28.2.2004

Sigur Vöku – sigur frjálshyggju – Austfjarðaför – ESB-varnir og Ísland.

Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, vann kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands í þriðja sinn á dögunum. Fór þessi sigur furðulega lágt í fjölmiðlum – að minnsta kosti í samanburði við gauraganginn, sem jafnan varð, þegar Röskva var að vinna sigra sína fyrr á árum og látið var í veðri vaka, að þar með væru að gerast tímamót í íslenskum stjórnmálum. Af úrslitunum mætti ráða framtíð íslenskra stjórnmála um langan aldur og einstaklingar úr Röskvuliðinu voru hafnir til hæstu hæða á prenti og í ljósvakanum.

Röskvuliðar láta nú einna helst að sér kveða innan R-listans í Reykjavík og skiptast þar í þrjá flokka fyrir utan að treysta sér ekki til að viðurkenna flokkslit, svo að vísað sé til Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa.

R-listinn lifir aðeins vegna þess, hve hræddur hann er við að deyja. Aðstandendur hans hafa tekið til við að reka nagla í líkkistuna og heyrast hljóðin frá því víða, eins og til dæmis í Morgunblaðsgrein eftir Árna Þór Sigurðsson, forseta borgarstjórnar, um orkumál mánudaginn 23. febrúar síðastliðinn, þar sem hann var að árétta sjónarmið vinstri/grænna innan R-listans í orkumálum. Óvenjulegt er, að forystumenn R-listans kveði sér hljóðs á opinberum vettvangi og tali þar í nafni flokkanna á bakvið listann. Grein Árna Þórs sýnir mér aðeins eitt, að flokkarnir eru teknir til við það í vaxandi mæli að marka sérstöðu sína, vegna þess að forystumenn þeirra átta sig á því, að R-listinn hefur runnið sitt skeið.

Enginn fjölmiðill hefur auga á þessari R-lista þróun frekar en hinu, að sigur Vöku í Háskóla Íslands gengur þvert á hinn áralanga neikvæða áróður, einkum samfylkingarmannanna Björgvins G. Sigurðssonar og Ágústs Ólafs Ágústssonar, gegn störfum ráðherra Sjálfstæðisflokksins að menntamálum. Fyrir stúdentaráðskosningarnar að þessu sinni gerði Samfylkingin sérstakt átak til að auka hlut sinn á vettvangi Háskóla Íslands með rækilega auglýstri heimsókn þangað.

Allt kom fyrir ekki. Vaka sigraði glæsilega. Vaka er vel komin að sigrinum vegna hins góða árangurs, sem náðst hefur í málefnum stúdenta við Háskóla Íslands undir forystu hennar undanfarin ár – og raunar í þá tæpu sjö ártugi, sem félagið hefur starfað.

Hinir neikvæðu, ungu þingmenn Samfylkingarinnar ættu að snúa sér að öðru en menntamálum, ef þeir vilja ná einhverjum árangri. Tal þeirra, byggt á tölum frá OECD, um að allt sé á hverfanda hveli í íslenskum menntamálum er í hróplegri andstöðu við það, sem kennarar og nemendur í íslenskum skólum finna í daglegum störfum. Firring samfylkingarmanna í menntamálum skilar þeim engum atkvæðum.

Innan R-listans fer Stefán Jón Hafstein, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, með formennsku í fræðsluráði Reykjavíkurborgar og flytur hverja ræðuna eftir aðra í borgarstjórn um hættuna af því, að einkaframtakið fái að njóta sín meira við grunnskólastarfsemi í höfuðborginni. Þar birtist samfylkingarstefnan í menntamálum og hefði hún ráðið á háskólastiginu væri þar öðru vísi umhorfs.

Sigur frjálshyggju.

 

Líklega segir það meira en flest annað um áherslur íslenskra fjölmiðla, að í fyrsta sinn í sögu ljósvakamiðla fengu tveir frjálshyggjumenn að sitja saman fyrir svörum hjá Agli Helgasyni í þættinum Silfur Egils á Stöð 2 sunnudaginn 22. febrúar 2004 og ræða pólitískar hugsjónir sínar.

Í þættinum ræddu þeir dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og prófessor, við Egil í tilefni af því, að hinn 19. febrúar voru 25 ár liðin frá útgáfu bókarinnar Uppreisn frjálshyggjunnar. Kjartan Gunnarsson, núverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og þáverandi formaður Heimdallar, stóð að útgáfu bókarinnar.

Egill Helgason á heiður skilinn fyrir að leiða þessa tvo góðu málsvara frjálshyggjunnar fram í þætti sínum og gefa þeim tækifæri til að segja skoðun sína og leggja mat á þróun þjóðfélagsins, án þess að einhver yfirlýstur vinstri- eða ríkisforsjársinni tæki einnig þátt í umræðunum.

Þeir Hannes Hólmsteinn og Jón Steinar hafa látið mikið að sér kveða í umræðum og hugmyndafræðilegri baráttu íslenskra þjóðfélagsmála undanfarna áratugi. Þeir nálgast viðfangsefnið frá líkum sjónarhóli en nýta krafta sína á ólíkum sviðum. Þeir hafa báðir gefið út fræðilegar bækur og veita aðhald með skýrum og þaulhugsuðum málefnalegum rökum. Hvorugur þeirra hefur farið á mis við þær mannorðsárásir, sem hvað eftir annað hafa verið gerðar að málsvörum Davíðs Oddssonar og félaga hans á vettvangi Sjálfstæðisflokksins.

