9.12.2007

PISA-könnunin.

Hátt hefur borið kynningu á niðurstöðum í svonefndri PISA-könnun, það er könnun á stöðu 15 ára nemenda í þeim löndum, sem eru þátttakendur í könnuninni. Viðbrögð í einstökum löndum ráðast af því, hvar nemendur þeirra lenda á samanburðarlistanum. Sérfróðir menn benda hins vegar á, að mælistikan falli misvel að skólakerfi og kennsluháttum einstakra landa og þess vegna séu þessi samanburðarfræði næsta haldlítil.

Hitt hvetur til umhugsunar og athugunar, ef nemendum sömu þjóðar hrakar á milli kannanna eins og niðurstaðan í PISA sýnir nú, en samkvæmt henni hefur frammistöðu íslenskra grunnskólanema í lestri hrakað frá árinu 2000. Í heild hefur staða Íslands miðað við aðrar þjóðir versnað nokkuð milli áranna 2000 og 2006. Frammistaða í stærðfræði er einnig marktækt lakari 2006 en 2003. Frammistaða í náttúrufræði hefur þó ekki breyst marktækt en hins vegar hefur fjölgað íslenskum nemendum í lægstu þremur hæfnisþrepum náttúrufræða og fækkað í efstu tveimur þrepunum. Árið 2000 voru 37% nemenda samtals í lægstu þrepunum en 2006 eru það 46%. Í efstu tveimur þrepunum voru 33% árið 2000 en 25% sex árum síðar. Þessi tilfærsla milli efri og lægri hæfnisþrepa nemur því um 8-9% eða nálægt 400 nemendum.

Morgunblaðið segir í Reykjavíkurbréfi sunnudaginn 9. desember þessa niðurstöðu „auðvitað stórfellt áfall fyrir okkur Íslendinga“ og hún sé „„áfellisdómur yfir íslenzka menntakerfinu“, gagnstætt því, sem menntamálaráðherra telur.“

Telur blaðið „mikilvægt að ítarlegar umræður fari fram í samfélaginu um þessar niðurstöður og ástæða til að fagna því, að menntamálaráðherra hefur haft forystu um að hefja þær. En jafnframt skiptir máli að þær fari fram á málefnalegum grundvelli.“

Minnir blaðið á, að föstudaginn 7. desember hafi farið fram umræður utan dagskrár á alþingi um  PISA-niðurstöðurnar og þar hafi ungur framsóknarþingmaður, Höskuldur Þór Þórhallsson, m.a. sagt:

„Með þessari könnun er komin mæling á menntastefnu Sjálfstæðisflokksins. Niðurstaðan er falleinkunn.“

Enn segir Morgunblaðið „Ef umræður á Alþingi um stóralvarlegt mál verða á þessu plani er betra að þær fari ekki fram. Það er ekki hægt að ræða niðurstöður PISA-rannsóknarinnar út frá flokkspólitísku sjónarhorni. Það er í senn barnalegt og niðurlægjandi fyrir þingið. “

Morgunblaðð leggur á það áherslu, að ekki séu stundaðar sjálfsblekkingar í umræðunum um PISA-niðurstöðurnar og telur, að gagnrýna megi „menntamálaráðherra fyrir að ýta undir slíkar tilhneigingar“ með þessum orðum í Morgunblaðs-grein laugardaginn 8. desember: „Ég lít ekki svo á að PISA-niðurstöðurnar séu áfellisdómur yfir íslenzka menntakerfinu, þótt vissulega valdi þær vonbrigðum.“  

Í Reykjavíkurbréfinu segir: „Það er stóralvarlegt mál, að á sama tíma og við Íslendingar erum orðin ein af ríkustu þjóðum heims og höfum nánast veltzt um í milljarðahrúgum á undanförnum árum skuli menntun og þekkingu nýrra kynslóða Íslendinga hraka með augljósum og afgerandi hætti.“

Meginniðurstaða höfundar Reykjavíkurbréfsins um rétt viðbrögð við niðurstöðum PISA er þessi: „En um þetta mál er ekki hægt að ræða án þess að fjalla almennt um stöðu kennara í samfélagi okkar og launakjör þeirra. Hér er komið að lykilatriði í þessu máli.“

