflokknum mikilvægari en að mynda breiðan meirihluta um stjórn Reykjavíkurborgar. Hvorki þau né samflokksmenn þeirra geta skotið sér undan þessari staðreynd með uppnefnum eða stóryrðum um hinn nýja meirihluta.

Leiðari Björns Inga er allt annars eðlis en Fréttablaðs-leiðari Jóns Kaldals 15. ágúst 2008 um glundroðakenninguna. Þar sagði meðal annars:

„Enginn efi er um að ábyrgðarleysið sem Sjálfstæðiflokkurinn hefur sýnt í borgarstjórn mun fylgja flokknum um langa tíð.

Glundroðakenningin svokallaða var lengi helsta áróðursvopn Sjálfstæðisflokksins gegn fjölflokkastjórn frá miðju til vinstri, hvort sem það var á landsvísu eða í borginni. Farsælt samstarf R-listans lagði þá kenningu í gröfina.

Nú er glundroðakenningin hins vegar risin upp frá dauðum og ofsækir skapara sinn. Hún nær algjörlega utan um hvað getur gerst þegar flokksaginn bilar í stórum flokki og menn hætta að ganga í takt.

Glundroði er rétt lýsing á borgarpólitíkinni í boði Sjálfstæðisflokks. Það er ekkert sem segir að sama geti ekki gerst í landsmálunum.“ [Feitletrun Bj. Bj.]

Jón Kaldal er eins og svo oft áður úti að aka í kenningasmíði sinni um Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin hafnaði endurreisn R-listans í upphafi árs 2008. Samfylking og vinstri/græn hafa látið flokkspólitíska hagsmuni og andúð á Sjálfstæðisflokknum, sem birtist vel í skrifum Jóns Kaldals, ráða ferð sinni í borgarstjórn en ekki hagsmuni Reykvíkinga. Ef einhver stuðlar að glundroða í þessari borgarstjórn, sem nú situr, eru það borgarfulltrúar Samfylkingar og vinstri/grænna. Þau telja sér það helst til framdráttar, en sjálfstæðismenn leggja sig fram um að mynda starfhæfan meirihluta.

Þorsteinn Pálsson, meðritstjóri Jóns Kaldals á Fréttablaðinu, ritaði leiðara um borgarmál í blaðið 12. ágúst og sagði:

„Skoðanaágreiningur innan Samfylkingarinnar um orkunýtingu hefur gert það að verkum að ríkisstjórnin getur ekki kynnt jafn markvissa hagvaxtarstefnu og æskilegt væri. Við þær aðstæður er einfaldlega of kostnaðarsamt fyrir launafólk í landinu að stærsta orkufyrirtækið [Orkuveita Reykjavíkur] skuli tekið úr sambandi varðandi þessi verkefni eins og gert hefur verið. Í skipulagsmálum blasir við að allt er í óvissu og uppnámi með verðlaunahugmyndir sem gera ráð fyrir tuttugustu og fyrstu aldar endurreisn við Laugaveginn. Engin rök standa til að halda borginni í slíkri úlfakreppu í skipulagsmálum næstu árin.

Þá vaknar spurningin: Getur annars konar flokkasamstarf breytt þessari málefnastöðu? Hundrað daga meirihlutinn, sem svo hefur verið nefndur, var aldrei sterkari en veikasti hlekkur hans. Sú staða er óbreytt. Aukheldur má rekja núverandi málefnastöðu til þeirra viðhorfa sem þar réðu ríkjum og ríkja enn á báðum þessum sviðum.

Fyrsti meirihluti kjörtímabilsins fylgdi hins vegar allt fram að októberslysinu [OR/REI málið] skynsamlegri stefnu bæði um orkunýtingu og skipulagsmál. Lengst af naut hann auk þess trausts og ágætra vinsælda. Endurnýjun á samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn er satt best að segja líklegt til þess að leysa borgina úr þeirri málefnaklípu sem hún er í.“

Í hópi ritstjóra Fréttablaðsins ríkir glundroði í afstöðunni til meirihlutans í Reykjavík tveir styðja hann en einn er á móti. Afstaða Þorsteins og Björns Inga vekur Guðmund Magnússon til umhugsunar, hann segir á bloggsíðu sinni:

„Eru gömlu Morgunblaðsritstjórarnir, Matthías og Styrmir, endurfæddir í mynd ritstjóra Fréttablaðsins, Björns Inga Hrafnssonar og Þorsteins Pálssonar?

Þessi spurning vaknar eftir leiðara Björns Inga í Fréttablaðinu í dag. Þar gerir hann að umtalsefni nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og varpar fram þeirri spurningu hvort breytingum í borgarstjórn kunni að fylgja breytingar á samstarfi í ríkisstjórn.

Varla var prentsvertan þornuð á leiðara Þorsteins Pálssonar um daginn, þar sem stungið var upp á meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn, þegar Ólafi borgarstjóra mátti vera ljóst að keðjuna fínu yrði hann að leggja frá sér.

