23.12.2007

Brandarinn - þjóðkirkjan

Yfirlit

Eftir að ég las Óbærilegan léttleika tilverunnar á sínum tíma og sá síðan kvikmyndina, sem gerð var eftir bókinni, hef ég fylgst með höfundinum Milan Kundera. Nú fyrir jólin las ég bók hans Brandarann í snilldarþýðingu Friðriks Rafnssonar. Þessi fyrsta skáldsaga Kundera kom út í heimalandi hans Tékklandi skömmu fyrir vorið í Prag 1968 og var bönnuð um sama leyti og sovéski herinn kæfði vorið og hinn litla frelsisandblæ, sem það flutti með sér.

Í athugasemd Kundera, sem fylgir íslensku útgáfunni segir:

„Þegar skáldsagan kom út (vorið 1967) hlaut hún nánast einróma lof og tékkneska rithöfundasambandið verðlaunaði hana árið 1968. Ég var því sem næst óþekktur höfundur þá og fylgdist með því hvernig þrjár prentanir seldust upp á örskömmum tíma og hvernig heildarupplagið varð 120.000 eintök. Ári síðar eyðilagði innrás Rússa þetta allt. Brandarinn var ausinn svívirðingum í langri blaðaherferð, bannaður (eins og aðrar bækur mínar) og fjarlægður úr almenningsbókasöfnum.“

Kundera leggur áherslu á, að saga sín sé skáldsaga „og ekkert annað en skáldsaga“ en hún hafi hins vegar verið lesin á pólitískum forsendum, vegna hinna sögulegu aðstæðna, sem ríktu í sama mund og hún var útgefin og þessu hafi einnig ráðið „þróun bókmenntagagnrýni á Vesturlöndum í áttina að hraðsoðinni, fréttatengdri blaðamennsku.“ Nú hafi menn hins vegar gleymt Pragvorinu og innrás Rússa og þess vegna geti Brandarinn aftur orðið að skáldsögu, eins og hann hafi alltaf viljað vera.

Hér vissulega um magnaða skáldsögu að ræða, en hún endurómar líf einstaklinga í alræðisríki, þar sem leitast er við að uppræta alla frjálsa hugsun og brandari verður upphaf óhamingju fjölda fólks, af því að hann rúmast ekki innan alræðisrammans.

Við erum kynnt fyrir einstaklingum, sem eru tákn gilda í andstöðu við þjóðfélagsgerð kommúnismans og Flokksins, hvort sem þeir vilja halda í trú sína á Krist eða leggja rækt við þjóðlegan menningararf. Trúin er hættulegri Flokknum en menningararfurinn. Flokkurinn vill tileinka sér arfinn til að bregða yfir sig þjóðernisgrímu í því skyni að villa á sér heimildir í þjónkun sinni við Moskvuvaldið.

Fulltrúi hinnar trúuðu segir við söguhetjuna: „Hin eiginlega ástæða fyrir hjartagæsku þinni er ekki ástin, heldur hatrið! Hatur í garð þeirra sem gerðu á þinn hlut á sínum tíma með því að rétta upp hönd í stóra salnum! [Og reka söguhetjuna úr Flokknum.] Með því að sniðganga Guð sniðgengur sál þín fyrirgefninguna. Þú þráir hefnd. Þú samsamar þá sem gerðu þér illt á sínum tíma þeim sem gera öðrum illt núna, og þú hefnir þín. Já, þú hefnir þín! Þú ert fullur haturs, jafnvel þótt þú hjálpir fólki! Ég finn það, ég finn það í hverju orði sem þú segir. En hvað getur hatrið af sér annað en meira hatur og keðju hefnda? Þú býrð í helvíti, Lúðvík, ég endurek það, í helvíti og ég vorkenni þér.“

Brandarinn hefur staðist tímans tönn og á ekki síður erindi til okkar nú en þegar bókin var skrifuð við allt aðrar aðstæður fyrir meira en 40 árum. Ber að fagna því, hve Friðrik Rafnsson hefur af mikilli alúð lagt sig fram um að þýða bækur Kundera á íslensku og gera okkur kleift að kynnast þeim heimi, sem hann lýsir á einstakan hátt í verkum sínum, heimi alræðis og tilrauna til að steypa alla í sama mót og kæfa alla frjálsa hugsun, þar sem jafnvel brandarar eru taldir geta kollvarpað stjórnkerfinu.

