12.3.2006

Baugsmiðlar anno 2006.

Áhugi minn á framgangi Baugsmiðlanna er alkunnur og vegna hans hefur meðal annars verið borið undir hæstarétt, hvort ég hafi þrengt hæfi mitt sem dómsmálaráðherra með orðum um þessa miðla hér á síðunni. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu, að svo væri ekki. Hér birti ég því samantekt um stöðu Baugsmiðlanna núna um miðjan mars árið 2006.  Ekkert af þessu er að vísu frumsamið heldur byggt á því,  sem birst hefur í Morgunblaðinu frá áramótum, dagsetningar vísa til birtingardags í blaðinu. Þá leyfði dr. Guðbjörg Hildur Kolbeins mér að nota upplýsingar úr erindi, sem hún flutti á málþingi um fjölmiðla hinn 22. febrúar sl. auk þess sem ég vitna í grein, sem Heiða Jóhannsdóttir ritaði í Lesbók Morgunblaðsins hinn 25. febrúar sl.

14. janúar 2006:

BAUGUR Group er stærsti hluthafi í Dagsbrún hf. með 28,85%. Næststærsti hluthafi er Runnur ehf. sem er Mogs, félag í eigu þeirra Magnúsar Ármann og Sigurðar Bollasonar, auk Byggs, Saxhóls, Vífilfells og Fjárfestingarfélagsins Primus, sem er í eigu Hannesar Smárasonar.

Landsbanki Íslands er skráður fyrir samtals 17,85% hlut en langstærstur hluti þeirrar eignar er vegna framvirkra samninga. Það sem eftir stendur er skráð í veltubók bankans sem felur í sér að Landsbankinn nýtir ekki atkvæðisrétt sinn í félaginu og hefur þar með engin áhrif innan þess.

Grjóti ehf. sem er sjötti stærsti hluthafi er félag sem að mestu leyti er í eigu Baugs og eignarhaldsfélagsins Fengs.

Dagsbrún hf. er eignarhalds- og fjárfestingarfélag á sviði fjarskipta, fjölmiðlunar og afþreyingar. Dótturfélög þess eru Og fjarskipti, 365 ljósvaka- og prentmiðlar og Pf. Kall í Færeyjum.

25. janúar 2006:

DAGSBRÚN hefur keypt allt hlutafé í Securitas af Sjóvá-Almennum tryggingum. Greitt verður fyrir hlutafé Securitas með hlutabréfum í Dagsbrún, samtals að nafnverði 421,2 milljónir króna sem eru rúmlega 2,4 milljarðar króna miðað við gengi Dagsbrúnar á markaði í gær en það var 5,82 krónur á hvern hlut. Ef gengi Dagsbrúnar er hærra en 7,5 í lok árs 2006 verður ekki um frekari greiðslur að ræða. Viðbótargreiðsla getur þó aldrei orðið hærri en 632,3 milljónir króna en lækkar hlutfallslega frá genginu 6.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Samhliða sölu á hlutabréfunum í Securitas hefur Sjóvá gert samning við Milestone um sölu á bréfunum í Dagsbrún þegar skilmálar viðskiptanna hafa verið uppfylltir.

Í fréttatilkynningu frá Dagsbrún segir að markmiðið með kaupunum sé að breikka þjónustuframboð og efla þannig enn frekar viðskiptasambönd félagsins við einstaklinga, fyrirtæki og heimili.

„Fyrirtæki Dagsbrúnar, Og Vodafone og 365, bjóða heimilum nú þegar fjölþætta þjónustu á sviði fjarskipta og fjölmiðla. Nú mun Dagsbrún einnig bjóða öryggisgæslu. Kaupin á Securitas falla því vel að stefnu Dagsbrúnar að styrkja og efla þá þjónustu sem félagið veitir heimilum og fyrirtækjum á landinu,“ segir Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrúnar, í tilkynningunni.

1.800 milljóna velta

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að áætluð velta Securitas á árinu 2006 sé 1.800-1.850 milljónir króna. Áhrif fjárfestingarinnar á hagnað Dagsbrúnar fyrir fjármagnsliði og skatta eru áætluð á bilinu 280-300 milljónir króna á yfirstandandi rekstrarári. Vaxtaberandi skuldir Securitas nema um 300 milljónum króna.

