29.7.2006

Málsvörn fyrir þjóðaröryggi - málsvörn fyrir vinstrisinna.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem birtist sunndaginn 23. júlí var öflug málsvörn fyrir þeim sjónarmiðum, sem ég hef leitast við að kynna og hníga til þeirrar áttar, að nauðsynlegt sé að huga að öryggismálum þjóðarinnar á annan hátt en gert hefur verið til þessa. Í Reykjavíkurbréfinu segir meðal annars:

„Hryðjuverkaógnin er raunveruleg og nálæg. Öfgamenn hafa ráðizt á skotmörk í nágrannalöndum okkar, sem við höfum einna mest samskipti við. Skemmst er að minnast árásanna á New York, Washington, London og Madríd. Það getur gerzt hvenær sem er að hópur Íslendinga sé staddur á fjölförnum stað í nálægri stórborg, þar sem hryðjuverkamenn ákveða að láta til skarar skríða. Og það er engan veginn hægt að útiloka að þeir beini sjónum að Íslandi, landi sem sagan sýnir að hefur verið auðvelt að ráðast inn í eða ná valdi á þegar þar hefur skort trúverðugar varnir. Viljum við að þeir geti fundið höggstað á okkur - glufu í vörnum vestrænna ríkja gegn áformum þeirra um að ráðast gegn öllu sem vestrænt er? Viljum við að t.d. blaðamenn eða stjórnmálamenn, sem segja eða skrifa eitthvað sem öfgahópum fellur ekki í geð, þurfi að óttast um líf sitt og fjölskyldu sinnar vegna líflátshótana öfgamanna, eins og gerðist í skopmyndamálinu svokallaða í Danmörku og Noregi?

Umræðan um hinar nýju ógnir við öryggi okkar snýst oft aðallega um hryðjuverk, en skipulögð glæpastarfsemi er ekki síðri ógnun við öryggi borgaranna. Í löndum, sem eru ekki fjarlæg okkur, eru glæpasamtök stundum eins og ríki í ríkinu. Viljum við t.d. að alþjóðlegir fíkniefnahringar nái fótfestu hér, eins og æ fleira bendir til að þeir reyni? Að fíkniefnaheimurinn útdeili sínu eigin „réttlæti“ og „refsingum“ eins og alltof mörg dæmi eru um nú þegar hér á landi?

Viljum við að Ísland verði griðastaður fyrir glæpasamtök sem smygla fólki milli heimshluta, selja það í ánauð og þvinga til vændis? Viljum við að hér á landi þrífist veruleiki á borð við þann, sem lýst var í ógleymanlegri, sænskri kvikmynd að nafni Lilja að eilífu?

Svarið við öllum þessum spurningum er auðvitað nei, við viljum ekki að neitt af þessu gerist. En það dugir ekki að við óskum þess nógu heitt að það gerist ekki. Við þurfum að grípa til aðgerða til að tryggja að við eigum í fullu tré við þau öfl, sem ógna okkur og nágrannaríkjum okkar. Halda mætti að um slíkar aðgerðir ríkti pólitísk samstaða, nú þegar kalda stríðinu er löngu lokið og engin stjórnmálaöfl hér innanlands eiga hugmyndafræðilega samleið með hinum utanaðkomandi ógnum. Engu að síður bregður svo við, að það eru sömu raddirnar og hvöttu til varnarleysis Íslands á dögum kalda stríðsins, sem nú draga í efa þörfina á að gera sömu ráðstafanir og öll önnur vestræn ríki hafa gert til að tryggja öryggi sitt og borgara sinna. “

Blaðið rifjar upp neikvæð viðbrögð vinstrisinna á alþingi snemma árs 2004 við tillögum mínum um eflingu sérsveitar lögreglunnar og segir síðan:

„Ráðstafanir dómsmálaráðherra varðandi sérsveitina snúa einfaldlega að því að gera eins og öll önnur vestræn ríki hafa gert; að vera viðbúin hinu versta. Sérsveitarmenn í lögreglunni sinna alla jafna venjulegum lögreglustörfum, eru óvopnaðir eins og allir lögreglumenn á Íslandi í daglegum störfum sínum og hjálpa fólki að opna bílana sína eða hafa uppi á hundinum sínum ef svo ber undir. Það hefur engin eðlisbreyting orðið á störfum löggæzlunnar. En við erum betur viðbúin óvæntum uppákomum en áður.

