25.3.2006

Þjóðmál - Víðsjá - sjálfshjálp gegn hræðslu.

Hinn 20.febrúar 2006 flutti Eíríkur Guðmundsson einn umsjónarmanna Víðsjár  á rás 1 tæplega 7 mínútna ræðu um það, sem hann kallaði víglínur í íslenskri menningarumræðu. Kveikjan að þessari ræðu Eiríks var grein eftir Jóhann Hjálmarsson, skáld og blaðamann,  í Morgunblaðinu 19. febrúar, þar sem hann fór nokkrum lofsamlegum orðum um tvö fyrstu hefti tímaritsins Þjóðmála og sagði meðal annars:

 

„Tímarit frá hægri er gott mótvægi við hin fjölmörgu rit sem skrifuð eru af vinstrimönnum eða einhvers konar vinstrimönnum. Þjóðmál hefur þann kost að vera fjölbreytt.“

 

Þriðja hefti Þjóðmála kom út um síðustu helgi og hafa greinar í því vakið nokkrar umræður, ekki síst grein Guðbergs Bergssonar rithöfundar um Halldór Laxness.  Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar viðtal við Guðberg í Blaðið 25. mars og spyr: Þú skrifaðir grein í Þjóðmál um Halldór Laxness og þær ævisögur sem hafa nýlega verið skrifaðir um hann. Finnst þér Halldór Laxness vera ofmetinn? Guðbergur svarar:

 

„Ég held hann sé fyrst og fremst lágmetinn. Andleg dusilmenni hafa stutt hann og aldrei hefur verið fjallað um verk hans af neinu viti. Það er heldur ekki gert í þessum ævisögum. Þetta er samtíningur, eins og verið sé að skrá eigu dánarbús. Bækur sem eru skrifaðar þannig eru lélegar ævisögur.“

 

Ég er ekki sammála Guðbergi um bækur Hannesar Hólmsteins um Laxness eins og ég lýsi í ritdómi um síðasta bindi ævisögunnar í Þjóðmálum.

 

Í samtalinu við Kolbrúnu segir Guðbergur skoðun sína á íslenskum glæpasögum og segir meðal annars: „Glæpasögur íslenskra höfunda eru eins og Biblíusögur fyrir tíu ára bekk með breskum áhrifum. Lögregluforinginn er að hugsa um það hvort konan hans sé búin að láta í þvottavélina. Þetta er svo eldhúslegt. Sambland af Biblíusögum fyrir tíu ára bekk og breskum útvötnuðum skáldsögum.“

 

Eftir þennan útúrdúr ætla ég að víkja aftur að því, sem sagt var í Víðsjá 20. febrúar í ræðunni um Þjóðmál.

 

Eiríkur Guðmundsson segir:

 

„Fram kemur í grein Jóhanns að um þessar mundir fari í taugarnar á Jakobi [F. Ásgeirssyni, ritstjóra Þjóðmála] heldur leiðinleg smáklíka sem kennd hefur verið við póstmódernisma og er dálítið áberandi í fjölmiðlum því sellufélagar hafa hreiðrað um sig á tveimur stórum fjölmiðlum, Ríkisútvarpinu og Morgunblaðinu. Þátturinn Víðsjá er nefndur í þessu samhengi og grein Jóhanns sem og Lesbók Morgunblaðsins. Um hjarta okkar þvert liggur hræelduð víglínan dregin en orrustan geisar í heitu höfði okkar, orti Sigfús Daðason í bók sinni Hendur og orð frá árinu 1959. Og nú kunna, ágætu hlustendur, einhverjir að velta því fyrir sér hvar víglínur vorra daga liggi nú þegar Morgunblaðið í formi Jóhanns Hjálmarssonar, fagnar hægri sinnuðu mótvægi við skrif vinstri manna eða einhvers konar vinstrimanna svo gripið sé til orðalags Jóhanns nú árið 2006.

 

Í huga tiltekinna hægrimanna er víglínan algjörlega á hreinu, a.m.k. ef marka má skrif Jakobs F. Ásgeirssonar, Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra og fleiri. Vinstrimenn hafa í augum þessara manna breyst í póstmódernista, án þess að sú fullyrðing sé rædd frekar. Hugtakið póstmódernisma nota menn oftar en ekki af vanþekkingu. Það liggur enginn beinn vegur frá vinstrimennsku yfir í póstmódernisma eða póststrúktúralísk fræði en víglínan í huga fyrrnefndra manna er engu að síður algjörlega á hreinu og hún er ein og aðeins ein.

 

Sumir svokallaðir hægrimenn hafa ekki áttað sig á því að tímarnir líða. Í Reykjavík er t.d. komin fram á sjónarsviðið kynslóð rithöfunda og menntafólks sem gefur ekkert fyrir hinar grútfúlu víglínur kalda stríðsins og vita sem er að línan er ekki lengur ein heldur eru þær fjölmargar og skerast þvers og kruss. Víglínan liggur ekki lengur milli hægri og vinstri þegar kemur að umræðu um menningarástand, hún hlykkjast á milli hins háa og lága, þess gamla og nýja án þess að skera nokkurn hlut í tvennt. Hún tekur u-beygjur og snýst í hringi.

 

Á sama tíma setja menn íhalds og frelsis enn við varðeldinn, líta til himins og sjá þar dularfulla víglínu, jafnvel heilu sellufundina. Fátt er hlálegra en að draga jafnaðarmerki milli postmodernisma og vinstrimennsku. Margt af því sem áhrifamestu hugsuðir postmodernismans hafa skrifað verður ekki beintengt við róttæka vinstristefnu. Í sumum tilfellum er áhersla poststrúktúralískra forkólfa meiri á einstaklinginn og sjálfsköpun hans á eigin forsendum, svo aðeins eitt dæmi sé tekið. En um það skeyta víglínumenn ekki og slíka víglínumenn má, vel að merkja, finna báðum megin línunnar.