Þá seldi Riko Corporation, sem er í eigu Sigurðar Ásgeirs Bollasonar og Magnúsar Ármanns, 5,62% hlut sinn í Dagsbrún. Magnús Ármann er stjórnarmaður í Dagsbrún. Milestone, sem er í eigu Karls Wernerssonar, Steingríms Wernerssonar og Ingunnar Wernersdóttur, keypti hlutinn og á eftir viðskiptin 7,9% í Dagsbrún.

7. febrúar 2006:

DAGSBRÚN hf. hefur skrifað undir samning um kaup á öllu hlutafé Senu, með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda, að því er segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Sena er hluti af Degi Group og með kaupunum fylgir tónlistarútgáfa, umboð fyrir tölvuleiki, tónlist og kvikmyndir, bíórekstur, hljóðver, tónlistarveitan tónlist.is og allur annar rekstur Dags Group sem heyrir undir afþreyingarsvið.

Greitt verður fyrir kaupin annars vegar með 1.600 milljónum króna í reiðufé og hins vegar með hlutafé í Dagsbrún að nafnvirði um 267 milljónir króna. Í tilkynningunni segir að verði gengi Dagsbrúnar hærra en 7,5 í lok árs 2006 verði ekki um frekari greiðslur að ræða. Verði gengi Dagsbrúnar lægra en 7,5 kemur til viðbótargreiðslu sem getur þó aldrei orðið hærri en 400 milljónir króna og lækkar hlutfallslega frá genginu 6.

Áætluð velta Senu á árinu 2006 er 2.650 til 2.850 milljónir króna.

15. febrúar 2006:

FORSTJÓRI Dagsbrúnar, Gunnar Smári Egilsson, hefur keypt 30,8 milljónir hluta í félaginu á genginu 5,54 eða fyrir um 170 milljónir króna. Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að um sé að ræða sölu á eigin bréfum til forstjórans samkvæmt sérstökum samningi. Eftir kaupin á Gunnar Smári um 1,15% hlut í Dagsbrún en hann og aðilar honum tengdir eiga til samans um 1,8% hlut í Dagsbrún.

18. febrúar 2006:

ÞAÐ ER lágmarkskrafa að Ríkisútvarpið dragi sig út af auglýsingamarkaði, að því er fram kom í ræðu Þórdísar J. Sigurðardóttur, stjórnarformanns Dagsbrúnar hf. á aðalfundi félagsins sem fram fór í gær. Þórdís sagði að það væri ótrúlegt að á sama tíma og Dagsbrún væri í mikilli sókn virtist sem afskipti ríkisvaldsins eða aðgerðaleysi ætlaði að reynast því þrándur í götu. Nefndi hún þar sérstaklega frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. og úrræðaleysi eftirlitsaðila á fjarskiptamarkaði. Hvað frumvarpið varðar benti hún á að samkvæmt því væri gert ráð fyrir að auk ríflegra ríkisstyrkja fengi ríkisútvarpið einnig að keppa á auglýsingamarkaði. „Allir hljóta að sjá hversu undarleg þessi staða er, auk þess sem sterkar raddir hafa komið fram með að frumvarpið standist ekki reglur um ríkisstyrki. Það hlýtur því að vera lágmarkskrafa að ríkisútvarpið dragi sig að minnsta kosti út af auglýsingamarkaði,“ sagði Þórdís.

23. febrúar 2006:

BAUGUR hefur bætt við eign sína í Dagsbrún, móðurfélagi 365 miðla, Og Vodafone og fleiri félaga. Tilkynnt var til Kauphallar í gær um kaup á 101 milljón hlutum. Miðað við lokagengi bréfa Dagsbrúnar á þriðjudag var andvirði viðskiptanna um 645 milljónir króna. Hlutur Baugs fór úr 28,85% í 31,18% en ekki var upplýst um seljendur bréfanna.

