Fjarskiptalög - skráning farsímakorta - skjól fyrir níðinga?
Þingstörf eru á lokastigi og handagangur í öskjunni eins og jafnan á þessum árstíma. Frumvörp, sem ég hef flutt á þessu þingi í því skyni, að þau nái fram að ganga, hafa annað hvort verið samþykkt eða eru á beinu brautinni. Hér nefni ég sérstaklega frumvarpið um fullnustu refsinga, sem er orðið að lögum, og frumvarpið að happdrættislögum, sem einnig er orðið að lögum. Þá hefur allsherjarnefnd skilað áliti sínu á frumvarpi, sem mun leiða til einföldunar við innheimtu sekta.
Nokkrar umræður hafa orðið um ákvæði í frumvarpi samgönguráðherra um breytingar á fjarskiptalögum. Umdeildu ákvæðin snerta heimildir lögreglu til að fylgjast með net- og tölvunotkun manna. Meiri hluti samgöngunefndar hefur nú skilað áliti um frumvarpið. Samkvæmt því verða reglur þessar:
1. Fjarskiptafyrirtæki er skylt að varðveita lágmarksupplýsingar um fjarskiptaumferð í þágu lögreglurannsóknar og almannaöryggis í sex mánuði.
2. Skráð verður dagsetning fjarskipta og gagnaflutningur til notanda.
3. Póst- og fjarskiptastofnun hefur heimild til að setja reglur um skráningu notenda farsímakorta í samráði við Neyðarlínu, lögreglu og farsímafyrirtæki.
4. Fjarskiptafyrirtækja skulu láta lögreglu í té upplýsingar án dómsúrskurðar um hver er skráður eigandi ákveðins símanúmers og/eða eigandi eða notandi vistfangs (IP-tölu) ef það er í þágu opinberrar rannsóknar.
Með þessum hætti verður unnt að búa eins um hnúta á þessu sviði hér og annars staðar. Þessi ákvæði eru í góðu samræmi við þau sjónarmið, sem fram komu á 11. ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um baráttu gegn glæpum, sem ég sótti í Bangkok á dögunum. Þar eins og á öðrum fundum þeirra, sem bera ábyrgð á öryggi almennra borgara, var mikið rætt um nauðsyn þess, að lög um fjarskipti hefðu að geyma ákvæði af þeim toga, sem hér um ræðir.
Í þann mund, sem ráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin í Bangkok var einmitt gengið frá samkomulagi milli tælenskra yfirvalda og símafyrirtækja um skráningu allra kaupenda farsímakorta.
Í umræðum um slíka skráningu hér hefur komið fram, að hún myndi torvelda sölu á farsímakortum, af því að það yrði svo tafsamt að óska eftir kennitölu fólks við sölu þeirra, auk þess sem það yrði árás á friðhelgi borgaranna að biðja um kennitölu við slík viðskipti. Þetta eru ekki sannfærandi rök, þegar til dæmis er litið til þess, að menn eru að hrópa kennitölu sína í alls konar verslunum, sem leigja myndbönd eða diska. Slík skráning á þeim varningi stendur ekki dreifingu hans fyrir þrifum. Hvers vegna skyldi annað gilda um farsímakort?
Persónuvernd fjallar sérstaklega um skráningu farsímakorta í umsögn sinni um fjarskiptalagafrumvarpið og segir meðal annars, að með skráningunni sé verið að koma í veg fyrir síðustu möguleika
almennings til því að geta hringt með leynd, þar sem aðgangur að almenningssímum sé hverfandi lítill hér á landi. Feli þetta í sér veigamikla breytingu. Horfa verði til þess að nafnleynd við notkun síma geti í mörgum tilvikum verið eðlileg, jafnvel nauðsynleg. Í hugum margra sé t.d. nauðsynlegt að geta með leynd komið ábendingum á framfæri s.s. til fjölmiðla, þingmanna, lögreglu eða barnaverndaryfirvalda og jafnvel við að leita liðsinnis s.s. hjá vinalínu Rauða krossins.
