6.4.2015

Hlé á Evrópuvaktinni - umsókn fjarlægari en áður

Hinn 31. mars 2015 tilkynntum við Styrmir Gunnarsson að við hefðum gert hlé á daglegri útgáfu Evrópuvaktarinnar þar sem við höfum skrifað daglega frá því að vefsíðan evropuvaktin.is sá dagsins ljós 27. apríl 2010. Þetta eru því tæp fimm ár af sex sem nú eru liðin frá því að ESB-umsóknin komst á dagskrá íslenskra stjórnmála fyrir kosningarnar 25. apríl 2009.

Þá sögðu talsmenn aðildar, eins og Árni Páll Árnason, núverandi formaður Samfylkingarinnar, að á árinu 2011 mundu Íslendingar greiða atkvæði um aðild að ESB að loknum viðræðum við ESB þar sem okkur yrði tekið opnum örmum. Daginn fyrir kjördag sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, að vísu að hann mundi ekki ljá ESB-aðild liðsinni sitt.

Hvorugur þeirra Árna Páls eða Steingríms J. stóð við loforð sín. Kjörtímabilinu sem hófst 25. apríl 2009 lauk án þess að ESB-viðræðunum lyki og sjálfur umsóknarráðherrann Össur Skarphéðinsson sló þeim á frest í janúar 2013 vegna ágreinings um sjávarútvegsmál.

Samfylkingin tapaði illilega í þingkosningunum 27. apríl 2013. Össur Skarphéðinsson lýsti úrslitunum sem „hamförum“ fyrir sinn flokk. Af stjórnarflokkunum var útreið Samfylkingarinnar verri en VG – sá mikli munur var á stefnu flokkanna að Samfylkingin lagði áherslu á ESB-aðild fyrir kosningar en VG ekki. Úrslit kosninganna voru algjört vantraust á Össur og ESB-stefnu hans. „Dytti nokkrum flokki í hug að halda áfram á þeirri óheillabraut að kosningum loknum sýndu forystumenn þess flokks mikið dómgreindarleysi,“ sagði hér á síðunni að kvöldi kjördags 2013.

Andstöðuflokkarnir við ESB-aðild, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, mynduðu ríkisstjórn og í sáttmála ríkisstjórnarinnar frá 22. maí 2013 segir:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Því miður hefur framkvæmd á þessari stefnu ríkisstjórnarinnar verið nokkuð ómarkviss. Hún hefði strax sumarið 2013 getað sent bréfið sem utanríkisráðherra sendi ekki fyrr en 12. mars 2015 þar sem hann tilkynnti að Ísland ætti ekki lengur að vera skrá yfir umsóknarríki hjá ESB. Það hefði verið í samræmi við boðskapinn sem ráðherrann og forsætisráðherra fluttu stjórnendum ESB sumarið 2013.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann úttektina á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan ESB. Skýrslan sem stofnunin sendi frá sér í febrúar 2014 markaði þáttaskil í öllu mati á stöðu málsins og leiddi í ljós að í raun hafði ekkert miðað í viðræðum fulltrúa Íslands og ESB frá mars 2011 þegar ESB-menn neituðu að skila rýniskýrslu um sjávarútvegsmál.

Föstudaginn 21. febrúar 2014 samþykkti ríkisstjórnin að leggja fram tillögu til þingsályktunar um að afturkalla ESB-aðildarumsóknina. Strax sömu helgi hófu ESB-aðildarsinnar, sem hvað eftir höfðu orðið undir í umræðum og atkvæðagreiðslum innan Sjálfstæðisflokksins, sókn á forystumenn flokksins með ásökunum um svikabrigsl. Á alþingi stofnaði stjórnarandstaðan til stórátaka til að hindra framgang tillögunnar. Lauk stríðinu á þann veg að tillagan lá óafgreidd í nefnd í þinglok.

Hinn 12. mars 2015 valdi utanríkisráðherra þá leið að senda forseta ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf og mælast til þess að Ísland yrði máð af lista yfir umsóknarríki í bókum ESB. Á alþingi kom fram að bréfið hefði verið samið og sent eftir samráð hæstsettu embættismanna utanríkisráðuneytisins við ESB-menn. Fyrrverandi ESB-viðræðustjóri Íslands er nú ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins. Eftir að bréf utanríkisráðherra barst til Brussel létu embættismenn þar eins og ekkert yrði tekið mark á því þótt þeir hefðu jafnan áður sagt að íslenska ríkisstjórnin hefði í eigin hendi að ákveða stöðuna gagnvart ESB.

Hvað sem Brusselmenn gera hafa þau þáttaskil orðið í umræðum um ESB-málið á heimavelli að flokkarnir sem máttu ekki heyra á það minnst sumarið 2009 að leitað yrði álits þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu um það hvort hún vildi að sótt yrði um aðild að ESB hafa nú sameinast á alþingi um tillögu um að kosið verði um hvort halda eigi ESB-viðræðunum áfram.

Vandinn við þessa tillögu er að hún er hálfköruð eins og allt sem þessir flokkar hafa aðhafst í ESB-málum af því að þeir láta undir höfuð leggjast að vinna heimaverkefnin sín. Þeir verða að segja hvernig á að hefja viðræðurnar. Þeir verða að taka af skarið um samningsmarkmið í sjávarútvegsmálum sem falla að skilyrðum ESB, þeir verða að falla frá kröfunni um stjórn Íslendinga á 200 mílunum og á veiðum úr flökkustofnum (loðnu, síld og makríl).

Við þessi þáttaskil ákváðum við Styrmir Gunnarsson að gera hlé á útgáfu Evrópuvaktarinnar.

Ég er þeirrar skoðunar að bröltið sem leiddi til þess árið 2009, að kröfu Samfylkingarinnar, að sótt var um aðild að ESB án nægilegs undirbúnings og nægilegs pólitísks stuðnings vegna þess eins að nota átti tækifærið til hraðferðar á meðan Svíar sátu í forsæti ESB hafi í raun leitt til þess á sex árum að reistur hafi verið nýr pólitískur þröskuldur á hugsanlegu umsóknarferli í framtíðinni – þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort senda eigi aðildarumsókn. Þetta var stefna Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 25. apríl 2009 – stefna sem felld var með 32:30 á alþingi 16. júlí – illu heilli fyrir aðildarsinna.

ESB-Samfylkingin er klofin ofan í rót. Málum er þannig háttað að eina málið sem hún hefur flaggað til að breiða yfir meðfætt sundurlyndi innan flokksins er orðið að engu. Landsfundur flokksins 21. mars 2015 bar með sér algjört forystuleysi,. Samþykktin um að hverfa frá áformum um olíuleit á Drekasvæðinu sýnir að ný öfl hafa náð undirtökum í flokknum. – Össur Skarphéðinsson mat jafnvel meira að vera kallaður olíumálaráðherra en ESB-ráðherra. Hann mátti sín einskis á landsfundinum og það munaði að sögn ekki nema 10 atkvæðum að samþykkt yrði að Ísland segði sig úr NATO.

Á Evrópuvaktinni skrifuðum við um meira en ESB-málefni, öryggismál í okkar heimshluta voru okkur einnig hugleikinn. Um þessar mundir er þess minnst að um það bil eitt ár er liðið frá því að hernaðarátök hófust í austurhluta Úkraínu en Rússar innlimuðu Krímskaga á ólögmætan hátt um miðjan mars 2014. Full ástæða er til að fylgjast náið með framvindu þessa þáttar alþjóða- og öryggismála á komandi vikum og mánuðum.