4.7.2004

Þingvellir á heimsminjaskrá

  

 

 

Mig grunaði ekki, þegar ég beitti mér fyrir því, eftir að ég varð menntamálaráðherra árið 1995, að Ísland gerðist aðili að heimsminjasáttmála UNESCO, að ég sæti í dag, laugardaginn 3. júlí, í Suzhou í suðaustur Kína, rúma 100 km frá Shanghai, og lýsti því, hvernig það gekk fyrir sig, að Þingvellir voru valdir sem fyrsti staðurinn á heimsminjaskrá UNESCO, en skráin byggist á sáttmálanum frá 1972.

 

Í mínum huga er þetta ferli allt næsta óraunverulegt en þó eins raunverulegt og að Þingvellir eru komnir á þessa skrá, sem er mun eftirsóknarverðari viðurkenning en ég gerði mér grein fyrir, áður en ég sótti 28. fund heimsminjanefndarinnar hér í Suzhou sem formaður Þingvallanefndar.

 

Hér eru einnig þeir, sem hafa unnið mest að því fyrir Íslands hönd, að þessum áfanga er náð, þau Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, sem stýrði hópnum, sem vann að viðurkenningu Þingvalla, Ragnheiður Þórarinsdóttir, sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, sem hefur annast málið frá degi til dags fyrir ráðuneytið, og Sigurður K. Oddsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, sem hefur komið að málinu fyrir hönd Þingvallanefndar. Ráðgjafafyrirtækið Alta hélt utan um gerð umsóknarinnar og einnig utan um gerð stefnumörkunar fyrir Þingvelli næstu 20 ár, sem er óhjákvæmilegur þáttur í þessari miklu viðurkenningu. Án hins samstillta átaks þessa fólks með góðri ráðgjöf frá norrænum sérfræðingum hefði þetta ekki tekist.

 

Hér er um heimsmeistarakeppni að ræða í orðsins fyllstu merkingu. Sumir kunna að vera þeirrar skoðunar, að keppni á þessu sviði sé lítils eða einskis virði, til dæmis fyrir staði eins og pýramídanna í Egyptalandi, Kínamúrinn eða Taj Mahal á Indlandi, það sé svo sjálfsagt, að þessir staðir séu taldir til framúrskarandi menningarverðmæta á heimsvísu, að ástæðulaust sé að setja þá á einhverja skrá. Um Þingvelli megi eins segja, að þeir séu svo merkilegir af sjálfum sér, að engu breyti, þótt þeir fái viðurkenningu eins og þessa.

 

Málið er ekki svona einfalt og það snýst ekki heldur um, að verið sé að leita eftir því að koma stöðum á þessa skrá til þess að laða þangað ferðamenn, þótt slíkt sé oft góð aukageta. Eftir að hafa hlýtt hér á umræður um 20 til 30 staði af þeim 48, sem voru til skoðunar á þessum fundi hér í Suzhou, hef ég öðlast þann skilning á gildi þess að vera valinn á listann, að í því felist í senn viðurkenning á viðkomandi stað og á því, hvernig þeir, sem bera ábyrgð á honum, hafa umgengist hann og ætla að umgangast hann. Farið er yfir stjórn, afmörkun og umsýslu staðanna, hvaða rannsóknir eru til um þá, hvernig næsta nágrenni þeirra er og hvort því megi treysta, að staðinn verði vörður um þau sérkenni, sem gera staðinn verðugan á skrána.

 

Þingvellir voru valdir á skrána sem menningarlegt landslag á grundvelli skilgreininga III og IV í samþykktum UNESCO fyrir heimsminjaskrána. Skilgreiningin ein veldur oft ágreiningi eins og auðvitað hitt, hvort staður hafi ótvírætt alheimsgildi „outstanding universal value,“ Þegar um menningarlegt landslag er að ræða, er það í senn sá hópur sérfræðinga heimsminjanefndarinnar, sem leggur mat á menningarlegt gildi, ICOMOS, og hópurinn, sem leggur mat á náttúrufræðilegt gildi, IUCN, sem kynna tillöguna á fundi nefndarinnar. Þannig var það um Þingvelli, að tveir sérfræðingar kynntu staðinn og fjölluðu um gildi hans á nefndarfundinum.

 

Umræður á fundinum drógust almennt mjög á langinn og á fyrstu fundardögunum tók það nefndarmenn meira en klukkustund að komast að niðurstöðu. Var jafnvel búist við, að unnt yrði að taka Þingvelli til umræðu miðvikudaginn 30. júní, sama dag og ég kom til Sozhou. Það gerðist ekki og þótt fundað væri til klukkan 22.30 fimmtudaginn 1. júlí nægði tíminn þá ekki til að Þingvellir kæmust á dagskrá. Umræður snerust um einstaka staði og meginreglur í starfi nefndarinnar, hvort hún væri sjálfri sér samkvæm, of ströng eða of sveigjanleg; hvaða kröfur ætti að gera um samanburð milli staða og hvort gögn væru nægilega góð eða ekki. Í einu tilviki var sagt, að undarlegt væri, að viðkomandi umsókn hefði komist svo langt, að verða til umræðu á fundinum. Hún þótti illa úr garði gerð og staðinn þótti skorta nauðsynlega sérstöðu.

