REI: Annáll samruna og skilnaðar 3. 10. til 3. 11. 07.
Allt, sem hér birtist er orðrétt skrásetning Fjölmiðlavaktarinnar. Þar sem ég rakst á ritvillur leiðrétti ég þær, en að öðru leyti er textinn óbreyttur.
Stöð 2 markaðsfréttir kvöld 3. október:
Fjárfestingarfélögin Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy, sem bæði fjárfesta í orkuiðnaði, sameinuðust í dag. REI er í meirihluta eigu Orkuveitu Reykjavíkur en stærsti hluthafi Geysis Green er FL-Group. Í sameinuðu félagi verður Bjarni Ármannsson stjórnarformaður en áætlað virði félagsins er um 60-70 milljarðar króna. REI fer með stærri hlut um tíma eða um 55% á móti 45% hlut Geysis. Hafliði Helgason, talsmaður REI, segir að þegar fram líði stundir muni fleiri fjárfestar koma að fyrirtækinu, s.s Atorka, Saxhóll, Glitnir og Bjarni Ármannsson. Stefnt er að skráningu á alþjóðamarkaði á næstu tveimur árum.
Sjónvarpið kl. 19.00 3. október:
Orkufyrirtækin Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy hafa gengið í eina sæng. Hlutafé fyrirtækisins nemur 40 milljörðum króna og forsvarsmenn þess stefna að því að skrá það á alþjóðlegan hlutabréfamarkað á næstu árum.
Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy hafa bæði sprottið upp eins og gorkúlur á undanförnum mánuðum. Fyrirtækin hafa bæði sótt út á erlenda orkumarkaði og voru tekin að rekast saman á sömu stöðunum. Eigendurnir sáu sér leik á borði og sameinuðu fyrirtækin undir nafninu Reykjavík Energy Invest. Geysir Green er í eigu FL Group, Atorku og Glitnis en Reykjavík Energy Invest er útrásararmur Orkuveitu Reykjavíkur. Stjórn Orkuveitunnar kom saman á fundi í dag og ræddi sameininguna. Stjórnarformaðurinn segir forsvarsmenn Geysis Green hafa átt frumkvæði að viðræðunum fyrir örfáum dögum.
Haukur Leósson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur: Þeir komu og höfðu samband og við tókum það strax, strax til skoðunar og sáum það að við myndum finna flöt á þessu og það tókst. Þannig að þetta hefur tekið tiltölulega stuttan tíma.
Reykjavík Energy Invest vegur þyngra í sameinaða fyrirtækinu. Orkuveita Reykjavíkur verður stærsti hluthafinn með um 35% hluta. FL Group með 27% og Atorka með fimmtungshlut. Haukur segir að hlutafé verði brátt aukið í félaginu og nýjum fjárfestum hleypt að, líklega bönkum.
Haukur Leósson: Þetta verður mikill vaxtarbroddur í ... sókn og þetta verður vonandi langstærsta jarðhitafélagið í heimi og er eiginlega þegar orðið það.
Bjarni Ármannsson verður stjórnarformaður nýja fyrirtækisins og Guðmundur Þóroddsson verður forstjóri.
Sigríður Hagalín Björnsdóttir: Eruð þið verðmætari eftir sameininguna heldur en sundraðir?
Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Reykjavík Energy Invest: Ég held að sameinaðir verðum við verðmætari já heldur en sitt í hvoru lagi.
Sigríður: Hvað er fyrirtækið metið á?
Guðmundur Þóroddsson: Heildareignir eru eitthvað í kringum 60 milljarðar og heildarhlutafé í kringum 40 milljarðar í þessu sameinaða fyrirtæki.
Hljóðvarp ríkisins hádegi 4. október:
Sameinaða félagið er sagt eitt öflugasta fyrirtæki heims á sviði jarðvarma, bæði í rafmagnsframleiðslu og hitaveitum. Jarðboranir eru að fullu í eigu félagsins en það var áður í eigu Geysis Green. Samanlagður hlutur í jarðvarmafyrirtækinu Enex verður 70% en Enex vinnur að þróun jarðvarmaverkefna víða um heim. Nýja félagið á 2/3 hluta í Enex-Kína sem vinnur að þróun hitaveitna þar. Fimmtungshlutur Geysis Green í Western GeoPower í Kanada rennur inn í félagið en það fyrirtæki hefur unnið að þróun tveggja jarðvarmavirkjana í Bandaríkjunum. Þá á sameinað félag 46% hlut í Exorku International sem vinnur að byggingu jarðvarmaorkuvera með svokallaðri Kalina-tækni. Þessi hlutur var í eigu Geysis Green. Samanlagður eignarhlutur félagsins í Hitaveitu Suðurnesja verður 48% en Geysir Green átti þar 32% hlut. Samkomulag er um að einkaleyfisbundin starfsemi Hitaveitu Suðurnesja, það er veitukerfi sveitarfélaga, verði í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar. Reykjavík Energy Ingvest var stofnað í mars á þessu ári sem fjárfestingar- og viðskiptaþróunararmur Orkuveitu Reykjavíkur á alþjóðavettvangi. Orkuveitan átti 93% í félaginu. Geysir Green var stofnað í janúar á þessu ári af FL Group, Glitni og VGH Hönnun. Atorka og bandaríski bankinn Goldman Sachs voru einnig stórir hluthafar. FL og Glitnir eru að stórum hluta í eigu Baugs. Orkuveita Reykjavíkur verður stærsti eigandi hins sameinaða félags með 35,5% hlut. FL Group eignast 27% , Atorka 20% og Glitnir 6,2%. Bjarni Ármannsson verður stjórnarformaður nýja félagsins en Guðmundur Þóroddsson og Ásgeir Margeirsson, forstjórar. Stefnt er að skráningu félagsins á markað árið 2009. Heildarhlutafé félagsins er 40 milljarðar en heildarverðmæti þess er sagt 65 milljarðar króna. Nýir fjárfestar verða kynntir næstu daga og hlutafé aukið en Haukur Leósson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir að erlendir fjárfestar eignist ekki meira en fjórðungshlut í félaginu.
Stöð 2 kvöldfréttir 4. október:
Orkuveita Reykjavíkur er almannafyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, Akranesbæjar og Borgarbyggðar og þar með íbúa þessara byggða. En hvaða áhættu er almannafyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur að taka með því að fjárfesta, í gegnum Reykjavík Energy Invest, í jarðvarmaverkefnum víða um heim og sums staðar á svæðum þar sem ástandið er ótryggt?
Lóa Pind Aldísardóttir: Hvað gæti Orkuveitan tapað á, á þessu félagi, bara í krónum talið?
Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Reykjavík Energy Invest: Hún hefur semsagt lagt í peningum fram í þetta félag eitthvað rúma fjóra milljarða. Og það er það sem hún getur tapað.
Ef hins vegar allt fer á besta veg...
Guðmundur Þóroddsson: ...að þá gæti þetta verið einhverra milljarðatuga hagnaður.
Sjónvarpið kvöldfréttir 4. október:
Núverandi iðnaðarráðherra fagnar sameiningu fyrirtækjanna, segir hana efla sókn orkufyrirtækjanna erlendis og auka hagnaðarvon af útrásinni. Þá verði sameiningin til þess að almenningsveiturnar verði skildar frá þeim þáttum sem samkeppni eigi að ríkja um.
