Jólakveðja Frans páfa til kúríunnar
Það vakti heimsathygli sem Frans páfi sagði mánudaginn 22. desember í Klementínu-salnum í Vatíkaninu þegar hann ávarpaði kúríuna, það er lærða og leika embættismenn Kirkjunnar sem starfa í Páfagarði og fara með vald í nafni páfa gagnvart 1,2 milljarði kaþólskra manna um heim allan. Í ræðu sinni flutti páfi umvöndun sem reist var á skilgreiningu hans á 15 sjúkdómum sem veikt gætu kúríuna og þar með kirkjuna alla. Greining páfa á því sem ógnað getur heilbrigðum mannlegum samskiptum snertir ekki aðeins kúríuna heldur allt samstarf manna og hef ég íslenskað hluta af ræðunni í tilefni jólanna.
Frans páfi sagði:
„Þegar ég hugsaði um þennan fund kom í huga minn mynd af kirkjunni sem dulúðgum líkama Jesú Krists. … Páll postuli sagði: „Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur.“(1 Kor 12:12) […]
Það er freistandi að líta á kúríuna í Róm eins og smálíkan af [kaþólsku] Kirkjunni, eða með öðrum orðum sem „líkama“, sem reynir af alvöru og daglega að sýna meiri lífskraft, heilbrigði, samhljóm og samheldni innbyrðis og með Kristi.“
Páfi minnti á að kúrían í Róm væri flókið fyrirbrigði og þar ættu margar stofnanir, söfnuðir, nefndir og ráð fulltrúa auk manna af ólíku þjóðerni hver með sína tungu, sögu og menningu að baki sér. Þar sem kúrían væri lifandi líkami gæti hún ekki lifað án næringar og umhyggju. Kúrían gæti ekki frekar en Kirkjan lifað án trausts lifandi sambands við Krist. Starfsmaður kúríunnar sem fengi ekki daglega skammt af því sem Kristur gæfi yrði skriffinnur sem myndi tréna og yrði síðan afhögginn. Hver og einn innan kúríunnar yrði að stunda bænir á hverjum degi og njóta sakramentanna einkum hinnar heilögu máltíðar og yfirbótar, dagleg tengsl við orð Guðs og andagift sem gæfi af sér góðvild. Lifandi samband við Guð nærði og styrkti samneyti við aðra. Þeim mun nær sem menn stæðu Guði því meiri yrði samstaða meðal þeirra sjálfra, þar sem andi Guðs sameinaði en andi hins illa sundraði.
„Þess er jafnan krafist af kúríunni að hún bæti sjálfa sig eflist af samneyti, helgi og visku til að geta gegnt hlutverki sínu að fullu. Um hana gildir þó hið sama og um hvern líkama, hvern mannlegan líkama, veikindi, bilun og hrumleiki sækja að henni. Mig langar að nefna nokkra af þeim sjúkdómum sem helst er líklegt að leggist á kúríuna. Þetta eru sjúkdómar og freistingar sem veikja okkur í þjónustunni við Drottin,“ sagði páfi. Hann dró saman lista um þessa sjúkdóma og sagði að með því að nefna þá og átta sig á þeim byggju menn sig undir sakramenti yfirbótarinnar við undirbúning jólanna. Nefndi páfi síðan 15 sjúkdóma:
1. Sjúkdómurinn sem birtist í því að telja sjálfan sig „ódauðlegan“, „friðhelgan“ eða „ómissandi“ með því að leggja ekki rækt við nauðsynlega og venjubundna aðgæslu. Kúría án sjálfsgagnrýni, sem fylgist ekki með tímanum, sem reynir ekki að bæta sjálfa sig er sjúkur líkami. Einföld heimsókn í kirkjugarðinn getur auðveldað okkur að sjá nöfn hinna mörgu sem töldu sig ódauðlega, friðhelga og ómissandi. Þetta er sjúkdómur ríka fíflsins í guðspjallinu sem taldi að hann mundi lifa að eilífu (Lúk 12:13-21) og þeirra sem sem breyta sjálfum sér í höfðingja og halda að þeir séu yfir aðra hafnir í stað þess að þjóna öðrum. Hér er oft um að ræða valdasýki, mikilmennskuæði, sjálfshrifningu reista á skoðun eigin myndar í stað þess að líta á mynd Guðs í andlitum annarra, einkum hinna veikustu og þeirra sem mest þarfnast hjálpar. Lækningin við þessari plágu felst í þeirri náð að átta sig á eigin synd og geta sagt af hjarta: „Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að gera.“ (Lúk. 17:10)
2. Annar sjúkdómur er „Mörtu-áráttan“ eða ofvirkni í iðjusemi. Þetta er veiki þeirra sem sökkva sér í vinnu og leggja því óhjákvæmilega ekki rækt við góða hlutskiptið sem felst í að sitja við fætur Jesú (Lúk 10:38-42). Minnumst þess að Jesús bað lærisveina sína um að hvílast um stund (Mark 6:31) af því að án nauðsynlegrar hvíldar eykst álag og hugarvíl. Þegar sá sem erfiðar hefur lokið skylduverki sínu er nauðsynlegt, skylt að hvílast, þetta verða menn að virða af alvöru: að verja tíma með ættingjum og virða frídaga sem tíma til andlegrar og líkamlegrar upplyftingar. Við verðum að læra af boðskap Predikarans (3:1-15) um að „öllu er afmörkuð stund“.
