9.3.2008

Dómstólar- Þjóðmál - Chavez og sæluríkið.

Í Fréttablaðinu sunnudaginn 9. mars birtist viðtal við Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómara og er hann meðal annars beðinn að skýra, hvers vegna dómstólar njóti ekki meira trausts en kannanir sýna, það er um 39% meðal þjóðarinnar á sama tíma og lögreglan nýtur 80% trausts.

Jón Steinar segir meðal annars:

Við höfum séð að traust almennings til dómstóla landsins mælist lágt. Það er kannski vegna þess að það er mikið skrifað í fjölmiðlum um dómaraverkin án þess að jafnframt birtist hlutlausar skýringar á forsendum þeirra. Þá vilja umræðurnar verða svolítið einhliða. Stundum áttar fólk sig ekki á því hvers vegna tiltekinn brotamaður fær ekki þyngri refsingu en raun ber vitni og fjölmiðlar eru oft fljótir til að taka undir slík sjónarmið. Það koma síðan engin andsvör eða skýringar. Þetta er til þess fallið að grafa undan traustinu. Ég held að það sé almennt talað gott fyrir samfélagið að fólk viti hver viðhorf dómara eru. Víða erlendis er ekki sama þögn frá dómurum eins og er hér hefur verið. Dómarar í Danmörku tjá sig til dæmis mun meira um dómarastörfin heldur en hér. Þá er það vel þekkt í Bandaríkjunum að þar koma dómarar í Hæstarétti einatt fram á fundum og í málstofum, þar sem þeir eru jafnvel að takast á innbyrðis í rökræðum um eitthvert tiltekið álitamál í lögfræði. Salurinn er oft fullur af fólki, blaðamönnum og öðrum. Þetta gerir gagn og ég held að það sé betra fyrir dómstólana að fólk fái að sjá dómarana og kynnast viðhorfum þeirra. Þetta séu ekki bara nafnlausir menn inni í lokuðu dómhúsinu sem enginn þekkir.“

Í ræðu, sem ég flutti á síðasta aðalfundi Dómarafélags Íslands, sagði ég meðal annars:

„Ég hef áður vakið máls á því hér á þessum vettvangi, að dómstólaráð eigi að taka til gaumgæfilegrar athugunar, hvort ekki sé ástæða fyrir það að efla fjölmiðlakynningu í þágu dómstólanna. Fræða almenning um þau meginsjónarmið, sem dómarar eiga að hafa í heiðri og eftir hvaða leiðum þeir komast að niðurstöðu. Festi sú skoðun rætur meðal almennings, að dómstólar taki ekki nógu hart á þeirri tegund afbrota, sem vekur mestan ótta á líðandi stundu, getur það hæglega dregið úr alhliða trausti á dómstólum.“

Hafi íslenskir dómarar ætlað að ávinna sér traust og virðingu með fjarlægð og þögn, hefur sú viðleitni ekki skilað árangri, ef marka má þessa könnun. Upphlaupið, þegar skipaður er maður í dómaraembætti andstætt einhverjum í hópi lögfræðinga, er ekki til þess fallið að auka traust í garð dómstóla. Sé talað um stofnun opinberlega á neikvæðan hátt, dregur það alltaf dilk á eftir sér.

Í viðtalinu er Jón Steinar spurður um verklag við skipun í dómaraembætti. Hann segir:

 

„Samkvæmt lögum á Hæstiréttur að gefa umsögn um umsækjendur um dómarastarf við réttinn. Ég hef í ræðu og riti gagnrýnt þetta. Mér finnst það ekki geta gengið að Hæstiréttur sjálfur velji nýja menn inn í dómarahópinn. Dómarar hafa oft skoðun á því hverja þeir vilja fá og er ekkert óeðlilegt við það. En þeir eiga þá ekki að vera umsagnaraðili um dómaraefni. Það getur til dæmis verið að tiltekinn umsækjandi eigi ekki upp á pallborð dómaranna af einhverjum allt öðrum ástæðum en þeim sem varða hæfni hans. Þá getur það gerst og hefur gerst að slíkur umsækjandi fái verri umsögn en aðrir fyrir vikið. Ég tel að það eigi ekki að leggja þetta á dóminn. Til dæmis tel ég mig ekki hafa notið sannmælis hjá dómstólnum í umsögn um mig þegar ég sótti um á árinu 2004. Það hefur samt ekki haft nein áhrif á samstarf mitt við aðra dómara síðan ég hóf hér störf. Það hefur gengið vel.“

