8.8.1999

Fylkingarmenn í formannsslag – Laugardalslóðir

Umræður um forystumál fylkingar vinstrisinna – Samfylkingarinnar – halda áfram í Degi 7. ágúst í viðtali Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Guðmund Árna Stefánsson, þingmann fylkingarinnar í Reykjaneskjördæmi. Guðmundur Árni kynnir áhuga sinn á því að verða formaður fylkingarinnar og gerir því skóna, að hvorki Ingibjörg Sólrún né Jón Baldvin komi til greina. Það sé hlægilegt, að Jón Baldvin snúi aftur í pólitíkina, hann hafi hætt að eigin ósk. Ingibjörg Sólrún hafi útilokað, að hún vilji í landsmálin auk þess hefði fylkingin ekki farið varhluta af því í þingkosningabaráttunni, að illa var haldið á ýmsum málum undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar í Reykjavík og nefnir Guðmundur Árni sérstaklega framkomuna gagnvart kennurum og uppsögn fjögurra fatlaðra borgarstarfsmanna. Þetta verði menn að hafa í huga, þegar metin sé léleg útkoma fylkingarinnar í kosningunum.

Þessar skoðanir eru enn ein staðfesting á óeiningunni meðal helstu kjörinna fulltrúa aflanna undir fána fylkingarinnar. Skal dregið í efa, að einingin aukist láti Guðmundur Árni til skarar skríða og bjóði sig fram.

Í upphafi samtalsins spyr Kolbrún Guðmund Árna um afstöðu hans til utanríkis- og varnarmála. Er ástæða að halda sjónarmiðum hans til haga. Í fyrsta lagi telur hann ekki ástæðu fyrir Íslendinga, að huga að breytingum á aðild sinni að NATO. Hann segist hins vegar eiga sér þann draum, að Sameinuðu þjóðirnar taki við velflestum verkefnum NATO. Í öðru lagi telur hann Bandaríkjamenn vilja herinn úr landi, segir hann þetta koma bæði fram opinberlega hjá þeim og í einkaviðræðum. Telur hann að breytingar verði fljótlega á rekstri stöðvarinnar og Íslendingar hljóti að langstærstum hluta að taka við þeirri starfsemi sem nauðsynleg er, verði að hefja undirbúning undir það fyrr en síðar, meðal annars með tilliti til atvinnumála á Suðurnesjum. Í þriðja lagi telur hann aðild Íslands að Evrópusambandinu óhjákvæmilega, þurfi að hefjast virk pólitísk umræða um Evrópumálin.

Athyglisvert er við þessa framtíðarsýn Guðmundar Árna í utanríkis- og öryggismálum, að hún ber þess ekki nokkur merki, að hún sé byggð á öðru en tilfinningu og óskhyggju. Hann dreymir að Sameinuðu þjóðirnar gleypi NATO. Hann gefur sér þá forsendu, að Bandaríkjamenn vilji rifta varnarsamstarfinu við Ísland en gerir ekki minnstu tilraun til að lýsa því, hvernig Íslendingar eigi þá að tryggja varnir sínar og öryggi, heldur nefnir aðeins atvinnumál á Suðurnesjum. Hvar hefur það komið fram opinberlega, að Bandaríkjastjórn vilji binda enda á varnarsamstarfið við Íslendinga? Við hvaða Bandaríkjamenn hefur þingmaðurinn átt einkaviðræður, sem leiða þetta í ljós? Loks má skilja orðin um ESB á þann veg, að einhvers konar náttúrulögmál valdi því, að Ísland fari inn í Evrópusambandið. Er nokkur þörf á virkum pólitískum umræðum um málið, úr því að þessir pólitísku náttúrukraftar eru á ferðinni?

Viðtalið við Guðmund Árna birtist undir fyrirsögninni: Er í pólitík til að hafa áhrif. Ummæli hans um utanríkis- og varnarmálin bera það ekki með sér, að hann telji sig munu hafa mikil áhrif á gang þeirra .

Ummæli Guðmundar Árna um utanríkismálin sýna, að þörf er á miklu meiri umræðu um þau frá íslenskum sjónarhóli. Eftir hinar hörðu deilur um varnarmálin og EES-aðild hafa íslenskir stjórnmálmenn og fjölmiðlar hætt að skilgreina stöðu okkar á alþjóðavettvangi með jafnskörpum og skýrum hætti og áður. Í sjálfu sér eigum við ekki að þurfa slíkar deilur til að ræða þessi mikilvægu mál á efnislegum forsendum með íslenska hagsmuni að leiðarljósi. Alþjóðavæðing íslenska þjóðfélagsins er staðreynd, henni verður ekki breytt. Hitt hefur ekki alltaf fylgt, að við skilgreinum stöðu okkar nægilega hratt og markvisst í ljósi hinna stöðugu breytinga á þessu sviði.


Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands birti eftirfarandi grein í Morgunblaðinu 28. júlí síðastliðinn:

FYRIR alllöngu hélt ég því fram í útvarpsþætti, að Jón Ólafsson í Skífunni, sem á sem kunnugt er að baki langan og skuggalegan feril, hefði lagt mikið fé til R-listans í Reykjavík og myndi eflaust fá að launum eftirsótta lóð í Reykjavík. Þessu andmæltu Stefán Jón Hafstein og aðrir talsmenn R-listans þá harðlega. Lét Stefán Jón meðal annars blaðamann á Degi hringja í mig til þess að spyrja mig, hvaðan ég hefði það, að Jón hefði lagt fé til R-listans. Ég svaraði því til, að Jón hefði sjálfur sagt mér það, auk þess sem viðtal hefði birst við fyrrverandi starfsmann hans í vikublaði, þar sem þetta hefði komið fram. Ég benti líka á það, að Ingibjörg S. Gísladóttir borgarstjóri hefði þannig ekki aðeins þegið af Jóni stórfé fyrir hönd R-listans, heldur væri eiginmaður hennar í fullu starfi hjá Jóni. Viðtalið við mig um þetta birtist vitaskuld aldrei í Degi. En nú er greinilega komið að því að launa Jóni framlögin: Undir forystu Ingibjargar S. Gísladóttur ætlar R-listinn gegn mótmælum minnihlutans í borgarstjórn og án útboðs að veita honum eftirsótta lóð undir kvikmyndahús í Laugardalnum og snarminnka um leið möguleika á því að skipuleggja þar margvíslega aðstöðu fyrir íþrótta- og útivistarfólk. En hvenær fáum við Reykvíkingar að sjá kvittunina? Eru allir rannsóknarblaðamennirnir íslensku í sumarleyfum?
Eina athugasemdin, sem ég hef séð, vegna þessarar einörðu áminningar Hannesar Hólmsteins er frá Sigurjóni Egilssyni í Morgunblaðinu 6. ágúst en hann kynnir sig sem blaðamann, sem hafi verið dæmdur fyrir meiðyrði. Hann segir, að rannsóknarblaðamenn á Íslandi séu ekki í sumarleyfi heldur hafi þeir verið settir af. Furðulegt er, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skuli ekki fá tækifæri til að tjá sig um málið á fréttasíðum Morgunblaðsins. Þannig birti Morgunblaðið grein eftir mig um lóðamálin í Laugardal og þá staðreynd, að R-listinn afhenti Jóni Ólafssyni lóð undir kvikmyndahús en hafnaði tilmælum um skólalóð í dalnum. Daginn eftir birti blaðið frétt um viðbrögð Ingibjargar Sólrúnar við grein minni. Hvers vegna bar Morgunblaðið ádrepu Hannesar Hólmsteins ekki undir borgarstjóra? Er ekki ástæða til að velta fyrir sér, hvers vegna Jón Ólafsson fær lóð í Laugardalnum, þegar hann hefur nýkeypt mikið land á Arnarnesi? Getur það ekki nýst honum undir kvikmyndahús? Væri ekki nær að nota dýrmætar lóðir í íbúðahverfum í Reykjavík undir skóla?

Þá daga, sem ég var í New York fyrir skömmu, var leitað að flugvél Johns Kennedys yngra. Var að sjálfsögðu mikið efni um þann sorglega atburð í blöðunum. Las ég meðal annars áberandi rammagrein í New York Times, þar sem blaðið tók sér fyrir hendur að sýna fram á, að Bill Clinton forseti færi með rangt mál, þegar hann hélt því fram, að hann hefði verið fyrsti forsetinn til að fara með Kennedy yngra um Hvíta húsið, eftir að hann fluttist þaðan. Dró blaðið saman efni og staðreyndir, sem gerðu þessi ummæli forsetans að engu. Var þetta gert áreitnislaust og aðeins í þeim tilgangi að upplýsa lesendur um það, sem sannara reyndist. Sjaldan eða aldrei bregðast íslenskir fjölmiðlar við með þessum hætti. Hér komast menn upp með að segja alls konar órökstudda hluti um menn og málefni. Síðan er hringt í einhvern annan til að fá hans hlið. Er stundum unnt að halda lífi í málum, ef þannig má að orði komast, í marga daga eða marga fréttatíma með því að leiða fram ólík sjónarmið. Skilgreina menn óhlutdrægni fjölmiðla sinna oft með þeim hætti, að hún byggist á því, að öll sjónarmið komi fram að lokum. Fyrir lesendur, áheyrendur eða áhorfendur getur hins vegar að vera erfitt að halda þræðinum. Því miður er sjaldgæft, að fjölmiðlar taki sjálfir af skarið og sýni fram á brotalöm í málstað viðmælenda þeirra með því að setja hann í eðlilegt samhengi.