22.1.2006

Norðlingaalda – Vatnsmýri – umhverfisvernd – Strætó.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag, 22. janúar, má lesa, að sjálfstæðismenn fengju níu borgarfulltrúa af fimmtán í Reykjavík ef gengið yrði til kosninga nú samkvæmt nýrri skoðanakönnun blaðsins. Sjálfstæðisflokkurinn fengi tæp 53%, (9 menn) Framsóknarflokkurinn 5,5% (0), Frjálslyndi flokkurinn 3% (0), Samfylking 31% (5) og vinstri/grænir rúm 8% (1).

 

Könnunin var gerð laugardaginn 21. janúar en í vikunni var Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi frjálslyndra, sérstaklega í sviðsljósinu vegna tillögu hans í borgarstjórn þriðjudaginn 17. janúar um að fallið yrði frá Norðlingaölduveitu og Þjórsárver friðuð. Flutti Ólafur lofræðu um baráttu sína og annarra í þágu umhverfisverndar á borgarstjórnarfundinum og taldi samþykkt tillögu sinnar marka söguleg tímamót. Allt var þetta þó hrein sýndarmennska, þar sem ljóst var, áður en til fundarins var gengið, að Norðlingaölduveita yrði sett á ís, þar sem niðurstaða hefði ekki fengist í skipulagsferli vegna hennar og mundi ekki fást fyrr en eftir nokkur misseri ef ekki ár og Landsvirkjun ætlaði að huga að öðrum kostum til virkjunar í Þjórsá til að framleiða nauðsynlegt rafafl í þágu nýs álvers eða stærra álvers við Straumsvík.

 

R-listafólkið bætti við tillögu Ólafs F. setningu um, að í stað virkjunarframkvæmda í Þjórsárverum yrði því beint til Landsvirkjunar, að fyrirtækið skoðaði möguleika á uppbyggingu gufuaflsvirkjana, sem væru umhverfisvænni kostur en vatnsaflsvirkjanir. Þessi setning varð til þess að framsóknarmenn í borgarstjórn, undir forystu Alfreðs Þorsteinssonar, stjórnarformanns gufuaflsfyrirtækisins Orkuveitu Reykjavíkur, töldu sér fært að styðja tillögu Ólafs F.

 

Hafi Ólafur F. búist við því, að þessi tillaga hans í borgarstjórn yrði til að auka fylgi hans meðal borgarbúa, hlýtur hann að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með  niðurstöður í nýjustu könnun Fréttablaðsins, því að þær sýna enn og aftur, að frjálslyndir eru langt frá því að fá Ólaf F. endurkjörinn í borgarstjórn.

 

Í borgarstjórn hafa þeir keppst um að slá sig til riddara í nafni umhverfisverndar Ólafur F. og vinstri/grænir undir forystu Árna Þórs Sigurðssonar, formanns umhverfisráðs borgarinnar. Könnun Fréttablaðsins sýnir veika stöðu vinstri/grænna meðal borgarbúa og alls ekki, að almenningur sé sérstaklega að snúast á sveif með þeim, sem mest tala um umhverfismál og telja náttúrunni ekki borgið nema þeir hafi sem mest völd og áhrif til að hindra virkjanir.

 

Spyrja má: Hvers vegna skyldu Reykvíkingar treysta R-listanum, vinstri/grænum og Ólafi F. sérstaklega vel í umhverfismálum? Hvað hafa þessir stjórnmálamenn gert til að efla umhverfisvernd í Reykjavík eða bæta umhverfið? Ég held, að allir sanngjarnir menn lendi í vandræðum með að benda á eitthvað því til stuðnings. Hitt er miklu nærtækara fyrir Reykvíkinga að benda á það, sem miður hefur farið.

 

Ég nefni Vatnsmýrina og ítreka andstöðu mína við, að byggt verði yfir Háskólann í Reykjavík milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar. Ég verð var við, að æ fleiri hallast að minni skoðun um að þetta staðarval sé hið mesta óráð fyrir skólann. Hann er dæmdur til að einangrast þarna í skipulagslegum botnlanga fyrir utan þau náttúruspjöll, sem framkvæmdunum fylgja á þessum einstaklega viðkvæma stað, griðlandi fugla og gróðurs.

 

Einangrun skólans blasir betur við en áður, eftir að Hringbrautin hefur verið lögð eins og ný flugbraut við norðurenda flugvallarins og birtar hafa verið útlitsteikningar af nýju hátæknisjúkrahúsi, sem myndar eins og virkisvegg í suðurjaðri miðborgarinnar gagnvart Vatnsmýrinni. Þau rök, að skólinn flytjist nær miðborginni með þessu staðarvali standast alls ekki.

