13.6.2013

Stefna ríkisstjórnarinnar: NATO og þjóðmenning

Frá því að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var skipuð 23. maí 2013 hef ég ekki birt pistil hér á síðunni. Ég hef fjallað um stjórnarmyndunina í dagbók minni hér á síðunni og einnig á Evrópuvaktinni. Ég bind miklar vonir við störf ríkisstjórnarinnar. Hún á erfitt verk fyrir höndum. Enginn ráðherranna hefur áður setið í ríkisstjórn. Vafalaust verður eitthvert rof í hefðum og venjum við það.

Mér þótti skrýtið og raunar næsta furðulegt að menn skyldu velja héraðsskólahúsið á Laugarvatni til að skrifa undir stjórnarsáttmálann eða stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þá þótti mér einnig undarlegt að ekki skyldi minnst á aðildina að NATO í stefnuyfirlýsingunni, en einmitt í dag, fimmtudaginn 13. júní, er Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í Brussel þar sem hann hitti meðal annarra Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO. Eftir fundinn þeirra birtist frétt á ruv.is þar sem sagðí meðal annars:

„Hann[Gunnar Bragi] boðar breyttar áherslur íslenskra yfirvalda gagnvart NATO. „Það er stefnubreyting að því leytinu til að við erum ekkert að hika við það að vera þáttakendur í þessu starfi,“ segir Gunnar Bragi. Hann segir að framlag Íslendinga miðist við það að þjóðin sé herlaus. „Það verður enginn vandræðagangur núna að geta sagt við NATO og við bandalagsþjóðirnar að við berum þarna skyldu sem við ætlum okkur að axla. Það hefur stundum verið vandræðagangur á því sem verður ekki núna,“ segir hann.“

Þetta eru góð tíðindi. Hér ætla ég að ræða þátt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem mér þótti fagnaðarefni, áhersluna á þjóðmenningu.

Eitt af vanhugsuðum, pólitískum embættisverkum Jóhönnu Sigurðardóttur og stuðningsmanna hennar var að breyta lögum um stjórnarráðið á þann veg að unnt yrði að raða málaflokkum undir ráðherra að geðþótta forsætisráðherra. Er furðulegt að þessi nýskipan hafi verið samþykkt en hún er í anda þess að Jóhanna sjálf vildi jafnréttismál undir forræði sitt sem forsætisráðherra en sendi efnahagsmálin annað.

Í forsetaúrskurði sem var gefin út við myndun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar 23. maí nýttu menn sér þetta nýmæli í stjórnarráðslögunum og fluttu verkefni frá mennta- og menningarmálaráðuneyti er varða þjóðmenningu til forsætisráðuneytisins. Unnt hefur verið að átta sig á um hvaða verkefni er að ræða með því að lesa forsetaúrskurðinn sem út var gefinn við myndun ríkisstjórnarinnar. Þar segir:

Þjóðmenning, þar á meðal:

  1. Vernd sögulegrar og menningartengdrar byggðar og umhverfis- og skipulagsmál því tengd.
  2. Vernd þjóðargersema.
  3. Minjasöfn, þ.m.t. Þjóðminjasafn Íslands.
  4. Fornleifar.
  5. Húsafriðun.
  6. Varðveislu menningararfsins, þ.m.t. jarðfastra minja og gripa og flutning menn­ingar­verðmæta úr landi og skil þeirra til annarra landa.
  7. Minjastofnun Íslands.
  8. Örnefni.
  9. Bæjanöfn.
  10. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  11. Örnefnanefnd..

Í ljósi þessara orða er einkennilegt að þingmenn skuli fimmtudaginn 13. júní velt fyrir sér í mörgum ræðum þjóðmenning sé að mati ríkisstjórnarinnar, skilgreining á henni er reist á því sem segir í forsetaúrskurðinum. Eins og við var að búast töldu einhverjir þingmenn tilefni til að sanna eigin frumleika í umræðunum og sagði Óttar Proppé (BF), nýkjörinn þingmaður Bjartrar framtíðar, meðal annars og er vitnað til mbl.is:

„Ekkert er út á það að setja að ákveðin málefni séu tekin til hliðar og veitt athygli. […] Það eru líka til kleinur í Póllandi, nema þær eru stafsettar með y og z. Hvað er íslenskt og hvað ekki?“

Af þessum orðum verður ráðið að þingmanninum detti helst kleinur í hug þegar hann hugsar um íslenska þjóðmenningu. Hvar hann finnur því áhugamáli sínu stað í forsetaúrskurðinum kemur ekki fram í fréttinni af ræðu hans.

Á mbl.is segir að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sakni þess að hugtakið þjóðmenning sé skilgreint í stefnuyfirlýsingunni auk þess sem ekki sé tekið fram hvaða tilgangi flutningurinn þjóni og að hvaða markmiðum sé stefnt. Þá velti hún því upp hvort þetta væri til að bæta stjórnsýsluna og auka gagnsæi.

Katrín var mennta- og menningarmálaráðherra og var örugglega ekki í vafa þá um hvað fælist í þjóðmenningu í ráðuneyti hennar. Hún stóð einnig að breytingunni á stjórnarráðslögunum sem gerir kleift að færa málaflokka á þennan hátt milli manna í ríkisstjórn án þess að krafa sé gerð um sérstakan rökstuðning. Illugi Gunnarsson (S), arftaki Katrínar, sagði „flutninginn endurspegla áherslur ríkisstjórnarinnar, mikilvæg málefni væru þarna á ferð og ekkert óeðlilegt við að þau væru flutt undir forsætisráðuneytið“.