Umræðurnar um eflingu sérsveitarinnar eru eitt dæmi um það, hvernig mörgum stjórnmálamönnum á vinstri kantinum finnst alveg sjálfsagt að Ísland sé jafnvarnarlaust gegn utanaðkomandi hættum og þeir hafa alltaf viljað hafa það. Annað dæmi og nýlegra er umræðurnar um störf greiningardeildar eða þjóðaröryggisdeildar ríkislögreglustjóra.“

Þá ræðir höfundur Reykjavíkurbréfsins um neikvæð viðbrögð vinstrisinna á alþingi við tillögu minni um að efla greiningarstarf og áhættumat á vegum lögreglunnar og segir síðan:

„Það er merkilegt að stjórnmálamenn, sem í öðru orðinu segjast vilja berjast með oddi og egg gegn fíkniefnavanda og mansali, séu í hinu orðinu fullir efasemda um að gera beri lögregluna í stakk búna til að berjast gegn slíkri starfsemi með aðferðum sem duga og reiðubúnir hvenær sem er til að gera slíkt tortryggilegt.“

Loks er í Reykjavíkurbréfinu fjallað um matsskýrslu sérfræðinga Evrópusambandsins í hryðjuverkavörnum um það, hvernig staðið sé að slíkum vörnum hér á landi og segir höfundur meðal annars af því tilefni:

„Dómsmálaráðherra skipaði starfshóp til að vinna úr tillögum í matsskýrslunni og að ákvæðum nýju lögreglulaganna, sem fjalla um greiningu og áhættumat.

Með öðrum orðum er nú komin út skýrsla og búið að skipa starfshóp til að fjalla um nákvæmlega það, sem þingmenn stjórnarandstöðunnar báðu um í umræðunum um lögreglulagafrumvarpið, þ.e. eftirlit og aðhald með sérstökum rannsóknaraðferðum lögreglunnar.“

Reykjavíkurbréfinu lýkur á þessum orðum:

„Hver er skýringin á því, að svona margir vinstrisinnaðir stjórnmálamenn eru svona andsnúnir því að Ísland komi sér upp svipuðu kerfi til að tryggja öryggi lands og þjóðar og öll önnur vestræn ríki hafa gert, mörg hver undir forystu skoðanasystkina þeirra í evrópskum jafnaðarmannaflokkum? Hvernig stendur á því að gamlir „herstöðvaandstæðingar“, sem á árum áður vildu standa dyggan vörð um varnarleysi Íslands, eru nú orðnir „herandstæðingar“ og „leyniþjónustuandstæðingar“, jafnvel þótt hvorki standi til að stofna leyniþjónustu né her? “

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, segir í leiðara miðvikudaginn 26. júlí:

„Starfsemi lögreglu og reyndar hvers kyns öryggisgæslu og almannavarna verður æ mikilvægari þáttur í samfélaginu. Það leiðir af breyttum háttum fólks. Miklu skiptir að þessi starfsemi þróist með umhverfinu. Hér er að ýmsu að hyggja. Tvennt má nefna í því sambandi:

Í fyrsta lagi tæknina. Þessi starfsemi almannavaldsins verður að hafa aðstöðu til að nýta sér fullkomnustu tækni sem völ er á til þess að geta gegnt skyldum sínum sómasamlega á hverjum tíma.

Þeir sem stunda skipulagða afbrotastarfsemi standa oft og einatt feti framar löggæslunni við hagnýtingu tækninnar. Það á ekki síst við um ört fullkomnari fjarskiptatækni.

Hér þarf skarpari og víðtækari skilning á því að almannavaldið má ekki dragast aftur úr í þessum efnum. Mikilvægari almannahagsmunir eru í húfi en svo að það megi gerast.“

Ég fagna því, hvernig höfundur Reykjavíkurbréfs og Þorsteinn Pálsson taka á þessum málum. Er mikils virði, að áhrifamenn á stærstu blöðum landsins fjalli um þessi mikilvægu mál af slíku raunsæi.

Málsvörn fyrir vinstrisinna.

