24.12.2006

Boðskapur jólanna - John Main og hugleiðslan

Biblían á 100 mínútum heitir lítil og handhæg bók, sem bókafélagið Ugla sendi frá sér fyrir nokkru en þar íslenskar Jakob F. Ásgeirsson úr ensku texta, sem Michael Hinton endursagði og stytti, og fyrst var gefinn út árið 2005. Hafði Jakob hliðsjón af útgáfu Hins íslenska Biblíufélags á Biblíunni frá 1981. Herra Karl Sigurbjörnsson biskup ritar formála og segir bókina „skemmtilegt og handhægt yfirlit yfir áhrifaríkustu bók allra tíma.“ Hún gefi „glögga innsýn í meginstef Biblíunnar og handhægan leiðarþráð til að rata gegnum hana.“

 

Á blaðsíðu 30 er fyrirsögnin Jesús fæðist og þar segir:

 

„María var föstnuð smið að nafni Jósef, sem bjó í bænum Nasaret í Galíleuhéraði í norðri. Hann var réttlátur og grandvar. Þegar hann varð þess vís, að María væri þunguð hugðist hann skilja við hana í kyrrþey. En þá vitraðist honum engill Drottins í draumi. Engillinn sagði honum að barnið væri af heilögum anda. Kona hans myndi ala son sem hann skyldi láta heita Jesú því hann myndi frelsa lýð sinn frá syndum hans. Jósef gerði eins og engillinn bauð honum og tók Maríu til sín.

 

Um þessar mundir komu þau boð frá hinum rómverska keisara Ágústusi að skrásetja skyldi heimsbyggðina. Þar eð Jósef var af ætt Davíðs fór hann til borgar Davíðs, Betlehem, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni. Þar fæddist Jesús í fjárhúsi, því ekki var rúm handa þeim í gistihúsi.

 

Engill Drottins birtist nokkrum hirðum úti í haga. Þeir hræddust mjög sýnina en engillinn sagðist boða þeim mikinn fögnuð. Þeim væri í dag frelsari fæddur, Kristur Drottinn í borg Davíðs: þeir myndu finna hann í reifum í jötu. Í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og hétu þeim mönnum friði sem hann hefði velþóknun á. Hirðarnir héldu til Betlehem, fundu ungbarnið og sögðu öllum sem vildu heyra það sem þeim hefði verið sagt um barn þetta. Þegar átta dagar voru liðnir var drengurinn umskorinn og formlega gefið nafnið Jesús.

 

Nokkrum vikum síðar fóru foreldrar hans með Jesú til Musterisins í Jerúsalem, en hefðum samkvæmt skyldi helga Drottni allra frumgetna syni. Í helgidóminum voru tvær manneskjur sem yfir var heilagur andi – karl að nafni Símeon og kona að nafni Anna. Þau blessuðu Jesú og töldu hans bíða mikil örlög. Símeon bað:

 

„Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér, því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.“

 

Símeon varaði Maríu við því að þjáningar biðu hennar og sonar hennar, en Anna talaði um barnið við alla sem væntu lausnar Jerúsalem.“

 

Það er fagnaðarefni, að Biblían skuli gerð aðgengileg á þennan hátt í þessari litlu bók. Er ekki nokkur vafi á því, að fyrir marga verða kynnin af grundvallarriti kristinna manna með lestri bókarinnar, til þess að auka áhuga á að kynnast Biblíunni með því að lesa hana sjálfa.

 

Hvað sem líður trú eða áhuga á henni, öðlast enginn skilning á menningu eða þjóðskipulagi vestrænna ríkja, án þess að átta sig á grunnþáttum kristninnar og áhrifum hennar á sögu vestrænna þjóða, menningu þeirra og þróun alla. Í því felst mikil blekking, að unnt sé að menntast á Vesturlöndum, án þess að kynnast kristnum viðhorfum. Hvergi á Vesturlöndum njóta menn menningar og lista án vitundar um hinn kristna arf. Ef kristni þráðurinn yrði þurrkaður út úr Íslandssögunni, væri ekki aðeins verið að afskræma söguna heldur beinlínis falsa hana.