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra: Sem Reykvíkingur og íbúi í Reykjavík að þá auðvitað horfi ég á þá staðreynd að þarna er Orkuveitan hugsanlega að fara í ákveðin áhætturekstur en ég sé það líka að hún er að leggja þarna inn sex, sjö milljarða en eignin sem hún fær út úr þessu eru ja, næstum því þrefalt meiri þannig að það er nú góður samningur fyrir okkur í Reykjavík. Og svo gleðst ég yfir því að um það að það er yfirlýsing um það að þetta fyrirtæki að það fari á markað innan tíðar og þar með verður væntanlega undið ofan af þessu sem að menn kannski eru að gagnrýna sem er ákveðin áhætta sem að tekinn er. ???.
Hið sameinaða félag verður eitt af öflugust fyrirtækum landsins, metið á 65 milljarða króna. Geysir Green sem stofnað var í janúar á þessu ári, leggur meðal annars til fyrirtækið Jarðboranir að fullu og hluti í Hitaveitu Suðurnesja, Enex sem vinnur að verkefnum víða um heim, Enex Kína, Western Geopower sem starfar vestanhafs og X-orku international. Og Reykjavík Energy Invest eða Orkuveita Reykjavíkur, leggur líka sitt í púkkið, þar á meðal fjóra og hálfan milljarð króna í beinhörðum peningum. Hlutaféð í hinu nýja sameinaða fyrirtæki er um fjörutíu milljarðar króna en eins og fram hefur komið mun Orkuveita Reykjavíkur eiga þriðjung hlutafjárins. FL-Group verður með tæpan þriðjung en þar ráða ríkjum þeir Hannes Smárason og Jón Ásgeir Jóhannesson, oftast kenndur við Baug. Þriðji stóri hluthafinn er Atorka, félag þar sem Vilhelm Þorsteinsson, forðum kenndur við Samherja ræður mestur. Þeir Jón Ásgeir og Hannes ráða líka mestu í Glitni enda er bankinn að stórum hluta í eigu FL-Group. Aðrir eiga minna. Til stendur að fá nýja fjárfesta að Reykjavík Energy Invest á næstu vikum og misserum og skrá félagið á markað í framhaldi.
Hljóðvarp ríkisins í hádegi 5. október:
Stjórnarmaður í Reykjavík Energy Invest telur verðmæti fyrirtækisins aukast það mikið á næstu árum að þriðjungshlutur Orkuveitunnar í því verði orðinn allt að 40 milljarðar króna eða jafnverðmætur og drjúgur hluti skulda Reykjavíkurborgar. Verðmæti 500 milljóna króna hlutar sem Bjarni Ármannsson, keypti fyrir um mánuði hefur tvöfaldast.
Orkuveita Reykjavíkur sett 6 milljarða króna í Reykjavík Energy Invest fyrir samrunann við Geysi Green Energy. Nú er sá hlutur metinn á 16 milljarða. Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarmaður í Reykjavík Energy Invest, segir að í samrunanum felist mikil viðurkenning á útrásarstarfi Orkuveitunnar. Hlutur veitunnar eigi eftir að verða enn verðmætari á næstu árum.
Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarmaður í Reykjavík Energy Invest: Það er orðið ljóst að verðmæti Orkuveitunnar í útrásarverkefnum hafa margfaldast á stuttum tíma. Það bendir til þess að við höfum verið að gera rétt. Það er stefnt á skráningu á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði um mitt ár 2009 og þá hygg ég að komi í ljós að sú fjárfesting sem að Orkuveitan hefur gert í þessum efnum fyrir hönd íbúanna á suðvesturhorninu hafi enn margfaldast að raungildi og nemi jafnvel 30, 40 milljörðum sem að fari langt með að dekka skuldir Reykjavíkurborgar.
Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður Reykjavík Energy Invest, keypti 500 milljóna króna hlut fyrir tæpum mánuði á genginu 1,3. Núna eru boðnir hlutir á genginu 2,7 og það er það gengi sem verður á 20 milljarða króna hlut sem verður boðinn út á næstu vikum. Björn Ingi segir að í þessum gengismun felist að verðmætahlutinn hafi aukist sem muninum nemur.
Björn Ingi Hrafnsson: Jú það hlýtur að gera það. Það er hins vegar bara á það að líta að það er búið að gerast ótrúlega margt á stuttum tíma.
Samkvæmt þessu hefur 500 milljóna króna hlutur Bjarna tvöfaldast að verðmæti á þremur vikum. Verðmætaaukningin er því hálfur milljarður króna. Sex aðrir lykilstarfsmenn Reykjavík Energy Invest fengu að kaupa á genginu 1,3. Hlutur þeirra hefur því þegar tvöfaldast að verðgildi. Auk stjórnarformennskunnar gegnir Bjarni 60% starfi hjá fyrirtækinu. Mánaðarlaun hans eru 750 þúsund krónur.
Hljóðvarp ríkisins kl. 18.00 5. október:
Reykjavík Energy Invest er nú metið á 65 milljarða króna segir stjórnarformaður fyrirtækisins. Sjálfur á hann 2,5% hlut í félaginu. Verðgildi félagsins var metið á 18 milljarða króna fyrir tæpum mánuði.
Matsvirði Reykjavík Energy Invest er 65 milljarðar króna eftir sameininguna við Geysi Green Energy en 13,5 miljarðar að nafnvirði. Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður, segir hluthafa REI fá 54% í hinu nýja félagi en hluthafa Geysis Green 46%. Hluti af samrunanum er hlutafjáraukning upp á 21,5 milljarða króna. Það fé kemur frá Orkuveitunni, Atorku, FL Group og Bjarna. Þá verður á næstunni aflað aukins hlutafjár að verðmæti 20 milljarða króna en ekki hefur verið ákveðið á hvaða gengi verður selt. Óefnislegar eignir félagsins eru metnar á tíu milljarða króna, segir Bjarni.
Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður REI: Það er í rauninni verðmat á þeirri þekkingu og þeim verkefnum sem að í ... er hjá REI og því sem samstarfið við Orkuveituna felur í sér.
Kristín Sigurðardóttir: En eru einhverjir sérfræðingar fengnir til að búa til þennan verðmiða, 10 milljarðar ?
Bjarni Ármannsson: Já við höfum okkar eigin sérfræðinga og gerum okkar arðsemisgreiningar á verðmæti fjárfestinga og áhættustigi og þetta töldum við vera ásættanlegt.
Kristín: Var ekki ástæða til að fá einhvern utanaðkomandi til að meta þetta ?
Bjarni Ármannsson: Það verður alltaf matsatriði í sjálfu sér hvort að hvort að það eigi að fá utanaðkomandi aðila en það var okkar mat að við hefðum á færustu sérfræðingum að skipa.
Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Reykjavík Energy Invest, segir að enginn hafi fengist til að meta óefnislegar eignir.
Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Reykjavík Energy Invest: Það hvað menn eru til í að borga mikið fyrir óefnislegar eignir er nú erfitt að ætlast til þess að sé metið. Og ég hef nú ekki ennþá fengið neinn til þess. Þar sem að það er náttúrulega mikið meira virði heldur en það er einhver til í að borga fyrir það.