Guðni Elísson er dálkahöfundur í Lesbók Morgunblaðsins. Hann er dósent í bókmenntafræði við Háskóla Íslands og er kynntur á þann veg á vefsíðu skólans, að hann kenni bókmenntakenningar, rómantísku stefnuna, enskar 19. aldar bókmenntir, hrollvekjur, kvikmyndafræði, aðlaganir og rökkurmyndir. Rannsóknarsviðum hans er lýst á þennan veg: Bókmenntakenningar, rómantíska stefnan, enskar 19. aldar bókmenntir, íslensk nýrómantík, íslenskar samtímabókmenntir og hrollvekjur. Jafnframt hefur Guðni lagt stund á kvikmyndafræði og skrifað um aðlaganir, hrollvekjur og rökkurmyndir.

Í Lesbókina skrifar Guðni um málefni líðandi stundar og er honum uppsigað við sjónarmið okkar sjálfstæðismanna. Margt af því, sem hann skrifar um stjórnmál er frekar gamaldags og skrýtið, eins og ég hef vikið að hér á síðunni. Má þar meðal annars rifja upp þessa klausu úr pistli mínum frá 24. september 2005:Ég veit ekki innan hvaða stjórnmálaflokks Guðni Elísson vinnur að því að móta flokkspólitíska listastefnu – sjónarmið Guðna eru verri en gamaldags og þau eiga ekkert skylt við eðlilegt hlutverk stjórnmálaflokka við stefnumörkun í menningarmálum.“ Ég tók einnig upp hanskann fyrir Jakob F. Ásgeirsson, þegar Guðni veittist að honum, og má lesa um það í pistli hér á síðunni frá 24. janúar 2004.

Í Lesbókinni laugardaginn 29. júlí tekur Guðni upp málsvörn fyrir vinstrisinna í tilefni af grein minni um kalda stríðið í Lesbókinni 22. júlí, sem ég ritaði að beiðni umsjónarmanns hennar. Í greininni velti ég fyrir mér, hvort umræðuhefðin hefði í raun tekið breytingum frá því á tímum kalda stríðsins og nefndi fimm dæmi því til stuðnings, að svo væri líklega ekki. Nafngreindi ég nokkra einstaklinga til sögunnar í þessum fimm dæmum en dró engan þeirra í pólitískan dilk og kenndi þá hvorki við vinstrimennsku né annað heldur lét orð þeirra sjálfra tala.

Guðni Elísson telur sig hins vegar geta lesið þessa alhæfingu út úr texta mínum: „Björn Bjarnason segir að í skrifum vinstri sinnaðra menntamanna eimi enn eftir af yfirlæti, stílbrögðum og ofsa, fremur en málefnalegum rökum.“ Þegar grein mín er lesin sést, að Guðni bætir þessum orðum inn í texta minn: „í skrifum vinstri sinnaðra menntamanna“. Ég hafði ekki hugmyndaflug til að telja þá þrjá einstaklinga, sem ég nefndi til sögunnar í þessum kafla greinar minnar til vinstri sinnaðra menntamanna, þótt Guðni telji þá til þess hóps manna.

Eftir að gert mér upp alhæfða skoðun á þessum mönnum segir Guðni: „Ég hefði haldið að slíkar lyndiseinkunnir væru persónubundnar og get illa fellt mig við þá hugmynd að þær stjórnmálaskoðanir sem viðurkenndar eru í lýðræðisríkjum stýri hátterni fólks á þann djúpstæða hátt sem Björn gefur til kynna.“ Ég er sammála þessum orðum Guðna, enda var ég ekki að fjalla um stjórnmálaskoðanir neins hóps manna, þegar ég vitnaði í þrjá nafngreinda einstaklinga í grein minni og ég gat mér ekki einu sinni til um stjórnmálaskoðanir þeirra. Það er Guðni Elísson, sem kýs að gera þá að fulltrúum vinstrisinnaðra menntamanna – hann segir raunar einnig, að ég hafi túlkað gagnrýni hans á Jakob F. Ásgeirsson „sem pólitíska árás vinstri sinna”. Mér er spurn: Hvar gerði ég það?

