9.1.2006

Enn um Baugsmálið.

 

Satt að segja skildi ég aldrei, að Gesti Jónssyni og öðrum lögmönnum ákærðra í Baugsmálinu dytti í hug, að ég hefði tekið ákvörðun um að setja nýjan ríkissaksóknara í Baugsmálinu, ef það hefði hvarflað að mér, að ég væri vanhæfur til þess vegna orða minna um Baugsmiðla hér á vefsíðunni eða um Baug í 1. hefti tímaritsins Þjóðmála, sem kom út 14. október 2005 en hinn 21. október 2005 setti ég Sigurð Tómas Magnússon ríkissaksóknara, eftir að Bogi Nilsson ríkissaksóknari hafi lýst sig vanhæfan.

Hinn 20. október 2005 var  rætt á alþingi utan dagskrár, hvernig ákæruvaldi í Baugsmálinu skyldi skipað.

Þar sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, meðal annars:

„Í þriðja og síðasta lagi finnst mér að hæstv. dómsmálaráðherra gerði rétt í því að hugleiða það mjög vandlega hvort það sé ekki bæði málinu og honum til framdráttar að hann fái annan ráðherra settan í það hlutverk að skipa nýjan saksóknara, jafnvel þó ég geti tekið undir með hæstv. ráðherra og hv. málshefjanda [Lúðvík Bergvinssyni, Samfylkingu] að það á ekki að lenda út í ógöngur í þeim efnum að telja ráðherra endalaust vanhæfa þó þeir hafi tjáð sig í pólitískri umræðu um mál. En hér á ekki alveg venjulegt mál í hlut og í bakgrunni þess liggja umræður um hluti sem ganga það nærri ráðherranum sjálfum og flokki hans að það undrar mig dálítið að hæstv. ráðherra skuli ekki, bæði sjálfs sín vegna og annarra og vegna framvindu málsins, einfaldlega velja þennan kost þó að hann telji sig alls ekki knúinn til þess af einhverjum augljósum eða rökstuddum vanhæfisástæðum.

Eins og oft endranær skar Sigurjón Þórðarson, þingmaður frjálslyndra, sig úr með ræðu sinni, þar sem hann tók dýpra í árinni en aðrir og sagði:

„En nú stendur til að hæstv. dómsmálaráðherra skipi nýjan saksóknara í lögsókninni á hendur Baugi og ég er á því að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason eigi að segja sig frá málinu. Það leynir sér ekki að hæstv. dómsmálaráðherra hefur mikla óbeit á fyrirtækinu. Það er eins og fyrirtækið hafi tekið við af kommúnismanum sem upphaf alls ills og það er einfaldlega þannig að málsins vegna ætti hæstv. dómsmálaráðherra að segja sig frá málinu.

Það er einnig óumdeilt að Sjálfstæðisflokkurinn hratt málinu af stað. Fyrrum formaður flokksins, Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri flokksins voru í miklum samskiptum við aðalhvatamann þessarar rannsóknar og áttu í tölvusamskiptum, fundarhöldum og ég vil bara spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Tók hann þátt í leiknum? Var hann í tölvusamskiptum við þennan hvatamann að rannsókninni?“

Þingmaðurinn taldi sér sæma að heimta, að ég segði mig frá málinu, endurtaka róg um Davíð Oddsson, Kjartan Gunnarsson og Styrmi Gunnarsson og gefa með spurningum sínum í skyn, að ég hefði tekið þátt í einhverjum „leik“ vegna þessa alvarlega máls.

Þótt Lúðvík Bergvinsson hafi ekki talið mig vanhæfan til að setja nýjan ríkissaksóknara vildi hann í lokaræðu sinni í umræðunum að ég segði mig frá málinu og sagði:

„Ég held að orð af þessum toga [orð sem ég hef látið falla um Baugsveldið] geri það að verkum og kalli fram þá umræðu sem fram hefur farið að það yrði afar óheppilegt ef hæstv. dómsmálaráðherra skipar nýjan saksóknara. Vel má vera að vel takist til en hættan er sú að málið kunni að bíða enn frekara skipbrot en orðið er og það held ég að sé hvorki þessu samfélagi, réttarkerfinu né dómstólum til nokkurra bóta ef eitthvað slíkt gerðist í framhaldinu. Það er mikilvægt að vel verði á þessu máli haldið, það er mikilvægt að það verði leitt til lykta, það er mikilvægt að rétt niðurstaða fáist og þess vegna er mikilvægt að yfirvöld vandi sig eins og nokkur er kostur við frekari meðferð þessa máls. Ég ítreka því það sem ég sagði í fyrra máli mínu að það væri heppilegt ef hæstv. dómsmálaráðherra segði sig frá málinu.“