7. mars 2006:

EIGNARHALDSFÉLAGIÐ Milestone ehf., sem er í eigu Karls Wernerssonar, Ingunnar Wernersdóttur og Steingríms Wernerssonar, hefur aukið hlut sinn í Dagsbrún úr 8,39% í 16,77%. Fram kemur í tilkynningu til Kauphallar Íslands, að Milestone hafi keypt 8,39% hlut af Sjóvá í janúar vegna sölunnar á Securitas til Dagsbrúnar.

Nýr hluthafalisti var birtur í Kauphöllinni í gær og samkvæmt honum er Baugur Group stærsti hluthafinn með 24,9% hlut. Á þeim lista er Milestone skráð fyrir 8,39% hlut en samkvæmt flöggun er sá hlutur kominn í 16,77%. Að öðru óbreyttu er Milestone því annar stærsti hluthafinn.

 

Hvað á Dagsbrún?

 

23. febrúar 2006:

Sagt frá málþingi um fjölmiðla sem menntamálaráðuneytið og Rannsóknarsetur um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands stóðu 22. febrúar 2006. Til málþingsins var boðað í tilefni af því að verið er að vinna lagafrumvarp upp úr tillögum nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla.

Í frásögn Morgunblaðsins kemur fram, að tilboðsstríð sem ríkir um þessar mundir í kaupum á erlendu sjónvarpsefni hér á landi þýði að sjónvarpsefni hafi á skömmum tíma fimmfaldast í verði. Íslendingar greiði nú svipað verð fyrir bandarískt sjónvarpsefni á klukkustund og Danir, sem séu fimm milljóna manna þjóð.  Var talið á málþinginu, að þessi þróun væri áhyggjuefni enda kæmi hún illa við jafnt við fyrirtæki sem neytendur. Þeir, sem keppa um efnið eru ríkisútvarpið, Skjárinn og Dagsbrún.

Dr. Guðbjörg Hildur Kolbeins fjölmiðlafræðingur við félagsvísindadeild Háskóla Íslands flutti erindi á málþinginu. Hún veitti mér aðgang að erindi síni, en ekki var á það minnst í frásögn Morgunblaðsins af málþinginu. Í erindi Guðbjargar Hildar kom meðal annars eftirfarandi fram, þegar hún ræddi um Dagsbrún, en ég setti eignarhald Baugs í félaginu, 24,9%, innan hornklofa – eignarhaldið er nú rétt undir þeim 25%, sem rætt hefur verið um við gerð nýs fjölmiðlafrumvarps.

 

Dagsbrún (Baugur 28,85% [nú 24,9])

        Hlutdeildarfélög

                    - SagaFilm

                   - Ísafoldarprentsmiðja

                   - Pósthúsið

                   - ISNIC

 

365 ljósvakamiðlar

          - sex lokaðar sjónvarpsrásir (Stöð 2, Stöð 2 bíó, Sýn, Sýn extra,    NFS, PoppTíVí)

          - ein opin rás (Sirkus)

          - endurvarp (Digital Ísland)

          - fimm útvarpsrásir (Bylgjan, Létt, Talstöðin, FM957,X-ið)

365 prentmiðlar

          - tvö dagblöð (Fréttablaðið, DV)

          - vikublað (Markaðurinn)

          - fjögur tímarit (Birta, Veggfóður,Sirkus, Hér og Nú)

365 netmiðlar

          - visir.is

          - Netleiðir (iPlús og Birta Vefauglýsingar?)

             langöflugasta fyrirtækið í netauglýsingum

            - markaðsrannsóknir (Plúsinn og Fimman).

Sena

          - umboð fyrir tölvuleiki, tónlist og kvikmyndir

          - þrjú kvikmyndahús

          - þrjú hljóðver

          - stærsti innlendi útgefandinn í tónlist

          - eigandi að stórum hluta að allri útgefinni íslenskri tónlist

.D3

          - dreifir og selur tónlist í gegnum tonlist.is

          - selur myndefni, tölvuleiki og hringitóna á Netinu

          - BT-net og SMS-þjónusta.

Og Vodafone

           - fjarskiptaþjónusta (GSM, landlína, ADSL)

           - Vodafone live

           - gemsinn sem afþreyingartæki.

Securitas.

 Ofurfjölmiðlafyrirtæki.