 

Í borgarstjórn fluttum við sjálfstæðismenn tillögu um, að fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Háskólans í Reykjavík færu í umhverfismat, henni var hafnað með atkvæðum vinstri/grænna og Ólafs F. Þessum borgarfulltrúum vex ekki í augum að samþykkja tillögu, sem gengur þvert á allt samráðsferli vegna Norðlingaölduveitu og er ætlað að hrifsa málið úr höndum lögmætra samráðsaðila um það, en þeir mega ekki til þess hugsa, að metin verði umhverfisáhrif stórframkvæmdar á milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar.

 

Þegar ráðist var í að flytja Hringbrautina, var það gert með því fororði af hálfu R-listans, að sérstaklega yrði hugað að vernd Vatnsmýrarinnar vegna flutningsins. Nýlega var síðan birt skýrsla, sem bar með sér að þessi þáttur málsins, það er vernd Vatnsmýrarinnar og þó sérstaklega friðlands fugla þar hefði farið í handaskolum.

 

Morgunblaðið hefur tekið undir með þeim, sem vilja Háskólann í Reykjavík á hið viðkvæma svæði í Vatnsmýrinni og ekki hefur þess orðið vart, að blaðið leggi okkur neitt lið, sem viljum, að þar sé gengið fram af virðingu fyrir umhverfinu. Í tilefni af skýrslunni um röskun lífríkisins vegna flutnings Hringbrautarinnar sagði Morgunblaðið hins vegar í leiðara hinn 29. desember sl.:

 

„Umdeild færsla Hringbrautarinnar hefur sýnt svo ekki verður um villst að umræða og upplýsing meðal almennings í mótunarferli stórra skipulagsverkefna er ekki nándar nærri nógu virk. Þótt borgarbúar sýndu í raun frekar lítinn áhuga á Hringbrautarumræðunni á þeim tíma sem slík skoðanaskipti hefðu getað haft áhrif á framkvæmdina er ljóst nú þegar reynsla er komin á hana að annmarkarnir á henni eru margir. Hún hefur m.ö.o. ekki haft nægilega mikil áhrif sem samgöngubót til að það réttlæti þau miklu áhrif sem brautin hefur nú á umhverfi borgarbúa - ekki síst í félagslegum skilningi.

 

Það bætir heldur ekki úr skák þegar fram koma upplýsingar sem benda til þess að skilyrði er varða verndun náttúrunnar innan borgarmarkanna hafi ekki enn verið uppfyllt við framkvæmdina, þ.e.a.s. að ekki hafi verið gengið frá borgarfriðlandinu í Vatnsmýrinni með viðunandi hætti.

 

Í skýrslu sem þeir Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson skrifuðu í september sl. og lögð var fram á fundi umhverfisráðs borgarinnar í síðustu viku kemur fram að „enn [sé] allt ófrágengið sem að friðlandinu snýr“. Í skýrslunni kemur einnig fram að ástand fuglastofna sem halda til við Tjörnina í Reykjavík sé með versta móti í ár og afkoma unga hafi ekki verið verri um langt skeið.

 

Á þeim tíma sem bygging Ráðhúss Reykjavíkur stóð yfir komu fram háværar raddir þeirra er óttuðust að lífríki Tjarnarinnar myndi bíða óbætanlegan skaða vegna þess rasks sem fylgdi framkvæmdinni. Sá skaði varð ekki. Ekki hefur borið mikið á slíkum röddum í tengslum við færslu Hringbrautarinnar, þrátt fyrir að raskið þar væri verulegt og skaðinn sé greinilega þegar farinn að segja til sín í fuglalífinu. Öllum - ekki síst yfirvöldum - ætti þó að vera ljóst að viðgangur flóru og fánu í borgarumhverfi á norðurhjara verður ekki tryggður nema ýtrustu varúðar sé gætt. Eins og segir í skýrslu þeirra Ólafs og Jóhanns Óla er „tilgangurinn með borgarfriðlandi í Vatnsmýrinni [...] að tryggja Tjarnarfuglum örugg varplönd og jafnframt á friðlandið að gefa vísbendingu um þann gróður sem einkenndi þetta svæði áður.“ Friðlandið er ekki stórt, en samt sem áður ómetanlegt í hjarta miðborgarinnar og mun verða þeim mun verðmætara sem tímar líða fram.