Eftir þessar útlistanir fellir Guðni Elísson þennan dóm: „Með því að ofurselja mannlega hugsun hinu pólitíska múlbindur Björn umræðuna á gamalkunnum nótum.“

Í stuttu máli sýnist mér þessi nýjasti pistill Guðna Elíssonar enn sanna kenningu mína um, að umræðuhefðin hafi ekkert breyst. Guðni kýs að snúa út úr orðum mínum og nota síðan útúrsnúninginn til að gjaldfella grein mína á þeim forsendum, að hún sé ómarktæk vegna þess að ég fjalli um menn og málefni á flokkspólitískum grunni – hann og aðrir séu af öðru sauðahúsi og síðan birtist gamalkunnugt yfirlæti gagnvart stjórnmálamönnum í þessum orðum: „Öll gagnrýni verður marklaus vegna þess að í henni búa pólitísk sjónarmið þegar nánar er skoðað. Slíkar forsendur koma stjórnmálamönnum eflaust vel, en samfélagsumræðan skaðast fyrir vikið. Svo telja menn hægri,vinstri, hægri, vinstri. Er ekki kominn tími til að ýta þessari pólitísku bókhaldshugsun út úr almennri umræðu?“

Ég get upplýst Guðna um, að ég var ekki með neitt pólitískt bókhald í huga, þegar ég ritaði grein mína fyrir Lesbókina. Ég leyfði mér það eitt að vitna í samtímaummæli til að leggja mat á það, hvort í raun hefði orðið breyting á opinberri umræðuhefð.

Guðni veltir fyrir sér þessum orðum mínum: „Í stað þess að verja hagsmuni stórveldis gætir þess helst, að menn telji sig þurfa að halda fram málstað stórfyrirtækja til að bæta mannlífið á Íslandi.“ Og Guðni spyr: „Telur Björn forystusveit Sjálfstæðisflokksins sæta árásum þeirra svokölluðu vinstri manna sem áður studdu Sovétríkin en styðja nú Baugsveldið? Ætti það ekki fremur að vera markmið slíkra manna að þjóðnýta Baug í almannaþágu?“

Ég segi hvergi, að hinir sömu verji hagsmuni stórfyrirtækja og vörðu hagsmuni Sovétríkjanna á sínum tíma. Ég segi hins vegar, að nú gæti þess helst „að menn telji sig þurfa að halda fram málstað stórfyrirtækja til að bæta mannlífið á Íslandi.“ Vilji Guðni átta sig á því, hvað býr að baki þessum orðum mínum, bendi ég honum til dæmis á hina frægu Borgarnesræðu, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, flutti í aðdraganda þingkosninganna árið 2003.

Lokadæmið, sem ég tók um umræðuhefðina, var þetta:

„Ofsafengin og ósanngjörn viðbrögð við ævisögu Halldórs Laxness eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Hannes var sagður „boðflenna“ í menningarlegu samfélagi, sem taldi sig ekki þurfa að þola slíka gesti.“

Orðið „boðflenna“ sótti ég í kvöldfréttir hljóðvarps ríkisins klukkan 18.00 laugardaginn 10. janúar 2004, þar sem sagt var, að Hannes Hólmsteinn hefði komið sem „boðflenna“ á blaðamannafund þriggja ævisagnahöfunda í Reykjavíkurakademíunni þann sama dag.

Guðni leggur þannig út af þessum orðum mínum um Hannes Hólmstein, að ég telji þau „dæmi um sósíalisma í verki“. Hvar í ósköpunum segi ég það? Enn segir Guðni að ég telji, að „vinstri sinnaðir menntamenn í samtímanum líti á Hannes sem „boðflennu“ í „menningarlegu samfélagi“.“ Ég spyr Guðna enn: Hvar í ósköpunum hef ég sagt þetta?  Hvar hef ég sagt, að 270 blaðsíðna skýrsla Helgu Kress „sanni pólitískan ofsa andmælenda“ Hannesar Hólmsteins? Eða hún sé til marks um „pólitískt áróðursstríð svokallaðra vinstri manna“? Ég hef ekki lesið þessa skýrslu Helgu og hef ekki minnstu hugmynd um efnistök hennar.

Ég segi enn og aftur: Málsvörn Guðna Elíssonar fyrir vinstrisinna í Lesbók Morgunblaðsins 29. júlí 2006 staðfestir, að umræðuhefðin hefur ekki breyst frá því á tímum kalda stríðsins, hvað sem líður pólitískum skoðunum. Upp á mig snýr Guðni með útúrsnúningi, að ég vilji „ofurselja mannlega hugsun hinu pólitíska“.

Í Lesbókargrein minni tók ég dæmi um það, hvernig Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans, sneri með útúrsnúningi innrás Sovétríkjanna í Prag upp á Matthías Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins. Mörgum árum síðar sagði Matthías: „Ég hef ekki andlegt þrek til að ræða þennan fíflaskap.“