Guðmundur Steingrímsson (BF) setti málið í stórt samhengi eins og við var að búast og sagði: „Sérstök pólitísk áhersla á þjóðmenningu hefur ekki alltaf endað vel. Viðvörunarbjöllur hringja eða í besta falli eru stórar spurningar sem upp vakna.“ Hann sagði að tengsl manns við þjóð væru margslungin og tilfinningaríkt samband, sem gæti verið notað til að búa til einskonar pólitíska rétthugsun og móta afstöðu í deilumálum. Þá sagði hann að rétt væri að leggja áherslu á alla menningu og þjóðir; fjölmenningu, hámenningu, lágmenningu og ómenningu.

Svandís Svavarsdóttir (VG) furðaði sig á því hvers vegna menntamálaráðherra gæti ekki skilgreint hugtakið þjóðmenning og spurði hvort það væri vegna þess að hann hefði ekki verið þeirra gæfu aðnjótandi að fá boð í sumarbústaðarferðum í aðdraganda ríkisstjórnarmyndunar og þá ekki komið að þessari ákvörðun um þjóðmenninguna. Torkennilegt sagði hún að rökstuðningur ákvörðunarinnar væri ekki betri.

Þessar umræður sýna einlægan ásetning stjórnarandstöðunnar til að gera þessa tilfærslu á málaflokki tortryggilega með því að segjast ekki skilja hvað felst í því sem nefnt er í forsetaúrskurðinum og fellur því undir þjóðmenningu innan stjórnarráðsins hvað sem pólitískum skoðunum líður og hræðslu Guðmundar Steingrímssonar við það að þjóðir rækti þjóðlegan arf sinn, hvarvetna er það hins vegar gert og Íslendingum síst til skammar að lögð sé áhersla á þennan þátt menningar þeirra. Þar hefur ríkisvaldið sérstakar skyldur eins og víða segir í lögum sem alþingi hefur samþykkt.

Það sem Svandís Svavarsdóttir hafði til málanna að leggja er best lýst með orðinu „aulafyndni“.  Þegar hún ræðir um „ákvörðun um þjóðmenningu“ á hún bæði við tilfærslu verkefnanna innan stjórnarráðsins í samræmi við lög sem hún studdi og taldi sjálfsögð og orðalag í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir:

„Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu. Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan.“

Er eitthvað óskýrt í þessu orðalagi? Þarf að vefjast fyrir einhverjum hvað í því felst? Það getur varla verið. Þingmennirnir sem sáu ástæðu til að lýsa vanþóknun sinni á þessum þætti stefnuyfirlýsingarinnar með þeim orðum að þeir vissu ekki hvað fælist í hugtakinu þjóðmenningu ættu ef til vill að lesa textann sem býr að baki stefnu ríkisstjórnarinnar áður en þeir taka til við að hneykslast.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að alúð við þá þætti þjóðmenningar sem hér hafa verið nefndir skipti miklu til að Íslendingar átti sig á stöðu sinni í samfélagi þjóðanna og standi þar jafnfætis öðrum þjóðum sem sækja styrk til menningar sinnar og sögu án þess að skammast sín fyrir að halda henni á loft.

Mikilvægi þessa staðfestist í huga mínum fyrir fáeinum vikum þegar ég fór með Bergi Þorgeirssyni, forstöðumanni Snorrastofu, í erindum fyrir Snorrastofu og Reykholt til Bergen og Osló. Norðmenn hafa tekið þátt í uppbyggingunni á Snorrastofu, nokkur lægð hefur verið í samskiptunum undanfarin ár en eftir förina og fundi okkar Bergs með fulltrúum fjölmargra aðila er ég sannfærður um að mikið sóknarfæri sé í krafti íslenskrar þjóðmenningar undir merki Snorra í Noregi og raunar um heim allan. Að sjálfsögðu ber að vinna að þessum málum og nýta tækifæri sem gefast. Þar skiptir afstaða stjórnvalda máli en einnig dugnaður og framtak einstaklinga á borð við Jóhann Sigurðsson sem hefur staðið að þýðingu á Íslendingasögunum á ensku og nú á Norðurlandamálin.

Menningararfurinn er lifandi þáttur í samtímanum. Að honum ber að hlú ekki síður en náttúrunni. Við sjáum hvaða áhrif mikill ágangur hefur á náttúruna sé ekki búið þannig um að hún verði ekki illa fyrir barðinu til dæmis vegna fjölgunar ferðamanna. Grípa verður til ráðstafana og varnaraðgerða. Hið sama á við um menninguna. Sárin á henni eru ekki sýnileg berum augum og það er kannski þess vegna sem þingmenn stjórnarandstöðunnar töluðu eins og þeir vissu ekkert um hvað málið snerist þegar þjóðmenningin á í hlut.

Ég er í hópi þeirra sem fagna yfirlýsingunni um þjóðmenningu í stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún er góð og tímabær. Flutningur málaflokksins milli ráðuneyta er til að styrkja stöðu hans að sögn mennta- og menningarmálaráðherra og er það einnig fagnaðarefni. Mestu skiptir hvernig úr málinu verður unnið.