 

Hvort heldur eiga í hlut dómarar eða aðrir er aldrei unnt að gera öllum til hæfis, þegar einn er valinn úr hópi margra. Nýlega sagði fyrrverandi hæstaréttardómari, Hrafn Bragason, á málþingi laganema í Háskóla Íslands, að vandi við skipan dómara væri ekki aðferðin heldur dómsmálaráðherrann og vísaði þar til mín. Aðeins ein skipan mín í dómaraembætti hefur vakið opinberar deilur, það er skipan Ólafs Barkar Þorvaldssonar árið 2003. Síðan hef ég skipað og sett fjölmarga héraðsdómara og einn hæstaréttardómara, Páls Hreinsson, í staðinn fyrir Hrafn Bragason.

 

Sumarið 2007 hafði ég skipað eða ráðið í 68 störf sem dóms- og kirkjumálaráðherra, þannig að þau eru örugglega komin vel á áttunda tuginn núna. Ég er sáttur við allar þessar ákvarðanir og tel ómaklega vegið að mér og þeim, sem öllum þessum störfum sinna, þegar orð falla á þann veg, sem gerði hjá Hrafni Bragasyni, enda engin málefnaleg rök fyrir skoðun hans. Sleggjudómar eru jafnmarklausir frá fyrrverandi hæstaréttardómara og öðrum.

 

Þjóðmál.

 

Nýtt hefti tímaritsins Þjóðmála kom út í vikunni sem leið og vekur athygli og umræður eins og jafnan endranær. Jakobi F. Ásgeirssyni, ritstjóra Þjóðmála, tekst að halda þannig á stjórn blaðsins, að alltaf er þar eitthvert áhugavert efni. Í sumarhefti Þjóðmála 2007 ritaði Jakob einmitt grein um embættaveitingar mínar sem menntamálaráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra.

 

Í þessu nýjasta hefti birtir Jakob grein, sem hann ritaði vorið 2005 og vildi fá birta í tímaritinu Sögu sem svar við ritdómi, sem Páll Björnsson sagnfræðingur ritaði árið 2002 um bókina Í hita kalda stríðsins, en Jakob ritstýrði henni og þar birtust ýmsar blaðagreinar eftir mig, einkum um utanríkis- og öryggismál. Páll virtist vilja, að bókin væri öðru vísi úr garði gerð, fyrir utan að telja hana marklitla fyrst hún geymdi aðeins skoðanir mínar! Jakob fékk ekki svar sitt birt í Sögu og kemur það nú fyrir augu lesenda Þjóðmála.

 

Ég sat í nokkur ár í stjórn Sögufélags og þótti mér skrýtið, að ritstjórn Sögu, sem gefni er út af félaginu teldi ekki feng að því að birta grein Jakobs, slíkt yrði aðeins til að auka fjölbreytni tímaritsins og jafnvel kalla á fleiri lesendur. Reynslu sinni af samskiptum við ritstjórnina lýsir Jakob á þennan veg: „Niðurstaðan virðist því sú, að þeim, sem ritstjórn Sögu hefur velþóknun á, sé frjálst að veitast að fólki í fræðitímaritinu en því gert erfitt eða ómögulegt að koma þar við svörum.“

 

Í nýjasta hefti Þjóðmála er rætt um fleiri bækur en þessa. Ágúst Borgþór Sverrisson rithöfundur ræðir um viðbrögð við bókum um islamista. Grein hans verður ötulum bloggara, Gunnlaugi Júlíussyni, tilefni þessara orða:

 

„Fékk nýjasta eintak Þjóðmála í fyrradag. Fínt hefti eins og vanalega. Í því er m.a. athyglisverð grein um viðbrögð við bókinni Islamistar og naívistar annars vegar og bókinni Islam með afslætti hins vegar . Í fyrrnefndu bókinni er fjallað með gagnrýnum hætti um hættuna af auknum ítökum Islamista á vesturlöndum. Enginn fjölmiðill hérlendis minntist á hana. Allir steinhéldu þeir kjafti enda þótt hún sé rituð af tveimur áhrifamiklum dönskum stjórnmálamönnum sem ekki koma úr Fremskridspartiet. Bókin Islam með afslætti er nær óslitinn áróður gegn birtingu dönsku skopmyndanna og gegn málfrelsisrökum dana. Nú tóku hérlendis fjölmiðlar við sér og um bókina var fjalla í hverjum einasta kjaftaþætti sem hugsanlegt var. Mogginn tók forsíðu lesbókarinnar undir umfjöllun um bókina. Þetta er í stíl við umfjöllunina um Imaninn frá USA sem kom hingað nýlega. Þrjá morgna í röð var gagnrýnislaus umfjöllun um málflutning þessa áróðurssendiboða í morgunútvarpi ríkisútvarpsins. Það er ekki spurning um að naivistarnir er[u] ráðandi í fjölmiðlaumfjöllun hérlendis að miklu leyti.

