17.4.2006

Dagar í Dublin – handritasýning – hersýning.

Að vera í Dublin um páska 2006 dregur athygli að tvennu, sem annars hefði líklega liðið hjá, án þess að vekja sérstakan áhuga. Það er: 100 ára afmæli írska rithöfundarins Samuels Becketts og 90 ára afmæli páskauppreisnarinnar 1916 eða the Easter Rising eins og uppreisn nokkurra írskra þjóðernissinna gegn breskum yfirráðum á páskum 1916 er kölluð.

*

 

Víða sjást þess merki í Dublin, að fagnað sé afmæli Becketts. Myndir af höfundinum blasa við á auglýsingaskiltum og hanga utan á ljósastaurum. Í hinum fornfræga langa sal í Dublin – Long Room – í bókasafni Trinity College má skoða handrit og ljósmyndir frá Beckett – en hann stundaði nám í háskólanum. Hann þótti þá frekar sjálfumglaður í krafti lærdóms síns og í raun andstæða við sjálfan sig á efri árum, þegar hann var sagður hlédrægur, hjálplegur, kurteis og bjó við einsemd skammt frá París.

 

Salurinn, sem hýsir sýninguna til heiðurs Beckett, er 65 metra langur og þar er að finna um 200.000 af elstu handritum bókasafnsins, sem varð til með háskólanum árið 1592 – en þessi hluti safnsins var reistur á árunum 1712 til 1732 . Frá árinu 1801 hefur þetta mikla bóksafn átt rétt á ókeypis eintaki af öllum bókum, sem hafa komið út í Bretlandi og á Írlandi og nú eru um 3 milljónir bóka í átta byggingum safnsins.

 

Í bókasafni Trinity College er töluvert af íslenskum pappírshandritum en frægasti gripurinn þar er Kells-bók, sem er meira en 1200 ára gömul (líklega skráð um 800) og geymir guðspjöllin fjögur, ríkulega myndskreytt. Talið er að munkar í klaustri, sem írski munkurinn Kólumkilli [Í upphafi Sjálfstæðs fólks segir Halldór Laxness: „Í latneskum heimildum eru þeir menn nafngreindir sem siglt hafi híngað af vestrænum löndum á öndverðum dögum páfadóms. Hét þeirra fyrirliði Kólumkilli hinn írski, særingamaður mikill. Í þá daga voru hér landgæði með afbrigðum á Íslandi. En þá er norrænir menn settust hér að, flýðu hinir vestrænu galdursmenn landið, og telja fornrit að Kólumkilli hafi í hefndarskyni lagt á þjóð hina nýu, að hún skyldi í þessu landi aldrei þrífast, og fleira í þeim anda,  sem síðar hefur mjög þótt gánga eftir.“] stofnaði á sjöttu öld á eyjunni Iona við vesturströnd Skotlands, hafi ráðist í að gera bókina en hún hafi síðan verið flutt til Kells á Írlandi til að bjarga henni undan víkingum á níundu öld. Hún hefur verið í bókasafni Trinity College í Dublin síðan 1661. Sýning safnsins um Kells-bókina er vel úr garði gerð og þar er að finna upplýsingar um bókagerð frá þessum tíma, sem eru um margt líkar upplýsingunum um íslensku handritin á sýningunni í Þjóðmenningarhúsinu.

 

Að vissu leyti virðist handritasýningin í Þjóðmenningarhúsinu meira fræðandi um gerð handrita en þessi. Á hinn bóginn var biðröð fyrir utan bókasafn Trinity College til að kaupa aðgang að handritasýningunni ( 8 evrur fyrir fullorðna) en slíka röð hef ég aldrei séð við sýninguna á íslensku handritunum.

 

Á meðan handritin voru til sýnis í Árnagarði, var eðlilegt, að ferðamenn væru ekki endilega mikið hvattir til að fara þangað. Nú er hins vegar umbúnaður um þau allur annar og þá má spyrja, hvort skipuleggjendur ferða útlendinga (og raunar einnig Íslendinga) leggi nógu mikil áhersla er á einstætt gildi handritanna og að þau verði hvergi betur skoðuð en hér á landi.

 

Heimsókn til Dublin án þess að fara í Trinity College og skoða Kells-bók og bókasafnið hefði dregið úr ánægju ferðarinnar. Athygli Íslendings vekur, hve miklu rými í bókinni er varið undir myndir og hve línubil er stórt og stafir miðað við að því er stundum virðist gjörnýtingu á skinni í íslenskum handritum. Sagt er, að þurft hafi 185 kálfa í bókfellið en um 100 kálfa telja menn, að hafi þurft í Flateyjarbók. Hvergi sá ég vísað til íslensku handritanna í kynningu á Kells-bókinni.