3. Þá ber að nefna sjúkdóm „forherðingar“ huga og anda. Hann má greina í þeim sem eru með steinhjarta, hinum „harðsvíruðu“ (Post. 7:51-60) sem tapa á lífsins leið innri heiðríkju, lífsgleði og hugrekki og fela sig á bakvið skjalabunka, verða möppudýr frekar en menn Guðs (Heb 3:12). Það er hættulegt að glata mannlegri tilfinningu sem gerir manni kleift að gráta með þeim sem gráta og gleðjast með þeim sem gleðjast! Þetta er veiki þeirra sem glata hugarfari Jesú (Fil 2:5-11) vegna þess að með tímanum harðna hjörtu þeirra og þeir geta ekki lengur elskað skilyrðislaust föðurinn og náunga sinn (Matt 22:34-35). Að vera kristinn jafngildir því að vera „með sama hugarfari sem Kristur Jesús var“(Fil 2:5), hugarfari auðmýktar og ósérhlífni, áreitnileysis og gjafmildi.
4. Veiki ofskipulags og hagkvæmni. Þegar postulinn skipuleggur allt í smáatriðum og trúir því að með fullkomnu skipulagi muni allt ganga eins og í sögu, hann verður einskonar bók- eða skrifstofuhaldari. Allt verður að undirbúa vel en án þess að falla nokkru sinni í þá freistni að reyna að halda aftur af eða stýra heilögum anda sem er ávallt stærri og sveigjanlegri en lýtur að nokkru mannlegu skipulagi (Jóh 3:8). Við tökum þessa veiki af því að það er alltaf auðveldara og þægilegra að fella allt í fastar og óbifanlegar skorður. Minnumst þess að Kirkjan er holl heilögum anda á þann veg að hún reynir hvorki að stjórna honum né temja. Andinn veitir frískleika, hugmyndaauðgi og sköpunarþörf.
5. Veiki lélegrar samræmingar. Þegar samhæfing limanna bregst glatar líkaminn samræmdu hreyfiafli og jafnvægi, hann verður hljómsveit sem flytur hávaða vegna þess að félagarnir í henni leika ekki saman og glata anda félagsskapar og samheldni. Þegar fóturinn segir við handlegginn: „Ég þarfnast þín ekki“ eða höndin segir við höfuðið „Ég stjórna“ leiðir það til óþæginda og vansæmdar,
6. Þá má nefna andlegan Alzheimer-sjúkdóm. Hann veldur því að við gleymum eigin „hjálpræðissögu“, persónulegri sögu okkar með Drottni og hinni „fyrstu ást“ okkar (Opinb 2:4). Hér er um að ræða stigmagnaða hnignun andlegrar getu sem leiðir með tímanum til alvarlegrar fötlunar og gerir mönnum ókleift að vinna sjálfir ákveðin verk, menn verða algjörlega háðir eigin viðhorfum sem oft eru reist á ímyndun. Við sjáum þetta hjá þeim sem hafa gleymt stefnumóti sínu með Drottni … hjá þeim sem heillast alfarið af líðandi stundu, af eigin þrám, duttlungum og þráhyggju, hjá þeim sem reisa múra og fastar reglur um sjálfa sig og þeim sem breytast æ meira í þræla þeirra goða sem þeir hafa mótað með sínum eigin höndum.
7. Veiki metings og hjóms. Þegar útlit, litur klæða okkar, tignarmerki og titlar skipta mestu í lífinu, við gleymum orðum Páls postula: „Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ (Fil 2:3-4): Þetta er sjúkdómur sem gerir okkur að körlum og konum svika og ýtir undir líf í falskri „dulspeki“ og falskri „þagnarspeki“. Páll postuli skilgreinir slíkar manneskjur sem „óvini kross Krists“ af því að „þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum“ (Fil 3:19).