 

Jakob F. talar um það sem hann kallar ráðandi klíku vinstrimanna í bókmenntaheiminum og virðist ekki hafa áttað sig á því að hin pólitíska bókmenntaumræða á Íslandi hefur um árabil ekki skilað nokkrum sköpuðum hlut öðrum en leiðindum. Umræðan hefur a.m.k. ekki orðið til þess að auka skilning á bókmenntum. Við getum tekið dæmi af hinum óformlegu réttarhöldum yfir Halldóri Laxness sem staðið hafa yfir á undanförnum árum. Sú umræða hefur ekki sagt okkur margt um skáldið Halldór Laxness. Að halda slíkri umræðu áfram er glapræði og alls ekki til þess fallið að auka skilning á skáldskap eða menningu almennt. Að grípa til hinnar gömlu vopna og beina þeim að samtímanum er heldur ekki vænlegt til árangurs.

 

En að einhverju leyti má þó segja að pirringur Jakobs F. Ásgeirssonar og fleiri hægrimanna í lítilli klíku en sannarlega áhrifamikill á vettvangi stjórnmála en ekki menningarmála sé skiljanlegur. Þröngsýnin hefur ekki síður átt athvarf meðal vinstrimanna og það eru jú þeir sem hafa starfað sem safnverðir og forstöðumenn íslenskrar menningar. En til að brjóta upp þröngsýna og lítt skilningsaukandi umræðu er ekki rétt að fara í gömlu skotgrafirnar og hlaða þar sandpokavirki úr orðum eins og hægri og vinstri, frelsi og íhald. Skilningsleysi stendur umræðunni fyrir þrifum svo lengi sem vinstrimenn og postmodernistar eru spyrtir saman. Misskilningurinn er í besta falli hlægilegur í því versta sorglegur. En líklega þýðir ekkert um þetta að ræða. Við höfum áður höggvið í sama knérunn hér í Víðsjá en það virðist einfaldlega vera á tali....

 

Ég segi ágætu hlustendur, ef eitthvað er yfirborðskennt og einhliða þá er það gömul umræða um vinstriklíkur og sellur, viðleitni til að taka upp hundfúla merkimiða og klína þeim af algjöru þekkingarleysi á þá sem ekki kæra sig um slíka miða. Um hjarta okkar þvert liggur hræelduð víglínan dregin en orrustan geisar í heitu höfði okkar, orti Sigfús Daðason.

 

Víðsjá óskar Jakobi F. Ásgeirssyni velgengni með tímaritið Þjóðmál en spyr um leið, eigum við ekki að endurnýja orðin, líkingarnar og takast á um eitthvað annað en fjörbrot lítillar valdaklíku sem ræður miklu en sem betur fer ekki öllu.“

 

Ef sú litla klíka, sem Eiríki er svo tíðrætt um í þessari ræðu sinni, hefði aðgang að hljóðnema ríkisins til að flytja boðskap sinn eins oft og Eiríkur gerir, heyrðist áreiðanlega hljóð úr horni vinstrisinna, hvort sem þeir eru póstmódernistar eða ekki.  Spyrja má: Væri ekki í samræmi við reglur ríkismiðilsins um óhlutdrægni, að við, sem nefndir erum í ræðu Eiríks, fengjum tæpar sjö mínútur eins og hann til segja okkar hlið á málinu?

 

Nú er fyrsta hefti Þjóðmála árið 2006 komið út og þar segi ég frá umræðum um stjórnmál, sem kennd eru við óttann, þegar leitast er við að skýra stjórnmálaumræður handan ágreinings milli vinstri og hægri og vitna ég þar í enska félagsfræðinginn Frank Furedi, en hann hefur ritað bók um efnið. Furedi er gagnrýnin á yfirborðslegan og lítt ígrundaðan pólitískan boðskap  póstmódernista, en almennt hallast þeir frekar til vinstri en hægri, ef sá kvarði er notaður – hvað svo sem Eiríki Guðmundssyni finnst um það.

 

Í Þjóðmálum verður líklega einhvern tíma fjallað um nýja bók eftir Andra Snæ Magnason Draumalandið, en hún virðist öðrum þræði snúast um stjórnmál óttans ef marka má frásögn Hávars Sigurjónssonar í Lesbók Morgunblaðsins 25. mars en þar lýsir Hávar áhrifum bókarinnar á þennan hátt:

 

„Finnur til hræðslu. Líklega þeirrar hræðslu sem Andri Snær á við í undirtitli bókarinnar. Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Hræðslan er margþætt og erfitt að stíga yfir hana. Hræðsla við hvað verður um þetta land og þessa þjóð og hvers vegna hefur ekki tekist að sannfæra þjóðina um ágæti sitt og hvers vegna trúir hún því að velsældin liggi í virkjunum og stóriðju með tilheyrandi náttúruspjöllum og virðist óttast hugmyndir um sjálfbærar atvinnugreinar, hugmyndaflug, orku og kraft þegar talað er um framtíðina.“

 

Ef marka má umræður þessa daga, hefði Andri Snær frekar átt að skrifa sjálfshjálparbók um það, hvernig sigrast skuli á ótta við verðhrun innan bankakerfisins, en um það, hvernig unnt er að vinna að öruggri sköpun verðmæta í landinu með því að nýta gæði þess.