13.6.2004

Þjóðaratkvæðagreiðsla undirbúin - ráðhúsklíka - forsíða Fréttablaðsins.

Umræður í tilefni af ákvörðun Ólafs Ragnars að synja því að staðfesta fjölmiðlalögin eru ekki enn farnar að snúast um efni málsins. Þær snúast þvert á móti enn um formið, hvernig eigi að haga atkvæðagreiðslunni. Ríkisstjórnin ræddi málið á fundi sínum þriðjudaginn 8. júní og að honum loknum hittu þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson forystumenn stjórnarandstöðunnar þá Össur Skarphéðinsson formann Samfylkingar, Ögmund Jónasson formann þingflokks vinstri/grænna og Guðjón Arnar Kristjánsson, formann frjálslyndra.

Á fundinum var skýrt frá þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að þing komi saman 5. júlí til að samþykkja lög um þjóðaratkvæðagreiðsluna, en hún fari fram fyrsta eða annan laugardag í ágúst. Forsætisráðherra sleit þessum fundi, þegar Ögmundur Jónasson ætlaði að ræða inntak væntanlegs frumvarps og setja skilyrði um efni þess. Taldi forsætisráðherra ekki tímabært að hefja slíkar umræður, enda mundi ríkisstjórnin síðar þennan sama dag skipa fjóra lögfræðinga til að fara yfir málið fyrir sína hönd og huga að efni laganna. Sleit hann fundi, án þess að ræða óskir Ögmundar og var fátt um kveðjur, ef marka má frásagnir fjölmiðla um fundarlok.

Mér finnst ástæðulaust að gera lítið úr þessum fundi eða láta eins og forsætisráðherra hafi beitt einhvern órétti, þegar hann var ekki til þess búinn að ræða við stjórnarandstöðuna mál, sem stjórnarflokkarnir höfðu ekki gert út um sín á milli og ætluðu að kalla sérfróða menn sér til ráðgjafar, áður en það yrði gert. Eftir fundinn er skýrt, að efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu, alþingi verður kvatt saman og greidd verða atkvæði í byrjun ágúst. Þetta bindur enda á vangaveltur um það, hvort synjun Ólafs Ragnars leiði til atkvæðagreiðslu, um það það, hvort tilhögun atkvæðagreiðslurnar verði ákveðin af alþingi eða með bráðabirgðalögum, og um það, hvort greidd verða atkvæði síðasta dag í júlí, það er um verslunarmannahelgina eða ekki.

Þessi mál voru til umræðu í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, sem kom saman til tveggja tíma langs fundar í Valhöll mánudaginn 7. júní, þar sem farið var yfir stöðuna og horft fram á veginn, eins og Davíð orðaði það að loknum fundi. Geir H. Haarde, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist að loknum fundi, samkvæmt frétt Morgunblaðsins, ekki hafa gert upp við sig hversu margir þyrftu að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni svo að hún teldist gild, en hann taldi að það kæmi vel til greina að gera kröfu um 75% þátttöku enda væru fordæmi fyrir slíku hér á landi og kosningaþátttaka almennt mikil. „Það læðist að manni sá grunur að þeir sem óttast slík skilyrði séu ekkert alltof öruggir með sinn málstað í málinu,“ sagði Geir.

Ég tek undir með Geir, að margt bendir til þess, að stjórnarandstaðan trúi því, að áhugi á þjóðaratkvæðagreiðslunni verði ekki mikill, þegar til hennar kemur, og þess vegna hafi hún ákveðið að beita sér gegn kröfu um lágmarksþátttöku, án þess þó að útiloka eitthvert gólf.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur verið að argast í mér vegna þessa máls á síðum Morgunblaðsins, eftir að ég birti þar lýsingu á reglum Reykjavíkurborgar og kröfu um lágmarksþátttöku. Ingibjörg Sólrún telur slíka kröfu til réttindaauka fyrir borgarana, þegar Reykjavíkurborg á í hlut, en til réttindaskerðingar, þegar ríkið á í hlut. Þetta er röksemdafærsla, sem ég skil hreinlega ekki ? að sama regla geti haft þveröfug áhrif eftir því, hvaða stjórnvald beitir henni.

Ráðhúsklíkan.