Það var engin tilviljun. Það þykist þessi bloggari vita. Þorsteinn var ekki að skrifa út í bláinn. Hann er maður vel tengdur.

Sama er að segja um hinn ritstjórann, Björn Inga Hrafnsson. Bara í öðrum flokki.“

Misvitru álitsgjafarnir.

Af orðum Guðmundar Magnússonar má draga þá ályktun, að meira mark sé takandi á þeim Birni Inga og Þorsteini Pálssyni en öðrum, sem skrifa í blöð um stjórnmál. Hvað sem því líður er víst, að Birni Inga og Þorsteini er meira í mun en öðrum, að færa rök fyrir skoðunum sínum og setja þær í trúverðugt samhengi.

Lítum þá á misvitru álitsgjafanna:

Illugi Jökulsson skrifar grein um nýjan meirihluta í 24 stundir 16. ágúst, sem byggist á gamalli heift hans í garð Davíðs Oddssonar. Kenning Illuga er, að ráðning Ólafs F. á Gunnari Smára Egilssyni til starfa fyrir Reykjavíkurborg hafi valdið Davíð svo mikilli reiði, að hann hafi gefið Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrirmæli um að slíta samstarfi við Ólaf F.

Samsæriskenning Illuga var orðin að engu, áður en hún birtist, því að Hanna Birna sagði frá því í Kastljósi að kvöldi 15. ágúst, að Gunnar Smári mundi ljúka því verki fyrir borgina, sem um hefði verið samið. Kenningin dugar hins vegar Illuga til að formæla Hönnu Birnu og telja hana jafnvel enn verri en Ólaf F. Illugi taldi þó sjálfsagt, að efnt yrði til upphlaups á fundi borgarstjórnar 24. janúar 2008, þegar Ólafur F. var kjörinn borgarstjóri.

Hallgrímur Helgason ritar 16. ágúst pistil í Fréttablaðið um hinn nýja meirihluta og hefur það eitt til málanna að leggja, að borgarfulltrúar hafi laumast á brunastiga út úr ráðhúsinu til að forðast fjölmiðlamenn. Þetta er jafnröng kenning og samsæriskenning Illuga. Borgarfulltrúarnir sátu bara lengur í fundarherberginu en féll að þolinmæði fjölmiðlamanna.

Guðmundur Gunnarsson, bloggari á eyjan.is, sagði: „Og Hanna Birna vill efla ófriðinn hún hefur gengið fram hjá íslensku fyrirtæki og samið við erlent byggingarfyrirtæki og með því er hún að bæta við atvinnuleysi byggingarmanna líklega um svona 100. Í fréttum í gær var farið gaumgæfilega yfir hvað valdi útlendingahatri og hvernig það magnast upp. Hanna Birna hellir benzíni á þann eld. Hvernig haldið þið að íslendingar muni taka því næsta vetur að mæla göturnar á meðan Hanna Birna skaffar erlendum mönnum atvinnu. Það er svo spurning hverjum það verður að kenna.“

Guðmundur fékk þessa nafnlausu athugasemd á síðuna sína: „sé ekki hvort skiptir máli að útlenskt fyrirtæki vinni fyrir borgina eða íslenskt fyrirtæki fá[i] verkið og hafi eintóma útlendinga í vinnu.“

Þráinn Bertelsson er fastur penni Fréttablaðsins.  Þráinn fær heiðurslaun frá alþingi fyrir kvikmyndalist og er hún hugleikin. Hann segir 16. ágúst:

„Bjössi Batman án farsímasambands

Bjössi Batman, þessi „die hard“ dómsmálaráðherra okkar hefur ekki ennþá „mátt vera að því“ að sýna Paul Ramses, konu hans og kornabarni þá sjálfsögðu kristilegu miskunn sem Batti blökumaður, Súperman, Köngurlóarmaðurinn, Skrímslið í Svartalóni og Bruce Willis væru löngu búnir að sýna þessu vesalings fólki ef þeir væru dómsmálaráðherrar í einhverju krummaskuði en ekki bara ímyndaðar fígúrur.

Eins og sjá má af óborganlegum dagbókarskrifum ráðherrans er honum farið að förlast og stendur nú uppi farsímalaus með fríðu föruneyti í Fairbanks í Alaska á kostnað ríkisins.

Vonandi kemst hann samt inn á netið og fær tölvupóst frá greiningardeildinni um að mótmælaskríll eins og Hörður Torfason, og fleiri hafi verið með skuggalega friðsöm skrílslæti fyrir utan kontórinn hans í dag - til að minna hann á að hætta þessu ferðalagaflandri sem ráðherrar leggjast í rétt áður en þeir eru reknir og koma heim og vinna vinnuna sína.

Bæði Dökki riddarinn Leðurblöku-Björn og Ólafur einræðisborgarstjóri og fleiri starfsmenn Flokksins þurfa nú á hvíld að halda fyrir athyglisverða frammistöðu í hlutverkum valdasjúklinga sem Flokkurinn telur gott að hafa í sinni þjónustu.“