Það fer fátt meir í taugarnar á mér þegar grimmdarverk gegn fólki sem unnin eru í krafti trúarinnar eru réttlætt sem „mismunandi menningarheimar“. Kristnir menn gengu í gegnum galdrabrennutímabilið fyrir nokkur hundruðum ára og menn eiga ekki að sætta sig við einhvern miðaldarhugsunarhátt sem sjálfsagðan og eðlilegan hlut í dag.

Mæli með tímaritinu Þjóðmál. Ómissandi fyrir alla þá sem aðhyllast gagnrýna þjóðfélagsumræðu enda þótt menn þurfi ekki að vera sammála hverju orði.“

 

Ástæða er til að taka undir með Gunnlaugi, þegar hann lýsir hinum ólíku viðtökum, sem bækurnar tvær Islamistar og naivistar og Islam með afslætti fengu í íslenskum fjölmiðlum.  Fyrir þá, sem utan standa, hníga engin skynsamleg eða hlutlæg rök til þess, að gert sé með þessum hætti upp á milli bóka um svipað og að nokkru sama efni. Hin mismunandi afstaða byggist ekki heldur á slíkum rökum heldur hinu, að síðarnefnda bókin og boðskapur hennar um að vestrænir menn eigi frekar að líta í eigin barm en islamista til að átta sig á hættunni af islam, sýnist höfða meira til þeirra, sem stjórna fjölmiðlaumræðunum, en boðskapurinn um að vestrænir menn standi vörð um eigin þjóðfélagsgildi og lýðræði.

 

Chavez og sæluríkið.

 

Á sínum tíma lýsti ég undrun yfir aðdáun Maríu Kristjánsdóttur á þróun mála í Venezúela, þar sem Hugo Chavez ræður ríkjum. Birtist greinarflokkur Maríu um Chavez í lesbók Morgunblaðsins og veit ég ekki um annan Íslending, sem sagt hefur frá eigin reynslu í Venezúela, fyrr en Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir frá kynnum sínum af Venezúela í Fréttablaðinu 9. mars. Hér eru orðréttar tilvitnanir í Baldur:

 

„[É]g hafði kannski ekki miklar hugmyndir um Chavez nema það að honum hefur verið hrósað nokkuð í heimspressunni fyrir það sem hann er að gera í innanlandsmálefnum en fengið skammir í hattinn fyrir það sem hann gerir á alþjóðavettvangi. Þetta var til dæmis eitt af því sem mig langaði að kynna mér; hvað er hann að gera heima fyrir og hvernig kemur þessi alþjóðastefna hans til þar sem hann er að reyna að mynda vinstri bandalag með Kúbu og Íran fremsta í bræðraflokki en ber svo í víurnar við aðrar vinstri stjórnir í sínum nágranna ríkjum? En satt best að segja kom ástandið mér mjög á óvart og það er mun verra en ég gat ímyndað mér.

 

Það sem ég varð fyrst var við í höfuðborginni Caracas er þetta mikla umferðaröngþveiti, sem reynist svo kannski myndbirting þeirrar óreiðu sem ríkir í landinu. En svo þegar ég gaf mig á tal við fólkið varð ég fljótlega var við þann ótta sem ríkir.

 

Eitt af því sem Chavez hefur gert er að ala á tortryggni gagnvart hinum efnuðu svo í sumum tilfellum þykir ekkert tiltökumál að ræna þá, fara með þá jafnvel í hraðbanka og láta þá létta á innistæðunum eða einfaldlega halda þeim föstum og krefjast lausnargjalds. Í hugum margra er það ekkert annað en leiðrétting á misréttinu sem hinir efnaminni hafa þurft að búa við. Sú réttlæting kemur líka heim og saman við málflutning Chavez.

 

Allir sem við töluðum við, að einum þjóni undanskildum, voru afar óánægðir með karlinn í brúnni þótt hvarvetna megi líta áróðursspjöld sem tíunda ágæti hans.

 

Chavez er einfaldlega að rústa efnahag landsins. “