4.11.2007

Sinnaskipti um REI-samruna - Falungong, Hell's Angels.

Hinn 3. október 2007 var skýrt frá því, að nýtt fyrirtæki væri komið til sögunnar. Reykjavik Invest Energy (REI) og hefði það orðið til fyrir samruna tveggja fyrirtækja: Reykjavik Energy Invest, sem var 93% í eigu Orkuveitu Reykjavíkur (OR) en 7% voru í eigu Bjarna Ármannsson, stjórnarformanns, og Jóns Diðriks Jónssonar, starfsmanns REI, og Geysir Green Energey (GGE) sem var 43,1% í eigu FL Group, 16,1% í eigu Glitnis, 32% í eigu Atorku og 8,8% í eigu annarra, þar með félaga, sem kennd eru við framsóknarmenn undir forystu Finns Ingólfssonar. Stofnun þessa fyrirtækis hratt af stað atburðarás, sem leiddi til þess, að sjálfstæðismenn hurfu úr meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, þegar Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, gekk til liðs við vinstrimenn í því skyni að tryggja framgang samrunans.

Allri þessari atburðarás er nákvæmlega lýst í fróðlegri grein eftir Pétur Blöndal í Morgunblaðinu 4. nóvember. Af þeirri lýsingu sést svart á hvítu, að sex af sjö borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins var stórlega misboðið vegna aðferðanna við að stofna hið nýja REI með samrunanum við GGE. Þar kemur einnig fram, að Björn Ingi Hrafnsson gegndi lykilhlutverki í því laumuspili, sem leiddi til samrunans. Hann myndar hins vegar nú félagshyggju-meirihluta borgarstjórnar með Svandísi Svavarsdóttur, oddvita vinstri/grænna, sem harðast gagnrýndi vinnubrögð Björns Inga og félaga í samrunaferlinu.

Dagur B. Eggertsson, þáverandi fulltrúi Samfylkingarinnar, og Sigrún Elsa Smáradóttir, þáverandi varafulltrúi Samfylkingarinnar, í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur rituðu hinn 7. október sl. lofsamlega grein í Morgunblaðið um sameiningu REI og GGE:

„Því samruni REI og GGE getur þrátt fyrir allt verið skref í rétta átt í útrás íslenskra orkufyrirtækja. Ekki leikur vafi á því að sameinað fyrirtæki stendur sterkar að vígi í verkefnum sínum erlendis en fyrirtækin sitt í hvoru lagi. Annað sem er ánægjulegt við þennan samrunasamning er að viðskiptavild og orðspor Orkuveitu Reykjavíkur er metið í samningnum á 10 milljarða. Þessir 10 milljarðar eru þannig metnir til viðbótar við framlag OR í peningum og efnislegum eignum, meðan aðrir eignast sinn eignarhlut í félaginu með því að leggja eignir og peninga inn í félagið. Í samningnum um samrunann er Orkuveita Reykjavíkur því að njóta þeirrar þekkingar og reynslu sem orðið hefur til í fyrirtækinu og íslenska orkuútrásin byggist á.“

Í Staksteinum Morgunblaðsins 9. október sagði:

„Samfylkingin hefur lítið sem ekkert blandað sér í umræður um aðild Orkuveitu Reykjavíkur að hinu sameinaða útrásarfyrirtæki, sem er að verða til með sameiningu Geysis Green og Reykjavík Energy Invest.

Í gær rauf Samfylkingin þögnina með eftirminnilegum hætti eða hitt þó heldur.

Samfylkingin telur að með því að selja hlut Orkuveitunnar í hinu sameinaða fyrirtæki sé verið að hafa af borgarbúum mikinn framtíðarhagnað.

Hvað þýðir þessi stefnumörkun Samfylkingarinnar?

Hún þýðir að þessi jafnaðarflokkur Íslands telur sjálfsagt að opinber fyrirtæki heimti fé af viðskiptavinum sínum til þess að leggja í áhætturekstur í útlöndum.

