2.12.2006

Enn um hleranamálið.

 

 

Í vikunni komu til mín háskólanemar, sem eru að vinna verkefni um greiningardeild lögreglunnar. Af samtölum við þau varð mér ljóst, hve erfitt er að koma efnistariðum til skila, þegar rætt er um þessi mál. Fólk upplifir eitthvað vegna áreitis í fjölmiðlaumræðu án þess að huga endilega að einstökum efnisþáttum. Þau áttuðu sig til dæmis ekki á því, fyrr en í samtalinu við mig, að alþingi hefur þegar samþykkt lög um greiningardeild hjá embætti ríkislögreglustjóra. Frumvarpið um þetta nýmæli varð að lögum 2. júní sl. og greiningardeildin tekur til starfa 1. janúar næstkomandi. Þau héldu einnig, að alþjóðlegar lögreglustofnanir eins og Europol og Interpol störfðu í þágu leyniþjónustu eða öryggis- og greiningarþjónustu lögreglunnar, eins og ég vil kalla þessa starfsemi. Þá áttuðu þau sig ekki á því, að yrði komið á fót öryggis- og greiningarþjónustu lögreglunnar myndi hún ekki geta gripið til símahlerana, húsleitar eða annarra sérstarkra rannsóknaraðgerða, án þess að hafa til þess heimild dómara.

 

Ég vona, að fundur okkar hafi orðið til þess að skýra málið í þeirra huga. Mér þótti samtalið við þessa ágætu og áhugasömu háskólanema hins vegar færa mér heim sanninn um, hve umræður um mál rista oft grunnt eða gefa ranga mynd. Með það íu huga fagna ég því, að þetta unga fólk ákvað að kanna umræðurnar um greiningardeild nánar til að komast til botns í þeim. Í umræðunum um öryggis- og greiningarþjónustuna hafa ýmsir að því er virðist séð í því tilgang í sjálfu sér að koma röngum upplýsingum á framfæri, eins og birtist skýrast í ályktun stjórnar Sambands ungra sjálfstæðismanna í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík.

 

Ef ekki er unnt að koma því á framfæri á sómasamlegan og skiljanlegan hátt, sem er að gerast í samtímanum, hvað þá um það, sem gerðist fyrir 70 árum, 60, 50 eða 40? Raunar er furðulegt að ræða slík mál á þann veg, að þau eigi að ráða úrslitum um ákvarðanir eða afstöðu nú á tímum. Þau eru í besta falli forvitnileg og spennandi rannsóknar- og umræðuefni, auk þess sem læra ber af sögunni og ekki detta í sömu pytti og menn gerðu fyrr á árum. Sögunni verður á hinn bóginn ekki breytt frekar en fortíðinni almennt og fráleitt er að nota kvarða samtímans á það, sem gerðist fyrir mörgum áratugum, eða heimfæra umræður og deilur þá á það, sem er að gerast á líðandi stundu. Allt hefur sinn tíma.

 

Mér sýnist nú á öllu, að áhugamenn um að upplýsa hjá hverjum símar voru hleraðir á tímum kalda stríðsins vegna atburða, sem snertu öryggi ríkisins, hafi náð utan um málið. Spurning er hvort nefndin, sem dr. Páll Hreinsson prófessor stýrir, opnar fræðimönnum aðgang að fleiri gögnum en hafa verið birt opinberlega eða fleiri verði nefndir til sögunnar, sem andlag heimilda til hlerunar.

 

Þegar Guðni Th. Jóhannesson tók fyrst að kynna niðurstöður rannsókna sinna vakti Már Jónsson sagnfræðingur máls á því, meðal annars í Morgunblaðinu, að heimild til hlerunar jafngilti því ekki, að hlerað hefði verið. Ég hef tekið undir með Má. Lögreglan telur ekki alltaf þörf á að nýta heimildir, sem hún fær hjá dómara til hlerunar. Gangur máls getur orðið annar en vænst var, þegar óskað var eftir heimildinni.