8. Sjúkdómur tilvistar geðklofa. Þetta er veiki þeirra sem lifa tvöföldu lífi, ávöxtur hræsni sem er einkenni meðalmennsku og hins vaxandi andlega tómleika sem ekki er unnt að fylla með doktorsgráðum eða fræðilegri viðurkenningu. Þessi veiki sækir oft á þá sem láta af prestþjónustu og helga sig einungis skriffinnsku og tapa þannig tengslum við raunveruleikann og raunverulegt fólk. Þeir skapa sér á þennan hátt samhliða-veröld þar sem þeir leggja til hliðar allt sem þeir kenna af hörku í garð annarra og lifa leyndu, oft ósiðsömu lífi. Það er mjög brýnt og raunar óhjákvæmilegt að snúa mönnum frá þessum mjög alvarlega sjúkdómi (Lúk 15:11-32).
9. Veiki kjaftasagna, gremju og baknags. Ég hef oft talað um þennan sjúkdóm en aldrei er góð vísa of oft kveðin. Þetta er alvarlegur sjúkdómur sem hefst oft á því einu að menn hittast til að rabba saman en nær síðan tökum á fólki og breytir því í sáðmann hins vonda (eins og Satan) og í mörgum tilvikum kaldrifjaða morðingja mannorðs samstarfsmanna og bræðra. Þetta er veiki hinna huglausu sem tala frekar á bak mönnum en ekki beint við þann sem á hlut að máli. Páll postuli hvetur okkur til að gera „allt án þess að mögla og hika til þess að þið verðið óaðfinnanleg og hrein“(Fil 2:14-15). Bræður, verum á verði gegn hryðjuverkum kjaftasagna!
10. Veiki smjaðurs fyrir höfðingjum. Þessa veiki taka þeir sem skríða fyrir yfirboðurum sínum í von um að hljóta náð fyrir augum þeirra. Þetta eru fórnarlömb framagirni og tækifærismennsku sem dýrka menn frekar en Guð (Matt 23:8-12).. Þetta er fólk sem veitir þjónustu aðeins í von um það sem það kunni að fá en ekki til að gefa. Þetta eru nánasir, hamingjusnauðar og aðeins knúnar áfram af banvænni sjálfselsku. (Gal 5:16-25). Yfirboðarar geta sjálfir fengið þennan sjúkdóm þegar þeir biðla til samverkamanna til að öðlast undirgefni þeirra, hollustu og sálfræðilegt ósjálfstæði en að lokum er aðeins um raunverulega samsekt að ræða.
11. Veikin sem birtist í skeytingarleysi í garð annarra. Hún sprettur af því að hver og einn hugsar aðeins um sjálfan sig og tapar einlægni og hlýleika í persónulegum samskiptum. Þegar sá sem er best að sér nýtir ekki þekkingu sína í þágu þeirra samstarfsmanna sem vita minna. Þegar við lærum eitthvað en höldum því hjá okkur í stað þess að sýna hjálpsemi og miðla því til annarra. Þegar afbrýðisemi eða svik valda gleði yfir að öðrum mistekst í stað þess að létta undir með þeim og hvetja þá.
12. Veiki mæðusvipsins. Þetta er veiki hinna þumbaralegu og ófrýnilegu sem telja að til þess að vera teknir alvarlega verði þeir að setja á sig svip dapurleika og hörku og sýna öðrum – einkum þeim sem þeir telja minnimáttar – stífni, harðneskju og hroka. Í raun má oft líta á tilbúna hörku og staðnaða bölsýni sem einkenni ótta og öryggisleysis. Postuli verður að leggja sig fram um að vera kurteis, rólyndur, áhugasamur og glaðlegur, maður sem flytur með sér gleði hvert sem hann fer. Hjarta fullt af Guði er gleðifullt hjarta sem ber með sér smitandi gleði: Það er öllum ljóst! Við skulum því ekki glata hinu glaða, skemmtilega hugarfari og jafnvel ekki hæfileikanum til að gera grín að sjálfum okkur, þetta léttir fólki lund og skapar vináttu jafnvel við erfiðar aðstæður. Góður skammtur af fyndni hefur gott eitt í för með sér! Það fer vel á því að fara dag hvern með bænina eftir heilagan Tómas More, ég geri það á hverjum degi mér til gagns.