Bjarni segir ástæðu þess að gengið bréfa í félaginu hafi á þremur vikum hækkað úr 1,3 í 2,7 vera þá að félagið sé nú stærra. Miðað við nafnvirði og gengi var fyrirtækið metið á 18 milljarða króna fyrir sameiningu en 40 milljarðar þremur vikum síðar. Hlutur Bjarna Ármannssonar í nýja félaginu er orðinn 2,5%. Eigið fé sameinaðs félags er 55 milljarðar króna.
Bjarni Ármannson: Það eru 55 milljarðar sem er semsagt eigið fé sameinaðs félags.
Kristín: Inni í því eru semsagt kaupin á, þín kaup á hlutum í félaginu ?
Bjarni Ármannsson: Já
Kristín: Þannig að þú ert búinn að leggja sjálfur út þessar 500 milljónir og borga þær ?
Bjarni Ármannsson: Já
Kristín: Í peningum bara ?
Bjarni Ármannsson: Jájá.
Sjónvarpið kl. 19.00 5. október:
Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður Reykjavík Energy Investment, segir að Orkuveita Reykjavíkur hafi lagt 10 milljarða fagþekkingu og viðskiptavild inn í fyrirtækið.
Bjarni á þegar hluti í REI sem hann keypti fyrir 500 milljónir króna fyrir fáum vikum en þessi hlutur er nú metinn á 1000 milljónir. Starfsmönnum Orkuveitunnar stendur til boða að kaupa litla hluti í fyrirtækinu en fáeinir fá þó að kaupa stærri hluti.
Sjónvarpið 19.00 5. október:
Hlutabréf í FL Group hækkuðu mjög í verði daginn áður en tilkynnt var um sameiningu Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Investment. Bara óheppileg tilviljun segir sérfræðingur á markaði.
Geysir Green Energy var stofnað í janúar s.l af FL Group, Glitni og VGH hönnun. Reykjavík Energy Invest var stofnað í mars sem útrásararmur Orkuveitu Reykjavíkur en svo má eiginlega segja að því hafi verið endurhleypt af stokkunum 11. september þegar tilkynnt var að það ætli að ná 50 milljörðum í hlutafé og Bjarni Ármannsson yrði stjórnarformaður. Þremur vikum síðar, miðvikudaginn 3. október, tilkynntu forsvarsmenn beggja fyrirtækja svo um samruna þeirra og sögðu samningaviðræður hafa tekið stuttan tíma. Það var hins vegar ekki skrifað formlega undir samningana fyrr en um kvöldið. Athygli vekur einnig að hlutabréf í FL Group hækkuðu mjög í verði 2. október, daginn áður en tilkynnt var um samrunann. Úr 24,5 í 25,8. Fjöldi viðskipta sjöfaldaðist einnig milli daga, fór úr 11 í 77. Bréf í Atorku, næst stærsta hluthafanum í Geysi Green lækkuðu hins vegar örlítið þennan sama dag. Jafet Ólafsson, fyrrum framkvæmdastjóri Verðbréfastofunnar, telur jákvæðar fréttir af öðrum fjárfestingum FL Group skýra þessa hækkun frekar en að nokkur óeðlileg viðskipti hafi átt sér stað. Geysir Green sé ekki það stór hluti fjárfestinga FL group en vissulega sé þetta óheppileg tilviljun. Þess má geta að Bjarni Ármannsson verður gestur Evu Maríu Jónsdóttur í Kastljósi eftir fréttir en þar segir hann m.a að hann telji nauðsynlegt til langs tíma litið að Orkuveita Reykjavíkur selji sinn hlut í REI.
Hljóðvarp ríkisins kl. 18.00 7. október:
Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður Reykjavík Energy Invest, telur ekki rétt að bera saman verðmat á fyrirtækinu við verðmat á Landsvirkjun. Landsvirkjun, sem metin er á 60 milljarða, skipti við fáa innanlands en REI, sem er 65 milljarða virði, sé með verkefni út um allan heim auk jarðborana.
Reykjavík Energy Invest, eða REI, er metið á 65 milljarða króna eftir sameininguna við Geysi Green Energy. Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður REI, segir þrennt liggja að baki verðmatinu: mat á gamla REI, hlutafjáraukningu og mat á Geysi Green. Gamla REI var verðmetið á 16 milljarða þar af eru tíu milljarðar fyrir jarðvarmaþekkinguna. Í öðru lagi er það hlutafjáraukning upp á 21,5 milljarð. Afgangurinn, 27 og hálfur milljarður, er matið á Geysi Green. Bjarni segir bæði menn hjá REI og Geysi Green hafa gert verðmatið. Enginn utanaðkomandi hafi verið fenginn til þess. Þetta sé bæði mat á verðmætum framtíðarinnar og eignum. Landsvirkjun er metin á 60 milljarða. Bjarni segir ekki rétt að bera saman verðmat þessara tveggja fyrirtækja. ???
Á þriðjudaginn [ 2. október] flaug Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, til Kína í boði Glitnis. Bankinn á hlut í jarðvarmafyrirtækinu REI. Ólafur sagði í samtali við Stöð 2 að Kínverjar væru hæstánægðir með samstarfið við Íslendinga um nýtingu jarðvarma og vildu auka það til mikilla muna. Verkefnið væri svo stórt að ef samningar gengju eftir gerðu íslensk orkufyrirtæki, fjármálastofnanir og bankar varla nokkuð annað á næstu árum en að sinna því. Daginn eftir samþykkti stjórn Orkuveitunnar samruna Geysis Green og REI. Þar næsta dag kynntu Bjarni Ármannsson og fulltrúar FL Group erlendum fjárfestum blómlega framtíð FL. Bjarni segir ekkert hæft í ásökunum um að samrunanum hafi verið flýtt til að unnt væri að kynna FL Group sem verðmætara fyrirtæki.
Bjarni Ármannsson: Það var hrein tilviljun að að fjárfestadagur FL Group skyldi vera þarna á þessum tíma.
Hljóðvarp ríkisins kl. 18.00 7. október:
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar: Það sem að mér finnst standa uppúr í þessu er að Reykjavíkurborg leggur bara í beinum verðmætum inn sex milljarða. Mér skilst að hún eigi nú þegar hlut sem að er þá miðað við það sem að þú ert að segja yfir 20 milljarðar því að þeir eiga, Reykjavíkurborg, eitthvað um 35%. Þannig að þá finnst mér það nú mikil viðskiptaleg snilld að hafa tekist að búa þannig úr loftinu nánast til 14 - 15 milljarða verðmæti fyrir okkur sem að erum skattborgarar í Reykjavík og ég vildi bara óska þess að Reykjavíkurborg takist að realísera þessi verðmæti og þá hugsanlega getur hún notað það til þess að lækka orkuverðið til okkar.
Stöð 2 hádegi 8. október:
Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, vill að Orkuveita Reykjavíkur selji hluti í Reykjavík Energy Invest upp að því marki sem hún setti upphaflega í fyrirtækið. Hann segir að einnig sé ljóst að setja þurfi lög um aðskilnað veitustarfsemi frá samkeppnismarkaði. Þórir Guðmundsson ræddi við hann í Kína um helgina.
Björn Ingi var í Kína að skrifa undir samkomulag á vegum Faxaflóahafna við Tsingtaoborg en var reyndar mestan tímann í símanum heim á meðan deilur um málefni Reykjavik Energy Invest voru að sjóða upp úr. Þar er Björn Ingi stjórnarmaður.
Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs: Ég sé fyrir mér að við munum fara í það að selja fljótlega eitthvað af hlut Orkuveitunnar í þessu fyrirtæki til þess að ná nokkurn veginn því sem að við höfum lagt fram í peningum og síðan eftir 2 ár þegar fyrirtækið verður skráð á alþjóðlegan hlutafjármarkað að þá förum við út að meira eða minna leyti og þá muni koma í ljós hversu gífurlegur ávinningur er hér á ferðinni fyrir eigendur Orkuveitunnar sem eru mörg sveitarfélög á suðvesturhorninu.
Hljóðvarp ríkisins hádegi 9. október:
Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra líst illa á að Orkuveita Reykjavíkur selji ríflega þriðjungs hlut sinn í Reykjavík Energy Invest og fyrirtækið komist þannig algjörlega í einkaeigu.
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra: Ég tel þetta vera misráðið. Ég held að það geti dregið úr vægi þess sem útrásarfyrirtækis og dregið úr möguleikum þess á því að sinna því verkefni. Sömuleiðis tel ég þetta nú alveg fáránlegt frá sjónarmiði Reykvíkinga af því að ég held að þetta fyrirtæki það muni aukast mjög hratt að verðgildi. Ég dreg þá ályktun bara af þeim mikla þrýstingi sem að er erlendis frá alls konar fjárfestingarbönkum og alls konar fyrirtækjum sem að vilja kaupa sig inn í svona græn orkufyrirtæki. Ég tel þess vegna að þessi ákvörðun hún gæti leitt til þess að Reykvíkingar, þeir töpuðum á tugum milljarða.
Stöð 2, kvöld 11. október 2007:
Lára: Hvernig heldurðu að ykkur muni ganga að starfa með Birni Inga, nú hafið þið, ja ráðist harkalega að honum bæði á þessu kjörtímabili og, í, þegar að við myndun síðasta meirihluta, hvernig heldurðu að það samstarf muni ganga núna hjá ykkur?
Dagur B. Eggertsson: Við erum öll alltaf að læra og ég held að þessi umræða, þessi lýðræðislega umræða sem oft er hörð sé þannig báðum megin, við ganginn skulum við segja að, að þú þroskast eitthvað og ég hef lært mikið og Björn Ingi hefur beðist afsökunar á ákveðnum þáttum í þessu máli sem að hefur verið mikið til umfjöllunar og við erum að fara núna í þann sameiginlega leiðangur að, að marka heildarstefnu fyrir Orkuveituna og öll svið þess fyrirtækis. Svandís Svavarsdóttir mun leiða þá vinnu og ég held að, ef ég hef einhvertímann verið sannfærður um að hópur getur náð vel saman, sýnt innbyrðis virðingu og, og ráða málum til leiða farsællega og með rökvísi, líka svona af þeirri hófsemi og stillingu sem þarf þegar stór mál eru annars vegar og út frá almannahagsmunum þá er það þessi hópur.
Hljóðvarp ríkisins 08.00 12. október:
Dagur B. Eggertsson, verðandi borgarstjóri Reykvíkinga, segir að vel verði farið yfir málefni Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavík Energy Invest. Hann segir of seint að gera að engu kaup Bjarna Ármannssonar og Jón Diðriks Jónssonar á stórum hlutum í REI.
Nýr meirihluti fer brátt í heildarstefnumótum í málefnum orkuveitunnar undir forystu Svandísar Svavarsdóttur, borgarfulltrúa Vinstri-grænna. Dagur segir að eins mikill tími verði tekinn í það og þurfi. Farið verði yfir málið af yfirvegun og festu.
Dagur B. Eggertsson, verðandi borgarstjóri: Og jafnframt skoða rás þessara atburða sem að hafa leitt til þessara meirihlutaslita og reyna að læra af öllu saman.
Kristín Sigurðardóttir: Getið þið stöðvað þennan samruna, kemur það til greina?
Dagur B. Eggertsson: Nei það er eitthvað sem er núna fyrir dómstólum, þ.e.a.s. hvort að fundurinn hafi verið lögmætur og samruninn mun eiga sér stað núna á nokkrum vikum. Þannig að við teljum að við höfum bara góðan tíma til þess að horfa á þessi mál frá öllum hliðum. Við ætlum ekki að hrapa eða hlaupa til einhverra ótímabærra ákvarðana því að það er ekkert víst að það væri æskileg niðurstaða heldur.
Kristín: Vilhjálmur vill láta óháða sérfræðinga meta verðmæti hlutar orkuveitunnar. Ætlið þið að halda því áfram?
Dagur B. Eggertsson: Við munum bara leggja mat á það. Ef að við komumst að þeirri niðurstöðu að það sé ótímabært að selja að þá sé ég ekki ástæðu til þess á þessu stigi.
Dagur segir ekkert athugavert við það að mynda nú meirihluta með Birni Inga Hrafnssyni þótt hann hafi átt virkan þátt í því að samþykkja samruna REI og Geysis Green Energy og heimila kaup einstaklinga á stórum hlutum í REI.
Dagur B. Eggertsson: Ég held að Björn Ingi sé eini maðurinn í þessu máli sem hafi beðist afsökunar á þessum hlutum og hann er tilbúinn í þennan leiðangur með okkur sem að við höldum allra hluta vegna sé mjög brýnn og í þágu almannahagsmuna. Það er einmitt það sem að mér finnst þessi meirihluti snúast um.
Hljóðvarp ríkisins hádegi 12. október:
Dagur B. Eggertsson, verðandi borgarstjóri Reykvíkinga, telur að ekki sé unnt að koma í veg fyrir samruna Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy. Bíða verði niðurstöðu dómsmáls sem Svandís Svavarsdóttir hefur höfðað. Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar sem greiddi atkvæði með samrunanum, segist enn sömu skoðunar.
Nýr meirihluti fer brátt í heildarstefnumótun í málefnum Orkuveitunnar undir forystu Svandísar Svavarsdóttur, borgarfulltrúa Vinstri-grænna, sagði Dagur B. Eggertsson í gærkvöldi. Hann segir að sá tími verði tekinn í það sem þurfi.
Dagur B. Eggertsson, verðandi borgarstjóri: Og jafnframt skoða ja rás þessara atburða sem að hafa leitt til þessara meirihlutaslita og reyna að læra af öllu saman.
Fréttamaður: Getið þið stöðvað þennan samruna, kemur það til greina?
Dagur B. Eggertsson: Nei það er eitthvað sem er núna fyrir dómstólum, það er að segja hvort að fundurinn hafi verið lögmætur og samruninn mun eiga sér stað núna á nokkrum vikum. Þannig að við teljum að við höfum bara góðan tíma til þess að horfa á þessi mál frá öllum hliðum, við ætlum ekki að hrapa eða hlaupa til einhverra ótímabærra ákvarðana.
Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sat eigendafund Orkuveitunnar þegar samruni Geysis Green og REI var samþykktur. Sigrún Elsa greiddi atkvæði með samrunanum og sagði í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að hún hefði ekki skipt um skoðun. Hún á von á því að eigendafundurinn verði endurtekinn. Þá ætli nýji meirihlutinn að fara vel yfir málið.
Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar: Og þá er ég ekki að tala um endilega bara sameininguna og alls ekki í raun, ég er að tala þá um aðdragandann, ég er að tala um það sem gerst hefur á lokuðum stjórnarfundum í Reykjavíkur Energy Invest og þar hefur ýmislegt verið samþykkt.