Og lokaorð bréfritara eru:

Það er ekki hægt að fjalla um niðurstöður PISA-rannsóknarinnar án þess að ræða þennan þátt málsins [laun og stöðu kennara] vegna þess, að þetta er lykillinn að því að byggja upp gott skólakerfi. Fólkið, sem þar starfar, þarf að finna, að störf þess séu einhvers metin. Þetta fólk lifir ekki á hugsjóninni einni fremur en aðrir. Kennurum finnst enn að þeir séu niðurlægðir með þeim launakjörum, sem þeim eru boðin. Hvernig í ósköpunum er hægt að gera kröfu til þeirra um framúrskarandi árangur ef tilfinning þeirra er sú, að það skipti samfélagið ekki nokkru máli?

Niðurstaða PISA-rannsóknarinnar nú þarf að leiða til rækilegrar uppstokkunar í skólakerfi okkar, enda bersýnilega mikil þörf á því, en þá verðum við að ræða málið allt en ekki bara hluta af vandanum. Og þótt það sé erfitt fyrir menntamálaráðherra stöðu hennar vegna að ræða kjaramál kennara liggur við að hún ætti að skipa sér í fremstu röð í kröfugöngu þeirra fyrir bættum kjörum vegna þess, að þar liggur stór hluti af þeirri lausn, sem bæði ráðherrann og aðrir leita að.

Það þætti vissulega saga til næsta bæjar ef ráðherra gengi fyrst í kröfugöngu kennara en hvers vegna er það svo fráleitt? Er það ekki frumskylda menntamálaráðherra að gæta hagsmuna skólakerfisins, nemenda – og kennara?“

Hér skal síst dregið úr gildi þess fyrir skólastarf og gæði þess, að innan veggja skólanna starfi hæfir og góðir kennarar og laun á starfsvettvangi þeirra séu á þann veg, að þeir gangi glaðir til starfa og telji sig að því leyti rétt metna í samfélaginu. Vandinn er hins vegar sá, þegar þessi niðurstaða Reykjavíkurbréfsins er íhuguð, að PISA könnunin snerist ekki um laun eða starfskjör kennara og segir okkur ekkert um það, hvort íslenskir grunnskólakennarar standi í kjörum að baki kennurum meðal þeirra þjóða, sem eru ofar á samanburðarlistanum.

Hefur einhver sú breyting orðið á kjörum kennara síðan árið 2000, að skýri minni lesskilning nemenda í grunnskólum? Er ekki líklegt að minni lestraráhugi nemenda valdi þessari breytingu? Glæðist þessi áhugi með því að hækka laun kennara? Í spurningunni felst síður en svo andstaða við slíka launahækkun – heldur viðvörun: Við skulum ekki snúa umræðum um niðurstöður PISA í deilur um krónur og aura. Könnunin snerist ekkert um þá þætti – ef svo hefði verið, stæði Ísland miklu ofar á listanum. Landið hefur rokið upp eftir lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna ekki síst vegna þess átaks, sem gert hefur verið í menntamálum og mælt er á fjárhagslega mælistiku.

Grunnskólinn var færður til sveitarfélaga árið 1996. Þau bera rekstrar- og faglega ábyrgð á starfi hans. Enginn menntamálaráðherra mun ganga fremstur í göngu með kröfur á hendur sveitarfélögunum um hærri laun kennara. Í tíð minni sem menntamálaráðherra var langvinnt verkfall hjá framhaldsskólakennurum og má lesa hluta af þeirri sögu hér á vefsíðu minni. Hvorki nokkrum ráðherra né kennara dettur í hug, að slíkar deilur séu til þess fallnar að bæta skólastarf.

Ég hef margsinnis sagt, að tilfærsla grunnskólans hafi ekki heppnast nema að hluta, þar sem stærsta sveitarfélagið Reykjavík, með flesta skólana, hefur ekki fært skólana nógu nálægt foreldrunum og ekki gefið einkaaðilum nægilegt svigrúm til að láta að sér kveða við rekstur skóla. Garðabær er eina sveitarfélagið, sem hefur þorað að stíga róttæk skref á grunnskólastiginu með því að leyfa Hjallaskólastefnunni að skjóta þar rótum.

