14.10.2007

Hrunadans félagshyggjunnar í orkumálum.Hugurinn hvarflar að Hringi Niflungans eftir Wagner, þegar litið er til atburða í borgarstjórn Reykjavíkur undanfarna daga. Wagner sendir óverðugan á vit Rínardætra til að stela gulli þeirra, ögra náttúrunni og þar með leysa ógnaröfl úr læðingi. Ástin á gullinu blindar og leiðir á villigötur. Að lokum ráða blekking og svik og meistaraverki Wagners lýkur með Ragnarökum.

Orkan í iðrum jarðar, virkjuð í þágu Reykvíkinga og nágranna þeirra er undirstaða Orkuveitu Reykjavíkur (OR) en stjórnendur hennar hafa hrifsað hluta af verðmætum frá fyrirtækinu til að nota í öðrum tilgangi og nú síðast til að hagnast sjálfir af eignarhlut í nýju fyrirtæki Reykjavík Energy Invest (REI). Deilan, sem leiddi til byltingar í borgarstjórninni, snýst um eignarhald og nýtingu á náttúruauðlindum í opinberri eigu. Einstaklingar og félög þeirra njóta sérstaks arðs af þeim í skjóli OR – OR hefur meira að segja verið bannað að eiga sjálfstætt samstarf við erlenda aðila næstu 20 árin, þeim á öllum að vísa til REI.

Fáfnir birtist meira að segja í átökunum um OR/REI. Heilbrigðisráðherra leysti hann úr fjötrum formennsku bygginganefndar nýs hátæknisjúkrahúss. Alfreð Þorsteinsson breytti Framsóknarflokknum í Reykjavík í tröllaflokk til að gæta OR/gullsins, eftir að það hafði verið hrifsað úr höndum Reykvíkinga og umboðsmanna þeirra. Laugardaginn 13. október skýrði Fréttablaðið frá því, að innsti kjarni Framsóknarflokksins ætti þar mikilla eiginhagsmuna að gæta.

 

Í tröllahöndum höfnuðu framsóknarmenn samstarfi við sjálfstæðismenn í borgarstjórn og var þeim þá tekið fagnandi af Samfylkingu, vinstri/grænum og frjálslyndum/óháðum. Dagur B. Eggertsson, verðandi borgarstjóri Samfylkingar, sagði Björn Inga Hrafnsson, eina borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, hafa beðist afsökunar – þar með væri hann samstarfshæfur. Á fundi með framsóknarmönnum í Reykjavík klökknaði Björn Ingi, þegar hann lýsti ástæðum hamskiptanna.

 

Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstr/grænna, sagði eftir samkomulag hennar og Björns Inga, að nú skipti mestu að „róa umræðuna“ um OR. Ragnar H. Hall, lögmaður Svandísar og vinstri/grænna, segir í Fréttablaðinu 13. október,  að ekki sé ólíklegt, að málshöfðun Svandísar Svavarsdóttur til að ómerkja eigendafund OR um ráðstöfun á orkugullinu í REI til GGE verði látin niður falla „í ljósi þess að nýr meirhluti er tekinn við í Reykjavík.“ Með öðrum orðum: Ástæðulaust er að kanna hug réttvísinnar, eftir að völdunum er náð, þá skal bara „róa umræðuna.“

 

Í leiðara Fréttablaðsins laugardaginn segir Þorsteinn Pálsson: „Sexmenningarnir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sitja eftir með þá ímynd að hafa fórnað meirihlutanum fyrir tæknilegan ágreining við borgarstjóra [Vilhjálm Þ.] og formann borgarráðs [Björn Inga] um það hvort selja eigi hlutabréf einu ári fyrr eða síðar.“

 

Ritstjórinn notar orðið „ímynd“ af því að hann veit af langri stjórnmálareynslu, að samstarf springur ekki vegna deilna um, hvort eitthvað eigi að gerast mánuði fyrr eða síðar. Miklu meira býr að baki byltingu en deila um tímamörk. Skýringu er að finna í frétt á forsíðu Fréttablaðsins sama dag og Þorsteinn birti leiðarann. Framsóknarmenn óttuðust, að sjálfstæðismenn mundu krefjast ógildindar ákvarðana um brýna hagsmuni þeirra. Eða eins og Þorsteinn segir einnig í leiðaranum:

 

„Gangi Björn Ingi Hrafnsson inn í nýtt samstarf með þeim afarkostum að þurfa að viðurkenna ólögmæti samþykkta eigendafundarins yrði hann að hreinu pólitísku viðundri. Kjarni málsins er sá að þau geta ekki bæði [Svandís og Björn Ingi] haldið pólitísku höfði. Annaðhvort þeirra þarf að fórna pólitískum trúverðugleika fyrir byltinguna, Undan því verður ekki vikist.“ 

 

Björn Ingi selur sig ekki í þriðja sinn til meirihlutasamstarfs, eins og Staksteinahöfundur Morgunblaðsins segir réttilega. Þrátt fyrir verðleysi Framsóknarflokksins í hinu nýja meirihlutasamstarfi, verður Svandís Svavarsdóttir að draga í land, hætta að krefjast þess, að eigendafundurinn sé lýstur ólögmætur og kyssa vönd Alfreðs Þorsteinssonar. Ragnar H. Hall er tekinn til við að boða þá uppgjöf „í ljósi þess að nýr meirhluti er tekinn við í Reykjavík.“