Eins og áður sagði var ekki sagt frá erindi dr. Guðbjargar Hildar í Morgunblaðinu 23. febrúar en hinn 25. febrúar ritaði Heiða Jóhannsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu greinina Ofurfjölmiðlafyrirtæki í Lesbók blaðsins og byggðist hún á erindi dr. Guðbjargar Hildar auk þess sem Heiður setur umsvif Dagsbrúnar í stærra samhengi. Þar sagði meðal annars:

„[H]efur hægt og bítandi orðið til fjölmiðlasamsteypa, sem án efa á sér fáa líka í heiminum hvað varðar sameiningu á margþættri starfsemi á sviði fjarskipta og fjölmiðlunar undir einum hatti. Fjölmiðlasamsteypa þessi kennir sig við rótgróið verkamannafélag en á að öðru leyti lítið skylt við nöfnu sína Dagsbrún annað en að kallast félag. Umrætt félag rekur sem flestum er kunnugt 365 prent- og ljósvakamiðla, sem halda úti þónokkrum dagblöðum, tímaritum, sjónvarpsstöðvum, útvarpsstöðvum og netmiðli. Hér mætti færa rök fyrir því að stærðar- og rekstrarhagkvæmni geri fjölmiðlunum kleift að bjóða neytendum upp á fjölbreytt og vandað efni. Dæmi hver fyrir sig, en sögunni lýkur ekki hér.

Með því að eignast framleiðslufyrirtækin Sagafilm (og Storm) sem áður deildu milli sín innlenda markaðnum í sjónvarpsþátta- og auglýsingaframleiðslu hefur móðurfélagið Dagbrún náð undirtökunum í þeim geira. Þá keypti félagið Senu í byrjun mánaðarins og bættust þá nýjar víddir við umsvif fyrirtækisins, þar á meðal tónlistarútgáfa, umboð fyrir tölvuleiki, tónlist og kvikmyndir, bíórekstur, hljóðver og tónlistarveitan tónlist.is. Sena er með um það bil helminginn á íslenskum markaði fyrir kvikmyndadreifingu og sýningu, sem verður að teljast nokkuð öflug viðbót við afþreyingarumsvif félagsins. D3 fylgdi einnig með í kaupunum, en það er efnisveita afþreyingarefnis fyrir stafræna miðla, m.a. farsíma, netið og gagnvirkt sjónvarp. Þá kemur við nánari skoðun í ljós að meðal hlutdeildarfélaga Dagsbrúnar er Internet á Íslandi hf. (ISNIC), fyrirtæki sem Samtök um upplýsinganet rannsóknaraðila á Íslandi ráku áður og annast úthlutun léna. Kaup Dagsbrúnar á öryggisþjónustufyrirtækinu Securitas vísa síðan til framsýni fjölmiðlasamsteypunnar sem hyggst væntanlega bæta öryggisþjónustu í gegnum margmiðlunarkosti farsímans í hinn ómótstæðilega heildarlausnapakka á sviði fjarskipta, fjölmiðla og afþreyingar til viðskiptavina sinna.

Hér gegnir rekstur félagsins á fjarskiptafyrirtækinu Og Vodafone jafnframt lykilhlutverki. Þeir sem vilja tryggja sér aðgang að hinni nýju stafrænu sjónvarpsstöð 365 ljósvakamiðla, Digital Ísland, þurfa því að fá sér nettengingu í gegnum umrætt fyrirtæki og láta Símann eiga sig. Síminn reynir hins vegar að lokka til sín áskrifendur með því að reka sjónvarpsstöðina Skjáinn, og þurfa neytendur vitanlega að fá sér nettengingu hjá Símanum vilji þeir hafa aðgang að stafrænu sjónvarpi Skjásins. Stór hluti beggja stóru fjölmiðlafyrirtækjanna, þ.e. Dagsbrúnar og Símans-Skjásins, tilheyrir síðan eignarhaldsfélögum (Baugur annars vegar og Exista hins vegar) sem eru með mikil umsvif á mörgum sviðum í íslensku atvinnu- og fjármálalífi.