Þótt tímarnir séu aðrir en í Tékklandi í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar, hefur hugsunarhátturinn ekki breyst, óvild ef ekki hatur í garð þeirra, sem ekki eru á sama máli, birtist í ýmsum myndum. Ég gat til dæmis ekki heyrt annað á Gauta Kristmannssyni, þegar hann flutti umsögn um Brandarann í Víðsjá rásar 1 á dögunum, en hann teldi sér sæma að nota tækifærið til að ná sér niður á gömlum skólasystkinum sínum, sem voru í Heimdalli á skólaárunum. Hann líkti þeim við þræla Flokksins í Brandaranum. Fyrir slíkri samlíkingu eru að sjálfsögðu engin rök – eigi hún við um einhver stjórnmálasamtök hér á landi eru dæmin að finna meðal þeirra, sem aðhylltust skoðanir Flokksins í bók Kundera, hann starfaði nefnilega einnig hér á landi.

Þjóðkirkjan.

Í Fréttablaðinu laugardaginn 22. desember birtist viðtal við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins, þar segir meðal annars:

Þú tilheyrir svokölluðum sértrúarsöfnuði, hefur það flækt þessi mál fyrir þér? Hefurðu verið sökuð um að vera vond við Þjóðkirkjuna af því þú ert kaþólikki?

„Ég vil nú ekki kalla kaþólsku kirkjuna sértrúarsöfnuð. Hún er stærsti kristni söfnuður í heimi, þótt hún sé kannski lítil á Íslandi. Það gleymist stundum að Þjóðkirkjan hefur ekki verið til staðar í öll þessi þúsund ár kristni á Íslandi. Kaþólska kirkjan var hérna fyrstu 550 árin af þeim!

En jú, það var sagt á sínum tíma að ég mætti aldrei verða dóms- og kirkjumálaráðherra. Það gæti Þjóðkirkjan ekki liðið. En ég hef bara aldrei fundið votta fyrir þessu. Samskipti mín við Þjóðkirkjuna hafa alltaf verið prýðileg og mér finnst gott að leita til herra Karls [Sigurbjörnssonar biskups]. Við höfum átt mjög góð samskipti. Kaþólskan kemur þessu ekki við. Ég er kristin kona og við Karl trúum á sama guð og höfum sömu gildi.““

Norskur vinur minn, Lars Roar Langslet, varð menningarmálaráðherra Noregs á níunda áratugnum. Þar til hann tók við því embætti hafði menningarmálaráðherrann jafnframt verið kirkjumálaráðherra, en þar sem Lars Roar er kaþólskur, voru kirkjumálin skilin frá menningarmálunum og færð öðrum í ríkisstjórninni. Ég er viss um, að Þorgerður Katrín gæti orðið dóms- og kirkjumálaráðherra hér á landi, þótt hún sé kaþólsk.

Samband ríkis og kirkju hefur breyst mikið undanfarin ár, eftir að samið var um fjárhagslegan aðskilnað þessara aðila. Raunar nefndi ég á kirkjuþingi í október sl., að tímabært væri að huga að því að leggja niður kirkjumálaráðuneytið og færa þjóðkirkjuna til forsætisráðuneytisins, þar sem hún mundi sóma sér við hlið alþingis, forsetaembættis, Þingvalla, þjóðsöngsins, þjóðfánans og þjóðmenningarhússins – það er sem ein af grunnþáttum þjóðlífs og þess að vera íslenskur.