Hlutur ríkisins kann enn að vera of mikill í rekstri grunnskólans, þegar litið er námsgagna- og námskrárgerðar. Það var hins vegar ábyrgðarhluti að létta miðstýringu af námskrárgerð grunnskólans í sama mund og hann var fluttur - en að aukinn hlutur einkaaðila að gerð og útgáfu námsgagna sé talinn af hinu illa, hef ég alltaf átt erfitt með að skilja.

Viðurkenning á gildi einkarekstrar á háskólastiginu hefur leitt til byltingar þar. Það er sama, hvar borið er niður, alls staðar er um vöxt að ræða hjá háskólunum. Enginn dregur lengur í efa, að samkeppnin hefur hvatt ríkisháskólana til umbóta.

Með hinu nýja Háskólatorgi við Háskóla Íslands verður meiri og betri breyting á húsnæðis- og allri starfsaðstöðu skólans en unnt er að gera sér í hugarlund með því einu að skoða teikningar eða myndir af hinum glæsilegu húsakynnum. Við þá mannvirkjagerð hafa verið virkjaðir kraftar einkaframtaksins undir forystu Björgólfs Guðmundssonar.

Framkvæmdir eru hafnar við nýja byggingu Háskólans í Reykjavík á milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar. Við þá miklu framkvæmd nýtast einnig kraftar einkaframtaksins eins og við allt starf skólans og hið sama er að segja um Listaháskóla Íslands, sem fagnar nú niðurstöðu um staðarval fyrir framtíðarhúsnæði sitt í miðborg Reykjavíkur – er þess að vænta að í samvinnu við einkaaðila rísi ný háskólabygging þar á undraskömmum tíma.

Sé sú skoðun höfundar Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins rétt, „að á sama tíma og við Íslendingar erum orðin ein af ríkustu þjóðum heims og höfum nánast veltzt um í milljarðahrúgum á undanförnum árum skuli menntun og þekkingu nýrra kynslóða Íslendinga hraka með augljósum og afgerandi hætti“ ætti spurningin að vera þessi: Hvers vegna leyfum við ekki þeim, sem eiga milljarðahrúgurnar að láta að sér kveða svo um munar á öðrum skólastigum en háskólastiginu?

Ég er viss um, að áhugi þeirra, sem eru umsvifamiklir í íslensku atvinnulífi, á því að styrkja og efla háskólastigið, stafar af því, að þeir átta sig á, að án vel menntaðs fólks geta þeir ekki náð lengra við umsvif sín og auðsöfnun. Stórfjölgun menntaðra manna á sviði rekstrar, viðskipta og lögfræði helst í hendur við stóraukin umsvif íslenskra fyrirtækja á þeim sviðum, þar sem menntun þessara karla og kvenna nýtist best.

Um leið og ég tek undir með höfundi Reykjavíkurbréfs um barnaleg ummæli Höskuldar Þórs Þórhallssonar, vil ég láta þess getið, að ég minnist þess ekki, að framsóknarmenn í ríkisstjórn með okkur sjálfstæðismönnum hafi gert nokkurn ágreining um málefni grunnskólans í stjórnartíð okkar. Raunar var algjör samstaða allra stjórnmálaflokka um meginstefnuna í málefnum grunnskólans og námskrár fyrir skólann.

Eftir að tilkynnt var, að Ísland hafði hlotið fyrsta sæti á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna, birtu íslenskir fjölmiðlar fréttir til að sýna, að ef til vill væri þetta ekki verðskuldað sæti – vissulega væru lífskjör hér misjafnlega góð og sumir hefðu það síður en svo gott. Sambærileg viðbrögð eru í þeim löndum, sem eru hæst á PISA-listanum. Þar finnst nemendum ekki endilega, að þeir séu í bestu skólum í heimi. Leggja beri áherslu á aðra þætti í skólastarfinu en þá, sem skila bestum árangri á PISA-kvarðann.