 

Sumarið 1968 var ég blaðamaður á Morgunblaðinu og fylgdist með utanríkisráðherrafundi NATO, sem hér var haldinn, og komið hefur við sögu vegna umræðna um hleranir. Arnar Jónsson, leikari, hefur meðal annars verið nefndur til sögunnar í því sambandi. Ég man vel eftir, að rætt var um hættuna af því á þessum tíma, að andstæðingar herforingjastjórnarinnar í Grikklandi, sem braust til valda árið 1967, ætluðu að standa að mótmælum vegna NATO fundarins. Hér á landi var hópur manna, sem tók fast og ákveðið undir með þeim. Hefði ekki verið glapræði af lögreglunni, að búa sig ekki undir versta? Að nýta sér ekki þær heimildir í lögum, sem henni eru veittar, til að vera sem best í stakk búin til að halda uppi röðu og reglu vegna fudarins? Á þessum árum fór alls ekki leynt, að Arnar Jónsson var í hópi þeirra, sem mótmæltu þessum fundi kröftuglega og stundum eru enn sýndar sjónvarpsmyndir af honum í mótmælaham á tröppum Háskóla Íslands, þar sem NATO-ráðherrafundurinn var haldinn.

 

Guðni Th. telur fráleitt annað en símar hafi verið hleraðir, úr því að heimild fékkst til þess. Það sé svo alvarlegt, að óska eftir heimildinni, að hún hljóti að afa verið notuð. Ég hef ekki lesið nók Guðna Óvinir ríkisins og veit því ekki, hvort hann hefur ótvíræðar heimildir fyrir fullyrðingu sinni um, að sími hafi ávallt verið hleraður, eftir að heimild til þess fékkst.. Í einhverjum fjölmiðli vitnaði Guðni Th. í nýlegan leiðara Morgunblaðsins um að Geir Hallgrímsson, forsætisráðherra í síðasta þorskastríðinu 1975 til 1976, hefði sagt við blaðið, að hann teldi sig ekki geta rætt ákveðið mál í síma, af því að hann kynni að vera hleraður. Er þetta sönnun fyrir því, að breska leyniþjónustan hafi hlerað síma Geirs?

 

Á þessum tíma var ég embættismaður í forsætisráðuneytinu, ritari landhelgisnefndar og helsti tengiliður Geirs við Kenneth East, sendiherra Breta, sem var rekinn úr landi við slit stjórnmálasambands ríkjanna í febrúar 1976, og kom síðan aftur. Við höldum enn vináttusambandi, þótt hann hafi horfið af landi brott árið 1980, þegar hann varð að fara á eftirlaun 60 ára að aldri. Í samskiptum mínum við Kenneth á þessum árum var ég aldrei var við, að hann byggi yfir einhverjum upplýsingum, sem aflað hefði verið á ólögmætan hátt með njósnum á Íslandi. Þegar við fórum til viðræðna við bresku ríkisstjórnina í London í janúar 1976, kom ekkert heldur fram á þeim fundum, sem benti til þess, að breskir ráðherrar byggju yfir einhverri sérþekkingu, sem byggðist á leynilegri öflun upplýsinga. Raunar er ég þeirrar skoðunar, að samskipti embættismanna þjóðanna hafi verið svo opin og hreinskilin, að ekki hafi verið um að ræða nein leyndarmál, sem hefðu skýrst með störfum leyniþjónustumanna. Á hinn bóginn þótti alveg sjálfsagt af okkar hálfu að líta þannig á málið, að Bretar kynnu að nýta sér allar leiðir til upplýsingaöflunar, þar með leyniþjónustuleiðir og þess vegna mætti alveg eins reikna með því, að símar væru hleraðir.

 

Af þeim kynnum, sem ég hafði af Bretum á þessum tíma, situr enn í mér undrun yfir því, hve breskri blaðamenn voru djarfir við að draga ályktanir og segja frá viðræðum, til dæmis af fundum Geirs í London, án þess að hafa nokkrar heimildir fyrir því, sem þeim datt í hug að segja.