 

Borgaryfirvöld verða að fara að átta sig á því að borgarskipulag snýst ekki einvörðungu um efnahagsleg markmið og það að komast sem hraðast úr einum stað í annan. Borgarskipulag snýst einnig um lífsgæði fólks í samtíð og framtíð; um tengsl mannsins við umhverfi sitt, landslag, dýralíf og náttúrufar. Eitt skref í þá átt að svo geti orðið hér á landi er að grípa umsvifalaust til markvissra aðgerða til þess að borgarfriðlandið standi undir nafni sem sá ósnortni griðastaður fugla og gróðurs er honum var ætlað að vera - þrátt fyrir nýja Hringbraut.“

 

Í þessum leiðara er orðum beint til R-listans um umhverfi okkar Reykvíkinga og vernd fuglalífs í Vatnsmýrinni – það hefur einmitt verið bent á, að á milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar er friðland mófugla. Við sem göngum um þetta svæði reglulega allan ársins hring vitum, að lífríkið er margbreytilegt, hver árstíð hefur sín sérkenni, sem öll verða afmáð, þegar þarna verður orðið stæði fyrir 2000 jeppa. Hvers vegna skyldi  Morgunblaðið ekki leggjast á sveif með okkur, sem óskum eftir umhverfismati vegna þessara fyrirhuguðu framkvæmda á þessum skjólsæla stað Vatnsmýrarinnar? Vill það ekki umhverfisumræður um þennan stað? Ætlar það að láta sér nægja að verða viturt eftir á og skrifa þá leiðara á sama veg og um Vatnsmýrina, fuglana og færslu Hringbrautar?

 

Hvers vegna lítur Morgunblaðið ekki til þess, þegar ætlunin er að eyðileggja svæðið milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar, sem blaðið sjálft segir réttilega: „Borgarskipulag snýst einnig um lífsgæði fólks í samtíð og framtíð; um tengsl mannsins við umhverfi sitt, landslag, dýralíf og náttúrufar.“

 

Hitt er víst, að hvorki Ólafur F. né vinstri/grænir eiga sérstakt traust skilið vegna umhyggju fyrir umhverfi Reykvíkinga. Ég minnist hvorki á samfylkingarfólkið eða framsóknarmenn í þessu samhengi, því að afstaða eða afstöðuleysi þeirra mótast af sömu pólitísku tækifærismennskunni í umhverfismálum og endranær.

 

Enginn í strætó.

 

Ólafur F.  lét sér ekki nægja að flytja sýndartillögu um Norðlingaölduveitu 17. janúar, hann vildi einnig bjóða ókeypis far með strætó. Hvorugt dugar honum þó til aukinna vinsælda.

 

Ég ætla ekki að segja frá umræðum um þá tillögu Ólafs F. að öðru leyti en því, að  halda til haga gullkornum frá Björk Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa, sem nýlega sagði skilið við vinstri/græna og tekur þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar, en Björk er formaður Strætó bs. Eftir að nýtt leiðarkerfi strætó kom til sögunnar hefur farþegum enn fækkað.

 

Björk þótti það alveg ótrúlegt sem kom fyrir hana  föstudaginn 13. janúar,

en þá fór hún af stað kl. hálfátta að morgni með strætó í kafaldsbyl, því að hún treysti sér ekki að moka bíl sinn úr skafli, þar sem hann stóð uppi í Efra Breiðholti. Björk hélt að vagninn yrði fullur af fólki, henni datt ekki annað í hug, og varð því steinhissa og raunar algjörlega miður sín, þegar aðeins voru fjórar manneskjur í vagninum, og hún sú fimmta. Sagði hún okkur borgarfulltrúum, að þetta sýndi, að  það þyrfti hugarfarsbreytingu!

 

Björk sagðist þó halda, að þau hjá Strætó hlytu að horfa fram á betri tíma því að olíuverð mundi bara hækka, dollarinn hlyti að hækka og bílaverð.

 

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, sagði athyglisvert, að loksins væri komin skýring, eftir 10 ára valdatíma R-listans og eftir 10 ára umsjón þeirra með almenningssamgöngum í borginni,  á því af hverju verð hefði hækkað, þjónustan versnað og farþegum fækkað hjá Strætó. Skýringin fælist í því, að gengi dollarsins væri óhagstætt.

 

Björk maldaði í móinn en ég sagði orð hennar um gengi dollarans og vonir um að olíuverð mundi hækka enn frekar og bílar þar að auki aðeins sýna, hvern hún teldi helsta vanda Strætó. Þá rifjaði ég upp, að Björk hefði sagt, þegar hún kynnti nýtt leiðarkerfi Strætó, að vonandi yrði ágæti þess til að aftra því, að fólk keypti þriðja heimilisbílinn. Mál hjá Strætó hefðu hins vegar þróast á þann veg undir formennsku Bjarkar, að menn færu kannski frekar að hugsa um að kaupa fjórða heimilisbílinn.