Sigrún Elsa segir Björn Inga Hrafnsson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, hafa gengist undir það að nú verði það sem gerðist á lokuðum stjórnarfundum REI dregið fram í dagsljósið.
Sigrún Elsa Smáradóttir: Þetta er eitthvað sem Björn Ingi hefur undirgengist og hann veit alveg hver okkar gagnrýni hefur verið og hann veit hverjar okkar kröfur eru og hann hefur undirgengist að þetta verði allt saman skoðað.
Stöð 2 hádegi 13. október:
Öll útrásarverkefni Orkuveitu Reykjavíkur næstu 20 árin renna til REI samkvæmt þjónustusamningi milli REI og Orkuveitunnar sem gerður var daginn fyrir samruna REI við Geysir Green Energy. Þá kveður samningur um samruna fyrirtækjanna meðal annars á um að ef Orkuveitan kaupir hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja þá skal selja REI hlutinn á sama verði.
Þjónustusamningurinn er óuppsegjanlegur, jafnvel þótt að REI lendi að fullu í höndum erlendra eigenda. Hans er hvergi getið í tilkynningu sem send var vegna samruna REI við Geysi Green Energy og var fyrst greint frá honum á fréttavefnum visir.is í gær. Í samtali við Vísi segir Hjörleifur Kvaran þjónustusamninginn grundvöll þess 10 milljarða mats sem lagt var á óefnislegar eignir Orkuveitunnar, svo sem reynslu, þekkingu og tengsl Orkuveitunnar við sameiningu REI og Geysi Green Energy. Þá var ákvæði í samrunasamningi REI og Geysi Green sem skuldbindur Orkuveituna til að selja REI hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja. Ein segir að ef Hafnarfjarðarbær ákveður að selja Orkuveitunni sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja þá beri Orkuveitunni að selja hann áfram til REI á sama verði. Hafnarfjarðarbær á 15% hlut í Hitaveitunni. Eftir samruna Geysi Green og REI á REI 48% hlut í Hitaveitunni. Ef við bættist hlutur Hafnarfjarðar þá yrði hluti REI í Hitaveitu Suðurnesja 63%.
Hljóðvarp ríkisins kl. 18.00 13. október.
Ákveði Hafnfirðingar að selja OR hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja þá skuldbindur Orkuveitan sig til þess að framselja hlutinn til sameinaðs félags REI og Geysis Green Energy. Orkuveitan skuldbindur sig til að láta REI fá allar upplýsingar og ábendingar sem fyrirtækið fær um hagnýtingu jarðhita hvar sem er í heiminum næstu 20 árin.
REI var stofnað af OR í mars. Þriðja þessa mánaðar var ákveðið að fyrirtækið rynni saman við einkafyrirtækið Geysir Green Energy undir merkum REI. Í samrunasamningnum sem birtur er í Morgunblaðinu í dag kemur fram að komi til þess að Hafnarfjarðarbær ákveði að selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til Orkuveitunnar þá skuldbindi hún sig til þess að selja hlutinn til REI á sama verði. Samanlagður hlutur REI og Geysis Green Energy í Hitaveitu Suðurnesja er nú 48%. Hafnfirðingar hafa ekki ákveðið hvort þeir selji. Í öðru ákvæði samrunasamningsins kemur fram að til standi að skipta Hitaveitu Suðurnesja upp þannig að veitustarfsemi og smásala rafmagns verði í einu félagi, Hitaveitu Suðurnesja hf., Reykjanesbær færi með meirihluta þar. Þá verði rekstri orkuvera og heildsölu rafmagns í sérstöku félagi, það fái nýtt heiti. Fréttastofa útvarpsins hefur undir höndum þjónustusamning OR og REI sem stjórn OR samþykkti rétt áður en sameinaða félagið REI varð til á fundi sem haldinn var 3. október. Í þessum þjónustusamningi, sem er til 20 ára, kemur meðal annars fram að REI fái forgangsrétt að öllum erlendum verkefnum OR á samningstímanum. OR skuldbindi sig til þess að upplýsa REI og vísa þangað öllum ábendingum og fyrirspurnum um að hagnýta jarðhita hvar sem er í heiminum nema hér á landi. Það kemur jafnframt fram að REI megi nota vörumerki OR í starfi sínu auk nafnanna Orkuveita Reykjavíkur og Reykjavík Energy, heiti sem Orkuveitan hefur sjálf notað erlendis. Í sama samningi er kveðið á að sérfræðingar OR eigi að vera tiltækir fyrir REI. Í samrunasamningi Geysis Green og REI kemur fram að í sameinuðu félagi eigi REI rúm 57%, Geysir Green 42% rúm. Þjónustusamningur OR og REI gildir næstu 20 árin óháð því hver eigi það fyrirtæki, opinberir aðilar, einkaaðilar eða útlendingar.
Hljóðvarp ríkisins kl. 18.00 13. október:
Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy og annar forstjóri sameinaðs félags REI segir að hefði ekki verið gerður þjónustusamningur milli REI og OR til tveggja áratuga hefði hlutur REI orðið mun minni en raun varð. Fyrstu hugmyndir um að sameina REI og Geysi Green komu fram í vor.
Það var fyrst í gær sem almenningur fékk vitneskju um að Orkuveitan hefði skuldbundið sig gagnvart REI næstu 20 árin. Samkvæmt 20 ára samningnum renna öll erlend verk OR til REI, óháð því hver þá eigi þetta fyrirtæki, opinberir aðilar, einkaaðilar eða erlendir aðilar. Samningnum verður ekki sagt upp. Stjórn OR og fulltrúar eigenda Orkuveitunnar samþykktu samninginn á fundi 3. október, eftir að gengið var frá því var samþykkt á sama fundi að sameina Geysi Green Energy og REI undir merkjum REI. Eftir því sem fréttastofa útvarpsins kemst næst komu fyrstu hugmyndir um svona sameiningu fram í vor og síðan var hugmyndin endurvakin í sumar. Ekki er vitað hver fyrstu stakk upp á samrunanum. Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Enery segist ekki tjá sig um það sem gerðist áður en Geysir Green sameinaðist REI. Fréttastofa útvarpsins spurði hann síðdegis hvort 20 ára þjónustusamningurinn hefði verið forsenda sameiningar Geysis Green og REI. Ásgeir sagðist hvorki geta svarað spurningunni játandi né neitandi, hins vegar væri ljóst að REI hefði ekki verið metið jafnmikið inn í sameinuðu fyrirtæki hefði þjónustusamningsins ekki notið við. Fram hefur komið að við sameiningu REI og Geysis Green hafi þessi samningur verið forsenda þess að óefnisleg verðmæti REI voru metin til 10 milljarða króna. Getið er um þjónustusamninginn í fyrstu grein samrunasamnings REI og Geysis Green Energy. Ásgeir Margeirsson segir að Geysir Green hafi fyrir átt hlut í Hitaveitu Suðurnesja og þannig haft aðgang að verðmætri þekkingu á jarðhitamálum. Þjónustusamningur Orkuveitunnar og REI hafi hins vegar töluvert gildi fyrir REI því þannig hafi fyrirtækið aðgang að þekkingu á jarðhitamálum. Ásgeir segist ekki geta sagt að Geysir Green hefði ekki viljað sameinast REI hefði þjónustusamningsins ekki notið við. Þegar Ásgeir var spurður um gildistíma þjónustusamningsins, sem er 20 ár, segir hann að það skipti miklu máli að samningurinn hafi verið gerður til langs tíma. 20 ár séu skammur tími í orkubransanum, til dæmis sé hann nú að verkefnum sem tæplega verða að veruleika fyrr en eftir 5-7
ár.