 

Helgi Hjörvar, alþingismaður og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar á R-listanum, fetar í fótspor Sverris Jakobssonar, eins af málsvörum vinstri/grænna í Reykjavík, sem sagði á dögunum, að klíka í ráðhúsi Reykjavíkurborgar væri að taka völdin af R-listanum. Aðalfyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins sunnudaginn 13. júní er þessi: „Reykjavíkurlistinn að verða lítil klíka. Einn af upphafsmönnum Reykjavíkurlistans segir að hann sé ekki lengur sú breiða hreyfing sem hann var. Hann hefur áhyggjur af því, að R-listinn sé að verða lítil klíka í Ráðhúsinu.“

Í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur segir Helgi meðal annars:

„Ég er sammála Sverri Jakobssyni, einum helsta hugsuði Vinstri grænna í Reykjavík, sem hefur áhyggjur af því að Reykjavíkurlistinn sé að verða klíka í Ráðhúsinu og ekki í tengslum við eitt né neitt. Að lokast ekki inni í Ráhúsinu er og verður verkefni okkar, en það er erfiðara en áður því stjórnmálaflokkarnir hafa í dag miklu sterkari stöðu í þessu samstarfi. Reykjavíkurlistinn er greinilega kosningabandalag stjórnmálaflokka og ekki lengur sú breiða hreyfing sem hún var.“

Með þessum orðum tekur Helgi Hjörvar undir það, sem hvað eftir annað hefur verið sagt hér á þessari síðu, að ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að bregðast kosningaloforði sínu um að sitja sem borgarstjóri til 2006 var náðarhöggið á R-listann. Henni var ljóst, að hún mundi gefa listanum þetta högg, því að við undirbúning framboðsins árið 2002 var það sagt afdráttarlaust, að framganga af þessu tagi mundi ekki hljóta blessun samstarfsmanna Samfylkingarinnar að R-listanum og mundi leiða til upplausnar hans. Ingibjörg Sólrún skildi R-listann eftir í samskonar uppnámi og Kvennalistann á sínum tíma, enda hafa hvorki forráðamenn R-listans né Kvennalistans viljað sjá hana koma fram í tilefni af tímamótum í starfi þessara hreyfinga.

Kolbrún spyr Helga um Þórólf Árnason borgarstjóra og fær þau viðbrögð, að Þórólfur sigli lygnan sjó og sinni því starfi farsællega að vera framkvæmdastjóri kosningabandalagsins! (Hvað með framkvæmdastjórn Reykjavíkurborgar?) Og síðan fær Þórólfur þessa pillu: „Ef Þórólfur ætlar sem borgarstjóri að leiða Reykjavíkurlistann gegnum kosningar verður hann að taka sér stöðu á hinum pólitíska velli og taka pólitíska forystu.“

Hvorugt hefur borgarstjóri gert og Kolbrún spyr: Þú viðurkennir að R-listinn er í tilvistarkreppu? Helgi svarar:

„Reykjavíkurlistinn þarf núna pólitíska forystu og pólitískan foringja til að komast í gegnum þetta tímabil og fara fyrir þeirri hugmyndalegu endurnýjun sem þarf að vera til að tíu ára gamalt batterí verði ekki úrelt.“

Þá höfum við það ? R-listinn orðinn að ráðhúsklíku og er að verða úreltur vegna forystuleysis á meðan framkvæmdastjóri kosningabandalagsins siglir lygnan sjó og enginn veit, hvort hann vill sinna eða sé til pólitískrar forystu fallinn.

Ég er undrandi á því, að Kolbrún skuli ekki spyrja Helga að því, hverjir myndi klíkuna, sem stjórnar okkur Reykvíkingum og hefur hrifsað völdin af R-listanum. Er það ekki hluti af hinum opnu, lýðræðislegu stjórnarháttum, sem Samfylkingin aðhyllist að upplýsa fólk um það, hverjir hafi völd þess í hendi sér? Það á kannski ekki við um R-listann?

Ég skora á fjölmiðla að leita svara við því fyrir okkur, sem sitjum í borgarstjórn Reykjavíkur og aðra Reykvíkinga, hvaða klíka það er, sem ræður ferð R-listans í ráðhúsinu. Af orðum Sverris Jakobssonar og Helga Hjörvar má draga þá ályktun, að klíkan sé ekki skipuð kjörnum fulltrúum heldur hafi embættismenn innan ráðhússins öll ráð R-listans og Reykjavíkurborgar í hendi sér.

