19.4.2015

Össur lýsir ESB-viðræðustrandinu 

 

Stjórnarandstaðan sneri við blaðinu í ESB-málinu með tillögu sinni um að þjóaratkvæðagreiðsla skuli fara fram um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.  Áður en umsóknin um aðild var samþykkt 16. júlí 2009 voru flokkarnir sem nú standa að þessari tillögu og þá áttu fulltrúa á alþingi alfarið á móti því að þjóðin greiddi atkvæði um hvort sækja ætti um eða ekki. Nú sex árum síðar þegar viðræðunum við ESB er lokið vegna þess að þær sigldu í strand strax í mars 2011 vilja þingflokkar stjórnarandstöðunnar að þráðurinn í viðræðunum sé tekinn upp að nýju þar sem Össur Skarphéðinsson skildi við hann í janúar 2013.

Eins og gefur að skilja vafðist það fyrir mörgum þingmönnum í umræðum um tillöguna þriðjudaginn 14. júlí hvað hefði leitt til þessara sinnaskipta. Eftir að Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, hafði flutt ræðu sína til stuðnings tillögunni spurði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna: Hvað veldur þeim dramatísku sinnaskiptum sem nú eiga sér stað í Samfylkingunni þegar hún allt í einu vill leita til þjóðarinnar í þessu máli?“

Svar Katrínar var rýrt. Hún sagði:

Það sem vakir fyrir okkur í því að leggja fram tillögu núna um að spyrja þjóðina hvort halda skuli áfram með þær viðræður eður ei er einfaldlega það að við erum þeirrar skoðunar að það hafi verið, miðað við þá stöðu sem uppi er núna, eðlilegt og sé eðlilegt, sérstaklega í ljósi þess að menn ætla meira að segja að sniðganga þingið í slitum á þeim viðræðum. 55 þúsund manns hafa óskað eftir því að fá að svara þessari spurningu. Okkur þykir þess vegna eðlilegt að verða við því.“

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar, spurði Katrínu Júlíusdóttur hvort hún teldi hægt að hefja viðræður að nýju á sama grundvelli og gert var á síðasta kjörtímabili í ljósi þess að ekki fengust umræður um sjávarútvegsmál við Evrópusambandið á síðasta kjörtímabili.

Katrín svaraði þessari spurningu á þann veg að hún sæi „ekki neina sérstaka ástæðu til þess að við förum að endurskoða forsendur aðildarviðræðnanna“. Varaformaður Samfylkingarinnar sagði einnig að ekkert hefði breyst enda væru sjávarútvegmálin enn þá grundvallarhagsmunir okkar Íslendinga“.

Birgir Ármannsson spurði Össur Skarphéðinsson um hið sama. Össur svaraði á þennan veg:

„Það er misskilningur eða partur af rangfærslum þegar menn hafa verið að halda því fram að það hafi verið vegna þeirra markmiða sem Ísland lagði fram í nefndarálitinu [um sjávarútvegsmál] … að Evrópusambandið skirrtist við að leggja fram sína rýniskýrslu um málið. Það er algjörlega skýrt hvað þar var á ferðinni. Við vorum þá í deilu við Evrópusambandið um makríl og sá maður til dæmis sem var nú verið að reka úr framboði fyrir Front National [Jean-Marie Le Pen] í Frakklandi var í fararbroddi með fleirum innan sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins til þess að koma því svo fyrir að ekki yrði gengið til samningaviðræðna við Ísland um sjávarútvegsmálin fyrr en makríldeilan væri leyst. Það var náttúrlega svívirðilegt og skammarlegt, en þannig reyndu makríllöndin að láta kné fylgja kviði gagnvart okkur. Við féllumst aldrei á neina undangjöf í því.“

Þetta segir Össur nú, árið 2015, en í bók sinni um árið 2012 segir hann frá ferð sinni á fund hjá Alain Juppé, utanríkisráðherra Frakka, til að fá hann til að liðka um fyrir ESB-viðræðunum. Juppé hafði óskir Össurar að engu og nú lætur hann að því liggja að það hafi verið vegna þess að Juppé óttaðist að Þjóðfylkingin mundi hagnast á liðlegheitum við Íslendinga.

Síðar í þingumræðunum sagði Össur að hann hefði setið fund með Mariu Damanaki, þáv. sjávarútvegsstjóra ESB, sem hefði ekki viljað tala um neitt nema makríl „þangað til utanríkisráðherra Íslands stóð upp, bara svo að það liggi algjörlega ljóst fyrir“. 

Jón Bjarnason ákvað makrílkvóta fyrir árið 2012 einhliða áður en hann var hrakinn úr embætti sjávarútvegsráðherra 31. desember 2011 og batt þannig hendur Össurar og annarra íslenskra stjórnmála- og embættismanna. Báru ESB-aðildarsinnar Jóni illa söguna sem hins mesta óþurftarmanns og dragbíts. Á alþingi hinn 14. apríl 2005 sagði Össur hins vegar: „Og ég vil líka segja það, af tillitssemi við minn fyrrverandi félaga og vin, þó að við höfum verið á öndverðum meiði, Jón Bjarnason, að ég tel ekki að framganga hans hafi orðið til þess að seinka þessum viðræðum. Það voru aðrir hlutir. Það var makríllinn fyrst og fremst. En hins vegar get ég sagt að ekki var það til þess að flýta þeim.“

Össur endurtók í umræðunum 14. apríl 2015 það sem hann hefur áður sagt um skýrslu Evrópunefndar undir minni formennsku sem kom út í mars 2007: „Ég sat í henni, sagði Össur og bætti við: „Þar er getið á fjórða tugar undanþágna um landbúnað. Það kom skýrt fram í þeirri skýrslu […] að hægt er að fá fram undanþágur.“ Gaf Össur síðan til kynna að unnt yrði að frá undanþágur í 1000 ár fyrir íslenskan landbúnað. Að unnt sé að draga þá ályktun af þessari skýrslu að um annað en tímabundnar ESB-undanþágur sé að ræða fyrir ný ESB-aðildarríki er einfaldlega oftúlkun svo að ég segi ekki vísvitandi rangfærsla.

Birgir Ármannsson sætti sig ekki við svör Össurar og spurði hvort hann teldi hugsanlegt að annað en makríll hefði stöðvað ESB-viðræðurnar til dæmis munurinn „á föstu regluverki Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegsmála annars vegar og hins vegar þeirri samningsafstöðu Íslendinga sem lesa má út úr áliti meiri hluta utanríkismálanefndar“ alþingis frá júlí 2009.

Össur svaraði:

„Tel ég að munurinn á regluverkinu og samningsmarkmiðum okkar sé allnokkur og það þurfi skapandi aðferðir til að laga það. En með hliðsjón af því með hvaða hætti Norðmenn luku erfiðum pörtum af sínum samningi þá held ég að það sé hægt. En ég hef alltaf sagt eitt og haldið því til haga: Ég tel að það langerfiðasta í þessu og lokaglíman hefði orðið um gagnkvæman rétt til fjárfestinga. Það hef ég alltaf sagt.“

Birgir Ármannsson minnti á að fyrir utan fjárfestingarnar snerist málið um samningsforræði vegna deilistofna, samningsforræði á alþjóðavísu sem Evrópusambandið hefði samkvæmt grundvallarreglum sínum á eigin hendi, það yrði ekki á forræði einstakra aðildarríkja eins og Íslendingar vildu. Þá snerist málið einnig um stjórn í 200 mílna fiskveiðilögsögunni. Hvort Össur teldi ekki að þessi atriði hefðu leitt til fyrirstöðu af hálfu ESB. Hvort samningsforræði varðandi deilistofna væri umsemjanlegt af Íslands hálfu eða hvort hann teldi líklegt að Evrópusambandið hefði undir einhverjum kringumstæðum fallist á að afsala sér samningsforræði fyrir hönd Evrópusambandsríkja í málefnum af því tagi.

Össur svaraði:

„Hv. þingmaður spyr síðan hvort eitthvað af þessu sé umsemjanlegt. Ja, þá held ég að hann geti hvorki fengið mig sem þingmann í stjórnarandstöðu né hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli eða nokkru öðru miklu hagsmunamáli til þess að fallast á að eitthvað af samningsmarkmiðunum sé umsemjanlegt.“

Þetta er sögulegt svar hjá Össuri sem skýrir hvers vegna hann lagði umsóknina á hilluna í janúar 2013. Hann varð að gera það því að hann komst ekki lengra með málið nema falla frá markmiðum sem hann taldi ekki „umsemjanleg“. Hann vill ekki enn þann dag í dag falla frá þessum markmiðum og þar með liggur málið dautt. Hið einkennilega er að hann lætur eins og voðinn sé vís verði ESB-umsóknin dregin til baka við þessar aðstæður. Að baki því búa einhver óskiljanleg pólitísk rök til heimabrúks.

Í umræðunum á alþingi hinn 14. apríl 2015 kom einnig fram að Össur hefur enga trú á að tillagan sem var til umræðu nái fram að ganga en í henni segir að kosið skuli um framhald ESB-viðræðna í september 2015. Össur sagði:

„Ég tel að næstu þingkosningar [2017] muni snúast að verulegu leyti um tvennt, um að þjóðin fái að greiða atkvæði um það hvort hún vill halda viðræðunum áfram og um nýja og endurbætta stjórnarskrá á grundvelli þess verks sem unnið var í tíð síðustu ríkisstjórnar.“

Samfylkingin klúðraði bæði ESB-málinu og stjórnarskrármálinu en Össur heldur samt að þau verði helstu mál kosningabaráttunnar 2017. Ætlar Samfylkingin að halda þeim á loft? Undir formennsku hvers?