Mér finnst þetta léttvæg rök miðað við þá öryggishagsmuni, sem geta verið í húfi, þegar litið er til notkunar á skráðum farsíma. Vitneskja um handhafa síma getur skipt sköpum við aðstæður, sem til dæmis snerta samskipti við Neyðarlínuna.
Ég hef alla tíð verið í umhverfi, sem vísað er til í þessari umsögn, annað hvort á sviði stjórnmála eða fjölmiðla. Ég hef aldrei vitað til þess, að notaður hafi verið almenningssími til að vekja máls á einhverju af ótta við, að yfirvöld hefðu ella eyru við símtæki fólks.
Vinalína Rauða krossins er úr sögunni, eftir að hún féll undir Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er gjaldfrjáls sími opinn allan sólarhringinn fyrir þá, sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis, eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá, sem finnst þeir vera komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu. Í kynningu Rauða krossins á símanum segir: „Ekki kemur fram á símreikningum að hringt hafi verið í 1717.“ Þetta mundi að sjálfsögðu ekki breytast, þótt nafn kaupanda farsímakorts yrði skráð. Skráningin gæti hins vegar auðveldað hjálparliði Rauða krossins störfin eins og Neyðarlínunni.
Hinn 30. mars 2004 flutti Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, þessa ræðu á alþingi:
„Hæstv. forseti. Á Stöð 2 í gærkvöldi kom fram að lög sem alþingi samþykkti í fyrra, þ.e. fjarskiptalög, auðveldi barnaníðingum iðju sína á netinu. Fram kom einnig að þetta væri mat lögreglunnar sem varaði alþingi við því að samþykkja lögin. Ríkislögreglustjóri lagði til heimild í lögin í því skyni að varðveita gögn um fjarskiptaumferð í allt að sex mánuði sem samgöngunefnd tók ekki til greina. Staðan er því sú að ekki er hægt að rannsaka netnotkun með eðlilegum hætti vakni grunur um glæpsamlegt athæfi, eins og t.d. þegar reynt er að lokka börn til fylgilags, en lögreglan óttast að löggjöfin eins og hún er nú sé til þess fallin að hvetja til brotastarfsemi á netinu og draga athygli erlendra brotamanna að Íslandi.
Það vekur vissulega furðu að samgöngunefnd hafi ekkert gert með þessar alvarlegu athugasemdir hjá ríkislögreglustjóra, ekki síst þegar hvers konar brotastarfsemi, ekki síst upplýsingar um aðgerðir barnaníðinga á netinu, er orðin óhugnanlega algengur atburður í þjóðfélagi okkar. Ríkislögreglustjóri hefur fengið til rannsóknar flestar tegundir brota á internetinu þar sem niðurstaða hefur oltið á aðgengi að gögnum á netinu. Ríkislögreglustjóri vísar í tilskipun um persónuvernd sem samgöngunefnd lagði ekki til að yrði beitt þar sem segir að ríkið geti í þágu þjóðaröryggis, almannaöryggis, til varnar rannsókn og saksókn afbrota tekið upp í lög úrræði til að tryggja varðveislu gagna í takmarkaðan tíma. Ég gerði samgönguráðherra viðvart um þessa umræðu sem hann gat ekki verið viðstaddur, var á förum til útlanda, en ég tel reyndar að málið snúi að alþingi og það sé raunar skylda samgöngunefndar að taka það upp og leggja til nauðsynlegar breytingar sem reisi þær girðingar að lögreglan geti með eðlilegum hætti nálgast gögn á netinu sem nauðsynlegar eru til að hindra eða rannsaka glæpi. Hvet ég til þess að ákvæði sem ríkislögreglustjóri hefur lagt til verði lögfest áður en þingi lýkur.“
Þuríður Backman, þingmaður vinstri/grænna, sagði í þessari umræðu:
„Frú forseti. Hér er hreyft við mjög alvarlegu máli. Það er alveg ljóst að fjarskiptalögin voru afgreidd héðan með nokkru hraði sl. vor. Þau eru mjög flókin og vandasöm, tæknin er mikil, og ég tel að með þessari ábendingu frá lögreglustjóra eigi samgömgunefnd að taka málið upp, skoða það vandlega og fara vel yfir hvort ekki sé hægt að gera lögin þannig úr garði að hægt sé að forða því að barnaníðingar og þeir sem nota veraldarvefinn fyrir glæpastarfsemi, sama hvort það eru barnaníðingar eða fyrir klám og vændi eða hvers konar ólöglega starfsemi aðra, hafi þennan vettvang fyrir slíka starfsemi en fullrar persónuverndar sé gætt.