 

*

 

Þegar ég las mannkynsögu í menntaskóla, fannst mér erfitt að átta mig á höfuðdráttum írskrar sögu. Hún einkenndist af illdeilum við Breta, hungursneyð, landflótta og uppreisnum. Þótt ég skrifaði í mörg ár um erlend málefni í blöð og ræddi þau í fréttaskýringaþáttum, leiddi ég hjá mér að setja mig sérstaklega  inn í deilurnar á Norður-Írlandi, þótt þær hafi áratugum saman leitt til blóðugra átaka í næsta nágrenni okkar Íslendinga.  

 

Raunar held ég, að almennt sé erfitt fyrir þá, sem eru utan Írlands og Bretlands að átta sig á samskiptasögu þessara tveggja þjóða í aldanna rás. Einmitt þess vegna var það einskonar bónus, að sjá eftir komuna til Dublin á skírdag, að stjórnvöld væru að búa sig undir mikil hátíðarhöld á páskadag, sunnudaginn 16. apríl, til að minnast páskauppreisnarinnar árið 1916.

 

Við nánari athugun mátti sjá, að það voru ekki allir fagnandi yfir því, að Bertie Ahern forsætisráðherra skyldi hafa ákveðið að minnast uppreisnarinnar með 2500 manna hersýningu og göngu fram hjá heiðursstúku fyrir fram aðal pósthús borgarinnar, General Post Office (GPO), á O’Connell stræti í hjarta borgarinnar.

 

Forsætisráðherrann var sakaður um að nota daginn til að auglýsa sig og flokk sinn Fianna Fáil í aðdraganda þingkosninga og Gerry Adams, leiðtogi Sinn Féin, sem hefur verið pólitískur armur írska lýðveldishersins (IRA) sagðist ekki ætla að taka þátt í þessum hátíðarhöldum – Fianna Fáil væri núna að reyna að eigna sér uppreisnina 1916, eftir að hafa látið sér hana í besta falli í léttu rúmi liggja, á meðan Sinn Féin hefði alltaf haldið minningu uppreisnarinnar á loft. Áhugi forsætisráðherrans stafaði af ótta hans við Sinna Féin vegna kosninganna og hann væri að reyna að slá ryk í augu kjósenda. Enda Kenny, formaður Fine Gael, var sama sinnis og Adams, að forsætisráðherrann væri að eigna sér og flokki sínum þætti í sögu Írlands sér til framdráttar.

 

Annan páskadag, 24. apríl 1916, var þríliti fáni Írlands dreginn að húni á pósthúsinu í Dublin og skömmu eftir hádegi þann dag stóð  Padraig Pearse í anddyri hússins og las yfirlýsingu, þar sem Írland var lýst lýðveldi og sjálfstætt ríki. Sjö einstaklingar rituðu undir yfirlýsinguna en þeir voru í herráði hins þjóðernissinnaða írska bræðralags, sem svo var nefnt, og höfðu skipulagt uppreisn gegn Bretum á páskadag 1916 með vopnum frá Þýskalandi, sem var smyglað til Írlands á sama tíma og  Írar börðust við hlið Breta í fyrri heimsstyrjöldinni á meginlandi Evrópu. Sjömenningarnir kölluðu sig bráðabirgðastjórn Írska lýðveldisins og sögðust þeir ætla að stjórna landinu, þar til aðstæður hefðu skapast til að til að mynda ríkisstjórn, sem nyti trausts allrar þjóðarinnar að gengnum almennum kosningum með þátttöku karla og kvenna.

 

Uppreisnarmenn voru 1600 undir vopnum og náðu undir sig nokkrum lykilstöðum í borginni. Breski herinn snerist til varnar og hafði sigur á tæpri viku en þá er talið líklegt,  að hið minnsta 30 þúsund breskir hermenn hafi verið í borginni. Breski flotinn sendi fallbyssubátinn Helgu upp eftir Liffey-ánni í hjarta Dublin og og frá bátnum var skotið á pósthúsið – höfuðstöðvar bráðabirgðastjórnarinnar.

 

Að átökunum loknum höfðu um 450 manns týnt lífi – flest almennir borgarar – og um 2500 voru sárir. Tjónið var mikið og miðborgin rústir einar. Þegar forsprakkar uppreisnarinnar voru handteknir, var gerður aðsúgur að þeim og almennir borgarar fögnuðu bresku hermönnunum. Hins vegar leið ekki langur tími, þar til hugur manna snerist gegn Bretum og Írar tóku að líta á uppreisnina 1916 öðrum augum. Klaufaleg og vanhugsuð viðbrögð Breta eru talin hafa ráðið mestu um hughvarf Íra. Bretar handtóku þúsundir Íra og sendu þá í fangabúðir í Bretlandi, hvort sem þeir höfðu tekið þátt í uppreisninni eða ekki. Þeir, sem taldir voru forystumenn uppreisnarinnar, voru dæmdir til dauða af herrétti á fáeinum dögum og skotnir dagana 3. til 15. maí í Kilmainham-fangelsinu í Dublin, en hátíðarhöldin á páskadag hófust á því, að Bertie Ahern forsætisráðherra fór þangað til að heiðra minningu hinna líflátnu og annarra, sem voru fangelsaðir.