Sérkennilegt er, að blaðamaður Fréttablaðsins skuli tala um kaþólsku kirkjuna sem sértrúarsöfnuð, þegar hitt er rétt, sem Þorgerður Katrín segir, að hún er höfuðkirkja meðal kristinna manna, þegar litið er til fjölda innan einstakra kirkjudeilda.

Um helgina birti The Sunday Telegraph frétt um það, að í Bretlandi hefði þróun orðið á þann veg, að kaþólska kirkjan væri orðin fjölmennari þar en biskupakirkjan, þegar mælt væri eftir kirkjusókn. Biskupakirkjan hefur verið vinsælasta kirkjudeildin í landinu frá siðaskiptum fyrir meira en fjórum öldum.

Kannanir sýna, að kirkjusókn í biskupakirkjunni hefur minnkað um 20% síðan 2000. Kaþólska kirkjan hefur eflst við komu innflytjenda frá Austur-Evrópu og Afríku til Bretlands. Þá hafa hvítasunnusöfnuðir einnig eflst, en þeir mynda nú þriðju stærstu kirkjudeildina miðað við kirkjusókn í Bretlandi.

Að kirkjusókn kaþólskra skuli vera meiri en í biskupakirkjunni kemur þeim mun meira á óvart, þegar litið er til þess, að í Bretlandi segjast 25 milljónir manna vera í biskupakirkjunni en 4,2 milljónir eru kaþólskir.

Hér á land stendur kristni traustum fótum. Í þjóðkirkjunni og öðrum kristnum söfnuðum landsins eru meira en 95% landsmanna.

Á árabilinu 1996 til 2005 fengu tæplega 42.000 börn nafn hér á landi og af þeim fengu að meðaltali 83,2 nafn við skírn í þjóðkirkju. Þróunin er á þann veg á þessum tíu árum, að þeim fækkar jafnt og þétt, sem fá nafn við skírn í þjóðkirkju.

Vísbendingar eru um, að hlutur þjóðkirkjunnar minnki í samanburði trúfélaga. Síðan 1. desember 1980 fram til 1. desember 2007 fjölgaði landsmönnum um 37% en um 18% í þjóðkirkjunni.

Hér er hin sama þróun og í Bretlandi, að með komu fólks frá Austur-Evrópu, ekki síst Pólverja, til landsins hefur fjölgað í kaþólsku kirkjunni hér. Kirkjusókn þessa fólks er ekki síður mikil hér en í Bretlandi.

Í seinni tíð er oft ómaklega vikið að þjóðkirkjunni og hún látin gjalda sambands hennar og ríkisvaldsins – sambands sem er í raun orðið að hreinu formsatriði, eftir að öll efnisleg völd í málefnum kirkjunnar hafa verið flutt til hennar sjálfrar. Kristni og kirkja eru þrátt fyrir breytingar á þessu sambandi grunnþættir íslensks þjóðlífs og þess að vera íslenskur – jafnríkur þáttur og að tala íslensku eða þekkja íslenska sögu.

Í mínum huga jafngildir árás á þjóðkirkjuna árás á þessa grunnþætti íslensks þjóðlífs og menningar – ekki vegna þess skipulags, sem einkennir kirkjuna, heldur vegna þess málstaðar – trúarinnar – sem er inntak kirkjunnar. Með trúna á Krist að leiðarljósi höfum við rétt til að skipa okkur í hvaða kirkjudeild, sem við kjósum.

Vilji menn vera í annarri kirkjudeild hér á landi en þjóðkirkjunni er þeim það frjálst. Þjóðkirkjan er í senn þungamiðja kirkjulegs starfs í landinu og umgjörð þess trúfrelsis, sem hér ríkir. Sé vegið að þjóðkirkjunni er einnig vegið að rótum trúfrelsis og stjórnskipunarinnar, sem heimilar það.