8.10.2006

Kosningabaráttan hafin - áfellisdómur yfir fjármálastjórn R-listans.

Ég opnaði kosningaskrifstofu mína í dag klukkan 15.00 að Skúlagötu 51, þar sem ég hef mjög stóran sal til umráða. Fyrir klukkan 15.00 byrjaði fólk að koma og síðan var stöðugur straumur fram til 15.30, þegar við Rut færðum okkur innar í salinn og fluttar voru nokkrar ræður. Þau Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson stjórnuðu þessum þætti af mikilli prýði.

Fyrstur talaði séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur, og fór meðal annars með þessa vísu í tilefni af framboðinu:

Titrar trúarstrengur,
traustur vel á fundum.
Björn er besti drengur
og brosir líka stundum.

Gunnar Eyjólfsson leikari, flutti orkumikla hvatningarræðu og fór meðal annars með þrjú erindi úr Hrunadansinum eftir Matthías Johannessen, sem birtist í miðopnu Morgunblaðsins í sumar. Loks ræddi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri mikið og gott samstarf okkar í stjórnmálum og sérstaklega í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna á síðasta kjörtímabili.

Ég þakkaði þeim og öðrum, sem þarna komu stuðninginn og hvatti til sóknar um kjörorði mínu: Samstaða til sigurs!

Var góður rómur gerður að ræðunum og hvatningarorðum þeirra Hönnu Birnu og Gísla Marteins en á sjötta hundrað manns voru þá í troðfullum salnum. Höfðu margir á orði við mig, að sjaldan hefðu þeir fundið jafngóðan samhug og stemmningu og þarna var.

 

Felst vissulega mikil hvatning í því að hefja kosningabaráttu með svo miklum stuðningi þess breiða hóps fólks, sem kom í kosningaskrifstofuna.

 

Skrifstofan verður opin 16.00 til 20.00 virka daga og frá 13.00 til 17.00 um helgar, en þau Pétur Árni Jónsson og Heiðrún Lind Marteinsdóttir hafa tekið að sér að leiða starfið á skrifstofunni og er mér mikil ánægja af því, að þau skuli leggja mér lið af þeim krafti og áhuga og einkennir öll þeirra störf. Yfirbragð skrifstofunnar ber vitni um smekkvísi Rutar en Sigurbjörn Jónsson og Pétur Gautur listmálarar sýndu okkur þá vinsemd að lána okkur málverk, sem prýða salinn.

 

Þau Hanna Birna og Gísli Marteinn urðu vinir mínir, þegar þau tóku að sér að leiða prófkjörsbaráttu mína vegna kosninganna 1995. Hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því, hvernig þau hafa vaxið af hverju verkefni, sem þau hafa tekið að sér með sífellt meiri ábyrgð á vettvangi stjórnmálanna.

 

Ég heyrði, að menn telja kjörorðið: Samstaða til sigurs! mikils virði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og í þeim fáu orðum, sem ég flutti í dag, minnti ég á, að yrði sundurlyndi einkenni stjórnmálaflokka minnkaði fylgi þeirra. Velgengni flokka byggðist á samstöðu innan þeirra og velgengni íslensku þjóðarinnar réðist af því, hvernig sjálfstæðismönnum tækist að vinna í sátt að framgangi stefnumála sinna.

 

Áfellisdómur yfir fjármálastjórn R-listans.

 

Á sama tíma og Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, leggur fram frumvarp til fjárlaga með mun meiri afgangi en ætlað var í langtímaáætlun birta þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, svarta skýrslu frá KPMG um fjárhag Reykjavíkurborgar. Sagði Vilhjálmur, að ekki þyrfti að deila um tölur og staðreyndir í skýrslunni, þær væru áfellisdómur yfir fjármálastjórn R-listans. Hann bætti við: „Eytt hefur verið um efni fram árum saman, skuldum safnað og þar með gengið á eignir og skattfé borgarbúa.“ Breyta yrði neikvæðri rekstrarniðurstöðu í jákvæða til langs tíma og bæta áætlanagerð.

 

Í stuttu máli staðfestir þessi niðurstaða KPMG skoðanir okkar sjálfstæðismanna á því, hvernig R-listinn hélt á fjármálum Reykjavíkurborgar. Eina besta lýsingu á þeirri öfugþróun allri er að finna í grein, sem Magnús Þór Gylfason skrifaði í fyrsta hefti Þjóðmála haustið 2005.

 

Ef ég tók rétt eftir, voru viðbrögð Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, fyrrverandi borgarstjóra, á þann veg, að þetta álit KPMG skipti ekki máli, því að lánstraust Reykjavíkurborgar væri gott eins og lánskjörin, en þau endurspegluðu mat óháðs þriðja aðila á fjárhagsstöðu borgarinnar. Steinunn Valdís lét þess hins vegar ógetið, að gott lánshæfismat Reykjavíkurborgar ræðst ekki síst af eignarhlut hennar í Landsvirkjun. Kom þetta fram í skjölum, sem voru lögð fyrir okkur borgarfulltrúa snemma árs 2003, þegar rætt var um, hvort borgarstjórn ætti að samþykkja ábyrgð á lántökum Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar.

 

Hefði fjármálastjórn ríkisins verið á sama veg undanfarin ár og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og eftirmenn hennar hafa stjórnað fjármálum Reykjavíkurborgar, væri staða ríkissjóðs allt önnur og mun verri en nú er og ekkert svigrúm væri til að þess að koma til móts við borgarana með lækkun skatta eða öðrum aðgerðum til að auka fjárhagslegt svigrúm þeirra.

 

Þegar sjálfstæðismenn tóku við embættum forsætisráðherra og fjármálaráðherra 1991, þeir Davíð Oddsson og Friðrik Sophusson, var rætt um fortíðarvanda, sem yrði að eyða. Nú segir Björn Ingi Hrafnsson, þegar hann kynnir skýrslu KPMG, að mikilvægt sé fyrir nýjan meirihluta í borgarstjórn að innleiða ábyrga fjármálastjórn og laga reksturinn. Við blasi ákveðinn fortíðarvandi sem takast verði á við og það verði gert.

 

Samfylkingarfólkið, sem réð ferðinni í borgarstjórnarmeirihluta R-listans, fer nú með forystu í Samfylkingunni. Það dugar ekki að reyna að fela slaka fjármálastjórn R-listans með reykbombum á borð við þær, sem Steinunn Valdís hefur sprengt.