Hún þýðir að Samfylkingin telur sjálfsagt að selja rafmagn, heitt og kalt vatn til íbúa Reykjavíkur og nágrannabyggða fyrir hærra verð en nauðsyn krefur til þess að hægt sé að leggja þá peninga almennings í áhættusaman rekstur í útlöndum.

Hvað er Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands að hugsa?

Hvað er Dagur B. Eggertsson, oddviti flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, að hugsa?

Það virðist vera svo að það megi alltaf treysta Samfylkingunni til þess að taka vitlausan pól í hæðina.

Mikill leiðtogi Dagur!“

Á stjórnmálavettvangi hafa borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra ásamt Birni Inga Hrafnssyni verið helstu talsmenn þess, að ekki skuli horfið frá samruna REI og GGE. Af þeirra hálfu hefur hagnaðarvon OR verið máluð sterkum litum vegna samrunans. Sjálfstæðismenn hafa hins vegar varað við því, að áhætta sé tekin með eignir Reykvíkinga – vilji menn hætta fé í Indónesíu eða á Filippseyjum, eigi þeir að eiga þá peninga sjálfir en ekki ráðskast með eignir almennings.

Nú hefur verði horfið frá samrunanum. Hér á síðunni hef ég lagt út af þremur meginatriðum í umræðum um þetta mál: Leyndarhyggjan innan OR samrýmist ekki kröfunni um opna stjórnsýslu. Ekki sé sjálfgefið, að útrás á orkusviðinu krefjist eins íslensks fyrirtækis. Lýsa beri ákvörðunina um samruna REI og GGE ólögmæta.

Hinn 1. nóvember 2007 samþykkti borgarráð Reykjavíkur einróma:

  1. Borgarráð fellst ekki á samruna Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy og telur jafnframt að þjónustusamningur Orkuveitunnar og Reykjavík Energy Invest sé óásættanlegur.
  2. Borgarráð telur að eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur 3. október síðastliðinn og þær ákvarðanir sem þar voru teknar séu haldnar miklum annmörkum og mikinn vafa leika á um lögmæti fundarins.
  3. Borgarráð samþykkir jafnframt að beina því til fulltrúa borgarinnar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að ljúka málinu í samræmi við þessa niðurstöðu borgarráðs.

Þá vill borgarráð, að gerð sé stjórnsýsluúttekt á OR og tekur með því undir gagnrýni á leyndarhyggjuna og vinnuaðferðir stjórnenda OR en í greinargerð með tillögunni, sem borgarráð samþykkti segir:

„Kjörnir stjórnarmenn í fyrirtækjum borgarinnar eiga að viðhafa opið og gegnsætt ferli við ákvarðanatöku og þeim er ekki ætlað að taka umfangsmiklar ákvarðanir án þess að fyrir því hafi legið samþykktir eða rökstuðningur. Við skoðun á aðdraganda málsins og málsmeðferð hefur stýrihópurinn komist að því að reglur kunni að hafa verið brotnar að því er varðar umboð, upplýsingamiðlun, meðferð gagna og nálgun. Slíkt varðar athafnir og ákvarðanir stjórnarmanna fyrirtækjanna, æðstu stjórnenda og fulltrúa eigenda. Þetta hefur leitt til þess að trúnaðarbrestur hefur orðið í ferlinu öllu, sem er nauðsynlegt að horfast í augu við og draga lærdóma af.“

Þegar litið er á málflutning sex borgarfulltrúa sjálfstæðismanna frá 3. október verður ekki séð annað en málstaður þeirra hafi unnið fullan sigur í þessu máli. Fálmkenndar tilraunir Björns Inga Hrafnssonar, Óskars Bergssonar, varaborgarfulltrúa Framsóknarflokksins, og Péturs Gunnarssonar, spunameistara þeirra, til að draga athygli frá þessum kjarna málsins eru dæmdar til að mistakast.

Til að glöggva mig á gangi mála vegna OR/REI/GGE tók ég saman annál um þróun REI-málsins frá 3. 10. 07. til 3. 11. 07. og birti hann hér á síðunni.