Þegar viðtalið við Helga Hjörvar er lesið, vaknar spurning um, hvort tilefni þess sé svokölluð yfirheyrsla yfir Þórólfi Árnasyni borgarstjóra í DV þriðjudaginn 9. júní. Fyrsta spurning til hans þar er um það hvort þreyta sé komin í R-listasamstarfið. Þórólfur svarar:

„Það hefur nú ekki komið fram formleg gagnrýni á samstarfið frá flokksfélögunum þó auðvitað sé eðlilegt að innan raða framboðsins sé uppi gagnrýnin umræða.“

Borgarstjóri gerir mun á „formlegri gagnrýni“ frá flokksfélögunum og umræðum af öðrum toga og víkur sér þannig undan því að svara spurningunni, hann kýs að „sigla lygnan sjó“ og blaðamaðurinn spyr hann ekki, hvort hann ætli að axla pólitíska ábyrgð. Þórólfur Árnason lítur vafalaust þannig á, að gagnrýni Helga Hjörvars sé ekki „formleg“ og þess vegna geti hann ýtt henni frá sér.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður borgarstjórnarflokks R-listans og flokkssystir Helga Hjörvars í Samfylkingunni, komst þannig að orði í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins sunnudaginn 13. júní, að hann væri að horfa á málið frá sjónarhóli alþingismanns! Mátti skilja orð hennar á þann veg, að þess vegna væri ekki ástæða til að taka Helga mjög alvarlega.

 

Forsíða Fréttablaðsins.

Sagnfræðinemi við Háskóla Íslands tók sér fyrir hendur að skoða forsíður Fréttablaðsins og skrá hjá sér fyrirsagnir þar frá 22. apríl til 8. júní og sendi mér yfirlitið og ég sé, að Ólafur Teitur Guðnason, blaðamaður við Viðskiptablaðið, hefur einnig fengið sent þetta yfirlit og segir frá því í dálki sínum um fjölmiðla í blaðinu föstudaginn 11. júní.

Hin vikulega úttekt Ólafs Teits á fjölmiðlum er með því besta, sem birtist í íslenskum fjölmiðlum um þessar mundir, og meira en tímabært, að af alvöru og á rökstuddan hátt sé litið gagnrýnisaugum á íslenska fjölmiðla. Dálkar af þessu tagi eru forvitnilegt og vinsælt blaðaefni um allan heim auk þess sem slíkir þættir eru í hljóðvarpi og sjónvarpi.

Þátturinn Í vikulokin, sem Páll Heiðar Jónsson mótaði á rás 1 á sínum tíma og enn heldur lífi, byggist á því, að farið er yfir fréttir vikunnar og rætt um þær. Sá þáttur er hins vegar jafnan næsta fyrirsjáanlegur eftir því, hvaða fólk er valið þar til umræðna. Menn setja sig í ákveðnar stellingar, halda með einhverju liði í stjórnmálum heima eða erlendis og mæla því hiklaust bót á kostnað liðsins, sem þeir eru á móti.

Ólafur Teitur bendir á, að úttekt sagnfræðinemans sýni, að 30 af 46 forsíðufyrirsögnum Fréttablaðsins tengist fjölmiðlafrumvarpinu og þá séu fyrirsagnir um minnsta stuðning við ríkisstjórnina í áratug, eða um að Davíð hafi aldrei verið óvinsælli ekki taldar með.

Umræður um fjölmiðla krefjast þess, að menn vandi allar athuganir og færi góð rök fyrir niðurstöðum sínum, því að engir eru viðkvæmari fyrir gagnrýni en einmitt fjölmiðlamenn. Ég sá til dæmis, að ritstjórar DV lögðu mikið á sig til að gera sem minnst úr siðanefnd blaðamanna, eftir að hún lýsti DV brotlegt við meðferð viðkvæms máls. Þetta eru sömu ritstjórarnir, sem settust í stól vandlætarans, þegar ég sagðist líta á jafnréttislögin sem barn síns tíma, eftir að ég hafði kynnt mér niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála.