1.9.2014

Leiðtogafundur NATO: Boðuð stefna sem fellur að Keflavíkur-módelinu


Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, efndi mánudaginn 1. september til síðasta blaðamannafundar síns fyrir leiðtogafund NATO-ríkjanna 28 í Newport í Wales dagana 4. og 5. september. Boðskapur hans var annar en hann ætlaði þegar ákveðið var að efna til leiðtogafundar NATO á þessum tíma.

Vissulega var ætlunin að fundurinn snerist um framtíð NATO eins og allir leiðtogafundir bandalagsins hafa gert en tíminn var valinn með hliðsjón af því að hinn 1. október kveður Anders Fogh Rasmussen stól framkvæmdastjóra bandalagsins og Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, tekur við af honum. Þá var einnig ætlunin að athyglin beindist ekki síst að lyktum íhlutunar undir merkjum NATO í málefni Afganistan. Til fundarins koma leiðtogar hinna fjölmörgu ríkja sem staðið hafa með NATO í Afganistan.

Nú er öldin sem sagt önnur en þegar upphaflega var lagt á ráðin um fundinn. Þar ræður mestu ástandið í Úkraínu þar sem tekist er á um ráð yfir austurhluta landsins eftir innlimun Rússa á Krímskaga. Undirróður af hálfu Rússa og bein íhlutun rússneskra hermanna hefur leitt til hernaðarátaka. Fleira skapar einnig óstöðugleika.

„Þetta er tími margþætts hættuástands á ýmsum stöðum. Í austri blanda Rússar sé fyrir opnum tjöldum í málefni Úkraínu. Í suðri eykst óstöðugleiki í veikburða ríkjum, öfgar aukast og átök milli stríðandi fylkinga,“ sagð Fogh-Rasmussen í upphafi blaðamannafundarins. „Hættuástandið getur farið úr böndunum fyrirvaralaust. Það getur breiðst út á ógnarhraða og það hefur áhrif á öryggi okkar allra á mismunandi hátt.“

Framkvæmdastjórinn sagði að á leiðtogafundinum yrði staðfest og tryggt að NATO gæti staðið undir þeirri ábyrgð að vernda og verja íbúa aðildarlandanna og landsvæði þeirra. Þá yrði bandalagið einnig að búa yfir getu til að hafa stjórn á hættuástandi og sjá til þess að það færi ekki úr böndunum.

Leiðtogarnir munu samþykkja Readiness Action Plan aðgerðaáætlun, sagði framkvæmdastjórinn, sem tryggði meiri viðbragðshæfni af hálfu NATO en nokkru sinni fyrr, þar á meðal til að bregðast við árásargirni Rússa. Áætlun sem gerði bandalaginu kleift að takast á við öll verkefni á sviði öryggismála hvar sem þess væri þörf.

Hér er ekki lítið sagt þegar litið er til þeirrar hættu sem talin er steðja að NATO-ríkjunum í áhættumati sem hugveitur hafa kynnt. Ógnin er jafnt í netheimum sem við landamæri ríkja. Þá er einnig óttast að inn í ríkin laumist útsendarar Íslamska ríkisins eða annarra lífhættulegra hryðjuverkasamtaka.

Sama daginn og Anders Fogh-Rasmussen hélt blaðamannafund sinn flutti David Cameron, forsætisráðherra Breta og gestgjafi á fundinum í Wales, ræðu á breska þinginu þar sem hann boðaði hert eftirlit og aðrar ráðstafanir til að sporna gegn hættu af hryðjuverkamönnum í Bretlandi.

Framkvæmdastjóri NATO sagði að viðbragðsherafli NATO, Response Force, fjölþjóðlegur herafli á landi, í lofti og á legi auk sérsveita væri til taks og honum mætti beita hvarvetna í heiminum í þágu sameiginlegra varna og stjórnar á hættuástandi. Nú væri stefnt að því að efla þennan herafla og koma á fót sóknarsveit innan hans sem grípa mætti til með örstuttum fyrirvara. Bandalagsríki mundu skipta á milli sín að leggja til þessa sóknarsveit með nokkur þúsund hermönnum sem senda mætti hvert á land sem væri með flugvélum og skipum og stuðningi sérsveita.

Þetta krefðist þess að í NATO-ríkjum yrði aðstaða til að taka á móti þessum liðsafla og þar yrðu einnig að vera geymd tól og tæki sem hann gæti nýtt auk birgða og stjórnstöðva og nauðsynlegra mannvirkja. Liðið yrði að geta ferðast án mikils búnaðar en vera til þess búið að berja frá sér af hörku reyndist þörf á því.

Þessi lýsing er í samræmi við orð sem Victoria Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna um Evrópumál, lét falla í samtali við Fréttablaðið þegar hún heimsótti Ísland 30. júní 2014 og sagði að reynslan af rekstri varnarsvæðisins á Ásbrú á Keflavíkurflugvelli eftir að herafli Bandaríkjanna hvarf á brott úr Keflavíkurstöðinni fyrir átta árum væri gott fordæmi fyrir aðildarríki NATO í Austur-Evrópu.

