20.3.2015

Bréf utanríkisráðherra skapar ESB-umræðum nýtt inntak

Vegna þess hve stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn eru fastir í því sem gerist á líðandi stundu gleyma þeir gjarnan að setja málefni í stærra samgengi en nær til þeirra orða sem falla í sama mund og þau eru sögð. ESB-umræður hafa verið á þessu stigi í sex ár. Deilt er um hver sagði hvað eða hvenær og spurt er hvort menn ætli ekki að standa við eitthvað sem þeir sögðu fyrir kosningar þetta eða hitt árið.

Vissulega eru umræður á þessum grunni nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í lýðræðislegum skoðanaskiptum. Fyrir kosningar 2009 voru gáfu forystumenn Samfylkingarinnar fyrirheit sem lutu að því að innan árs, 18 mánaða eða í síðasta lagi á árinu 2012 mundi þjóðin greiða atkvæði um aðildarsamning að ESB. Fyrir sömu kosningar sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, einnig að hann mundi ekki vinna að ESB-aðild að kosningum loknum. Við ekkert af þessu staðið.

Fyrir kosningar 2013 sögðu forystumenn Sjálfstæðisflokksins að þeir vildu ekki aðild að ESB en þeir myndu sjá til þess að þjóðin kæmi að framhaldi ESB-viðræðnanna og jafnframt að þeir vildu helst að það gerðist á fyrri hluta kjörtímabilsins og kannski í tengslum við sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2014. Í umræðum hefur miklu hærra verið hrópað á efndir þessara fyrirheita en hinna sem ESB-aðildarsinnar gáfu fyrir kosningarnar 2009. Í ljósi samþykkta landsfundar sjálfstæðismanna liggur beint við að túlka stefnu flokksins á þann veg að loforðin snúi aðeins að framhaldi viðræðna við ESB en ekki slitum þeirra.

Eftir að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur mynduðu ríkisstjórn í maí 2013 hefur aldrei komið til tals af hálfu ríkisstjórnarinnar að halda ESB-viðræðunum áfram og nú hefur utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson ritað ráðherraráði ESB og framkvæmdastjórn bréf og óskað eftir að Ísland verði máð af lista sambandsins yfir umsóknarríki. Olli bréfið uppnámi hér á landi og ekki hefur enn komið svar frá Brussel við efni þess.

Upplýst hefur verið að bréfið var samið með vitund embættismanna Evrópusambandsins ef ekki í samráði við þá eins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra orðaði það. Í umræðum á alþingi þriðjudaginn 17. mars sagði Össur Skarphéðinsson að á fundi utanríkismálanefndar alþingis að morgni þess sama dags hefði utanríkisráðherra greint frá því að hann hefði „sent bestu menn sína, háttsettustu [svo] embættismenn ráðuneytisins, til Brussel til að skýra efni þess [bréfs ráðherrans] fyrir Evrópusambandinu“.

Fari Össur Skarphéðinsson með rétt mál verður ekki dregin önnur ályktun af orðum hans en Stefán Haukur Jóhannesson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og fyrrv, ESB-viðræðustjóri, hafi verið sendur til Brussel til viðræðna við embættismenn þar áður en utanríkisráðherra kynnti bréfið fimmtudaginn 12. mars 2015 á fundi í Slóvakíu með lettneskum starfsbróður sínum, Edgars Rinkevics, núverandi formanni ráðherraráðs Evrópusambandsins.

Allar frásagnir benda til þess að utanríkisráðherra hafi vænst annarra viðbragða frá talsmönnum viðræðustjóra stækkunarmála hjá ESB og lettneska utanríkisráðherranum en kynnt hafa verið eftir að bréfið var afhent. Afstaða ESB hefur einkennst af skeytingarleysi og ber þess ekki merki að Ísland verði máð af lista ESB yfir umsóknarríki. Að utanríkisráðuneyti Íslands líði þessa framgöngu af hálfu ESB má túlka sem undirgefni gagnvart Brusselmönnum og ýtir undir þá skoðun að hagsmunagæslu Ísland gagnvart ESB sé ekki sinnt af þeim þunga sem ber – og af hálfu ESB gangi menn á lagið.