Ekkert í þessum annál er frumsamið heldur notast ég við útskriftir Fjölmiðlavaktarinnar á fréttum ljósvakamiðlanna. Við samantektina hafði ég að leiðarljósi að horfa fram hjá pólitískum deilum vegna málsins, það er deilum meðal borgarfulltrúa og sinnaskiptum Björns Inga Hrafnssonar, þegar hann sleit samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og steig til vinstri.

Pólitíska niðurstaðan er einfaldlega sú, að ekki stendur steinn yfir steini í málflutningi Björns Inga Hrafnssonar um ástæður þess, að hann sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn. Sá loddaraskapur hefur gert hann að pólitískum ómerkingi eins og ég hef sagt og staðfest er enn frekar í leiðara Fréttablaðsins laugardaginn 3. nóvember, en þar segir Þorsteinn Pálsson um Björn Inga:

„Hin pólitíska hlið málsins er margþætt: Í fyrsta lagi var ljóst að niðurstaðan gat aldrei orðið á þann veg að bæði formaður sameinaðs borgarstjórnarflokks meirihlutans [Svandís Svavarsdóttir] og formaður borgarráðs [Björn Ingi Hrafnsson] gætu varðveitt málefnalegan trúnað. Nú liggur það fyrir að formaður borgarráðs hefur málefnalega sætt þeim örlögum að lúta í gras.

Sú staðreynd veikir hann verulega út á við. Hann var áhrifaríkur í fyrri meirihluta en sýnist nú vera áhrifarýr. En sú þversögn stendur eigi að síður eftir að viðskilnaður hans við sjálfstæðismenn í borgarstjórninni sýnist hafa eflt virðingu hans inn á við í Framsóknarflokknum.“

Miðað við áralangan vandræðagang OR í fjárfestingum utan kjarnastarfsemi sinnar hér á landi er full ástæða til að hafa áhyggjur af því, að stjórn félagsins hefur nú ákveðið að fara með fé Reykvíkinga og annarra eigenda OR í áhættufjárfestingu á Filippseyjum eða eins og segir á mbl.is 3. nóvember:

„Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir að með ákvörðuninni sé verið að standa vörð um hagsmuni almennings þar sem þegar hafi talsverðum fjármunum verið varið í verkefnið og verulegir hagsmunir séu í húfi. Þá þurfi að standa vörð um trúverðugleika REI, að því er fram kemur í tilkynningu.

Það eru REI og Geysir Green Energy sem standa saman að íslenskri þátttöku í tilraun til að eignast ráðandi hlut í filippseyska félaginu í bandalagi við heimamenn. Samstarf í þessu veru hófst haustið 2006 þegar Orkuveitan studdi tilboð Glitnis og FL-Group í fyrsta áfanga einkavæðingar PNOC-EDC, sem er stærsta jarðvarmaorkufyrirtæki Filippseyja.“

Með öðrum orðum úr því að byrjað er að grafa holu felast „hagsmunir almennings“ í því að grafið sé dýpra. Sagan kennir, að þessi stefna hefur ekki endilega reynst OR til framdráttar. Risarækjueldi OR hefur verið aflagt, eftir að lengi var talið að „hagsmunir almennings“ kölluðu á það, sömu sögu er að segja Feygingu í Þorlákshöfn, sem átti að vinna með hör og enn má nefna Þórsbrunn til að flytja út vatn með Vífilfelli og Hagkaupum. Ekkert af þessu hefur gengið eftir og enn er óvissa um Línu.net eða Gagnaveituna eins og fyrirtækið heitir nú. Verð hennar hefur verið talað upp eins og gert var með verðið að REI.

Ef OR/REI tekst betur að ávaxta fé Reykvíkinga á Filippseyjum en hér á landi er þess að sjálfsögðu beðið með mikilli eftirvæntingu. Hvort rökstyðja beri þá áhættu með vísan til „hagsmuna almennings“ er annað mál.

Falungong, Hell´s Angels.

Þekkingarleysi tekur á sig ýmsar myndir – eins og þegar lagt er að jöfnu að sporna við komu félaga í Falungong til landsins snemma sumars 2002 og að halda félögum í Hell’s Angels frá landinu.