 

Í hrunadansi félagshyggjunnar í borgarstjórn Reykjavíkur er öllu fórnað til að ná í gullið og tryggja, að það haldist í tröllahöndum. Í því efni skildi einmitt á milli borgarfulltrúa sjálfstæðismanna og vinstrimanna að lokum – hið einkennilega er, að Svandís Savavarsdóttir skyldi á úrslitastundu skipa sér í raðir þeirra, sem vilja ríghalda í niðurstöðu eigendafundarins. Var henni gefin óminnsdrykkur?

 

Þorsteinn Pálsson segir í leiðara sínum, að Björn Ingi hafi með framgöngu sinni í borgarstjórn hefnt þess, að Framsóknarflokknum hafi verið „ýtt“ úr ríkisstjórn, það gefi Birni Inga „hetjuyfirbragð innan flokks.“

 

Þetta er forvitnileg kenning en víst er, að Birni Inga verður ekki jafnað við Fáfnisbana vegna hetjudáða. Enginn framsóknarþingmaður var á flokksfundi í Reykjavík, þegar þeir Björn Ingi, Alfreð Þorsteinsson og Óskar Bergsson föðmuðust af feginleika. Verður Björn Ingi hetja við að hefna sín á Reykvíkingum fyrir að veita engum framsóknarmanni brautargengi í síðustu þingkosningum? Er líklegt, að vegur Framsóknarflokksins vaxi í Reykjavík með því að Björn Ingi gangi erinda oligarka flokksins? Guðni Ágústsson taldi sig vera að bjarga flokknum úr höndum þessara manna, þegar hann yfirgaf fund Halldórs Ásgrímssonar í Þingvallabænum um hvítasunnu 2005. Nú svíkja framsóknarmenn  Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík til að gæta hagsmuna þeirra.

 

Sögnin að svíkja á við um framgöngu Björns Inga gagnvart Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, fráfarandi borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins.  Björn Ingi lýsir tilfinningaríkri  vandlætingu  í garð samstarfsmanna Vilhjálms Þ. í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna og sakar þá um að bregðast Vilhjálmi á örlagastundu. Sjálfur lét Björn Ingi þannig við Vilhjálm fram eftir kvöldi miðvikudags 10. október, eftir að hann hafði ákveðið að yfirgefa sjálfstæðismenn, að Vilhjálmur andmælti af þunga öllum fullyrðingum samstarfsmanna sinna meðal sjálfstæðismanna um, að Björn Ingi væri að fara yfir til vinstrimanna.

 

Í þessu máli er eitt að reyna að átta sig á aðferðinni, sem beitt hefur verið gagnvart borgarfulltrúum til að koma á sameiningu REI og GGE. Hitt er síðan að reyna að skilja, hvað stendur á bakvið fullyrðingar um verðmæti REI/GGE. Nú heyrist talan 500 milljarðir króna nefnd. Hún virðist hækka í réttu hlutfalli við gagnrýnar umræður um aðferðafræði fjármálamannanna, sem tala upp verðið.

 

Kapp er best með forsjá segir Ingvar Birgir Friðleifsson, skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, og að kraftur verði ekki talaður upp í borholum eins og á verðmæti verðréfa. Þetta á ekki aðeins við um orku, eins og þeir Hannes Smárason og Bjarni Ármannsson vita, til dæmis af reynslu þeirra af því að tala upp verðmæti  deCode um árið.

 

Nýlega voru þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Guðmundur Þóroddsson á palli með Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í New York, þar sem hann heiðraði þá  fyrir að lofa 8 til 9 orkumilljörðum Reykvíkinga á næstu fimm árum til fjárfestinga í Djíbúti, einu fátækasta ríki Afríku. Spyrja má: Með samþykki hverra var loforðið við Clinton gefið - borgarstjórnar eða borgarráðs Reykjavíkur? Um þetta eins og allt annað í þessu máli vaknar spurningin: Hverjir hafa í raun umboð til að ráðstafa orkumilljörðunum? Engin umgjörð breytir nauðsyn þess, að menn hafi heimildir til að ráðstafa eignum annarra.

 

Um þetta framtak sagði Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði, sem hefur starfað að jarðhitarannsóknum og jarðhitanýtingu í 40 ár, í grein í Fréttablaðinu 12. október, að hver sem vildi gæti séð, að útrásinni til Djíbútí væri ætlað að gefa eitthvað í aðra hönd og fátækir Afríkubúar ættu að greiða vextina. Síðan segir Stefán orðrétt: „Útrás Íslendinga í orkugeiranum á að vikja fyrir eldri stefnu Sameinuðu þjóðanna, a. m. k. þegar fátæk ríki eiga í hlut. Stefna Sameinuðu þjóðanna er að styðja fátæk ríki til sjálfshjálpar en Bandaríkin og fleiri ríki hafa nánast svelt þessa stefnu í hel og það fyrir allmörgum árum..... Útrásin í orkugeiranum er ekki augljóslega göfugt fyrirbæri eins og flestir virðast halda, a. m. k. ekki þegar fátæk þróunarlönd eru annars vegar.“

 

Hátíðarstundin með Clinton gefur þannig ekki aðeins tilefni til að spyrja um ráðstöfunarrétt þeirra, sem lofuðu orkumilljörðunum. Hún kallar einnig á svör við því, hvort Íslendingar hafi horfið af þeirri braut, sem mörkuð var með Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna: Að styðja þjóðir til sjálfshjálpar með nýtingu og virkjun jarðvarma.