Þegar umræðurnar nú eru bornar saman við áherslurnar sem settu svip á umræður um sama mál fyrir ári sést að algjör þáttaskil hafa orðið í málflutningi stjórnarandstöðunnar. Nú er ekki lengur talað um nauðsyn þess að halda áfram viðræðum við ESB með að markmiði að „kíkja í pakkann“. Nú leggur stjórnarandstaðan höfuðáherslu á að ekki skuli rætt frekar við Evrópusambandið nema að baki ákvörðun um frekari viðræður liggi samþykki þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu.

Þetta er stefnan sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í mars 2009 og hafnað var af flokkunum sem nú hafa gert hana að sinni við afgreiðslu umsóknarinnar á alþingi 16. júlí 2009. Hér er því um söguleg þáttaskil í ESB-umræðunum að ræða. Í stað þess að ræða um stjórnarandstöðuna sem viðræðusinna eins og gera mátti er nær að tala um hana sem þjóðaratkvæðissinna.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar alþingis, spurði oftar en einu sinni að því í umræðunum um munnlega skýrslu utanríkisráðherra á alþingi 17. og 18. mars hvað stjórnarandstæðingar vildu gera til að unnt yrði að hefja viðræður við ESB að nýju.

Þetta er lykilspurning því að forystumenn Samfylkingar og VG stóðu að því í janúar 2013 að slá viðræðunum við ESB á frest vegna þess að ESB-menn höfðu haldið sig til hlés í viðræðum um sjávarútvegsmál frá 2011.

Í Morgunblaðinu föstudaginn 20. mars ræðir Agnes Bragadóttir blaðamaður við Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri, höfund kaflans í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá febrúar 2014 um ESB-viðræðuferlið. Hann segir:

„Það liggur fyrir að það var Evrópusambandið sem stoppaði viðræðurnar […]. Þeir sem vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram og samningum verði lokið, verða að gera grein fyrir því hvernig þeir ætla að ljúka samningum við ESB, sem vill ekki semja við Ísland.[…]

 

Ég tel að ef efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti að spyrja þjóðina hvernig hún ætlaði að komast í viðræður, við einhvern sem er ekki að svara í ferlinu. Það var sett upp ákveðið ferli og samkvæmt því á að skila rýniskýrslu eftir seinni rýnifundinn umsóknarlands og Evrópusambandsins. Hvað gerir umsóknarlandið, ef þessari skýrslu er ekki skilað? Þeirri spurningu verður að svara.[…]

 

Niðurstaða lykilmanna sem ég ræddi við [í Brussel] var sú að það væri ekki hægt að koma fram með rýniskýrsluna um sjávarútvegskaflann vegna þess að í henni hefði verið krafa um tímasetta aðgerðaráætlun um það hvernig Ísland ætlaði að taka upp Evrópulöggjöfina í sjávarútvegi. Þeir vissu sem var að viðbrögðin við slíkri kröfu gætu ekki orðið önnur en lok samningaviðræðna. Þannig að við þær aðstæður sem fyrir hendi voru var klárlega ekki hægt að ljúka viðræðunum.“

 

Þá segir í fréttinni:

 

„Hann [Ágúst Þór] segir að í sínum huga sé það alveg ljóst að afstaða Evrópusambandsins sé sú að málið liggi bara dautt, þar til fyrir liggur að meirihluti þjóðarinnar hefur tekið af skarið um að hann vilji ganga í Evrópusambandið. „Það yrði þá á forsendum Evrópusambandsins, en ekki okkar. Í prinsippinu verðum við innan lagaramma Evrópusambandsins í öllum flokkum,“ sagði Ágúst Þór Árnason.“

Þetta getur ekki skýrara verið.  Áður en viðræðum verður fram haldið við ESB verða Íslendingar að slá af kröfum í sjávarútvegsmálum. Athyglisvert er að þingmenn sem Birgir Ármannsson spurði í þingumræðunum hvernig þeir vildu koma viðræðum af stað að nýju gáfu engin svör um það. Hér er þó um lykilatriði að ræða sem snertir ráð Íslendinga yfir 200 mílna efnahagslögsögunni og forræði íslenskra stjórnvalda á flökkustofnum (síld, loðnu og makríl). Reynslan af makríldeilunni kennir að ESB hefur allt önnur sjónarmið en íslensk yfirvöld um hverjir séu hagsmunir Íslands og hvernig skuli skipta makríl milli veiðiþjóða við Norður-Atlantshaf.