Stöð 2 kvöld 13. október:
Eignir Reykjavík Energy Invest verða á bilinu 180 til 300 milljarðar króna þegar félagið fer á markað árið 2009 ef áætlanir fyrirtækisins standast. Þetta kom fram á kynningarfundi sem Bjarni Ármannsson og Hannes Smárason héldu fyrir hugsanlega fjárfesta í Lundúnum á dögunum.
Á fundinum var fyrirtækið kynnt af FL Group sem leiðandi fjárfestingafyrirtæki í jarðvarmaverkefnum. Þar var sagt frá því hvernig Íslendingar hafa í meira en 100 ár nýtt jarðvarma til hitunar húsa og að við samruna Geysir Green Energy og REI hafi fyrirtækinu hlotnast aðgangur að öllum þeim lykilstarfsmönnum sem hafa þekkingu á þessu sviði. Það sem vekur sérstaka athygli við kynninguna eru þó ekki þessi atriði heldur hitt að fyrirtækið stefnir að því að allt að áttfalda eignir sínar á næstu tveimur árum. Þá kom fram á kynningarfundinum að sérstaklega ábótasamt sé að fjárfesta í jarðvarmafyrirtækjum um þessar mundir miðað við núverandi raforkuverð. Bjarni Ármansson, stjórnarformaður REI, sagði í samtali við fréttastofu að eignir fyrirtækisins séu nú um 60 milljarðar króna. Náist fyrrgreind markmið verði þær um fimm til átta sinnum meiri árið 2009 eða um 180 til 300 milljarðar króna.
Bylgjan kl. 08.00 15. október:
Tæplega 70% borgarbúa telja rangt að Orkuveita Reykjavíkur eigi í útrásarfyrirtækjum með einkaaðilum samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Þá telja 67% að rangt hafi verið að sameina Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy og 57% telja að rifta eigi þeim samningi. Stuðningur við útrás Orkuveitunnar er aðeins meiri meðal karla en kvenna og mestur stuðningur við sameiningu orkufyrirtækjanna er meðal sjálfstæðismanna en liðlega helmingur þeirra er því fylgjandi.
Hljóðvarp ríkisins kl. 18.00 19. október:
Sameining Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Invest er frágengin og búið að skrifa undir samninga, segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy.
Borgarráð samþykkti í gær að stofna sérstakan stýrihóp til að fara í saumana á samruna Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy. Samruninn var samþykktur á sameiginlegum stjórnar- og eigendafundi í Orkuveitu Reykjavíkur 3. október. Þar var auk þess blessaður 20 ára einkaréttarsamningur Reykjavík Energy Invest við Orkuveituna. Stýrihópur borgarráðs á meðal annars að kanna lagalegan grundvöll samrunans. Hann á að ljúka störfum í síðasta lagi 1. júní á næsta ári. Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy segir þetta engu máli skipta, menn haldi sínu striki.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy: Ég get nú ekki séð að þessi vinna hafi nein áhrif á okkur því að, því að sameining Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Invest hún er í rauninni frágengin og, og búið að skrifa undir þá samninga. Þannig að ég geri ráð fyrir að það sem eigi að skoða í þessari nefnd, þó ég geti nú ekki svarað fyrir það, sé eitthvað annað en sameiningin sjálf, því hún er, það er allt klappað og klárt í raun og veru, og hérna, og samruninn er bara í ferli.
Ingimar Karl Helgason: En ef svo færi að, að dómstóll úrskurðaði eigendafund í Orkuveitu Reykjavíkur 3. október ólögmætan, myndi það ekki hafa einhver áhrif?
Ásgeir Margeirsson: Ég get nú svo sem ekki tjáð mig um það. Við erum bara með samninga við þessa aðila um þennan samruna og vinnum samkvæmt því. Og meðan ekki annað kemur í ljós, þá svona er ekki tímabært að fara að spekúlera neitt um það sko.
Sjónvarpið kl. 19.00 19 október:
Samrunasamningur okkar við Reykjavík Energy Invest stendur segir forstjóri Geysis Green Energy. Hvergi í samningnum er ákvæði sérstakt samþykki eigenda Orkuveitunnar.
Gengið var formlega frá samrunasamningnum með undirskrift æðstu manna beggja fyrirtækja að kvöldi 3. október að loknum sameiginlegum stjórnar- og eigendafundi Orkuveitu Reykjavíkur. Málið var samþykkt í stjórninni með fimm atkvæðum af sex. Svandís Svavarsdóttir sat hjá. Á eigendafundinum samþykktu tveir af þremur eigendum málið. Reykjavík og Akranes, Borgarbyggð sat hjá. Eins og fram hefur komið hefur Svandís nú kært eigendafundinn þar sem ekki hafi verið löglega til hans boðað. Búast má við niðurstöðu í því máli eftir nokkrar vikur en lögmæti eigendafundarins og gerningurinn allur er líka til skoðunar hjá sérstakri nefnd borgarráðs undir forystu Svandísar. Hvergi í samrunasamningnum er gerður fyrirvari um sérstakt samþykki eigenda Orkuveitunnar. Ljóst er að stjórnarfundurinn í Orkuveitunni sem samþykkti hann var löglegur en ágreiningurinn stendur um eigendafundinn. Fram kom í kvöldfréttum útvarps í kvöld að forstjóri Geysis Green telur samninginn standa eins og hann er.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy: Ég get nú ekki séð að þessi vinna hafi nein áhrif á okkur því að, því að sameining Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Invest hún er í raun og veru frágengin og, og búið að skrifa undir þá samninga. Þannig að ég geri ráð fyrir að það sem eigi að skoða í þessari nefnd, þó ég geti nú ekki svarað fyrir það, sé eitthvað annað en sameiningin sjálf, því hún er, það er allt klappað og klárt í raun og veru, og hérna, og samruninn er bara í ferli.
Ekki virðist vafi á því að þeir sem skrifuðu undir samninginn eru löglegir viðsemjendur fyrir hönd REI. Fréttastofa hefur talað við nokkra sérfræðinga í félagarétti sem allir segja að málið geti lagst á hvorn veginn sem er. Ef Héraðsdómur kemst að því að eigendafundurinn hafi verið ólöglegur eða að nefnd sú sem rannsakar málið fyrir hönd borgarráðs undir forystu Svandísar Svavarsdóttur kemst að því að samruninn skuli ganga til baka eða vera ónýttur gæti Geysir Green krafist þess að REI standi við sitt. Geysir Green gæti því hugsanlega átt skaðabótakröfu á borgina verði samruninn ógiltur.
Hljóðvarp ríkisins hádegi 20. október:
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, segir að uppnám vegna Reykjavík Energy Invest, kunni tímabundið að hafa skaðað útrás fyrirtækisins. Uppnám hefur verið vegna sameiningar útrásarfyrirtækjanna Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy, þar á meðal dómsmál og sérstakur stýrihópur borgarráðs. En veldur þetta iðnaðarráðherra áhyggjum ?
