Sigur Íhaldsflokksins - hlutverk Sjálfstæðisflokksins
Breski Íhaldsflokkurinn hefur gengið í gegnum ýmsar þrengingar þar til honum tókst að ná hreinum meirihluta á þingi í kosningunum fimmtudaginn 7. maí 2015. Þá voru 23 ár liðin síðan hann hlaut meirihluta síðast í kosningum, árið 1992 undir forystu Johns Majors, arftaka Margaret Thatcher sem var ýtt til hliðar af flokksbræðrum sínum. Nú fékk hann þvert á allar kannanir 330 þingmenn eða 331 ef forseti neðri deildar þingsins er talinn með, hann tekur ekki þátt í atkvæðagreiðslum.
Bresku blöðin tala um „einstakan“ eða „frábæran“ sigur sem að mati The Daily Telegraph (DT) er meiri en sigurinn 1992 því að þá hafi íhaldsmenn ekki þurft að berjast við UKIP sem talið var að mundi nú útiloka sigur þeirra. Bresku kosningalögin og höfuðmarkmið einmenningskjördæma er að tryggja starfhæfan meirihluta á þingi og að það skuli hægt með 36,9% atkvæða segir sína sögu – einnig hitt að 0,8% hærra atkvæðafjölda íhaldsmanna skuli fjölga þingmönnum þeirra um 24. Verkamannaflokkurinn bætti hlutfall sitt 1,5 stig, fékk 30,4%, en tapaði 26 þingmönnum. Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði af sér nokkrum klukkustundum eftir að úrslitin birtust.
Í leiðara DT segir að sigur íhaldsmanna hafi meðal annars verið einstakur vegna þess að þeir hafi ekki getað breytt kjördæmamörkum á kjörtímabilinu eins og þeir vildu vegna andstöðu frjálslyndra lýðræðissinna sem sátu með þeim í stjórn, fulltrúa flokks sem um árabil hefur verið þriðji stærsti flokkurinn á Bretlandi. Hann fékk nú hroðalega útreið, aðeins 7,9% atkvæða, tapaði 15,2 stigum og 49 þingmönnum í átta. Nick Clegg, leiðtogi flokksins, sagði einnig af sér skömmu á undan Miliband. DT segir að hefði kjördæmaskipanin endurspeglað betur stuðninginn við Íhaldsflokkinn á Englandi hefði hann fengið 20 þingmenn til viðbótar.
Meira að segja David Cameron hafði aldrei gert sér í hugarlund að hann mundi njóta stuðnings 12 manna meirihluta eigin þingmanna að kosningum loknum. Þetta viðurkenndi hann þegar úrslitin voru kunn. Þetta er í fyrsta sinn síðan 1966 sem ríkisstjórnarflokkur í Bretlandi eykur atkvæðahlutfall sitt og hinn fyrsti síðan 1983 sem fjölgar þingmönnum sínum.
Kjarninn í boðskap íhaldsmanna var að þeir byðu besta forystumanninn og þeir hefðu bestu tökin á efnahagsmálunum. Í Bretlandi eins og annars staðar er þetta sigurstrangleg tvenna sé rétt á málum haldið í kosningabaráttunni. Um tíma þótti mér eins og David Cameron berðist ekki af sama ákafa og Ed Miliband sem greinilega lagði allt í sölurnar. Fleiri voru sömu skoðunar og ég, þar á meðal kosningastjórn Íhaldsflokksins sem skipaði Cameron rúmri viku fyrir kjördag að skipta um gír og birtist það best á fundi sem hann hélt með eigendum lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem hann talaði sig sveittan, fór úr jakkanum og sagðist vera að springa af baráttuþreki.
Skoðanakannanir sýndu Íhaldsflokkinn og Verkamannaflokkinn með 33 til 34% til skiptis. Þær reyndust rangar eins og árið 1992. Spekingar sögðu að fengi UKIP yfir 10% þýddi það dauðadóm yfir íhaldsmönnum. Flokkurinn fékk 12,6% og bætti við sig 9,5 stigum en ekki nema einn þingmann. Nigel Farage var þriðji flokksleiðtoginn sem sagði af sér að morgni föstudags 8. maí. Ótrúlegur árangur Skoska þjóðarflokksins (SNP) særði Verkamannaflokkinn hins vegar svöðusári, flokkurinn fékk þó ekki nema 4,7% atkvæða, bætti við sig 3,1 stigi, en þingmönnum hans fjölgaði um 50 í 56 af 59 þingmönnum Skotlands.
DT segir að ástæðan fyrir því að kannanir hafi verið túlkaðar á neikvæðan hátt fyrir íhaldsmenn komi ekki á óvart. Það sé í anda þeirra mið-vinstri skoðana sem eitri mikið af opinberum umræðum í Bretlandi og snúist um gildi sem séu einfaldlega í andstöðu við skoðanir meirihluta fólks. Hvort sem álitsgjafarnir sitji í fréttastofu BBC eða þeirra miðla sem kalla sig frjálslynda geti þeir einfaldlega ekki skilið að hin þögula íhaldssemi sé einkenni meirihluta á Bretlandi og hafi alltaf verið þótt hún birtist í ólíkum myndum. Rödd þessa fólks hafi heyrst á kjördag en það hafi haft hljótt um sig eða sagst vera óákveðið en þó ætlað að kjósa Íhaldsflokkinn.
DT spyr hvers vegna þetta fólk hefði átt að láta skoðun sína í ljós í könnunum þegar það hefði aðeins orðið til að espa vinstrisinna sem hrópi, tísti og bloggi en geri ekki í raun annað en ala á eigin blekkingu. Þegar ósigurinn lá fyrir hafi vinstrisinnarnir meira að segja látið eins og „and-aðhalds“-flokkarnir hefðu unnið í siðferðilegu rökræðunum eða háð bestu kosningabaráttuna.
Blaðið segir að sem betur fer hafi kjósendur látið skynsemina ráða, hefði Ed Miliband orðið forsætisráðherra hefði það jafngilt höfnun á öllu sem áunnist hefur síðan 1979 og gert Bretland að nútímalegu, samkeppnisfæru samfélagi sem reist sé á kenningunni um ábyrgð og framtak einstaklinga. Íhaldsmenn hafi hamrað á því alla kosningabaráttuna að efnahagurinn væri að batna og ekki mætti hleypa þeim aftur að völdunum sem hefðu vegið að honum. Í huga flestra hefði þetta skipt mestu: hverjum treystum við? Svarið hafi verið: ekki Verkamannaflokknum.
Hér er komið að kjarna stjórnmálabaráttunnar hvort sem hún er háð í Bretlandi eða á Íslandi. Að þessu leyti hefur Sjálfstæðisflokkurinn einstakt tækifæri í þeirri ríkisstjórn sem nú situr þegar formaður hans er efnahags- og fjármálaráðherra. Á lýðveldistímanum hefur það einu sinni gerst áður árin 1985 til 1987 þegar Þorsteinn Pálsson var hvort tveggja í senn fjármálaráðherra og flokksformaður. Síðan hefur umboð fjármálaráðherrans verið aukið með því að fela honum einnig stjórn efnahagsmála.
Nýti Sjálfstæðisflokkurinn ekki þetta tækifæri sem hann hefur núna til að endurvinna traust sem flokkur öryggis og stöðugleika í efnahags- og ríkisfjármálum fer mikið forgörðum. Þegar áföllinn gengu yfir haustið 2008 skipti miklu að staða ríkissjóðs var til fyrirmyndar. Naut þar starfa og stefnu Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu í rúm fjögur kjörtímabil auk forystu hans í ríkisstjórn nær allan þann tíma.
Viðfangsefnin núna eru stór á tímum kjaradeilna og umbrota við að losa sig undan höftum. Á slíkum örlagatímum gefast einnig tækifæri til sögulegra ákvarðana og þau ber að nýta með þjóðarhag að leiðarljósi.
Formaður Sjálfstæðisflokksins verður annars vegar að halda þannig á málum að honum sé treyst til að fara af skynsemi og öryggi með stjórn efnahags- og ríkisfjármála og hins vegar að litið sé á Sjálfstæðisflokkinn sem trausts verðan. Í síðara tilvikinu er verulegs átaks þörf, ekki síst í hinu gamla höfuðvígi flokksins, Reykjavík.