2002 var þáverandi forseti Kína í opinberri heimsókn á Íslandi. Var gripið til víðtækra öryggisráðstafana til að tryggja öryggi hans og beindist athyglin af því tilefni að Falungong en 21. júlí 1999 lýsti miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins Falungong hreyfinguna ólöglega og bannaði flokksmönnum að taka þátt í starfsemi hreyfingarinnar. Vefsíðum var lokað og 22. júlí lýsti ríkisstjórnin yfir því, að Falunong væri ólögleg hreyfing og lagði strangt bann við allri kynningarstarfsemi á vegum hreyfingarinnar. Öllum ríkisstarfsmönnum var bannað að stunda Falungong æfingar eða aðhyllast hugmyndafræði hreyfingarinnar.

Li Hongzhi stofnandi og hugmyndafræðingur Falungong á árunum 1992 til 1994 hefur búið til kenningakerfi, sem bannar fylgismönnum hans meðal annars að stunda qigong. Í nýlegri bók um þróun qigong í Kína frá því að kommúnistar náðu völdum 1949 er að finna góða lýsingu á uppruna Falungong og hvers vegna skarst í odda með hreyfingunni og kínverska kommúnistaflokknum.

Í bókinni, sem heitir QigongFever og er eftir David A. Palmer er sagt að Li Hongzhi lýsi Falungong sem „the Great Law or Dharma (Fa) of the universe, a doctrine withs its own sacred scripture, Zhuan Fa-lun (Turning the Dharma-Wheel), which transcends all forms of material organisation, is superior to all philosophies, laws, teachings, religions and body cultivation methods in the history of humanity, and offers the only path of salvation from the acocaplytic end of the kalpa or universal cycle, in which the universe is destroyed.“

Falungong félagar telja, að með aðgerðunum 1999 og allar götur síðan hafi kínversk stjórnvöld gert allt, sem þau mega, til að brjóta hreyfingu sína á bak aftur og til verjast þeirri árás og sýna kínverskum stjórnvöldum, að þetta takist ekki, hefur Falungong efnt til mótmæla víða á Vesturlöndum, einkum ef háttsettir fulltrúar kínversku ríkisstjórnarinnar eru á ferð. Þetta gerðist hér við komu Kínaforseta í júní 2002. Til að tryggja öryggi hans gripu íslensk stjórnvöld til aðgerða, sem meðal annars miðuðu að því að halda Falungongfélögum frá landinu, á meðan forsetinn var hér.

Sættu hinar ströngu gagnráðstafanir gagnrýni og fjallaði ég meðal annars um þær hér á síðunni minni á þann hátt, að umræður urðu í fjölmiðlum um orð mín, en ég var á þessum tíma utan ríkisstjórnar.

Að bera þessar ráðstafanir vegna komu Kínaforseta saman við viðleitni stjórnvalda til að halda félögum í Hell’s Angels frá landinu stenst ekki gagnrýni. Vissulega vísa menn til sömu heimilda í reglum og Schengen-samningnum, þegar teknar ákvarðanir um að taka upp landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins, en ástæðurnar fyrir eftirlitinu geta verið ólíkar.

Félögum í Hell’s Angels, Vítisenglum, hefur nú fjórum sinnum verið bannað að koma til landsins. Er þessum tilvikum lýst á vefsíðu embættis ríkislögreglustjóra, www.rls.is, þar sem segir meðal annars:

„Tilraunir Hell’s Angels til að ná fótfestu á Íslandi má rekja ein fimm ár aftur í tímann, hið minnsta. Viðbrögð lögreglu hafa jafnan verið á sama veg. Í upphafi árs 2002 voru danskir félagar í samtökum þessum stöðvaðir við komu til landsins og þeim meinuð landganga. Þeir höfðu m.a. hlotið dóma fyrir morð, manndrápstilraunir, fíkniefnasmygl og ofbeldisbrot. Sama ár barst starfsfólki í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn hótun frá Hell’s Angels-samtökunum í Danmörku.

Í júlí 2002 var félögum í norskum samtökum, sem tengdust Hell’s Angels, meinuð landganga. Fimm norskum félögum í Hell’s Angels var vísað úr landi í desember 2003. Árið 2004 var dönskum félögum í vélhjólasamtökunum Hog Riders vísað úr landi við komu til Keflavíkur.

