31.12.2014

Alþjóðamál um áramót - þögn íslenskra stjórnmálaforingja

Árið 2014 hefur á margan hátt verið sögulegt þegar litið er til þróunar Evrópu- og alþjóðamála.

Þáttaskil hafa orðið í samskiptum ríkja í Evrópu vegna vilja Úkraínumanna til að skipa sér í sveit með vestrænum lýðræðisþjóðum og losna undan áhrifavaldi Rússa. Á fyrri hluta ársins komust þeir til valda í Úkraínu sem vildu náið samstarf við Evrópusambandið. Undir lok ársins samþykkti þingið í Kænugarði að hverfa frá hlutleysi Úkraínu, taka sér stöðu með aðildarríkjum NATO og hætta þátttöku í samstarfi ríkja utan hernaðarbandalaga.

Kremlverjar brugðust illa við þessari þróun í Úkraínu og undir forystu Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta innlimuðu þeir Krímskaga í Rússland og tryggðu sér áfram aðgang fyrir herflota sinn að Svartahafi. Þeir hafa síðan alið á óvild í garð stjórnarinnar í Kænugarði, meðal annars með stuðningi við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Rússneskt flugskeyti grandaði farþegaflugvél Malaysian Airlines sem var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur.

Gripið hefur verið til efnahagslegra refsiaðgerða gegn Rússum vegna yfirgangs þeirra og skjólstæðinga þeirra í Úkraínu. Vegna aðgerðanna en þó einkum vegna þess að verð á olíu hefur lækkað um nærri 50% á árinu sækir mikill vandi að rússneskum efnahag. Rússar hafa á hinn bóginn minnt á hernaðarmátt sinn með því meðal annars að ögra flugherjum Vesturlanda og senda herskip til æfinga í Ermarsundi og við mynni Signu undan strönd Frakklands.

Almennt mat er að samskipti stjórnenda Rússlands og Vesturlanda hafi ekki verið verri í aldarfjórðung eða frá hruni Berlínarmúrsins og síðan Sovétríkjanna.

Kosið var til þings Evrópusambandsins undir lok maí og var þátttaka í kosningunum minni en áður. Þá kom ný framkvæmdastjórn ESB til sögunnar 1. nóvember 2014. Yfirlýst stefna hennar er að Evrópusambandið stækki ekki á starfstíma hennar eða fram til ársins 2019. Viðræðum verður haldið áfram við fulltrúa ríkja á Balkanskaga sem hafa áhuga á ESB-aðild enda er litið á þær sem lið í að breyta stjórnarháttum ríkjanna í átt til lýðræðis og aukinna mannréttinda.

Ríkisstjórn Íslands gafst vorið 2014 upp á alþingi við að afgreiða tillögu sem lögð var fram í febrúar 2014 um að afturkalla ESB-aðildarumsókn Íslands.  Utanríkisráðherra hefur reynst um megn að halda á ESB-málinu á þann veg að afgreiðsla þess endurspegli þá staðreynd að engar viðræður um aðild Íslands hafa farið fram frá janúar 2013 þegar viðræðunum var óformlega slegið á frest. Hafði ráðherrann þó afmunstrað ESB-viðræðunefnd Íslands síðsumars 2013.

Undir árslok lá fyrir að margra ára tilraunir Huangs Nubos, auðmanns frá Kína, til að koma sér fyrir á norðausturlandi sem landeigandi eða leiguliði runnu út í sandinn. Sérfróðir menn víða um heim töldu áhuga hans endurspegla vilja kínverskra stjórnvalda til að skapa sér aðstöðu á norðurslóðum og þess vegna bæri að líta á málið í geópólitísku ljósi. Þarna var einnig um tilraun að ræða af kínverskri hálfu til að kanna hve langt mætti þoka íslenskum stjórnvöldum til að fara að óskum Kínverja.

Öryggissamstarf Norðurlanda tók á sig nýja mynd á árinu með þátttöku hervéla frá Finnlandi og Svíþjóð í æfingu við gæslu loftrýmis frá Íslandi undir stjórn Norðmanna í umboði NATO. Þá hefur hlutdeild Landhelgisgæslu Íslands í öryggissamstarfi sem reist er á nýtingu aðstöðu á Keflavíkurflugvelli í þágu NATO aukist jafnt og þétt.

Á vettvangi Schengen-samstarfsins er rætt um leiðir til að stemma stigu við straumi innflytjenda og hælisleitenda um svæðið. Pólitískur vandi í einstökum Schengen-ríkjum vex í réttu hlutfalli við vaxandi andúð heimamanna í garð útlendinga. Í Þýsklandi hefur hreyfingu föðurlandsvina gegn múslímavæðingu Vesturlanda (Pediga) vaxið fiskur um hrygg. Í Svíþjóð tóku stjórnmálaflokkar sig saman um gerð fjárlaga með minnihlutastjórn landsins til að koma í veg fyrir þingrof og kosningar af ótta við vaxandi fylgi Svíþjóðardemókrata, flokks gegn innflytjendum og nýbúum.

Innan ESB/EES er rætt um leiðir til að koma í veg fyrir að íbúar landanna nýti sér reglur um frjálsa för til að leggja land undir fót í þeim eina tilgangi að njóta fjárstuðnings úr velferðarsjóðum þeirra ríkja sem borga best. David Cameron, forsætisráðherra Bretar, vonar að með því að sýna hörku á þessu sviði innan ESB takist honum að tryggja flokki sínum framhald á stjórnarsetu eftir kosningar í maí 2015.

Hér eru nefnd nokkur atriði af alþjóðavettvangi sem nauðsynlegt er að leggja mat á þegar horft er til stöðu Íslands við áramót 2014-2015 og hvert stefnir fyrir þjóðina á alþjóðavettvangi.

Í Morgunblaðinu 31. desember 2014 birtast greinar eftir forystumenn sex flokka, ekki einn einasti þeirra víkur einu orði að þróun alþjóðamála eða áhrifum hennar á Ísland og Íslendinga. Er langt um liðið síðan svo einangrunarsinnaðir forystumenn hafa setið við stjórnvöl stjórnmálaflokka á Íslandi. Þögnin um utanríkis- og öryggismál í áramótagreinum þeirra er  áhyggjuefni vegna þess að hún endurspeglar annaðhvort áhuga- eða þekkingarleysi.