Guðbjörg Hildur Kolbeins fjölmiðlafræðingur kortlagði umsvif þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem keppa nú á markaðnum í erindi sem hún hélt á málþinginu um fjölmiðla í vikunni og staldraði þar nokkuð við umfangsmikil umsvif Dagsbrúnar. Eins og Guðbjörg benti á eru möguleikar nýrra aðila til að komast inn á t.d. ljósvakamarkað litlir sem engir. Eins og staðan er nú er einfaldlega ekki hægt að keppa við þá aðila sem fyrir eru, og blasa hindranir við bæði þegar kemur að því að tryggja dreifileiðir og aðgang að afþreyingarefni. Þannig hefur Sjónvarpið t.d. forgangsrétt að evrópsku gæðaefni, á meðan ljósvakamiðlar Dagsbrúnar geta nú í krafti stærðar sinnar gert einkaréttarsamninga um sjónvarpsefni, líkt og þeir hafa þegar gert við fjölmiðlarisana Warner og Fox um einkarétt á dreifingu sjónvarpsefnis sem þeir framleiða.“

 Til frekari glöggvunar.

iPlús er markaðsrannsóknarfyrirtæki sem er með 50.000 manns á öllum aldri á skrá hjá sér - fólk sem er tilbúið til að taka þátt skoðanakönnunum. Fimman er fyrir yngra fólkið og Plúsinn fyrir það eldra. Sagt er, að Netleiðir sé langöflugasta fyrirtæki landsins í netauglýsingum og öðru slíku.


Heiða Jóhannsdóttir bendir á það í Lesbókinni, að eftir kaupin á Saga Film var fyrirtækið sameinað öðru framleiðslufyrirtæki, Storm. Sameinað fyrirtæki Saga Film og Storm mun framleiða hundruð auglýsinga á ári og vera langstærst á þessum markaði. Þá samdi Dagsbrún um það við Dagur Group um leið og Sena var keypt, að framleiðslufyrirtækið BaseCamp, sem annaðist meðal annars forkeppni sjónvarpsins vegna Evróvisjónkeppninnar hyrfi af markaðnum, og hefur það verið lagt niður.

 

Eins og kunnugt er hefur Og Vodafone nú farið inn á þá braut að bjóða viðskiptavinum ókeypis heimasímtöl, ef þeir eru í sérstökum vildarklúbbi en 9. mars 2006 birtist þetta á vefsíðu fyrirtækisins: „Árni Pétur Jónsson, forstjóri Og Vodafone, segir að markmiðið sé að verðlauna þá viðskiptavini sem hafi allt sitt hjá fyrirtækinu. „Til að ganga í vildarklúbb okkar, Og1 þarft þú að vera með farsíma, heimasíma og ADSL tengingu hjá okkur. Við viljum hugsa vel um viðskiptavini okkar og verðlauna þá fyrir þá tryggð sem þeir sýna okkur,“ segir Árni Pétur.“

Ekki er ólíklegt, að sama lögmál verði látið gilda um viðskiptavini Dagsbrúnar á öðrum sviðum, til dæmis verði sagt við auglýsendur:

„Við framleiðum fyrir þig auglýsinguna, ef þú auglýsir aðeins hjá okkur.“ Á aðalfundi Dagsbrúnar kvartaði stjórnarformaður undan því, að ríkisútvarpið hefði rétt til að birta auglýsingar.

Með kaupunum á Senu hefur verið tryggður sýningarréttur á kvikmyndum frá því þær eru sýndar í kvikmyndahúsum Dagsbrúnar (Smárabíói og Regnboganum) og þangað til þær eru sýndar ókeypis í Sirkusnum.

Í grein Heiðu Jóhannsdóttur segir, að 365 ljósvakamiðlar  hafi gert samning við Fox og Time-Warner, en í honum mun felast, að fyrirtækið kaupir allt sjónvarpsefni sem þessi bandarísku stórfyrirtæki framleiða og þar með eiga keppinautarnir engan aðgang að þessu sama efni. Warner framleiðir  til dæmis um 50 sjónvarpsþáttaseríur í vetur.  Eins og áður er sagt, er nú verið að greiða sama verð fyrir þetta efni fyrir íslenska 300 þúsund manna markaðinn og Danir greiða fyrir sinn fimm milljón manna markað./