 

John Main og hugleiðslan

 

Að ábendingu vinar míns Gunnars Eyjólfssonar hef ég kynnt mér boðskapinn frá John Main um gildi hugleiðslunnar. John Main dó 56 ára gamall úr krabbameini 30. desember 1982. Nú er starfandi alþjóðleg hreyfing, sem hefur tileinkað sér hugleiðslu samkvæmt leiðsögn hans. Með því að slá nafninu John Main inn í leitarvélar á netinu má finna lýsingu eins og þessa:

 

„SINCE his death on 30 December 1982, at the age of fifty-six, Dom John Main's teaching on Christian meditation has spread from the Benedictine monastery he founded in Montreal to embrace a world-wide fellowship of meditators. People of all faiths and occupations, from executives to housewives, from professionals to taxi drivers, have felt the call to follow the path of silence, stillness, simplicity, and the use of a mantra in prayer. Meditation groups are now flourishing in North America and around the world from New York to Dublin, from London to Melbourne, from Wurzburg, Germany, to Arusha, Tanzania. Many people noticing this contemporary re-birth of contemplative prayer have begun to ask about the career and the spiritual development of this extraordinary teacher.“

 

Í bókinni Moment of Christ er að finna stuttar hugleiðingar, sem John Main flutti, þegar fólk kom saman til hugleiðslu undir hans leiðsögn. Þær voru hljóðritaðar og síðan skráðar. Hér er ekki um guðfræðilegar útlistanir að ræða heldur einfaldar leiðbeiningar um gildi þess að eiga hljóða stund með sjálfum sér og Kristi.

 

John Main segir, að hugleiðsla sé leið okkar til friðar. Virðing fyrir þögninni sé fyrsta skrefið til að finna frið með Kristi. Með því að stunda hugleiðslu reglulega, dag eftir dag, kvölds og morgna, komumst við að raun um, að þögnin, sem sé friður Krists, geri okkur kleift að vera glaðvakandi og lifandi. Þetta sé þögn vöku og lífsþróttar, af því að þetta sé þögn full af návist Guðs. Kristin bæn sé virðing fyrir þögninni, þar sem við finnum okkar eigin rætur í eilífri þögn Guðs og hann vitnar í bréf Páls postula til Efesusmanna (2. 12 til 15):

 

„Sú var tíðin, er þér voruð án Krists, lokaðir úti frá þegnrétti Ísraelsmanna. Þér stóðuð fyrir utan sáttmálana og fyrirheit Guðs, vonlausir og guðvana í heiminum. Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans. Því að hann er vor friður. Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra. Með líkama sínum afmáði hann lögmálið með boðorðum þess og skipunum til þess að setja frið og skapa í sér einn nýjan mann úr báðum.“

 

John Main segir okkur einnig, hvernig best sé að hugleiða í 30 mínútur. Við verðum að læra að sitja hreyfingarlaus og beita okkur þar með aga. Við eigum að gefa okkur tíma til að setjast og koma okkur vel fyrir. Þegar líður á hugleiðsluna kemur að því að okkur finnst nauðsynlegt að hreyfa okkur, en með því að sitja hreyfingarlaus lærum við kannski í fyrsta sinn að láta ekki undan þrá okkar og sigrast á eigin einþykkni.. Hugleiðsla krefjist aga og honum verðum við að lúta með því að sitja hreyfingarlaus. Þess vegna sé nauðsynlegt að huga að því að vera ekki í þröngum fötum, sitja í þægilegum stól eða á góðum púða, svo að það sé ekki alltof erfitt að sætta sig við agann.

 

Síðan eigum við að loka augunum mjúklega og taka til við að endurtaka orðið maranaþa, sem er úr aramísku og er eitt elsta kristna ákallið um kraft frá Guði. Með því að endurtaka þetta orð eða möntru leiðum við hugann frá eigin hugsunum, eigin hugmyndum, eigin þrám, eigin synd og til Guðs, við snúum okkur frá okkur sjálfum til Guðs. Við eigum að segja orðið blíðlega en ákveðið, segja það spennulaust  í huganum en þó með áherslu á hvert sérhljóð, ma-ra-na-þa. Eftir því sem hugleiðslan lengist því dýpra fer orðið innra með okkur. Þar með leysum við anda okkar úr fjötrum og sameinum hug og hjarta Guði.

 

Máli sínu til staðfestingar vitnar John Main í Jóhannesarguðspjall (8: 31-2):

 

Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: "Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ “

Gleðileg jól!