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra: Nei það veldur mér í sjálfu sér ekki neinum áhyggjum. Ég held að allt þetta brambolt og æsingur sem hefur verið í kringum fyrirtækið sé nú ekki líklegt til að styrkja það á alþjóðavettvangi hins vegar held ég að þekkingin á Íslandi sem að er til staðar á þessu sviði og það fjármagn sem að þegar er komið í fyrirtæki sem að hafa einsett sér að hefja útrás að það muni alltaf finna sér viðfang undir merkjum hvaða fyrirtækis sem væri. Þannig að ég held einfaldlega bara að Íslendingar séu komnir af stað og það er alveg ljóst að starfi mínu sem iðnaðarráðherra að það er beðið eftir að þeir komi með sína þekkingu og sitt fjármagn. Þannig að ég óttast í sjálfu sér ekki að dómsmálið geti skaðað útrásina á þessu sviði. Hún er líka á öðrum sviðum en bara jarðvarma. Það er stórfelld en miklu hljóðbærari útrás í gangi á sviði vatnsaflsvirkjana sem að fáir virðast hafa áhuga á. Þannig að ég er ekki hræddur við það en ég neita því ekki að þetta hefur flökrað að mér að þetta kynni að hafa skaðað a.m.k tímabundið REI og viðleitni þeirra til að slá tjaldhælum sínum í jörðu víða erlendis.
Stöð 2 hádegi 31. október:
Borgarlögmaður telur að Orkuveita Reykjavíkur hafi ekki selt hluta af eigum sínum við sameiningu Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy. Í svari borgarlögmanns til umboðsmanns Alþingis segir að stjórn Orkuveitunnar geti tekið ákvörðun um stofnun dótturfélaga án heimildar eigenda hennar.
Borgarlögmaður hefur sent umboðsmanni Alþingis svar við ýtarlegri fyrirspurn hans um aðdraganda og framkvæmd stofnunar dótturfélagi Orkuveitunnar, Reykjavík Energy Invest og síðar sameiningu þess við Geysir Green Energy. Á fyrirspurn umboðsmanns má ráða að hann hafi áhuga á að vita hvort Orkuveitan hafi í þessu ferli afhent eða selt eigur Orkuveitunnar og stofnað til dótturfélaga án nauðsynlegs samþykkis eigenda Orkuveitunnar, það er að segja Reykjavíkurborgar. Borgarlögmaður rifjar upp í svari sínu að Orkuveitan hafi stofnað fjölda dótturfélaga og vísar til heimilda í lögum þar að lútandi. Starfsemi þessara félaga lúti öðrum lagaákvæðum en hefðbundin starfsemi Orkuveitunnar við öflun og dreifingu orku og vatns. Við stofnun Reykjavík Energy Invest hafi Orkuveitan lagt til hlutafé sitt í útrásarfyrirtækjunum Enex og Enex-Kína ásamt tveimur milljörðum í hlutafé. Allt rúmist þetta innan laga um að Orkuveitan taki ekki ákvarðanir sem feli í sér skuldbindingar á hendur borgarsjóði. Strax í upphafi hafi verið gert ráð fyrir að Reykjavík Energy Invest gæti gengið til samstarfs við önnur sambærileg félög, svo sem eins og Geysir Green Energy. Í september hafi stjórn Reykjavík Energy Invest samþykkt heimild til að auka hlutafé um 20 milljarða og í október að selja nýtt hlutafé til 18 aðila. Þeim var síðar fækkað í þrjá, félags í eigu Bjarna Ármannssonar, Jón Diðriki Jónssyni og Starfsmannafélagi Orkuveitunnar. Borgarlögmaður segir nauðsynlegt að fram komi að ekki hafi verið um sölu á eignum Orkuveitunnar að ræða. Allir hlutir sem seldir hafi verið séu nýtt hlutafé og þá muni ákvarðanir á eigendafundi Orkuveitunnar ekki skerða efnahag Orkuveitunnar. Borgarlögmaður telur engu að síður nauðsynlegt að gæta þurfi betur að gagnsæi ákvarðana, aðkomu kjörinna fulltrúa og eigenda að ákvörðunum Orkuveitunnar. Þá þurfi að endurskoða áttunda kafla sveitarstjórnarlaga þannig að þau taki á samstarfi sveitarfélaga við einkaaðila, en lögin geri það ekki í dag þótt slíkt samstarf hafi færst í vöxt á undanförnum árum.
Stöð 2 hádegi 1. nóvember:
Svandís Svavarsdóttir segir að þverpólitísk samstaða sé í borgarstjórn um að hafna samruna Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy og að hafna jafnframt svokölluðum 20 ára þjónustusamningi sem lagður hefur verið til grundvallar samrunanum.
Settur var á fót þverpólitískur hópur undir stjórn Svandísar Svavarsdóttur frá Vinstri-grænum sem fór ofan í kjölinn á samruna Geysir Green Energy og Reykjavík Energy Invest. Svandís segir að í framhaldinu hafi þverpólitísk ákvörðun verið tekin á fundi borgarráðs í morgun.
Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri-grænna: Þar að segja allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti, allra pólitískra afla sem eiga sæti í borgarstjórn Reykjavíkur að leggja fram og samþykkja tvær tillögur. Önnur tillagan felur í sér að fallast ekki á eða hafna samtruna þessara tveggja fyrirtækja, þar að segja Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy og að hafna jafnframt svokölluðum 20 ára þjónustusamningi sem að hefur verið lagður til grundvallar samrunanum. Þetta annars vegar og hins vegar hefur verið samþykkt tillaga um það, án mótatkvæða, að Orkuveita Reykjavíkur fari í ítarlega stjórnsýsluúttekt á vegum innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Þetta eru fyrstu tíðindi frá stýrihópi undir minni stjórn.
Jón Örn Guðbjartsson: Þó þessar tillögur verði samþykktar, er hægt að snúa við hjóli tímans? Er ekki búið að gagna frá samningum, eru ekki löggjörningar orðnir?
Svandís Svavarsdóttir: Það eru nú áhöld um það og, og við teljum að það sé, séu full efni til þess að, að hafna samrunanum á bara þeim forsendum sem við blasa. Þar að segja við teljum að það séu of mikil áhöld um lögmæti gjörninganna og við, það verður að koma í ljós hvort að það dugar. Við teljum, með aðstoð okkar færustu lögfræðinga að svo sé.
Hljóðvarp ríkisins kl. 18.00 1. nóvember:
37% þjóðarinnar eru andvíg samruna Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Invest. 27% styðja samrunann. Rúmur þriðjungur tekur ekki afstöðu. Ríflega helmingur þjóðarinnar er andvígur sölu Orkuveitu Reykjavíkur á hlut sínum í REI. Rúmur fimmtungur er hlynntur sölu hlutarins en rúmur fjórðungur tekur ekki afstöðu. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem kannaði líka viðhorf fólks til framgöngu fyrrverandi borgarstjóra og þeirra borgarfulltrúa sem sátu í stjórn Orkuveitunnar þegar Geysir Green og REI voru sameinuð. Tæplega sex af hverjum tíu eru ánægðir með framgöngu Svandísar Svavarsdóttur en helmingi færri með framgöngu Dags B. Eggertssonar. Þrír af hverjum fjórum sögðust óánægðir með framgöngu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, fyrrverandi borgarstjóra. Tæplega tveir þriðju eru óánægðir með framgöngu Björns Inga Hrafnssonar.