 

Írland varð ekki lýðveldi fyrr en annan páskadag 1949 eða 33 árum eftir að Pearse las sjálfstæðisyfirlýsinguna. Með lýðveldisyfirlýsingunni slitu Írar ekki aðeins stjórnmálaleg tengsl við Bretland heldur slitu tengsl við bresku krúnuna og sögðu sig þar með úr samveldinu, fyrstir þjóða. Ástralir og Kanadamenn sýndu Írum ekki þá óvild vegna þess, sem Bretum þótti við hæfi. Breska þingið samþykkti sérstaka löggjöf um Írland, þar sem áréttað var sérstakt samband Íra og Breta, Írska lýðveldið væri ekki eins og hvert annað sjálfstætt ríki. Sambandssinnum á Írlandi þótti þetta of mikil eftirgjöf við aðskilnaðarmenn. Sambandssinnar þóttu þó geta unað sæmilega við sinn hlut, því að í sömu lögum er tekið fram, að Norður-Írland segi því aðeins skilið við Sameinaða konungdæmið, Bretland, að þing Norður-Írlands samþykki. Með þessu var þinginu í Stormont á Norður-Írlandi í raun veitt neitunarvald um framtíðarskipan mála á þessum hluta Írlands. Ríkisstjórnin í Dublin tók þessu ákvæði laganna mjög illa og kynntu andstöðu sína hvar sem færi gafst á alþjóðavettvangi í von um, að önnur ríki neyddu bresku ríkisstjórnina til að breyta þessum lögum. Írar neituðu til dæmis boði um að verða stofnaðilar NATO árið 1949 með þeim rökum, að þar væru þeir að viðurkenna tilvist Norður-Írlands. Þegar Írar gengu í Sameinuðu þjóðirnar árið 1955 tóku þeir til við að berjast fyrir málstað sínum á þeim vettvangi en án nokkurs árangurs.

 

Hinn 14. janúar 1965 hittust þeir í fyrsta sinn á fundi forsætisráðherrar Írska lýðveldisins og Norður-Írlands. Hér verður þessi saga hvorki rakin né áranna síðan, en athyglisvert er að hafa í huga, að þremur árum eftir að 50 ára afmælis páskauppreisnarinnar var minnst árið 1966, varð stríðsástand á N-Írlandi, þar sem sambandssinnar við Breta og lýðveldissinnar berjast enn þann dag í dag.

 

Á þessu ári er einnig minnst 90 ára afmælisins orrustunnar við Somme í fyrri heimsstyrjöldinni,  þar sem fjölmennasti her Breta nokkru sinni var sendur til orrustu og tókst að sækja fram nokkra kílómetra en 60.000 manns féllu, þar á meðal fjöldi Íra, en alls er talið, að 30 þúsund Írar hafi fallið í fyrri heimsstyrjöldinni sem liðsmenn Breta af alls um 200 þúsund Írum, sem voru sendir í stríðið. Sambandssinnar á Írlandi hafa löngum haldið því fram, að með áherslu á páskauppreisnina og fögnuð yfir henni sé verið að lítilsvirða minningu þeirra, sem féllu við Somme. Samhliða hátíðarhöldunum nú er lögð áhersla á að minnast hermannanna í Somme-orrustunni.

 

Fróðlegt var að lesa í írskum blöðum hugleiðingar í tilefni af 90 ára uppreisnarafmælinu, þar sem þær snerust að nokkru um sjálfsmynd Íra nú á tímum. Tom McGurk ritaði til dæmis grein í The Daily Irish Mail og sagði, að nú gætu Írar í fyrsta sinn litið á vopnaða uppreisn minnihlutahóps sem kafla í sögu sinni. Frá því að samningurinn, kenndur við föstudaginn langa var gerður árið 1998 og þá ákvörðun Sinn Féin og írska lýðveldishersins að leggja niður vopn, gætu nú fulltrúar allra stjórnmálaafla  í lýðveldinu hist með friði til að minnast dagsins. (Erfiðlega hefur gengið að framkvæma þennan samning vegna ágreinings um eftirlit með því, að írski lýðveldisherinn leggi niður vopn. Harkalega er til dæmis tekist á um, hvort taka eigi myndir af afhendingu vopnanna.)

