22.5.2005

Schröder - Samfylking - ráðhúsklíkan.

Kosningaúrslitin í Nordrhein-Westfalen í dag, sunnudaginn 22. maí, reyndust þýskum jafnaðarmönnum svo erfið, að Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, hefur ákveðið að rjúfa þing og boða til almennra þingkosninga næsta haust, það er ári fyrr en kjörtímabilið er á enda. Í fyrsta sinn eftir 39 ára stjórnarforystu jafnaðarmanna komast kristilegir demókratar til forystu í þessu þýska sambandslandi og munu þeir mynda meirihluta með frjálsum demókrötum, en með falli ríkisstjórnarinnar í Nordrhein-Westfalen fellur síðasta sambandslandsstjórnin, sem mynduð er af jafnaðarmönnum og græningjum, sem stjórna Þýskalandi öllu undir forystu Schröders.

Þessi pólitísku tíðindi frá Þýskalandi minna enn á mismunandi velgengni evrópskra jafnaðarmanna eftir því, hvort þeir halda sig á vinstri kantinum eða sækja inn á miðjuna. Fyrir fáeinum árum hrundi fylgið af Lionel Jospin, leiðtoga franskra sósíalista, sem leit á franska kommúnista sem helstu keppinauta sína og hallaði sér því til vinstri. Gerhard Schröder hefur einnig verið á vinstri kantinum og honum hefur gjörsamlega mistekist að blása krafti í þýskt efnahags- og atvinnulíf. Nú ganga meira en 5 milljónir Þjóðverja atvinnulausir.

 

Um svipað leyti og þýskir jafnaðarmenn hljóta þessa slæmu útreið er Tony Blair að hefja þriðja kjörtímabil sitt sem forsætisráðherra Bretlands. Hann hafði vit á því að hverfa frá dogmatískri stefnu sósíalista og sækja inn á miðjuna með því að fara í pólitíska smiðju hjá sjálfri Margaret Thatcher. Hann hafði einnig pólitískt þrek til þess að ráðast gegn ófriðarseggnum Saddam Hussein, en fyrir síðustu sambandsþingkosningar í Þýslandi taldi Gerhard Schröder skammtímahagsmuni sína í því fólgna að snúast gegn þeim Blair og George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, þegar þeir stóðu í stríðinu gegn Saddam.

 

Samfylking.

 

Ég hef áður vakið máls á því hér á þessum stað, að ógjörlegt væri að átta sig á því, hvort átökin um formennsku í Samfylkingunni snerust að einhverju leyti um þann átakaás, sem myndast hefur milli jafnaðarmanna í Evrópu, eftir því hvort þeir hallast að Blairisma eða vinstrimennsku. Þegar tekist var á um formennsku í danska jafnaðarmannaflokknum á dögunum, sigraði sá þar, sem hallast að Blairisma.

 

Nú eru úrslitin kunn í Samfylkingunni og óska ég Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til hamingju með góðan sigur í formannskjörinu og Ágústi Ólafi Ágústssyni með sigurinn í varaformannskjörinu.

 

Eftir flokksþingið er ég engu nær um það en fyrir þingið, hvort þar hafi menn skipst í fylkingar eftir mismunandi afstöðu til meginstrauma meðal evrópskra jafnaðarmanna. Össur Skarphéðinsson var með mér í Silfri Egils á dögunum og þá sagðist hann styðja Gordon Brown en ekki Blair - en Brown segist sama sinnis og Blair, þótt síðan sé leitast við að skilgreina hann sem lengra til vinstri en Blair.

 

Á sínum tíma mátti skilja Ingibjörgu Sólrúnu á þann veg, að hún aðhylltist þriðju leiðina, sem um tíma var tengd Blair en hefur síðan orðið að engu, enda byggð á veikum forsendum. Ég heyrði í Kastljósi nú í kvöld, að þeir, sem ræddu við hinn nýja formann Samfylkingarinnar þar, virtust ekki getað fótað sig á neinum skýrum stefnumálum og var það helst að skilja á formanninum, að því hefði verið frestað þangað til síðar að ákveða stefnuna, hafði hún þó starfað í nokkur misseri sem formaður framtíðarstefnu hóps flokksins.

 

Einhverjum kann að þykja skrýtið, að nauðsynlegt sé að vísa til strauma í útlöndum til að átta sig á ráðandi stefnu í Samfylkingunni hér. Þeir, sem þykir þetta skrýtið, mega ekki gleyma því, að evrópskir jafnaðarmenn líta á sig sem einn stóran flokk og þeir eru ekki aðeins í átökum á heimavelli heldur einnig innan eigin alþjóðasamtaka og fylgjast þess vegna náið með því, sem er að gerast í einsökum löndum. Missa þeir stóra fjöður úr hatti sínum með þessu falli flokks Schröders og hljóta margir að hugsa sinn gang, þótt þeir eigi erfitt með að kyngja stefnu Blairs til dæmis vegna stríðsins í Írak eða ákvörðunar hans um að leggja skólagjöld á breska háskólanema.

 

Af flokksþingi Samfylkingarinnar verður ráðið, að þar hafi allt snúist um menn en málefni hafi skipað annað sæti. Sé dregin ályktun um stefnu af áherslum Ingibjargar Sólrúnar í stjórnmálum, hvað sem líður flokksformennsku hennar, er einsýnt, að til forystu hefur verið valinn vinstrisinnaður stjórnmálamaður, sem hefur leitast við að leggja rækt við það, sem er lífvænlegast í vinstrimennsku samtímans og tileinkað sér þá aðferð að styðjast frekar við heimatilbúna þrýsti- og sérhagsmunahópa en almenna pólitíska skírskotun á hugsjónalegum grunni. Þess vegna hlýtur að koma í opna skjöldu, að við slit flokksþingsins segist hún ætla að helga sig baráttu gegn „klíkumyndun“.

 

 

Ráðhúsklíkan.

 

Í umræðum um klíkur á stjórnmálavettvangi hér á landi, hefur athygli R-listafólks og samflokksmanna Ingibjargar Sólrúnar beinst að því, sem kallað hefur verið „ráðhús-klíkan" en fréttir af formannskjöri Samfylkingarinnar sýna, að félagar í henni flykktu sér um Ingibjörgu Sólrúnu og skiptu jafnvel um flokk í því skyni.

 

Hinn 13. júní 2004 stóð í pistli hér á síðunni:

 

„Helgi Hjörvar, alþingismaður og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar á R-listanum, fetar í fótspor Sverris Jakobssonar, eins af málsvörum vinstri/grænna í Reykjavík, sem sagði á dögunum, að klíka í ráðhúsi Reykjavíkurborgar væri að taka völdin af R-listanum. Aðalfyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins sunnudaginn 13. júní er þessi: „Reykjavíkurlistinn að verða lítil klíka. Einn af upphafsmönnum Reykjavíkurlistans segir að hann sé ekki lengur sú breiða hreyfing sem hann var. Hann hefur áhyggjur af því, að R-listinn sé að verða lítil klíka í Ráðhúsinu.“

Í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur segir Helgi meðal annars:

„Ég er sammála Sverri Jakobssyni, einum helsta hugsuði Vinstri grænna í Reykjavík, sem hefur áhyggjur af því að Reykjavíkurlistinn sé að verða klíka í Ráðhúsinu og ekki í tengslum við eitt né neitt. Að lokast ekki inni í Ráhúsinu er og verður verkefni okkar, en það er erfiðara en áður því stjórnmálaflokkarnir hafa í dag miklu sterkari stöðu í þessu samstarfi. Reykjavíkurlistinn er greinilega kosningabandalag stjórnmálaflokka og ekki lengur sú breiða hreyfing sem hún var.““

Því má slá föstu, að Ingibjörg Sólrún var ekki að skera upp herör gegn ráðhús-klíkunni í lokaræðu sinni á Samfylkingarþinginu.

Ég tek undir með þeim, sem telja, að Ingibjörg Sólrún verði ekki neinn sérstakur talsmaður R-listans sem formaður Samfylkingarinnar. Hún hugsar þeim þegjandi þörfina, sem létu ekki eftir henni að verða bæði borgarstjóri og þingframbjóðandi Samfylkingarinnar. Hún vill einnig sýna sem fyrst styrk Samfylkingarinnar undir eigin stjórn og hún fær ekki tækifæri til þess, ef Samfylkingin verður hluti af R-listanum í borgarstjórnarkosningum vorið 2006.

Ef Samfylkingarfólk í viðræðum um framtíð R-listans heldur áfram að þæfa lopann næstu daga og vikur, er það aðeins til þess að gera viðmælendur sína andvaralausa. Ingibjörg Sólrún fagnaði því sérstaklega, að ungt fólk hefði látið verulega að sér kveða á Samfylkingarþinginu; ef hún ætlar að taka mark á því, hafnar hún R-listanum. Ástæðulaust er að gleyma því, að Ingibjörg Sólrún afskrifaði Kvennalistann um leið og hann hafði komið henni í borgarstjórastólinn. Hvers vegna skyldi hún ekki afskrifa R-listann, eftir að hann hefur komið henni í formannsstólinn?