 

Ef litið er á tekjur REI/GGE við núverandi aðstæður er uppspretta þeirra nær eingöngu innan lands, það er hjá Hitaveitu Suðurnesja (HS) og Jarðborunum. Lunginn af efnislegum eignum REI/GGE felst í HS (24 milljarðir af 40 milljörðum) en verðið byggist á kaupum GGE á hlut ríkisins HS, en þá bauð GGE 50% hærra verð en næstbjóðandi. Sú ályktun verður af því dregin, að verðið sé í hærra lagi. Verð á Jarborunum er talið 16 milljarðar, en það ræðst af nýlegum viðskiptum GGE og Atorku með bréf í Jarðborunum. Er það verð kannski einnig í hærra lagi vegna vitneskju innvígðra um fyrirhugaða sameiningu REI og GGE?

 

Jarðboranir hafa nær einokunaraðstöðu hér með verkefni á vegum OR, HS og Landsvirkjunar með stórar borholur á háhitasvæðum og væntanlegar djúpboranir, en ákveðið hefur verið að verja 5 milljörðum af opinberu fé til þeirra.

 

ENEX-hönnun er fyrirtæki með verkefni erlendis en tekjur af þeim hafa ekki verið á þann veg, að gefi vonir um um mikinn arð og munu fyrirtæki erlendis vera metin á um einn milljarð króna. Fyrir utan orkumilljarðana 8 til 9 til Djíbúti er boðuð áhættufjárfesting á Filippseyjum í PNOC-EDC, stærsta varmaorkufyrirtæki heims. 155 milljarða kr. verð fyrirtækisins er vafalaust hagkvæmt í samanburði við HS, en viðskiptavinir fátækir og stjórnmálaástand ótryggt.

 

Í fyrrnefndri grein víkur Stefán Arnórsson prófessor að þessari fjárfestingu og segir það gæðastimpil fyrir REI/GGE að hafa OR með í þessari fjárfestingu. Hann lýkur grein sinni á þessum orðum: „Ef íslensk fyrirtæki geta eignast auðlindir og orkuver erlendis, á það að vera gagnkvæmt? Er okkur stætt á öðru? Eiga erlend fyrirtæki þá ekki að geta eignast orkuauðlindir okkar og orkuver og hvernig ætla íslensk stjórnvöld að verja eignaraðildina þegar opinbert íslenskt fyrirtæki leikur afgerandi hlutverk í útrásinni?“

 

Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur hjá OR, varð þjóðkunnur í þann mund, sem framkvæmdum lauk við Kjárahnjúkavirkjun, þegar hann taldi hættu á ferðum, vegna þess að menn hefðu ekki rætt virkjunina nóg og ekki tekið mið af ábendingum sínum. Taldi hann ekki hafa verið farið að réttum leikreglum við aðdraganda og undirbúning virkjunarinnar. Næst komst hann í fréttir, þegar birtur var listi yfir kaupréttarhafa í REI. Loks er birt viðtal við hann í Fréttablaðinu 12. október, þar sem hann segist hafa fengið starfstilboð frá erlendum olíufélögum en hér rífist menn „um einhver pólitísk formsatriði eins og hundur og köttur“, en við það geti tapast niður forskot til að græða í samkeppni við hin ofsaríku olíufélög.

 

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI/GGE, sagði, áður en Svandís Svavarsdóttir sagðist ætla að „róa umræðuna“, að stöðva þyrfti „stjórnlausar umræður“ til að tryggja hag félagsins – á þessum dögum hefur verð fyrirtækisins verður talað upp úr 65 milljörðum í 500 milljarði króna. Hvar er stjórnleysið í umræðunum?

 

Váboðar eru margir í öllum þessum sviptingum vegna orkulinda og orkufyrirtækja landsmanna. Leyndarhyggja og græðgi eiga ekki að ráða ferð. Ástæðulaust er að fórna stefnu, sem byggst hefur á samþykktum Sameinuðu þjóðanna og samstarfi við þær. Stórhættulegt er að standa þannig að málum, að krafist verði gagnkvæmni um eignarhald útlendinga á íslenkum orkulindum. Skynsamlegast er að lýsa gjörninga í nafni REI ólögmæta, færa klukkuna til baka og hugsa málið á nýjan leik. Takturinn í hrunadansi félagshyggjunnar leiðir okkur hins vegar lengra út í kviksyndið undir stjórn gróðahyggjunnar.