 

Þá vísaði Tom McGurk til þess, að nú á tímum gætu Írar minnst uppreisnarinnar 1916 sem ein af ríkustu þjóðum heims. Þegar Írar ræða efnahagsframfarir í landi sínu undanfarin ár kalla þeir sig gjarnan Celtic Tiger eða Keltneska tígrisdýrið. Með því vilja þeir líkja framförum hjá sér við það sem gerðist hjá „tígrisdýrunum“ í S-Asíu: Hong Kong, Tævan og Singapúr. Nú er staðan þannig á Írlandi, að þúsundir innflytjenda koma þangað ár hvert í stað þess sem áður var, þegar landflótti var mikill. Sagt var frá því í blöðum, að sjálfstæðisyfirlýsingin frá 1916 hefði verið þýdd á pólsku og kínversku og sett á heimasíðu forsætisráðuneytisins til að þjóna stærstu innflytjendahópunum. Víða í Dublin má sjá verslanir, sem auglýsa sérstaklega, að þær bjóði pólskan varning, einkum matvæli, til sölu og Kínverjar eru áberandi á götum borgarinnar.

 

Í þriðja lagi taldi Tom McGurk að á 90 ára afmælinu gætu menn fagnað gjörbreyttu og betra sambandi Íra og Breta. Nóg væri, að fylgjast með vinarhótunum, þegar þeir hittust forsætisráðherrarnir, Bertie Ahern og Tony Blair, til að átta sig á þessu. Ríkin ættu nú náið samstarf á vettvangi Evrópusambandsins (þau eru bæði utan Schengen, Írar hafa tekið upp evru en ekki Bretar). Þá hefðu Írar og Bretar aldrei áður verið saman í liði í því skyni að hvetja Norður-Írar til að taka upp lýðræðislegri stjórnarhætti.

 

Hinn 6. apríl sl. settu forsætisráðherrarnir hinum stríðandi fylkingum á Norður-Írlandi tímamörk til að ná samkomulagi um endurreisn heimastjórnar í landinu. Yrðu forystumenn kaþólikka og mótmælenda að koma sér saman fyrir 24. nóvember nk. og mynda ríkisstjórn, en heimastjórnarþingið yrði kallað saman 15. maí í þessu skyni. Hefði þingmönnum ekki tekist að koma saman stjórn fyrir 24. nóvember, yrðu þeir sviptir launum sínum og kostnaðargreiðslum en bresk og írsk stjórnvöld tækju aftur við beinni stjórn Norður-Írlands. Heimastjórnarþingið hefur ekki starfað í tæp fjögur ár.

 

Fyrir helgina töldu blöð í Dublin, að allt að 100 þúsund manns myndu fara út á götur Dublin til að fagna hersýningunni á páskadag. Við vorum í þessum hópi og ég sé, að írska ríkisútvarpið telur, að 120 þúsund manns hafi staðið á götunum og horft á 2.500 manna liðsaflann fara fram hjá gangandi og í alls kyns bryndrekum búnum hertólum – klappaði fólkið sveitunum lof í lófa og veifaði fánum. [Í írska hernum eru alls 10. 460 menn (8.500 í landher, 1.100 í flota og 860 í flugher). Írar eru um 4 milljónir, þeir verja tæpum milljarði USD til varnarmála. Þeir ráða ekki yfir neinum orrustuþotum.]

 

Lesa mátti, að ýmsum þætti ekki við hæfi, að minnast uppreisnarinnar með hersýningu. Hátíðin ætti að hafa á sér friðsamlegra yfirbragð. Í leiðara blaðsins Irish Independent var þessari skoðun hafnað með þeim rökum, að nauðsynlegt væri að minna á, að innan írska ríkisins væri aðeins einn lögmætur herafli – ekki ætti að láta Sinn Féin og írska lýðveldishernum eftir að láta eins og annar herafli ætti einhvern rétt á sér.

 

*

 

Ég læt hér staðar numið. Þekking mín á samskiptum Íslendinga og Íra er takmörkuð en fulltrúar ríkjanna sitja gjarnan hlið við hlið á alþjóðafundum, þar sem mönnum er raðað til sætis eftir stafrófsröð ríkja. Ég hef stundum haft orð á því við írska sessunauta mína, að þjóðirnar ættu meira sameiginlegt en fram kæmi í pólitísku samneyti þeirra. Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, kom í stutta opinbera heimsókn hingað í boði Davíðs Oddssonar í júní 2001. Nýlega var Sólveig Pétursdóttir, forseti alþingis, með sendinefnd í opinberri heimsókn til írska þingsins.

 

Þegar við ókum með leigubíl um götur Dublinar og hann forvitnaðist um þjóðerni okkar, sagði hann, að fyrir nokkrum árum, hefði ekki farið fram hjá neinum, þegar Íslendingar komu í verslunarferðir til Írlands. Nú bæri ekki eins mikið á þessu.

 

Hvort sem Íslendingar versluðu mikið eða lítið í Dublin um páskahelgina er ég viss um, að það var ánægður hópur, sem sneri að nýju heim eftir dvölina þar.