„Þetta er ekki hefðbundið fyrirkomulag með fullmannaðri herstöð, heldur rekur Ísland aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og Bandaríkjamenn nýta hana tímabundið fyrir alls konar aðgerðir. Við þurfum að vinna líka með þessum hætti í Austur-Evrópu,“ sagði Nuland í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu 1. júlí 2014. Hún tók dæmi af herstöðvum í Póllandi og Eistlandi, þar sem Bandaríkin hefðu nýlega staðsett flugsveitir vegna átakanna í Úkraínu. Þær séu „reknar mjög í anda Keflavíkur-módelsins.“

Þá sagði Victoria Nuland:

„Það sem hefur breyst er hvernig við vinnum saman í öryggismálum. Ísland rekur varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli, en tekur mikinn og tíðan þátt í samstarfi við Bandaríkin; heræfingum, bæði tvíhliða og í samstarfi við önnur NATO-ríki, á landi, sjó og í lofti, við æfum hvernig hægt sé að nýta varnarsvæðið aftur með skömmum fyrirvara þótt þar sé enginn herafli staðsettur varanlega. Svona á öryggissamstarf að ganga fyrir sig á 21. öldinni og svona erum við að byrja að vinna með öðrum NATO-ríkjum. Ég held því þess vegna fram að þetta samstarf Bandaríkjanna og Íslands sé brautryðjendastarf.“

Lýsing Anders Fogh Rasmussens á því hvernig hann sér fyrir sér skipulag varna NATO fellur að því fyrirkomulagi sem verið hefur á Keflavíkurflugvelli frá árinu 2007 og Nuland lýsir hér að ofan. Það eru ekki aðeins aðildarþjóðir NATO sem taka þátt í þjálfun á vellinum og nýta mannvirkin sem eru í umsjón Landhelgisgæslu Íslands heldur einnig vinaþjóðir NATO, Finnar og Svíar.

Þessi útfærsla á vörnum undir merkjum NATO er byltingarkennd miðað við það sem var á tíma kalda stríðsins þegar mörg hundruð þúsund hermönnum var haldið úti í Þýskalandi til að vera til taks og fæla Rússa frá að senda óvígan her yfir landamæri. Þá var fimm til sex þúsund manna lið Bandaríkjamanna að staðaldri á Íslandi. Nú skal brugðist við hættuástandi með liði sem kallað er út með skömmum fyrirvara og á að gera farið hraðferð milli staða.

Til að kerfisbreytingin sem Anders Fogh Rasmussen boðar skili árangri verður að tryggja að í hverju landi sé ávallt hin besta og fullkomnasta aðstaða fyrir hendi til að taka á móti liðsaflanum og að frá hverjum stað haldi menn að staðaldri uppi því eftirliti sem er nauðsynlegt til að leggja mat á breytingar sem kalla á aukinn viðbúnað.

Grunnur að þátttöku Íslendinga í samstarfinu innan NATO í þessari mynd var lagður strax við brottför bandaríska varnarliðsins árið 2006. Síðan hefur samstarfið þróast og í sumar rituðu innanríkisráðherra og utanríkisráðherra undir samning þar sem ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu Íslands var falið að sinna framkvæmd verkefna á grundvelli varnarmálalaga nr. 34/2008. Það hefur reynst nokkuð flókið að koma á varanlegri skipan þessara mála innan íslenska stjórnkerfisins vegna vanda við að draga skýr ábyrgðarmörk milli utanríkisráðuneytisins annars vegar og dómsmálaráðuneytisins og síðar innanríkisráðuneytisins hins vegar. Samningurinn frá í sumar eyðir að minnsta kosti óvissuþáttum.

Allar breytingar á sviði öryggismála sem snerta innviði einstakra ríkja eru flóknar og erfiðar í framkvæmd. Verði sú stefna samþykkt á leiðtogafundi NATO nú í vikunni sem Anders Fogh Rasmussen kynnti á blaðamannafundinum mánudaginn 1. september er næsta skref að hrinda henni markvisst í framkvæmd. Til þess þarf pólitískan vilja og fjárveitingar í öllum aðildarríkjunum. Ástandið í Úkraínu auðveldar stjórnmálamönnum í lýðræðisríkjum að rökstyðja árvekni í öryggis- og varnarmálum. Engin þjóð á að líða annarri undirferli, blekkingar og laumuspil á borð við það sem Vladimír Pútín leikur gagnvart stjórnvöldum í Úkraínu.

Utanríkisráðherra hefur boðað að þjóðaröryggisstefna Íslands verði rædd á alþingi sem sett verður í þessum mánuði. Áður en það er gert er óhjákvæmilegt að fram fari nýtt áhættumat. Árið 2014 geta íslensk stjórnvöld ekki stuðst við mat frá árinu 2009. Það verður að leggja nýjar línur í samræmi við hinar nýju línur sem boðaðar eru hjá NATO og reynslu íslenskra stjórnvalda af meðferð varnarmála á undanförnum árum.

Í því felst sérkennileg tímaskekkja að íslensk stjórnvöld taki þátt í að móta stefnu í öryggismálum innan NATO sem reist er á mati á áhættu líðandi stundar en styðjist sjálf við fimm ára gamalt mat við ákvarðanir á heimavelli.