 

Ef leiðari Morgunblaðsins ritaður árið 2006 um það, sem Geir Hallgrímsson sagði við höfund hans fyrir 30 árum, er heimild Guðna Th. Jóhannessonar fyrir því, að Geir hafi talið síma sinn hleraðan í þorskastríðinu, velti ég því fyrir mér, með fullri virðingu fyrir óbrigðulu minni leiðarahöfundarins, hvernig heimildaöfluninni er almennt háttað. Hefði ég verið spurður, hvort ég hefði talið síma minn hleraðan á þessum árum, hvort heldur heima hjá mér eða í stjórnarráðshúsinu, hefði ég sagt, að ekki væri unnt að útiloka það, frekar en ég get útilokað hlerun á síma mínum enn það dag í dag. Við vissum þá og vitum enn, að til er tækni, sem leyfir hlerun á hvers kyns fjarskiptum og vinnur síðan úr gífurlegu magni á efni og leggur það aðeins á borð húsbónda síns, sem vekur sérstakan áhuga hans.

 

Um það hefur aldrei verið deilt, að símar eru og hafa verið hleraðir á Íslandi. Stór hluti þjóðarinnar hefur raunar stundað slíka starfsemi í heimildarleysi á sveitalínum fyrr á árum. Lögheimildir til símahlerana hafa breyst í áranna rás, þær voru aðrar á fjórða áratugnum, þegar engin lög voru til um meðferð opinberra mála, en á sjötta áratugnum, þegar slík lög höfðu verið sett. Af fróðlegri grein Ólafs Hannibalssonar um símahleranir á fjórða áratugnum, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 2.desember, má ráða, að menn hafi ekki deilt um réttmæti þess að hlera síma, heldur hvernig að því var staðið að veita heimildina og óréttmætt væri að halda úrskurði um hlerunina leyndum..

 

Í upphafi þessa pistils sagði ég frá heimsókn háskólanema til mín til að ræða verkefni  í námi þeirra. Þótt þau hefðu kynnt sér málið nokkuð, skorti þau þekkingu á grundvallarmuninum á greiningardeild, sem er að taka til starfa, og öryggis- og greiningarþjónustu, sem er aðeins á teikniborðinu. Þetta mál hefur þó verið til umræðu lengi og snertir úrlausnarefni líðandi stundar. Hvað skyldu margir átta sig á efnisþáttum hleranamálsins?

 

Málið hefur verið teygt og togað í allar áttir. Í prófkjörsbaráttu okkar sjálfstæðismanna var reynt að nota hleranamálið gegn mér, þótt aðild mín að því hafi aldei verið nein. Við því var amast að dóms- og kirkjumálaráðuneytið sinnti lögboðinni skyldu sinni til að afhenda þjóðksjalasafni gögn og hrópað um það í hneykslunartón í nokkrun tíma.

 

Jón Baldvin Hannibalsson gekk lengst í furðusögum og raunar sveigði hann umræðurnar inn á nýjar brautir með ásökunum um, að sími sinn hefði verið hleraður, þegar hann var utanríkisráðherra í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Nú sýnist hann þeirrar skoðunar, að eithvert leyniherbergi hafi verið í utanríkisráðuneytinu, gott ef ekki á vegum CIA.

 

Ruglandi af þessu tagi skilar auðvitað engri niðurstöðu. Hafi Jón Baldvin talið CIA starfa í utanríkisráðuneytinu, þegar hann stjórnaði því, er ekki við neinn sakast í því efni nema hann sjálfan. Stnndum hvarflar að manni, hvort Jón Baldvin telji það einnar fjölmiðlasyrpu virði að vera með slíkar getsakir – eitt er víst, fjölmiðlamenn taka þessum yfirlýsingum almennt fagnandi og snúa sér í allar áttir til að fá viðbrögð við þeim.

  

Nú hefur Guðni Th. Jóhannesson lagt þau gögn á borðið, sem hann hefur getað nálgast vegna hlerana, og dregið ályktanir af þeim. Hvort bók hans kveikir að nýju bál á hleranaglæðunum, skal ósagt látið. Margt bendir til þess að málið sé að verða  úr sé vaxið, það standi ekki undir neinu meiru og ekki sé neinu við það að bæta nema furðusögum til að komast inn í umræðuna, eins og sagt er. Við skulum vona, að þeim fjölgi ekki, sem grípa til slíkra úrræða.