Stöð 2 hádegi 2. nóvember:
Skriflegum samningum verður ekki rift einhliða segir Hannes Smárason, stjórnarformaður Geysir Green Energy. Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður REI telur sömuleiðis óljóst hver endanleg niðurstaða verður um samruna félaganna. Iðnaðarráðherra sýnist ekki vitlegt fyrir hlutaðeigandi að fara út í málaferli.
Þau tímamót urðu í REI-málinu í gær að borgarráð hafnaði samruna REI og Geysis Green Energy og vill ráðið þannig ógilda bæði samrunann og tuttugu ára þjónustusaming REI við Orkuveitu Reykjavíkur. Hannes Smárason, stjórnarformaður Geysis Green er ekki sáttur við niðurstöðu borgarráðs og segir skriflega saminga í gildi.
Hannes Smárason, stjórnarformaður Geysis Green Energy: Skriflegum samningum verður að sjálfsögðu ekki breytt einhliða af öðrum aðilanum.
Bjarni Ármannsson, einn af eigendum REI undrast afdráttarlausa niðurstöðu borgarráðs. Þegar hann var í gær spurður hvort að hann væri þar með horfinn úr herbúðum REI svaraði Bjarni að niðurstaða málsins væri ekki ljós þó að vilji borgarráðs væri skýr.
Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður REI: Það býr til ákveðna stöðu það þarf að fara yfir hana og skoða hvaða afleiðingar hún hefur í för með sér fyrir í raun alla aðila málsins. En það sem að skiptir mig máli er, er hver er staðan fyrir REI.
Iðnaðarráðherra sagði í gær að ákvörðun borgarráðs myndi ekki skaða útrásina.
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra: Ég varð þess áskynja í ferð minni um Filipseyjar og Indónesíu að það er vörumerkið Ísland sem menn eru að horfa til.
Aðspurður hvort ekki mætti reikna með málaferlum í framhaldinu sagði Össur:
Össur Skarphéðinsson: Ef ég væri í sporum þeirra sem væru að íhuga málshöfðanir þá myndi ég nú hugsa mig vel um áður en ég gerði nokkuð sem gæti skaðað framtíðarsamstarf við þá sem að fara með þessa miklu þekkingu innan Orkuveitunnar.
Á sjötta hundrað starfsmanna Orkuveitunnar skráðu sig fyrir hlut í REI og hafa kaupin verið til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu. Samkvæmt upplýsingum þaðan er sú skoðun enn í gangi enda hafi ekkert breyst, samrunasamningar standi enn. Stjórn Orkuveitunnar hefur verið falið framhald málsins en stjórnarfundur hófst þar nú á hádegi.
Og því má bæta við að málflutningi í máli Svandísar Svavarsdóttir, borgarfulltrúa Vinstri-grænna gegn Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið frestað um tvær vikur að beiðni Ragnars Hall, lögmanns Svandísar. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun vikunnar og átti málflutningur að hefjast næsta mánudag.
Hljóðvarp ríkisins hádegi 2. nóvember:
Stjórnarformaður Geysir Green Energy segir að milljarðakróna skaðabótakrafa geti vofað yfir Orkuveitu Reykjavíkur verði ekki af sameningu Reykjavík Energy Invest og Geysis eins og samið hafi verið um.
Borgarráð Reykjavíkur leggst gegn samruna REI og Geysis sem kynntur var í byrjun október. Hannes Smárason, stjórnarformaður Geysis vill að staðið verði við gerða samninga. Hann segir að sú óvissa sem nú sé uppi geti stefnt stórum verkefnum erlendis í hættu.
Hannes Smárason, stjórnarformaður Geysis: Menn eru að leika sér að eldinum hvað það snertir og jafnframt þá mögulega að skapa sér bótaskyldu ef þeir standa ekki við gerða samninga. Þannig að það er alveg ljóst að menn þurfa að hugsa sig tvisvar um áður en að þeir einhliða ákveða að taka ákvarðanir í þessum efnum.
Sveinn Helgason: Þú ert að tala um að Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur geti bakað sér bótaskyldu?
Hannes Smárason: Það er alveg klárt og hún mun verða umtalsverð ef menn halda áfram án þess að setjast niður að samningaborði með einhverjum hætti.
Sveinn: Ertu að tala um milljarða króna?
Hannes Smárason: Já, að sjálfsögðu.
Margir hafa velt því fyrir sér af hverju það hafi legið svona mikið á þegar unnið var að sameiningu útrásarfyrirtækjanna tveggja. Hannes Smárason bendir á að um 10 dögum áður en skrifað var undir samninga um samrunann hafi verið ljóst í hvað stefndi?
Hannes Smárason: Á þeim tíma hefði manni náttúrulega þótt eðlilegt að fulltrúar borgarinnar hefðu leitað sem sagt í sitt bakland og það er í sjálfu sér ekki við FL Group að sakast í þeim efnum við höfðum ekkert um það að segja.
Segir Hannes Smárason. Hann er líka forstjóri FL Group en félagið tapaði 27 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Hannes kennir um óróa á fjármálamörkuðum og sveiflur á verði eigna FL Group komi skýrt fram í rekstrarreikningi félagsins. Hlutabréf AMR-flugfélagisns í Bandaríkjunum og Commerz-bank í Þýskalandi lækkuðu talsvert í verði á þriðja ársfjórðungi. Hannes er hins vegar ekki á því að FL Group sé að veðja á rangan hest með því að leggja fé í þessi 2 félög.
Hannes Smárason: Það er of snemmt að tala um það að menn hafi veðjað á rangan eða réttan hest. Þú ferð inn í fjárfestingu á einhverjum tilteknum tíma og út úr henni aftur og það er í rauninni ekki fyrr en þú ferð út úr fjárfestingunni sem þú getur lagt mat á það hvort hún var góð eða slæm.
Sjónvarpið kl. 19.00 2. nóvember:
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ógilti í dag samruna REI og Geysis Green Energy. Þetta var samþykkt einróma á stjórnarfundi. Stjórnin fellst með þessu á tilmæli borgarráðs um að hafna samrunanum.
Þar með hefur stjórn Orkuveitunnar fallið frá samþykki sínu á frægum stjórnar- og eigendafundi í október síðastliðnum. Á fundinum í dag var einnig ákveðið að fella úr gildi tuttugu ára einkaréttarsamning REI við Orkuveituna sem veitti REI forgang að öllum verkefnum veitunnar erlendis á tímabilinu. Formaður stjórnar Orkuveitunnar mun á næstunni ræða við aðra hluthafa REI um framhaldið.
Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Orkuveitunnar: Það eru fleiri aðilar sem að við höfum haft samstarf við sem að við ræðum við og við erum í raun og veru munum fara í þá vinnu mjög fljótlega.
Guðmundur Gunnarsson: En þú skilur að þeir eru væntanlega ekki sáttir við þessa niðurstöðu ?
Bryndís Hlöðversdóttir: Það er alveg berlega komið í ljós að þeir eru ekki sáttir við það að fallið hafi verið frá samrunanum en það að fylgir jafnframt alveg augljóslega máli hjá Orkuveitunni að við erum áfram í þessari útrás og þurfum að finna henni nýjan farveg og það er bara stundum þannig að menn eru ekki alltaf sáttir. Við teljum að að með þeim ákvörðunum sem að við höfum tekið í dag þá séum við jafnframt að tryggja hagsmuni Orkuveitunnar og munum fylgjast mjög náið með því að að hagsmunir hennar séu tryggðir í þessu ferli.