Í lokaræðu minni (upphafsræða mín er hér) sagði ég:

„Ég vil þakka þá umhyggju sem hefur komið fram í minn garð, að mér sé fyrir bestu og það sé heppilegt og það kunni að vera best fyrir mig að segja mig frá þessu máli. En menn hafa ekki þann kost í minni stöðu. Það verða að vera alveg skýrar, lögbundnar skyldur sem varða vanhæfi ráðherra. Menn geta ekki af umhyggjusemi fyrir sjálfum sér eða einhverjum öðrum eða vegna góðra óska þingmanna um velgengni tekið ákvörðun um það að lýsa sig vanhæfa. Það er ekki þannig, lögum er ekki þannig háttað. Okkar stjórnsýslulögum er ekki á þann veg háttað. Það er ekki þannig fyrir ráðherra að þeir séu að velja af matseðli eða geti valið rúsínurnar úr tebollunni. Þeir sitja uppi með allan pakkann og verða að taka ákvarðanir sínar og vega og meta. Ef þeir taka ákvarðanir um að þeir séu vanhæfir þá verða þeir að hafa fyrir því rök og það hefur komið fram í þessum umræðum að menn hér í þingsalnum eða aðrir hafa ekki fundið nein rök fyrir því að ráðherra geti vísað til einhverra málefnalegra sjónarmiða og sagt að hann sé vanhæfur. Það mál liggur ljóst fyrir og umræðan hefur staðfest það. Eins og ég segi, ég þakka þá umhyggju sem fram hefur komið í minn garð, að mér sé heppilegast og það sé best fyrir sjálfan mig og aðra að ég dragi mig í hlé í þessu máli en málið er bara ekki í þeim farvegi.

Varðandi það að skilja á milli rannsóknar og saksóknar í málum þá er það þannig, sérstaklega hvað varðar efnahagsbrotin, að þróunin er alls staðar á þann veg að þessi tengsl séu mikil og náin. Alls staðar í heiminum er verið að færa saman rannsókn og saksókn í málum af þessum toga og ég tel að það þurfi þess vegna alveg sérstök rök hér á landi, í því umhverfi sem við erum, ef við ætlum að fara allt aðra leið að þessu leyti en aðrar þjóðir.“

Ég ætla ekki að rekja hér þau orð, sem fallið hafa um hæfi mitt til ákvarðana í Baugsmálinu, utan alþingis, en á forsíðu Fréttablaðsins var því slegið upp á forsíðu, að ég væri vanhæfur, en þegar betur var að gáð, var fyrirsögnin tilvitnun í  Jón Ásgeir Jóhannesson sjálfan, eiganda Baugsmiðlanna og þar með Fréttablaðsins. Gestur Jónsson, málsvari verjenda Baugs, hefur haldið því fram, hvað eftir annað, að ég hafi verið vanhæfur og leitast við að styðja það lagarökum.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari sagði um þennan þátt málsins í úrskurði sínum 15. desember 2005:

„Ekki verður annað sagt um ummæli dómsmálaráðherra í garð ákærðu og Baugs hf. og baugssamsteypunnar en að þau séu mjög gagnrýnin. Það verður þó ekki séð að gagnrýni ráðherrans tengist beint einstökum sakarefnum sem liggja fyrir dóminum. Líta verður einnig til þess að dómsmálaráðherra fer ekki með stjórnsýsluvald á neinu því sviði, sem ummæli hans varða. Hinn setti ríkissaksóknari er sjálfstæður að lögum og lýtur í engu boðvaldi ráðherra. Það er ennfremur álit dómsins að það hljóti að leiða af eðli stjórnmála í lýðfrjálsu landi að ráðherra hafi verulegt svigrúm til þess að ræða og rita opinberlega um stjórnmál og önnur opinber málefni, án þess að hann geri sig með því vanhæfan til stjórnvaldsathafnar. Væru að öðrum kosti settar óviðunandi skorður annars vegar við frjálsri stjórnmálaumræðu og hins vegar við nauðsynlegum embættisathöfnum ráðherra. Er ekki unnt að fallast á það að ráðherra hafi verið vanhæfur til þess að setja ríkissaksóknara yfir málið og því hafi ekki verið sótt þing í málinu af hálfu ákæruvalds.“