[Bænin eftir Tómas More: „Gefðu mér, Drottinn, góða meltingu og einnig eitthvað að melta. Gefðu mér heilbrigðan líkama og hið góða skap sem er nauðsynlegt honum til viðhalds. Gefðu mér einfalda sál sem kann að varðveita allt hið góða og hræðist ekki auðveldlega frammi fyrir hinu illa heldur finnur leiðir til að koma öllu í samt lag á ný. Gefðu mér sál sem aldrei leiðist, nöldrar, kveinkar sér og vælir, ekki heldur of mikið álag vegna þeirrar hindrunar sem nefnist „ég“. Gefðu mér, Drottinn, gott skopskyn. Veittu mér þá náð að geta tekið gamni og finna dálitla gleði í lífinu og geta notið hennar með öðrum.“]
13. Söfnunarveikin. Þegar postuli reynir að fylla tilvistarlegt tóm hjartans með því að safna veraldlegum gæðum ekki vegna þess að hann þarf þess heldur til að öðlast öryggi. Staðreynd er að við getum ekki tekið efnisleg gæði með okkur því að „líkklæðin hafa enga vasa“ og öll veraldleg verðmæti okkar – jafnvel gjafir – munu aldrei geta fyllt þetta tóm; þvert á móti munu þau aðeins dýpka það og auka á kröfurnar. Við þetta fólk segir Drottinn: „Þú segir: „Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis.“ Þú veist ekki að þú ert vesalingur og aumingi, fátækur, blindur og nakinn. Legg þú því allt kapp á að bæta ráð þitt.“ (Opinb 3:17,19). Eignasöfnun er mönnum aðeins til byrði, hægir miskunnarlaust á ferðalaginu! Hér dettur mér smásaga í hug: spænskir Jesúitar voru vanir að lýsa Jesúítareglunni sem „léttu stórfylki Kirkjunnar“. Ég minnist þess að ungur Jesúíti var að flytja. Þegar hann bjástraði við að hlaða öllum eignum sínum, ferðatöskum, bókum, hlutum og gjöfum á vörubíl heyrðist gamall Jesúíti segja með bros á vör: Og er þetta „hið létta stórfylki Kirkjunnar“? Sjúkdómseinkennið kann að koma í ljós þegar við flytjum.
14. Sýki hinna lokuðu hópa, þegar það verður mikilvægara að tilheyra klíku en að tilheyra Líkamanum og í sumum tilvikum Kristi sjálfum. Upptök þessarar sýki kann einnig að mega rekja til góðra áforma en í tímans rás fangar hún fólk og verður að krabba sem ógnar jafnvægi Líkamans og veldur ógnartjóni – skandalar – einkum okkar minnstu bræðrum og systrum. Sjálfseyðing, „vinarskot“ frá hermönnum í okkar liði er lævísasta hættan. Það er illskan sem ógnar að innan og eins og Kristur sagði: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn (Lúk 11:17).
15. Að lokum: sjúkdómur veraldlegs ávinnings og sýndarmennsku. Þegar postuli breytir þjónustu sinni í valdboð og valdi sínu í tæki til að ná veraldlegum ávinningi eða jafnvel enn meira valdi. Þetta er veiki þeirra sem reyna á óseðjandi hátt að margfalda vald sitt og eru í þeim tilgangi vísir til að fara með slúður, tala illa um og lítillækka aðra jafnvel í blöðum og tímaritum. Að sjálfsögðu til að hreykja sjálfum sér og sýna að þeir séu betri en aðrir. Þessi sjúkdómur veldur Líkamanum miklum skaða því að hann knýr fólk til að réttlæta hvað sem er til að ná tilgangi sínum oft í nafni réttlætis og gagnsæis! Í þessu sambandi minnist ég prests sem var vanur að kalla á blaðamenn til að segja þeim – og búa til – sögur um einka- og trúnaðarmál sem snertu aðra presta og auk þess sóknarbörn. Hans eina áhugamál var að sjá sjálfan sig á forsíðunni, það vakti hjá honum tilfinningu um að hann væri „valdamikill og frægur“, honum var sama þótt hann ylli öðrum og kirkjunni miklu tjóni. En sú vesæla sál!“
Þegar Frans páfi hafði nefnt hina 15 sjúkdóma sem herjuðu á kúríuna, líkama Kirkjunnar, sagði hann að aðeins heilagur andi gæti læknað allar meinsemdirnar. Lækninguna mætti einnig rekja til þess að menn gerðu sér grein fyrir sjúkdóminum og hver um sig og allir saman ákvæðu að sætta sig við lækninguna. Þá sagði páfi:
„Ég las einu sinni að prestar væru eins og flugvélar: þeir komast aðeins í fréttir þegar þeir hrapa sama hvað margir þeirra séu á flugi. Margir gagnrýna þá og fáir biðja fyrir þeim. Þarna er fallega að orði komist en einnig réttilega þar sem í lýsingunni felst viðurkenning á mikilvægi og viðkvæmni hinnar prestlegu þjónustu og hve miklum skaða aðeins einn prestur sem „hrapar“ getur valdið öllum líkama kirkjunnar.“