Reynslan kennir að hvarvetna sem Hell’s Angels og önnur sambærileg vélhjólasamtök ná fótfestu fylgir aukin skipulögð glæpastarfsemi í kjölfarið. Þeirri viðleitni samtakanna fylgir og jafnan stóraukin hætta á hótunum, fjárkúgunum og ofbeldi. 

Viðbrögð lögreglu á Íslandi voru ákveðin á grundvelli þeirra upplýsinga sem hér er að finna  og því mati að koma félaga í Hell’s Angels til Íslands og viðleitni samtakanna til að ná fótfestu hér á landi fæli í sér alvarlega ógn við samfélag og allsherjarreglu.“

Gunnlaugur Júlíusson ræðir aðgerðirnar gegn Hell´s Angels á vefsíðu sinni og segir meðal annars:

„Það er frábært hjá lögregluyfirvöldum að taka af hörku á móti Vítisenglunum í Leifsstöð og senda þá til síns heima. Það er alveg á hreinu að þessi glæpasamtök munu gera allt sem hægt er til að ná yfirráðum á dópmarkaðnum hérlendis eins og þau hafa gert að miklu leyti í nágrannalöndum okkar. Vítisenglar eru ein alræmdustu og harðsvírustu glæpamannasamtök sem um getur. Þau standa ítölsku mafíunni ekki langt að baki. Þegar ég bjó í Köben fyrir rúmum 20 árum þá voru Hells Engels og Bullshit tvö stærstu samtökin af þessum toga í borginni. Englarnir réðu dópmarkaðnum í Nörrebro hverfinu og þar um kring en Bulshittararnir réðu dópmarkaðnum á Amager og þar með í Kristianíu. Milli þessara hópa voru mikil átök sem enduðu með því að Makríllinn, foringi Bullshittaranna, var drepinn af engli úti á Amager. Sá flúði til Kanada og var þar í nokkur ár, kom síðan heim aftur, sat nokkur ár í fangelsi eins og kóngur og var síðast þegar ég vissi foringi englanna í Danmörku. Menn komast til áhrifa með slíkum aðgerðum. Einu sinni sá ég Bullshittarana í stórri mótorhjólaparade úti á Österbro og fór ekkja Makrílsins, ljóshærð stelpa, þar í broddi fylkingar. Vissulega mögnuð sjón. Stríðið milli fylkinganna endaði þannig að englarnir drápu flesta Bullskittarana og klárðu dæmið þannig. Þannig urðu þeir allsráðandi á þessum markaði í Danmörku.

Hells Engels eru samtök af slíkri gráðu að þau eru almennt talin ógnun við samfélagið. Því skiptir engu máli hvort meðlimir þeirra séu á sakaskrá eða ekki, þeir eru óæskilegir hvar sem er. Fréttamannsgreyið sem var úti í Leifsstöð í kvöld [föstudagskvöldið 2. nóvember] ætti að kynna sér lágmarksatriði í málinu áður en hann fer að fjalla um málið, slík var frammistaða hans.

Meðvitaða liðið er strax farið að hafa hátt og hreyta skít og skömm yfir lögguna fyrir að standa sig í starfi. Það er svo sem ekki við öðru að búast úr þeirri átt.“

Allir lesendur ættu að sjá, að á milli Hell’s Angels og Falungong er regindjúp, þegar litið er á uppruna, eðli og tilgang þessara félaga. Sé allsherjarregla og þjóðaröryggi á hinn bóginn talið í hættu, má taka upp landamæraeftirlit innan Schengen svæðisins hver sem á í hlut. Þjóðverjar gripu til þessara ráða vegna heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu um árið og vegna G8 fundarins á þessu ári. Fleiri ríki hafa gert þetta til að geta haldið uppi öryggi á knattspyrnuleikjum. Öll ríki leggja mikið á sig til að hefta starfsemi Hell's Angels innan landamæra sinna og kysu auðvitað öll, að samtökin hefðu ekki fest þar rætur.