26.7.2008

Hús fyrir Listaháskóla Íslands.

Í nóvember 1992 skipaði Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra nefnd til að gera tillögur um skipulag og rekstrarform stofnunar er veitti æðri menntun í listum. Var nefndinni m.a. falið að kanna kosti þess og galla að mynduð yrði sjálfseignarstofnun til að annast menntun í listum á háskólastigi. Auk mín, sem formanns, sátu í nefndinni: Bjarni Daníelsson skólastjóri, Margrét Theódórsdóttir skólastjóri, Jón Nordal tónskáld, Gunnar Eyjólfsson leikari og Snævar Guðmundsson viðskiptafræðingur. Með nefndinni starfaði Þórunn J. Hafstein deildarstjóri. Nefndin skilaði tillögum sínum til ráðuneytisins með skýrslu í maí 1993. Í niðurstöðum nefndarinnar sagði m.a.:

,,Nefndin fjallaði um kosti og galla þess að fella listmenntun á háskólastigi í eina stofnun og var sammála um að sá kostur sé fýsilegur. Vegur þar þungt það mat nefndarmanna að sameining íslensks listnáms í einni æðri menntastofnun efli menningu og listsköpun og auðveldi að nýjar námsbrautir komi til sögunnar. Þá má ætla að ná megi umtalsverðri hagræðingu í rekstri með sameiningu skólanna. Loks mundi það vafalaust styrkja stöðu listmenntunar gagnvart sambærilegum menntastofnunum erlendis að hér starfaði ein stofnun á háskólastigi á þessu sviði. Nefndin telur sérstaklega mikilvægt að það sé haft í huga að fyrirsjáanlegt er að alþjóðasamvinna á sviði mennta og rannsókna muni aukast verulega í náinni framtíð og því er nauðsynlegt að hér á landi sé stofnun sem veiti menntun í listum á háskólastigi og geti nýtt sér þau tækifæri til samstarfs er bjóðast á erlendum vettvangi.“

Á haustþingi 1994 lagði Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra fram frumvarp til laga, sem byggði í meginatriðum á tillögum nefndarinnar frá maí 1993. Frumvarpið um listmenntun á háskólastigi varð að lögum fyrir kosningar vorið 1995 og hinn 21. september 1998 kom það í minn hlut sem menntamálaráðherra að staðfesta skipulagsskrá Listaháskóla Íslands. Segir um það hér á síðunni: „Þótt vélin frá Færeyjum væri tveimur tímum of sein náði ég þó að skjótast í Safn Sigurjóns Ólafssonar og taka þar þátt í athöfn í tilefni af því, að gengið hefur verið frá skipulagsskrá fyrir Listaháskóla Íslands. Sé ég í blöðunum í dag, að auglýst er eftir rektor skólans. Þar með er ýtt úr vör á grundvelli hugmynda, sem ég tók þátt í að móta á árunum 1992 til 1993 og miða að því að Listaháskóli Íslands verði einkaskóli, sem starfi á grundvelli samnings við ríkið um fjárveitingar. Með stofnun skólans rætist gamall draumur margra og ný vídd kemur inn í menntakerfi okkar.“ Hjálmar H. Ragnarsson var ráðinn rektor og hinn 10. september 1999 var skólinn settur í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn að Kjarvalsstöðum.

Í ræðu minni við fyrstu skólasetninguna taldi ég, að listaháskólinn yrði kominn í framtíðarhúsnæði árið 2001. Við stofnun hans fylgdi honum húsakostur á Laugarnesi en Ólafur G. Einarsson sagði þetta um húsnæðismálin, þegar hann flutti frumvarpið á alþingi:

„Í drögum að skipulagsskrá er gert ráð fyrir að Listaháskóli Íslands fái til afnota húsnæðið að Laugarnesvegi 91. Húsið afhendist fullbúið til fyrirhugaðra nota. Húsaleiga, sem greiðist í ríkissjóð, taki mið af húsaleigu sem ákveðin er af Fasteignum ríkissjóðs fyrir sambærilegt húsnæði.