Ábyrgð netþjónanna er mikil og þeim ber auðvitað að bera ábyrgð á því efni sem flutt er. Það er bent á að til þess að geta unnið að þeim alvarlegu málum sem lögreglan hefur núna í vinnslu þurfi að geyma gögn í a.m.k. sex mánuði. Þetta þarf auðvitað að skoða mjög vandlega. Því miður hefur veraldarvefurinn gert barnaníðingum auðveldara með að athafna sig. Starfsemi þeirra er greinilega orðin meiri að umfangi en verið hefur og þetta eru það alvarlegir glæpir að ég tel að málið eigi þegar að fara inn á borð samgöngunefndar.“
Guðjón Á. Kristjánsson, formaður Frjáslynda flokksins, sagði í þessari umræðu:
„Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að taka þetta mál upp undir liðnum störf þingsins og vekja athygli á þeirri frétt sem var í fjölmiðlum í gær. Hér er auðvitað um mjög alvarlegt mál að ræða og því miður fjölgar málum sem tengjast misnotkun á börnum. Menn nota nýjustu tækni til að að nálgast fórnarlömb sín. Okkur á hv. alþingi ber auðvitað skylda til að bregðast við.
Lögin voru afgreidd fyrir síðustu kosningar, kannski í nokkru hasti, báru e.t.v. keim af því að þetta var kosningaár og menn ákváðu að keyra lögin skart í gegn. Það breytir þó ekki því að menn vilja vel og ég þakka þær undirtektir sem formaður samgöngunefndar hafði hér, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, að ætla að taka málið fyrir og gera lagfæringar í þá veru sem nauðsynlegt er til að tryggja megi öryggishagsmuni barna og að lögreglan geti skoðað þær upplýsingar sem fara um netið.“
Af þessum ummælum sést, að fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna voru þeirrar skoðunar 30. mars 2004, að nauðsynlegt væri þá þegar, að samgöngunefnd alþingis beitti sér fyrir breytingu á fjarskiptalögum í þá veru, sem nú er á döfinni. En hvað gerist, þegar málið er til meðferðar á alþingi og í samgöngunefnd? Enginn fulltrúi stjórnarandstöðuflokkanna treystir sér til að standa að nefndaráliti með meiri hluta nefndarinnar. Nú á eftir að koma í ljós, hvort stjórnarandstaðan ætlar á síðustu dögum þingsins að hindra framgang þessa máls.
Þegar ég fer yfir þetta mál undrast ég enn og aftur lélega pólitíska blaðamennsku í landinu. Hvers vegna hafa fjölmiðlar ekki lýst þessu máli í því samhengi, sem gefur rétta mynd af umræðum um það á alþingi? Ef frétt á borð við þá, sem var í Stöð 2 29. mars 2004, birtist að nýju og ekkert hefði verið gert til að breyta ákvæðum fjarskiptalaga, er ég viss um, að fjölmiðlamenn og þeir stjórnarandstöðuþingmenn, sem að ofan eru nefndir, yrðu fyrstir til að hneykslast á aðgerðar- og sinnuleysi stjórnarþingmanna og stjórnvalda.