Það er til marks um næma tilfinningu Egils Helgasonar fyrir mikilvægum straumum í íslensku þjóðlífi að kalla þá Hannes Hólmstein og Jón Steinar til viðtals um þróunina frá útgáfu Uppreisnar frjálshyggjunnar. Íslenska þjóðfélagið hefur tekið miklum breytingum undanfarin 25 ár, ekki síst fyrir tilstilli þeirra, sem komu að þessu riti.

Austfjarðaför.

 

Í vikunni fór ég til Fjarðabyggðar og að Kárahnjúkum til að kynna mér störf undir forsjá dómsmálaráðuneytisins. Ég sannfærðist um, að vel er að verki staðið á vegum sýslumannsembættanna og kynntist enn einu sinni hinum mikla metnaði, sem ríkir meðal lögreglumanna.

Ég undraðist að heyra lýsingar á því, hve hart ýmsir fréttamenn gengu að sýslumanni og lögreglu á Eskifirði vegna líkfundarins við netabryggjuna í Neskaupstað. Ég trúi því ekki, að þessir aðgangshörðu fréttamenn hafi virkilega talið, að sýslumaður eða lögregla væru að leyna þá einhverju. Fréttamenn telja varla, að lögregla eigi að láta samtöl við þá hafa forgang við rannsókn mála af þessum toga.

Einkennilegt er að heyra fólk, sem greinilega hefur lítið eða ekkert fylgst með gangi máli, endurtaka hvert eftir öðru í spjallþáttum ljósvakamiðlanna, að lögreglan hefði átt að standa öðru vísi að miðlun upplýsinga. Þetta er í ætt við það, þegar tekið er til við að ræða um vændislagasetningu á Íslandi vegna umræðna í Svíþjóð eða hjónabönd samkynhneigðra vegna giftinga þeirra í San Fransisco.

Alltof oft skortir álitsgjafa hæfileika til að hverfa af dansgólfinu upp á svalirnar, svo að þeir sjái, hvað er að gerast, frekar en vera þátttakendur í dansinum sjálfum. Blaðamenn, sem standast ekki keppinautnum snúning, geta ekki kennt lögreglu um það. Augljóst er, að Morgunblaðið hefur flutt bestu fréttirnar í tengslum við líkfundinn í Norðfirði.

Á undanförnum árum hef ég margsinnis farið til Austfjarða í ólíkum erindagjörðum. Mér finnst breytingin vegna framkvæmdanna við Kárahnjúka og vegna álversins í Reyðarfirði meiri en ég gat gert mér í hugarlund. Hún hefur áhrif á allt austfirskt mannlíf og langt úr fyrir það, því að hundruð útlendinga eru nú starfandi á Austurlandi og þeim á eftir að fjölga. Á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar mun rísa um 1700 manna þorp, þegar ráðist verður í að reisa álver ALCOA, og enn er ekki fullmannað við framkvæmdirnar við Kárahnjúka, en þær eru þó tröllauknar nú þegar.

Ég sannfærðist um það við Kárahnjúka, að á skömmum tíma hefur tekist að skapa þar skilyrði til stórbrotnari framkvæmda en áður hafa verið í landinu. Á hinn bóginn er ekki við því að búast, að allur vandi í viðleitni við að skapa bestu aðstæður í öllu tilliti hafi verið leystur. Hinir erlendu verktakar hafa ekki áður kynnst slíkum veðurham og ekki eru öll stöðluð mannvirki gerð fyrir hann heldur verður að laga þau að verstu aðstæðum, eftir því sem á þau reynir.

Við ræddum fréttir af fíkniefnum við Kárahnjúka. Ég sannfærðist um, að lögreglan leggur sig fram um að bregðast við öllum ábendingum, sem hún fær um slík mál, auk þess sem eftirlit er öflugt í því skyni að hindra flutning slíkra efna á svæðið.

Vissulega er það fréttnæmt, að það leki hús við Kárahnjúka eða þar fari menn ekki að lögum, vegna þess að þar hafa hvorki verið hús né menn áður. Hitt er þó enn fréttnæmara, hve vel og skipulega hefur tekist að hrinda þessum ótrúlega umfangsmiklu framkvæmdum af stað og hvaða áhrif þau eiga eftir að hafa á Austurlandi og fyrir okkur Íslendinga alla.

ESB-varnir og Ísland.

 

Pieter C. Feith, yfirmaður á öryggis- og varnarmálaskrifstofu ESB í Brussel, flutti erindi um varnar- og öryggismál Evrópusambandsins á fundi Varðbergs og Samtaka um vestræna samvinnu fimmtudaginn 26. febrúar. Ég komst ekki til að hlusta á hann vegna þess að ég var austur á fjörðum. Á hinn bóginn sé ég og heyri í fjölmiðlum, að hann var sammála mér um, að það væri fráleitt að búast við því, að ESB tæki að sér varnir Íslands. Hann vill einnig, að varnir Íslands séu tryggðar með samkomulagi við aðra og álítur greinilega, að skynsamlegast sé að halda áfram varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna.

Talið um, að ESB taki að sér varnir Íslands og þess vegna sé í góðu lagi að rifta varnarsamstarfinu við Bandaríkin er álíka vanhugsað og orðræðurnar um, að Íslendingar þurfi ekki lengur að huga að öryggis- og varnarmálum í utanríkisstefnu sinni, nú þurfi bara að hugsa um viðskiptamálin. Þeir, sem þannig tala, líta algjörlega framhjá alþjóðavæðingunni í viðskiptamálum, sem byggist á fjölþjóðlegum samningum á borð við aðildina að EES og WTO, og skapar engin stórvandamál fyrir okkur Íslendinga. Óvissan um öryggis- og varnarmál er miklu meiri fyrir okkur og aðra. Þar er nauðsynlegt að sameina þekkingu á því, sem var, og skýra sýn á það, sem er og verður.