Fullbúin aðstaða í Listaháskólahúsinu í Laugarnesi er ein meginforsenda þess að Listaháskóli Íslands geti starfað á raunhæfan og hagkvæman hátt. Ákvæði um húsaleigu er í samræmi við það sem gildir um ríkisstofnanir í eigin húsnæði. Gert er ráð fyrir að húsaleigugreiðslur renni til viðhalds fasteignarinnar sjálfrar. Ég tek fram að enn er mikið verk óunnið áður en húsið við Laugarnesveg getur talist tilbúið til notkunar og framkvæmdir við frágang hússins eru vitanlega háðar fjárveitingum í fjárlögum.“

Í lok fyrstu umræðu um frumvarpið vék Ólafur G. einnig að húsnæðismálunum og sagði:

„Menn hafa líka gert að umtalsefni húsnæðið að Laugarnesvegi 91 þar sem þessum skóla er ætlað að vera. Það er gengið út frá því í nefndarálitinu og frumvarpinu að þetta húsnæði fullbúið verði heimanmundurinn sem ríkið leggur af mörkum. Ég get ekki svarað því á þessari stundu hvenær það húsnæði kann að verða fullgert en það er að sjálfsögðu ætlunin að endurbótasjóðnum [endurbótasjóði menningarbygginga, sem nú hefur verið aflagður] verði varið til þess að kosta innréttingar við húsnæðið. En það er rétt sem hér hefur líka komið fram að það bíða mörg viðfangsefni endurbótasjóðsins eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi, Þjóðminjasafnið, Þjóðskjalasafnið, Þjóðleikhúsið. Allt sem byrjar á þjóð er töluvert vandamál hjá okkur [Þjóðminjasafnið hefur nú verið endurgert og verulega hefur miðað við endurgerð Þjóðleikhússins] og lausleg áætlun segir okkur að það vantar nokkra milljarða kr. til þess að ljúka þessum framkvæmdum öllum. En endurbótasjóðurinn gefur u.þ.b. 350 millj. á ári.“

Frá því að þessi orð féllu eru liðin 14 ár og 10 ár frá því að skipulagsskrá um skólann var staðfest. Það er þó fyrst núna, sem ákveðinn hefur verið framtíðarstaður fyrir Listaháskóla Íslands, það er við Laugaveg og Frakkastíg og norður fyrir Hverfisgötu, tæplega 14 þúsund fermetrar. Niðurstaða í samkeppni arkitekta um hið nýja hús var kynnt fimmtudaginn 17. júlí og voru +Arkitektar hlutskarpastir.

Laugarnesvegur 91, öðru nafni SS-húsið, var ætlað Listaháskóla Íslands í uppgjöri milli ríkisins og Sláturfélags Suðurlands árið 1991, þegar Ólafur R. Grímsson var fjármálaráðherra og Svavar Gestsson menntamálaráðherra. Eftir að listaháskólinn kom til sögunnar undir eigin stjórn varð fljótt ljóst, að innan hans var enginn áhugi á að nýta húsið til frambúðar fyrir starfsemi skólans. Þar hefur þó hluti skólans starfað en einnig vil Sölvhólsgötu og Stórholt og jafnvel víðar.

Á sínum tíma bauð bæjarstjórn Hafnarfjarðar skólanum aðstöðu við höfn bæjarins, þá nefndi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri við stjórnendur skólans, að hann gæti fengið lóð á Miklatúni. Skólinn hefur fengið lóð í Vatnsmýrinni. Stjórnendur skólans hafa hins vegar ávallt lagt áherslu á, að skólinn yrði í miðborg Reykjavíkur. Um tíma var tenging við tónlistar- og ráðstefnuhúsið nefnd en nú er sem sé komin lóð við sjálfan Laugaveginn.

Miðborg Reykjavíkur fraus á tímum R-listans. Hún hefur ekki komist úr þeim klakaböndum. Þá var haldið þannig á skipulagsmálum og ákvörðunum um veitingastaði, að næturlíf miðborgarinnar tók á sig þann blæ, sem Pétur Gunnarsson, rithöfundur, kennir við „útnárahátt“ en R-listinn taldi sér mjög til tekna.

Fyrir borgarstjórnarkosningar 2002 var látið í veðri vaka, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri og Bolli Kristinsson, kenndur við verslunina Sautján, hefðu náð samkomulagi um endurreisn á Laugaveginum. Þegar á hefur reynt náði þetta samkomulag aðeins til að þess, að borgin keypti Stjörnubíóreitinn af Jóni Ólafssyni. Síðan hefur lítið eða ekkert gerst, fyrr en stóð til að hefja framkvæmdir við Laugaveg 4 til 6 og í ljós kom, að ekki var vilji til annars en varðveita hús eða gamla húsagerð þar og keypti borgin mannvirki á staðnum til að þau yrðu endurgerð í gömlum stíl.

Borgaryfirvöldum var að sjálfsögðu kunnugt um samkeppni meðal arkitekta um hús fyrir listaháskóla á horni Laugavegs og Frakkastígs. Samkeppnin og niðurstaða hennar 17. júlí 2008 er kynnt á þennan hátt á vefsíðu Listháskóla Íslands:

„Alls bárust 20 tillögur frá íslenskum og erlendum arkitektastofum í samkeppnina og voru fimm þeirra valdar áfram á síðara þrep. Þrenn verðlaun voru veitt að heildarfjárhæð átta milljónir króna. Allar verðlaunatillögurnar voru unnar af íslenskum arkitektum. Tillagan sem hafnaði í 1.sæti var unnin af +Arkitektum, tillagan í 2.sæti var hönnuð af Tark Teiknistofunni ehf. og í 3.sæti hafnaði tillaga frá arkitektastofunni Kurt og Pí.

Að samkeppninni stóðu Listaháskóli Íslands og fasteignaþróunarfélagið Samson Properties í samstarfi við menntamálaráðuneyti og Arkitektafélag Íslands.

Markmið samkeppninnar var að fá fram tillögu sem verði grundvöllur að hönnun byggingar sem hýsi alla starfsemi skólans frá haustinu 2011. Kallað var eftir byggingu í háum gæðaflokki hvað varðar fagurfræði og listrænt gildi auk þess sem keppendur skyldu huga að því að nýbygging á reitnum svari vel þörfum skólans en ennfremur að hún aðlagist sem best að borgarmyndinni. Keppendum var uppálagt að taka tillit til sögulegra einkenna og að hönnun styddi við skipulagsmarkmið og áætlanir Reykjavíkurborgar um miðborgina.

„Sigur fyrir íslenska byggingarlist“

„Fjöldi þátttakenda, niðurstaðan og raunar keppnin öll er í raun mikill sigur fyrir íslenska arkitekta og íslenska byggingarlist; hér verður hægt að sjá að Íslendingar eru fullfærir um að hanna frábæra byggingu sem mætir með einstökum hætti þörfum þeirrar öflugu stofnunar sem Listaháskóli Íslands er og skapa honum umgjörð til að eflast enn frekar í framtíðinni til heilla fyrir íslenska menningu og þjóðlíf,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir við opnun sýningarinnar.


Hjálmar H. Ragnarsson sagði dómnefnd telja að tillögur í samkeppninni hefðu almennt einkennst af miklum metnaði og framsýni. Dómnefnd teldi vinningstillöguna sérlega vel til þess fallna að tengja Listaháskóla Íslands við iðandi mannlíf miðborgarinnar. „Þessi bygging innifelur allt sem við báðum um; hún er listræn, frumleg, tekur mið af borgarumhverfinu, hefur skírskotun til menningararfsins, þjónar þörfum skólans frábærlega vel og fangar fólkið af götunni inn í bjart og mikið rými.“

Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna segir m.a. að með „fínlegri og nútímalegri útfærslu upphefur byggingin söguleg einkenni borgarhverfisins. Húsið opnar sig vel að Laugaveginum og þannig getur samspil götulífs og starfsemi skólans orðið lifandi og virkt.“


Kaffihús, leikhús, tónleikasalur og sýningarsalir opnir almenningi
Innan veggja nýs Listaháskóla Íslands í miðborginni koma til með að starfa um 600 manns; nemendur, kennarar og annað starfsfólk. Um þriðjungur skólahúsnæðisins verður opinn almenningi. Í almenningsrýmum verða t.a.m. stærsta listbókasafn landsins, kaffihús, leikhús, tónleikasalur og sýningarsalir.

Dómnefndin var skipuð þeim Jóhannesi Þórðarsyni og Önnu Kristínu Hjartardóttur, fulltrúum Arkitektafélags Íslands, Karitas H. Gunnarsdóttur, fulltrúa menntamálaráðherra, Jóni Ágústi Péturssyni, fulltrúa Samson Properties, og Hjálmari H. Ragnarssyni, fulltrúa Listaháskóla Íslands, sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Ritari nefndarinnar var Eyrún Magnúsdóttir.“

Í tillögunni er að finna mjög góða lausn á viðfangsefninu, sem nær vel hinu upphaflega markmiði með Listaháskóla Íslands að skapa á einum stað aðstöðu til alhliða listnáms. Þegar litið er á innviði byggingarinnar og þá viðbót, sem hún færir mannlífi við Laugaveginn, er enginn vafi á því, að með henni yrði stigið stórt skref til að losa miðborgina úr núverandi klakaböndum.

Að óreyndu hefði mátt ætla, að borgarstjóri og aðrir málsvarar blómstrandi og friðsamlegs mannlífs í miðborginni hefðu hrópað yfir sig af fögnuði, þegar í ljós kom, að unnt yrði að hýsa listaháskólann á þennan glæsilega hátt við Laugaveginn. Gleðihrópin yrðu að minnsta kosti álíka há og ákallið um fleiri lögregluþjóna til að takast á við vandann á 500 metra bletti frá Ingólfsstræti að Aðalstræti frá því um kl. 01.00 til 04.30, þegar veitingamenn og borgin bjóða til útihátíðar um helgar.

Þetta gerðist því miður ekki. Bitinn virðist vera of stór fyrir borgarstjóra, Torfusamtökin og aðra, sem vilja halda Laugaveginum í núverandi mynd, hvað sem tautar og raular. Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 25. júlí sagði Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, orðrétt:

„Og ég vil endurtaka það að ég gef engan afslátt á mínum verndunarsjónarmiðum eftir því hvort ég er í meirihluta eða minnihluta. Þannig að gömlu byggðinni við Laugaveg verður að vera borgið en ég tel að það sé bara mjög auðvelt að samræma þau sjónarmið að þörfum Listaháskólans, því að við viljum fá þá öflugu og miklu starfsemi og blómlega mannlíf sem henni fylgir í miðborginni. Ég er viss um það að það tekst að sætta þessi sjónarmið, en að götumynd Laugavegar hins vegar er kollsteypt með þeim hætti sem nú er gert ráð fyrir, það kemur ekki til greina og það vita, vita það allir að það fær ekki stuðning hjá skipulagsráði.“

Hér er um það að ræða, að tvö gömul hús víki, annað má auðveldlega flytja, hitt, þar sem verslunin Vínberið er, verður ekki flutt. Logi Helgason, kaupmaður í Vínberinu, segir í Fréttablaðinu 26. júlí: „Mér finnst þessi tillaga flott og líst betur á götumyndina með skólanum en hún er í dag.“ Þegar Logi er inntur eftir afstöðu hans að hús Vínbersins verði rifið, segir hann: „Það er ekki gott fyrir okkur að þessi hús fari en það er betra fyrir Laugaveginn.“ Hann segist ætla að flytja rekstur sinn annað við Laugaveginn.

Jón Kaldal ritar leiðara um listaháskóla við Laugaveginn í Fréttablaðið í dag og lýkur honum á þessum orðum:

„Koma Listaháskólans væri mesta framfaraskref fyrir Laugaveginn í áratugi. Tillaga Páls Hjaltasonar og félaga hjá +Arkitektum er stássleg og áræðin eins og er við hæfi fyrir þá starfsemi sem byggingin á að hýsa.

Það eru ekki oft reist hús í Reykjavík sem setja afgerandi svip á borgina og lyfta umhverfi sínu á hærra plan. Hér er komin tillaga að einu slíku.

Það verður núverandi meirihluta til ævarandi háðungar ef honum tekst að klúðra þessu máli.“

Við hlið leiðarans er grein eftir Hallgrím Helgason rithöfund, sem lýsir verðlaunatillögunni um listaháskóla sem „nýkubbískri“, og líkist þar með byggingum, sem best megi sjá í Grafarholtinu. Sá stóri galli sé á byggingunni, að hún renni „steindauðum Berlínarmúr niður hálfan Frakkastíginn.“

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstri/grænna í Reykjavík, segir í grein í Morgunblaðinu 26. júlí, að listaháskólinn eigi ekki að rísa við Laugaveg heldur við Sölvhólsgötu en hluti listaháskólans er nú þar í húsi, sem upphaflega var reist fyrir Landsmiðjuna.

Gunnar Harðarson, háskólakennari, telur í grein í Morgunblaðinu 26. júlí, að hina nýja bygging listaháskólans sé í stíl „andstæða hins klassíska þokka sem einkennir gömlu húsin umhverfis.“

Því ber að fagna, að menn sýni þessari byggingu áhuga og vilji, að hún falli sem best að umhverfi sínu. Frá mínum sjónarhóli hefur Laugavegurinn ekki fengið aðra eins lyftistöng í marga áratugi. Með listaháskólanum gengi Laugavegurinn í endurnýjun lífdaga. Standi valið á milli þess eða halda í gömlu húsin tvö, vel ég listaháskólann í þeirri umgjörð, sem hefur verið kynnt.

Um þessar mundir er verið að reisa stórhýsi Háskólans í Reykjavík á milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar – einstökum stað frá náttúrunnar hendi, en án gamalla húsa, enda heyrðust raddir okkar, sem höfðum athugasemdir við staðarvalið, varla og enginn tók mið af þeim. Náttúran á sér færri málsvara, þegar nýbyggingar fyrir háskóla eiga í hlut, en götumynd og gömul hús, sem auðvelt er að reisa annars staðar.