Í Morgunblaðinu föstudaginn 20. mars er önnur grein sem snertir grundvallaratriði sem verður að ræða með sameiginlega lausn í huga áður en þjóðin er spurð hvort hún vilji halda áfram viðræðum við ESB. Í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var gerð misheppnuð tilraun til að breyta stjórnarskránni. Ríkisstjórnin gat skákað í því skjóli að hún ætlaði að breyta stjórnarskránni þegar henni var bent á að viðræður við ESB væru í raun andstæðar íslensku stjórnarskránni.

Jón Steinar Gunnlaugsson, hrl. og fyrrverandi hæstaréttardómari, segir í grein í Morgunblaðinu  hinn 20. mars:

Hvernig stendur á því að stjórnvöld á Íslandi tóku upp viðræður við Evrópusambandið um aðild okkar án þess að stjórnarskráin heimilaði slíkt? Hefði ekki verið nær að byrja á að leggja til breytingar á stjórnarskránni í því skyni að heimila slíka aðild áður en til þeirra yrði gengið? Hvað ætla menn svo að gera ef um aðildina semst við sambandið? Fara þá í að breyta stjórnarskránni? Breytingar á henni eru að mun þyngri í vöfum en breytingar á almennum lögum, jafnvel þó að farið yrði eftir sérreglunni sem um þetta var sett á árinu 2013 og gildir fram á árið 2017. Þeir sem vilja koma fram slíkri breytingu á stjórnarskrá hafa auðvitað ekki neina fyrirfram gefna vissu um hvernig því máli myndi reiða af.

 

Ástæða er til að segja nú við alþingismenn, sérstaklega þá sem sitja í stjórnarandstöðu: Ef þið viljið að Ísland hætti að vera fullvalda ríki og afhendi erlendu ríkjasambandi valdheimildir, sem núna eru í okkar eigin höndum, ættuð þið að gera fyrst tillögur um breytingar á stjórnarskránni í þessa veru. Og hætta síðan að breyta íslenskum rétti til samræmis við hinn erlenda rétt þar til ljóst er orðið að stjórnarskrá okkar leyfi aðildina. Það gerir hún ekki nú.“

Hér er bent á augljósar staðreyndir sem ESB-aðildarsinnar láta sem vind um eyru þjóta en verða að sinna áður en tekin er ákvörðun um að bera undir íslensku þjóðina hvort hún vilji að viðræðum við ESB verði haldið áfram. Óhjákvæmilegt er að tryggja að ekki sé brotið gegn stjórnarskránni eigi hugsanlegt umboð frá þjóðinni ekki að verða marklaust.

Umræður undanfarna daga um bréf utanríkisráðherra til ESB bera vott um ríka virðingu stjórnarandstæðinga og ESB-aðildarsinna fyrir grundvallarreglum stjórnskipunarinnar. Það yrði í hróplegri andstöðu við allar heitstrengingar þeirra um það efni ef þeir vildu ekki tryggja á ótvíræðan hátt að stjórnarskráin heimilaði aðild að ESB áður en þjóðin yrði spurð ráða.

Bréf utanríkisráðherra til ESB breytir ekki ályktun alþingis frá 16. júlí 2009. Hún er hins vegar barns síns tíma eins og þingsályktanir um pólitísk efni. Umræður um bréf ráðherran leiða hins vegar í ljós hve illa var að öllum undirbúningi staðið við gerð ályktunarinnar, hve villandi upplýsingar voru gefnar um eðli viðræðnanna við ESB og hve fljótt kom í ljós að hagsmunir Íslands og ESB í sjávarútvegsmálum eru algjörlega gagnstæðir.

Mái ESB ekki Ísland af skrá sinni um umsóknarríki sannar tregðan til þess aðeins drottnunargirni valdamanna ESB í Brussel og svik þeirra við fyrri yfirlýsingar um að það sé á valdi íslenskra stjórnvalda að ákveða stöðu lýðveldisins Íslands gagnvart Evrópusambandinu – annaðhvort eru ríki umsóknarríki eða ekki, Ísland er það ekki.