Í dómi hæstaréttar 9. janúar 2006 segir um þennan þátt málsins:

„Krafa varnaraðila er í annan stað reist á því að dóms- og kirkjumálaráðherra hafi verið vanhæfur til að setja ríkissaksóknara í málinu. Því til stuðnings eru tilfærð ýmis ummæli ráðherrans á opinberum vettvangi um þá og G hf., sem varnaraðilar telja sýna óvild hans í þeirra garð, og að ástæða sé til að efast um óhlutdrægni hans gagnvart þeim, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fallist er á með héraðsdómara að ýmis þessara ummæla séu mjög gagnrýnin í garð G hf. og að minnsta kosti sumra varnaraðilanna, en ekki verður séð að þau tengist sérstaklega einstökum sakarefnum í málinu. Er heldur ekki fram komið að ráðherrann fari með stjórnsýsluvald á þeim sviðum, sem ummæli hans varða. Að öllu virtu er ekki nægilega sýnt fram á að ráðherrann hafi með ummælum sínum orðið vanhæfur til að setja ríkissaksóknara í málinu og að líta beri svo á að af þeirri ástæðu hafi ekki verið sótt þing af hálfu ákæruvalds er það var tekið fyrir í héraðsdómi.“

Með þessum dómi hæstaréttar hefur Baugsmálið komist á brautina til efnislegrar meðferðar hjá dómstólunum en það hlýtur að skipta mestu, að dómstólar taki afstöðu til ákæruatriða.

Eins og sjá má af niðurlagsorðum mínum í umræðunum á alþingi 20. október snerust þær að öðrum þræði um skipan ákæruvaldsins og tengsl þess og ríkislögreglustjóra. Ég lagði áherslu á það þá eins og ég hef gert í tillögum mínum um eflingu ákæruvaldsins, sem voru kynntar í ríkisstjórn 3. janúar sl., að skil verði ekki á milli efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og saksóknara efnahagsbrota, en ég tel, að saksóknarinn eigi að starfa á vegum ríkissaksóknara eins og allir aðrir saksóknarar en ekki á vegum lögreglustjóra, hvorki ríkislögreglustjóra né lögreglustjórans í Reykjavík, svo að dæmi sé tekið af núverandi skipan mála.

Ég sé í DV, að þar á bæ gleðjast menn yfir því, sem Össur Skarphéðinsson segir á vefsíðu sinni um breytingar á skipan ákæruvaldsins, þegar hann snýr ákvörðun minni á þann veg, að með henni sé ég að veitast að ríkislögreglustjóra og embætti hans. Þetta er einfaldlega útúrsnúningur á ákvörðun minni en með henni er ég að taka undir sjónarmið, sem Bogi Nilsson ríkissaksóknari hefur lengi talið nauðsynlegt að ráði skipan ákæruvaldsins, það er þrískiptingu þess milli lögreglustjóra, saksóknara og ríkissaksóknara. Heiftarskrif Össurar í garð ríkislögreglustjóra og samstarfsmanna hans eru til marks um, hve skammt er á milli málefnalegrar og ómálefnalegrar umræðu um alvarleg og brýn úrlausnarefni.

Nú hefur hæstiréttur staðfest, að það voru lögmæt rök fyrir þeirri niðurstöðu minni að víkja ekki sæti í Baugsmálinu. Einnig hefur verið staðfest, að stjórnmálamenn hafi heimild til að ræða málefni á opinberum vettvangi og segja skoðanir sínar á mönnum og málefnum, án þess að verða vanhæfir til embættisathafna, enda fari þeir ekki með stjórnsýsluvald á þeim sviðum, sem ummæli þeirra varða.  Skyldi reiðilestur Össurar Skarphéðinssonar í garð ríkislögreglustjóra og embættis hans, gera Össur vanhæfan til að fjalla um málefni embættisins, ef svo ólíklega vildi til, að Össur yrði einhvern tíma dóms- og kirkjumálaráðherra?

Frásögn af þessari niðurstöðu hæstaréttar var fyrsta frétt í hljóðvarpi ríkisins kl. 18.00 9. desember og sjónvarpi ríkisins kl. 19.00. Hins vegar heyrði ég ekki minnst á málið í aðalfréttatíma NFS (Baugsmiðils) kl. 18.30 þennan sama dag.