 

Það var ekki fyrr en 12 á hádegi föstudaginn 2. júlí, sem umræður hófust um Þingvelli. Næst á undan var Elbu-dalur Dresden, mjög umfangsmikil umsókn, sem hafði verið 15 ár í undirbúningi og snýr að endurreisn Dresden, varðveislu mannvirkja í borginni og 18 km frá henni upp með ánni Elbu, 1.930 hektarar. Hlaut tillagan mjög góðar undirtektir, enda hafði nefndin fylgst með mótun hennar í mörg ár.

 

Susan Denier, fulltrúi ICOMOS, fylgdi tillögunni um Þingvelli úr hlaði með lofsamlegum orðum um staðinn og allt samstarf við íslenska sérfræðinga. Síðan áréttaði Adrian Phillips, sérfræðingur IUCN gildi staðarins frá náttúrufræðilegum sjónarhóli. Kortum og myndum var brugðið á skjá. Fulltrúi ICOMOS ræddi um áform, sem hefðu verið á döfinni um gerð nýs þjóðvegar innan þjóðgarðsins, en sú hindrun fyrir tillögu fyrir skráningu hans væri úr sögunni. Gerð var grein fyrir tillögum ICOMOS um það, sem mætti betur fara.

 

ICOMOS leggur til, að gerð sé heildaráætlun um fornleifarannsóknir og stefnt að því að raska staðnum sem minnst með slíkum rannsóknum. Stefna eigi að fækkun sumarbústaða innan þjóðgarðsins og fylgja fram ströngum reglum til að koma í veg fyrir mengun í Þingvallavatni. Stefna eigi að því að tjágróður verði sem upprunalegastur með virðingu fyrir sérgreindum minningarlundum. Loka eigi bílastæðinu við Flosagjá, austan Öxarár. Setja eigi létta brú yfir Öxará í stað hinnar fyrirferðarmiklu steinbrúar.

 

Tekið var fram, að þetta væru alls ekki skilyrði heldur vinsamlegar ábendingar um það, sem mætti betur fara. Fulltrúi Benin í nefndinni furðaði sig á þessu um hina léttu brú yfir Öxará í ljósi þess, að 300 þúsund gestir færu þarna um ár hvert, taldi hann öruggara, að brúin væri úr steinsteypu.. Þessi ábending á léttum nótum kom í lok umræðna í nefndinni, þar sem hver fulltrúinn eftir annan fagnaði því að fá að taka þátt í að samþykkja Þingvelli á skrána. Engri spurningu var beint til okkar Íslendinganna, sem vorum sem áheyrnarfulltrúar á fundinum, og biðum spennt eftir niðurstöðunni.

 

Fulltrúi Breta sagðist eindregið styðja skráningu Þingvalla og hvatti til þess, að hún yrði upphaf athugana á vegum nefndarinnar til að skrá þingstaði, sem hefðu svipað gildi og Þingvellir og nefndi hann í því sambandi Tynwald á eyjunni Mön. Fulltrúi IUCN varpaði því fram, að ástæða væri til að huga að skráningu Þingvalla á heimsminjaskrána sem náttúruundur og þá jafnvel í tengslum við aðra staði á Norður-Atlantshafshryggnum, þar sem flekar meginlandanna mætast og landrek mælist.

 

Eftir rúmlega 20 mínútna kynningu og umræður lýsti kínverski formaður nefndarinnar, en hann er vara-menningarmálaráðherra, að hann teldi mikinn og öflugan einhug ríkja um stuðning við Þingvelli og lýsti þá skráða í hóp hinna merkustu heimsminja við dynjandi lófatak. Ég flutti þakkarræðu fyrir okkar hönd og síðan kom fjöldi fundarmanna og óskaði okkur til hamingju. Við höfðum komist í gegnum nálaraugað með fyrsta íslenska staðinn.

 

Eins og ég sagði finnst mér stundum á umræðum heima fyrir, að menn átti sig ekki á því, að hér er um heimsmeistarakeppni að ræða, þar sem tekist er á um niðurstöðu á vísindalegum og pólitískum forsendum. Hvergi er í skilgreiningum um staði litið til þess, hvort þeir dragi að ferðamenn eða ekki – málið snýst um, að skilgreina fleiri staði með þeim, sem um aldir voru taldir sjö undur jarðar. Síðan heimsminjasáttmálinn kom til sögunnar 1972 hafa kröfur vegna staða á heimsminjaskránni breyst á þann veg, að í sumum löndum eru ríkisstjórnir að óska eftir endurskráningu á stöðum, sem hafa hlotið skráningu á fyrstu árum sáttmálans, til að leggja staðina undir þann stranga dóm, sem fjallaði til dæmis um Þingvelli og gaf ráð um, hvað best væri að gera til að tryggja varðveislu staðarins um aldur og ævi.

 

Við Íslendingarnir, sem erum hér í Sozhou er stolt af því, að hafa verið trúað fyrir því, að Þingvellir kæmust á heimsminjaskrána og þakklát fyrir, að hafa fengið að verða við, þegar samþykkt var, að skrá Þingvelli.

 

Á morgun höldum við Rut héðan og förum til Beijing í nokkurra daga opinberu boði kínverskra stjórnvalda. Síðar segi ég frá því, hvernig Kína kemur mér fyrir augu.